Guð og gæðin

Guð og gæðin

Af hverju ætti fólk ekki að hugsa fyrst og fremst um eigin hagnað og eigin persónulegu afkomu? Af hverju ættum við ekki að taka okkur ríka manninn til fyrirmyndar og éta, drekka og vera glöð og sitja feit á auð okkar. Af hverju ætti fólk ekki að hámarka veraldleg gæði sín með öllum ráðum og hygla sjálfu sér og sínum við hvert tækifæri?

Ég var spurður að því fyrir all löngu síðan hvort prestar sæju fleira fólk í kirkjum landsins eftir efnahagshrunið og hvort fólk leitaði í auknum mæli til presta eða í andleg gæði. Sá sem spurði var ekki trúaður og það vottaði fyrir hæðni hjá honum: „Er kirkjan ekki í bullandi bissness nú þegar allt annað er hrunið eða að hruni komið?“

Í ljósi þeirra hörmunga sem hafa gengið yfir þjóðina kann vel að vera að sumir finni hjá sér aukna þörf til að fara í kirkju eða til að tala við Guð. Ég vona það. Viðmælandi minn var þó ekki viss og sagði að Biblían hefði nú lítið fram að færa í þessum efnum.

Hvað með ritningartexta þessa sunnudags?

Gæti Biblían talað með skýrari hætti inn í líðandi stund? Á boðskapur ritningartextana sem við heyrðum áðan ekki afar vel við núna. Er ekki talað mjög skýrt inn í þær aðstæður sem nú eru uppi?

„Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst.“ Þannig kemst Páll postuli að orði. Þegar Jesús er svo beðinn að miðla málum í erfðadeilu, deilu um eignir og peninga, neitar hann og segir: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ Á eftir fylgir svo ádeila hans á verðmætamat samtíma síns og hvernig auðsöfnun og ásókn í eignir geta snúist upp í andhverfu sína og staðið raunverulegu og innihaldsríku lífi fyrir þrifum og í raun ógnað því. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi þá gætu orð Jesú vart verið áleitnari.

Það er alveg ljóst að Biblían hefur sitt að segja í þessum efnum líkt og öðrum. Ekkert mannlegt er henni óviðkomandi. En hugsið ykkur bara ef fólk tæki almennt mark á orðum Biblíunnar og boðskap hennar. Ætli aðstæður væru aðrar en raun ber vitni ef fólk lagaði orð sín og gjörðir að boðskap Jesú? Það er sannarlega umhugsunarvert.

* * * * *

Í öllum ritningartextum dagsins er ein undirliggjandi spurning og hún er þessi: Hvað skiptir mestu máli? Hvað skiptir raunverulega máli í lífinu þegar allt kemur til alls. Spámaðurinn Míka spyr hvað við eigum að koma með fram fyrir Guð og minnir á að Guð vænti aðeins þess að við gerum rétt, ástundum kærleika og þjónum sér af hógværð. Dalai Lama, sem heimsótti okkur á dögunum, lét hafa eftir sér að trúarbrögð sín væru einföld, þau væru góðvildin. Einhver sem heyrði það spurði af hverju kristin trú gæti ekki verið þannig. Hann hefur ef til vill aldrei lesið orð Míka og virðist hafa mjög takmarkaða þekkingu á boðskap Jesú og innihaldi kristinnar trúar. Í bréfi sínu til Tímóteusar hvetur Páll postuli okkur til að treysta Guði, gera gott, vera rík að góðum verkum, örlát og fús að miðla öðrum, þannig skjótum við stoðum undir hið góða líf og ávinnum okkur eilíft líf að þessu loknu. Og að lokum varar Jesús okkur við því að leggja allt okkar traust á gæði þessa heims og grundvalla líf okkar á því sem getur tapast á augabragði. Hið sanna líf er að gera vilja þess sem allt líf er komið frá. Á það minnir Jesús í guðspjalli dagsins.

Í öllum ritningartextunum erum við því minnt á hvað skiptir mestu máli og á hverju við eigum að grundvalla líf okkar.

Það hefur einmitt verið sagt að maður upplifi mestu vonbrigði lífsins þegar maður heldur að maður hafi allt til alls og hafi höndlað það sem mestu máli skiptir og það bregst manni. Maður er aldrei jafn umkomulaus og einmitt þegar maður áttar sig á því að það sem maður hefur lagt sitt ýtrasta traust á reynist ekki traustsins virði.

Á hvað leggur þú traust þitt í lífinu?

Svarið við þeirri spurningu liggur ekki síst í afstöðu þinni til Guðs, í því sem þú kemur fram með fyrir Drottinn. Annað hvort kemur þú með eitthvað fram fyrir hann eða ekki. Afstaða okkar til Guðs felur í sér afstöðu okkar og viðhorf okkar til lífsins. Ekkert hefur jafn gagnger áhrif á lífið, á skilning okkar á því og viðhorf okkar almennt en einmitt afstaða okkar til Guðs. Sá sem tekur afstöðu með Guði og reynir að laga líf sitt að hans vilja sér eðli lífsins og tilverunnar allt öðrum augum en sá sem hafnar Guði og lagar líf sitt að eigin vilja. Í raun lifa þeir í gjörólíkum heimi.

