Þekkingarauðurinn

Þekkingarauðurinn

Gleðilega þjóðhátíð  

Það er ekki laust við að við íslendingar fyllumst stolti og þakklæti á þessum degi fyrir það að vera íslendingar, sjálfstæð og fullvalda þjóð í þessu landi.

Í dag höfum við gengið til fundar við gæskuríkan föður okkar á himnum með þakkarefni í farteskinu sem við lyftum upp til hans í bæn og þakkargjörð.

Ísland er fallegt land og gjöfult til sjávar og sveita. Við hugsum með þakklæti til  forfeðra okkar og mæðra sem strituðu í sveita síns andlits til þess að gera okkur unnt að búa hér í landi náttmyrkranna. 

Hart þeir sóttu sjóinn sjómennirnir og færðu miklar fórnir í þágu byggðanna. Áður en þeir héldu út á djúpið þá signdu þeir sig og fólu sig á vald þeim himnaföður sem hefur vald yfir náttúruöflunum. Þeir treystu einnig á eigið hyggjuvit sjómennirnir sem voru reynslunni ríkari og þekktu miðin og straumana í hafdjúpunum. Margar fjölskyldur sáu á eftir fyrirvinnu sinni í hafið. Drottin gaf og Drottin tók.

Lífið hélt áfram með sinni framþróun á öllum sviðum, ekki síst á sviði sjávarútvegs. Yfirbyggðir, vélknúnir bátar tóku við af árabátunum og skipin stækkuðu og veiðarfærin urðu fjölbreyttari. Í landi þurfti að skapa skipunum aðstöðu til löndunar og meiri mannskap þurfti til að bjarga sjávarverðmætunum þar.  Ný hafnarmannvirki þjónuðu bátunum. Síldin kom og þá gerðust ævintýrin fyrir neðan bakkann þar sem allir sem vettlingi gátu valdið hjálpuðu til  Svo fór síldin eins og hendi væri veifað.

Þá kom annað til sem voru veiðar á uppsjávarfiski. Togararnir sóttu fast sjóinn og aflinn var verkaður í landi af fólki innan dyra sem utan. Hann var þurrkaður í sólarbreiskjunni uppi á bakkanum og seldur til manneldis. Skipin urðu stærri og vélbúnaður tæknivæddari. Gert var að aflanum um borð, hann frystur og settur í neytendapakkningar. Færri hendur þurfti til að skapa verðmætin vegna tæknilegrar framþróunar vegna undursamlegs hugvits mannsins.  Þetta kom fyrirtækjunum vissulega til góða vegna færri launþega en ég velti því fyrir mér hvort við höfum gengið til góðs í þessum efnum því að margir misstu störf sín.

Undirstöðuatvinnugrein Húsavíkur hefur verið sjávarútvegur. Þetta er atvinnugrein sem hefur veitt fjölmörgum fjölskyldum atvinnu í áratugi. Þegar þessari atvinnugrein hnignar með tilkomu kvótakerfisins þar sem kvótinn er seldur úr byggðarlaginu þá hverfa bátarnir, þeim bátum fækkar sem leggja aflann inn og fjölskyldurnar flytja þangað sem atvinnuhorfur eru betri. Er hægt að sporna við fótum í þessu tilliti?

Ég tel að það þurfi að stokka upp kvótakerfið til þess að gera byggðarlögum kleift, hér á Húsavík sem og annars staðar, t.d. á Kópaskeri og á Raufarhöfn að stunda sjávarútveg. Kvótinn á ekki safnast á fáar hendur því að þau verðmæti sem eru í hafinu er sameign íslensku þjóðarinnar. Það verður að búa svo í haginn að þeir sem hafa áhuga á því að stunda sjávarútveg geti stundað hann hvar sem er á landinu. Ég hef heyrt fregnir þess efnis að ungir sjómenn eigi óhægt um vik að hefja útgerð vegna núverandi kvótafyrirkomulags. Það sé alltof dýrt fyrir þá að hefja útgerð með kvótakaupum eða leigu og öðrum tilkostnaði sem er ærinn fyrir. Það ber að styðja ungt fólk sem vill setjast að í fámennum plássum til þess að stunda þá atvinnugrein sem það hefur áhuga á að sinna. Sé það sjávarútvegur þá ber stjórnvöldum og sveitarfélögum skylda til að styðja við það í þeim efnum.

Ég hefði kannski átt að flytja þessa ræðu á sjómannadaginn en mér finnst hún engu að síður eiga við á þessum degi því að börnin okkar eiga að erfa landið og við sem eldri erum ber skylda til að hlusta á þau og skapa þeim skilyrði til þess að búa þar sem þau vilja búa í þessu landi. Það er nefnilega þannig að það vilja ekki allir búa fyrir sunnan á höfuðborgarsvæðinu. Framtíð þessarar þjóðar er undir því komin að byggð haldist á hverju byggðu bóli hér á landi.

