Dagarnir á undan

Dagarnir á undan

Það er nefnilega svo að við leyfum okkur ekki alltaf að staldra við. Draga djúpt andann og leyfa tímanum að „þjóna okkur til borðs.“
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
26. desember 2016
Flokkar

Prédikun á öðrum degi jóla 2016

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Gleðileg jól,

í morgun á leið minni til kirkju var fátt um manninn. Auðar götur að mestu, einstaka ljós í glugga húsa, það var sem öll heimsins kyrrð ætti stefnumót að morgni þeirrar leiðar sem ég átti um-kyrrðin algjör yfir og allt um kring. Kisa nágrannans að koma heim eftir rölt næturinnar, bar sig vel. Ekkert í raun sem minnir á daginn annan dag jóla nema kyrrðin ein eftirhretur hátíðisdagana á undan. Aðfangadagskvöld og Jóladagur að baki og framundan hjá einhverjum er hefðin sú að fara í jólaboð hjá vinum og ættingjum.

Þessir dagar hátíðisdagar eru dásamlegir ekki bara hátíðisdagarnir-aðfangadagur og jóladagur og dagurinn í dag heldur og þeir dagar á undan sem leiddu okkur til dagins í dag. Í dag á öðrum degi jóla er lagt fyrir okkur óvenjulegt íhugunarefni. Eitthvað sem passar ekki inn í ramma kyrrðar og gleði og hátíðleika, en er þarna og við vitum af því.

Aðventan er eins og stormur sem skellur á okkur og hristir upp í okkur að gera vel við okkur sjálf og náungann og við erum dugleg við það bæði hér heima og erlendis. Á jólum er það þannig að við fáumst til að líta upp úr gráum hversdeginum og finna fyrir helginni sem hjúfrar sig upp að okkur og við leifum að ylja okkur í skammdeginu og lýsa með flöktandi kertaljós. Það er nefnilega svo að við leyfum okkur ekki alltaf að staldra við. Draga djúpt andann og leyfa tímanum að „þjóna okkur til borðs.“ Við erum gjörn á segja að jólin sé hátíð barnanna; þá held ég að verið sé að vísa til gjafanna og alls umstangsins fyrir og um jólin. Vissulega má taka undir að þar sem barn eða börn eru þá verða jólin einhvern vegin öðruvísi opin og umfaðmandi eins og við óskum okkur helst.

Barnsleg einlægni og eftirvænting á sér engin mörk og við horfum til baka til jóla bernsku okkar. Kunnum að dæsa eilítið yfir þvi hvað allt var þá einfalt móts við það sem er í dag.

Vissulega er það svo að á jólum minnumst við barnsfæðingar. Fæðing barns snertir viðkvæma strengi í okkur öllum. Engin er svo harðbrjósta að komast ekki við þegar haldið er á hvítvoðungi og finna algjöra þörf að vernda og gæta að okkar minnstu systrum og bræðrum. Börn fæðast á jólum sem öðrum tímum. Í huga barnsins ef allt er í lagi er þessi veröld sem það hefur fæðst inní umfaðmandi faðmur, hlýr og gefandi barmur, ljómandi andlit aðdáunar á þessu kraftaverki sem barnsfæðing er. Við gerum okkar til þess að heimurinn sem guðar á glugga tilveru barnsins fái að vera heimur á glugga sem aðeins horfir inn, en nær ekki að snerta köldum fingrum ráðs um eitthvað annað en það að leyfa barninu að vera barn. Þrátt fyrir að lífið er ekki kyrrmynd jólakorts með kyrrlátu þorpi þakið snjó sem engin hefur gengið á og markað sín spor seint að kveldi eða snemma morguns þá megum við leyfa okkur að leggja huga að þeirri mynd sem snertir við okkur.

Jólafrásagan er stillimynd þess sem við óskum okkur helst. Kyrr mynd af fæðingu barns við óvenjulegar aðstæður. Birtan úr fjárhúsinu bægði frá myrkinu sem beið eftir sínu og við göngum til ljóstýrunnar í fjárhúsinu sum hver langt að komin. Kann að vera að foreldrum Jesú hafi verið vísað frá gistihúsinu eins og segir í jólafrásögunni en þrátt fyrir það buðu þau öllum sem vildu að koma og bregða augum barnið í jötunni. Vitringar langt að komnir, fjárhirðar á Betlehemsvöllum og þú og við - komust við. Það er slegið á strengi í hjörtum okkar sem allra jafna er keppst við að stilla á dögum aðventunnar svo mætti vera hljómfagur óbrotin tónn sem jólahátíðin á að vera. Fagnaðarrík hátíð-fæðing frelsarans.