Ef Guð er ekki til þá er tilveran aðeins ein stór tilgangslaus tilviljun. Lífið er þá aðeins samsull efna og ferð án fyrirheita. Við lifum þá til þess eins að deyja í deyjandi alheimi. Ef Guði er varpað fyrir róða þá er gert út um eiginlegan tilgang með lífinu þegar allt kemur til alls. Við sviptum okkur og lífið sjálft gildi sínu. Ekkert í lífinu, hvorki gott né vont, hefur nokkurn hinsta tilgang þegar allt kemur til alls því það hefur alls engin áhrif á það sem óhjákvæmilega bíður allra. Þetta er sá veruleiki sem guðleysinginn situr uppi með og er fastur í.

Ef veruleikanum er í raun og veru þannig háttað á hvaða grundvelli gagnrýnum við t.d. hina svokölluðu útrásarvíkinga? Á hvaða grundvelli gagnrýnum við ranglætið í samfélaginu? Á grundvelli skoðana okkar? En af hverju endrspegla þær veruleikann umfram aðrar skoðanir? Hvað gerir skoðanir okkar réttari en aðrar. Hvorki gjörðir útrásarvíkinga né annarra hafa neina eiginlega merkingu enda breyta þær ekki með nokkru móti því sem bíður okkar. Þegar þessu lífi sleppir skipta gjörðir okkar engu því við þurfum ekki að svara fyrir þær. Í guðvana heimi er rétt og rangt ekki til, aðeins ólíkar skoðanir á réttu og röngu – aðeins hinn nakti og kaldi veruleiki tíma, rúms og efnis, sem lætur sig alls engu varða hvað okkur finnst að eigi að vera. Af hverju ætti fólk þá ekki að hugsa fyrst og fremst um eigin hagnað og eigin persónulegu afkomu? Af hverju ættum við ekki að taka okkur ríka manninn til fyrirmyndar og éta, drekka og vera glöð og sitja feit á auð okkar. Af hverju ætti fólk ekki að hámarka veraldleg gæði sín með öllum ráðum og hygla sjálfu sér og sínum við hvert tækifæri? Ef dauðinn er endir alls þá væri annað heimskulegt.

* * * * *

Ég held að ásókn okkar í veraldleg gæði stafi ekki síst af óttanum sem býr með hverju manni, óttanum við endanleika og fallvaltleika lífsins: „Býður lífið ekki upp á meira en það sem er hér og nú? Er ekki meira á bak við lífið en hinn kaldi veruleiki tíma, rúms og efnis? Er ekki tilgangur og merking sem nær lengra en nemur líðandi stundu? Er ekki meira á bak við lífið en það sem okkur tekst að gera úr því? Ótta okkar um að svo sé ekki reynum við að ýta frá okkur með því að eiga sem mest. Og með því rennur lífið okkur úr greipum í eiginlegri merkingu.

Nú er ég alls ekki að segja að það sé slæmt að sækjast eftir góðum gæðum í lífi sínu og koma sér vel fyrir. Það er ekki boðskapur Jesú að svo sé. Hitt er annað mál að lífið sem slíkt er ekki að finna í veraldlegum gæðum. Lífið nær lengra en nemur þeim og bendir út fyrir þau, til hans sem er uppspretta lífsins og góður gjafari allra gæða. Við getum ekki sigrað óttann við endanleika lífsins með því að drekkja honum í veraldlegum gæðum. Aðeins vitundin um Guð og sú sannfæring að lífið eigi upphaf sitt í honum og sæki til hans merkingu sína og tilgang og þjóni því marki sem hann hefur sett því getur bægt óttanum frá; vitundin um að lífið sé gjöf sem við þiggjum frá honum einum. Í því er áminning Jesú fólgin. Undirstaða hins sanna lífs er fólgin í skilyrðislausu trausti, ekki til heimsins heldur skapara heimsins. Honum eigum við að treysta umfram allt annað og þakka í öllum hlutum; honum sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Okkur ber að laga líf okkar allt, hugsanir okkar, orð og gjörðir að vilja hans, því hin sönnu gæði lífsins eru að þekkja hann og son hans Jesú Krist. Frá honum og í honum er allt líf. Án hans væri ekki neitt sem til er.

Honum sé dýrð um alla tíma, Guði föður, syni og heilögum anda. Megi náð hans og friður sem er æðri öllum skilningi, varðveita hugsanir ykkar og hjörtu á þessari stundu og um alla tíma. Amen.

Ritningartextar

Lexía: Mík 6.6-8

Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin, fram fyrir Guð á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með veturgamla kálfa? Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta og tugþúsundum lækja af ólífuolíu? Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar? Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.

Pistill: 1Tím 6.17-19

Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.

Guðspjall: Lúk 12.13-21

Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð. En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“