Ég skynja og sé í auknum mæli að ungt fólk vilji flytja þangað sem rætur þess liggja að afloknu framhaldsnámi ef það fær atvinnu við hæfi. Þess vegna þurfum við að vera vakandi fyrir nýjum tækifærum í atvinnulegu tilliti. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur unnið mjög gott verk í þessu tilliti m.a. með tilkomu Þekkingarsetursins á Húsavík sem hefur skapað fjölmörgu ungu fólki atvinnu sem er mikið gleðiefni. Við höfum mikinn mann- og þekkingar auð á að skipa og það þarf að virkja þennan þekkingarauð með því að skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri hér í Norðurþingi í samvinnu við þetta unga og framsækna fólk sem vill setjast hér að eða nýta sér þá aðstöðu sem við getum búið því hér á Húsavík til að koma hugðarefnum sínum á framfæri. En samgöngur í dag eru með þeim hætti að það getur stundað tímabundið störf fjarri sínum heimkynnum.

Ég sat við hliðina á Forseta Íslands í hátíðarkvöldverðinum sem efnt var til í tilefni af aldarafmæli kirkjunnar. Þar þakkaði forsetinn húsvíkingum fyrir að hafa gætt Húsavíkurkirkju í heila öld. Þetta voru orð í tíma töluð.

Eins og kunnugt er þá er forseti Íslands og Svíakonungur verndarar fyrirhugaðrar Garðarsstofu sem til stendur að reisa fyrir neðan bakkann á Húsavík. Ég vona að hún komi ekki til með að skyggja á Húsavíkurkirkju frá sjónum séð. En hvað um það. Sessunautur okkar var Hjörleifur Valsson, sá kunni tónlistarmaður sem auðgaði okkur húsvíkinga með framlagi sínu á kirkjuafmælishátíðinni.  Hann reifaði þá hugmynd við okkur forsetann að grafa ætti inn í bakkann og reisa þar fullkomið tónlistarhús með hljóðstúdíói þar sem unnt yrði að taka upp tónlist. Með því móti yrði unnt að skapa þá kyrrð og umhverfi sem er nauðsynlegt að sé fyrir hendi fyrir fólk sem vill taka upp tónlist. Hann hélt því fram að tónlistarfólk í höfuðborginni myndi grípa tækifærið fegins hendi að geta drifið sig úr skarkalanum í sveitasæluna til þess að vinna að þessu hugðarefnum sínum um tíma. Hann hélt því fram að Symphoníuhljómsveit Íslands skorti húsnæði hér á landi til hljóðupptöku. Við eigum aðra slíka hljómsveit á norðurlandi sem ugglaust myndi grípa tækifærið fegins hendi og nota húsið til hljóðritana.  Kórar, t.d. Kirkjukór Húsavíkur gæti farið að hljóðrita diska. Möguleikarnir eru óteljandi. Verði þessi hugmynd að veruleika þá verður til fullkomið og glæsilegt tónlistarhús með mikla sérstöðu sem vakið gæti heimsathygli vegna stórhuga framkvæmdar lítils samfélags.

Mér fannst þetta mjög athyglisverð hugmynd og fór að hugsa um hvort ekki væri unnt að vinna þessa hugmynd í tengslum við hugmyndina um Garðarsstofuna, að samþætta þetta tvennt með skynsamlegum hætti.  Við sjáum í hendi okkar að þetta yrði geysilega mikil lyftistöng fyrir Húsavík og þjónustuaðila hér í bænum. Af þessu sjáum við að það þarf að virkja þekkingarauðinn sem býr í ungu fólki. Margar snjallar hugmyndir verða til sem verða einungis að veruleika ef við erum tilbúin að kaupa hugmyndina og hrinda henni í framkvæmd, með tilstyrk ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja, sjóða og einstaklinga.

Við erum börn vonarinnar vegna þess að við eigum kærleiksríkan föður á himnum sem við getum leitað til þegar góðar hugmyndir fæðast sem við viljum að nái fram að ganga. Ég er viss um að himnafaðirinn daufheyrist ekki við góðum hugmyndum, einkum er varðar heill og hamingju okkar húsvíkinga. Einhver kann að brosa við þessum orðum mínum en mér fannst einhvern veginn liggja svo vel við að setja orð mín saman með þessum hætti. Himnafaðirinn kann líka að meta góðan húmor eins og guðspjall dagsins gefur til kynna þar sem Jesús fjallar um mikilsvert gildi bænarinnar: “Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vondir hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?” Matt.7.9-11.

Okkar kærleiksríki himnafaðir hefur komið því þannig fyrir að góðar hugmyndir verði ekki að veruleika nema beðið sé fyrir þeim fyrst.   Þess vegna þurfum við sem flest að biðja fyrir framtíð Húsavíkur og Norðurþings og bera upp við himnaföðurinn allar okkar óskir og þrár í sérhverju tilliti. Svarið sem við fáum kann að verða allt annað en það sem við báðum um því að himnafaðirinn einn veit hvað okkur er fyrir bestu í veraldlegu sem andlegu tilliti. Samt sem áður hvetur hann okkur til þess að hætta ekki bænaiðjunni vegna þess að bænin er andardráttur sálarinnar, hún er jafnframt lykillinn að náð Drottins. Látum uppörvast af orðum Krists sem segir í upphafi guðspjalls dagsins og tökum þessi orð hans með okkur heim og iðjum og biðjum sem börn vonarinnar:

“Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upplokið verða”. (Matt. 7.7-8) Amen