Nóttin með sitt myrkur leið hjá og það birti af degi, Vitringarnir, hirðarnir, ég og þú allt þetta sem þú hefur heyrt á aðfangadagskvöld og jóladag og englarnir á himnum tóku undir með lúðraþyt er liðið hjá. Bjarteygð börnin vöknuð upp fyrir allar aldir að leika með nýja dótið meðan pabbi og mamma reyna að lúra aðeins lengur, þreytt eftir asa dagana fyrir og um jólin. Allavega flest. Eða eins og litla hnátan; sem kom heim eftir kirkjuheimsókn á aðventu fyrr um daginn með skólanum, hágrátandi aðspurð hvað hafi eiginlega komið fyrir, stundi hún upp á milli ekkasoga að presturinn í kirkjunni hafi sagt að Jesúbarnið hafi bara fengið í afmælisgjöf, bull, reykelsi og fyrru, engin leikföng, hún bara vorkenndi Jesúbarninu svo mikið, ekki dúkku og ekki bíl eða lego. Ekki nema von að mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hafi lagt blátt bann við því að leik og grunnskólabörn væru yfir höfuð að koma í aðventuheimsóknir í kirkjur borgarinnar. Það er ekki fallegt að vera græta börnin.

Barnið á ekki að vita það sem við vitum sem fullorðinn erum að heimurinn er heill og brotin og að heimurinn er allskonar. Það voru ekki gjafir allstaðar undir slúttandi greinum jólatrés í stofum landsmanna og eða ef því er að skipta brosandi puntað jólatré. Veröldin er ljót - hún er falleg. Veröldin er lygin - hún er sönn. Veröldin er krambúleruð vegna okkar- okkar verka. Ekki vegna þess að barn fæðist í þennan heim. Barnið er táknmynd vonar um eitthvað nýtt. Myrkrið leitar færis hverja stund til þess að ná til okkar – huga og sálu, fullorðna sem barna sem óhikað tjá tilfinningar sínar á meðan við hin fullorðnu kyngjum staðreindum eins og þurru mjólkurkexi svo undan svíður í hálsi.

Segjum eins og er að kristnidómurinn kom ekki í heiminn án fórna og enn er fórnað blóði kristinna manna. Við erum stödd á öðrum degi jóla 26. desember 2016. Þessi dagur á síðari tímum hefur að mestu misst gildi sitt í okkar huga nema ágætt fyrir hina vinnandi stétt þetta árið að ná einum frídegi. En þessi dagur er svo miklu meira en það að vera frídagur. Þessi dagur sem við köllum annar dagur jóla er í raun ennþá eldri hátíðisdagur í kirkjunni en jóladagurinn sjálfur. Þessi dagur er minningadagur um djáknann Stefán sem kallaður er frumvottur, löngu áður en fæðingarhátíðin var sett á 25. desember. Stefán kallast frumvottur vegna þess að hann var sá fyrsti sem vitað er um sem píslavottur af því að hann vildi ekki hafna trúnni á hinn upprisna Drottinn Jesú Krist. Síðan þá eru liðnar aldir en tíminn hefur ekki fennt yfir þá sögu ekki frekar að við megum láta fenna yfir hugan um þá fjölmörgu kristnu einstaklinga sem láta lífið vegna trúar sinnar á Jesú Krist og þeirra hinna sem játa trú og líða fyrir með ofsóknum og hatri hvaða trúar eða ekki þeir játa.

Jólafrásagan er falleg, en við vitum að baki þeirrar myndar sem við á jólum fáum að rýna í og horfa til og orna okkur við jötu drauma okkar var og er annar veruleiki. Hamslaust hatur, afbrýðissemi, dauði, fólk á flótta. Jesúbarnið var ekki gamalt í dögum talið þegar það ásamt foreldrum sínum þurftu að flýja land vegna ógnar sem stafaði af yfirvöldum og handbendum þeirra. Stundum heyrist sagt og spurt með ákveðinni fyrirlitningu dagana fyrir og um jólin: „Hvers vegna er verið að rifja upp þetta „ævintýri“ um Jesúbarnið og fæðingu þess. Jólin hafa ekkert með fæðingu að gera annað en því að fagna ljósinu. Við ættum að vera komin lengra á þroskabrautinni að skilja þessa sögu eftir á rykugum vegi gleymdra sagna fornaldar.“ Vissulega er það svo að margar sögur fornaldar eru slæmar sem og fagrar eru gleymdar. Ekki frásögnin um fæðingu frelasarns sem hefur verið í gegnum aldirnar mörgum listamanninum, högg, rit myndlistar tilefni til ógleymanlegra verka. Það er hægt að spyrja á móti. Já, afhverju ekki? Afhverju skulum við ekki rifja upp og lesa þessa frásögu um fæðingu barns? Hvað er það sem vekur með okkur kenndir sem við allrajafna leyfum eða gefum okkur ekki tíma til að njóta og hlýða á? Það er vegna þess að við vitum að heimurinn er brotin en þrátt fyrir það vitum við að það er von. Jólafrásagan er frásögn um von í beygluðum veruleika sem í raun hefur ekki breyst til dagsins í dag. Jólafrásagan er saga um von okkar á vegi sem getur verið grýttur og torfarin. Þegar við göngum áfram vegin frá fæðingu barnsins þá og nú getum við spurt hvað hefur breyst? Hvað er það í frásögunni og því sem á eftir gekk, hefur breyst?

Hugur manneskjunar þá og nú er hinn sami. Manneskjur á flótta vegna trúar sinnar. Manneskjur á flótta vegna stjórnmálaskoðana sinna. Manneskjur á flótta vegna kynhneigðar sinnar. Manneskjur fullorðnir sem börn að leita betra lífi fyrir sig og sína. Þá var sagt og enn í dag heyrist sagt: „Því miður gistihúsið er fullt. Það er ekki pláss fyrir fleiri.“ Þeirri rödd virðist víða vaxa ásmegin um þessar mundir.

Fjölskylda, foreldar með tvö börn gistu á bílastæði fyrir utan hótel í evrópskri borg sem ég dvaldi í um árið. Fletið þeirra var rifrildi úr pappakassa. Þau töldu sig vera heppin að ná þangað saman á ferð sinni til fyrirheitna landsins. Manneskjur með drauma og væntingar um eitthvað betra hafa drukknað í Miðjarðarhafi svo þúsundum skiptir, fullorðnir og börn á flótta ekki eins lánssöm. Einföld mynd með ramma við hæfi fer ekki upp á vegg því það prýðir ekki eða passar ekki við þær myndir í huga sem við eigum eða viljum ekki eiga, skolum þeim niður með blöndunni þinni og blöndunni minni Egils malt og Appelsín.

Til að slá varnagla; þótt það eigi frekar við um stærstu hátíð kristninnar, vil ég segja að það er allt í lagi og ekkert að því að fá sér Malt og Appelsín þjóðardrykk okkar Íslendinga um jólin og ef því er að skipta og áhugi fyrir því alla aðra daga en um jól. Við viljum gera vel við okkur og við viljum að aðrir hafi tök á því að gera slíkt hið sama. Við vitum að þannig er það ekki alltaf. Við vitum að þannig mun það verða áfram. En þá er ekki verið að segja „það er betra heima setið en af stað farið.“ Þrátt fyrir óvenjulegt íhugunarefni eins og áður segir sem kirkjan leggur fyrir okkur samkvæmt ævafornri hefð. Landamæri góðs og ills liggja ekki einhvers staðar úti í heimi, í öðrum löndum eða álfum, heldur þvert í gegnum hjarta hvers manns. Kristur gekk veg þjáningar og dauða og svo hafa margir fylgjenda hans gert í aldanna rás. Kristur sagði við fylgjendur sína áður en hann kvaddi þennan heim: Í heiminum hafið þér þrenging, en verið hughraust, ég hef sigrað heiminn. Jólin er sigurhátíð. Ekki sigur þess sterka sem fer um með valdi og hávaða heldur þess smáa og hljóða sem á ekki sterka rödd. Þannig var umhorfs í morgun á leið minni til kirkju. Á jólum hlustum við á andardrátt lífsins sem gleymdi okkur ekki heldur færði okkur sanninn um að hið veika og smáa í hverju og einu okkar nær að lyfta af sér oki hversdagsleikans og myrkursins sem umlykur okkur og birta vonarinnar nær að snerta okkur smáum fingrum sínum. Umbreyta í von þá sem býr innra með okkur öllum að við gleymum ekki hverju öðru ekki aðeins hverju öðru heldur og líka hversvegna höldum við hátíðleg jól. Engin er svo smár eða svo stór að geta ekki leyft sér að gleðjast á jólum með glöðum.

Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.