Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“ Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“ Þegar þeir voru farnir tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá sem um er ritað: Ég sendi sendiboða minn á undan þér, hann á að greiða þér veg. Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri. Matt 11.2-11
Það er þriðji sunnudagur í aðventu og heimsbyggðin nálgast þann atburð sem hún nærri öll kennir tímtal sitt við, og guðspjallið tekur mið af þessari stóru spurningu Jóhannesar skírara: Ert þú sá sem koma skal, eða eigum við að vænta annars ...?
Kæri söfnuður. Heimsbyggðin öll horfir til Kaupmannahafnar. Kirkjan um allan heim, dreifð og skipt í kirkjudeildir og trúfélög horfir líka til Kaupmannhafnar, þó hún horfi ekki einungis þangað. Umfjöllum heimsbyggðarinnar hefur hinsvegar hingað til ekki beinst að því hvort skoða megi þessa ráðstefnu í ljósi guðspjallanna, og spurningin sem borin er upp þar : Ert þú sá sem koma skal, hefur fyrst og fremst fjallað um Barak Obama og komu hans til Kaupmannahafnar, eða jafnvel Oslóar.
Kirkjurnar sem horfa til þessarar ráðstefnu og til guðspjallsins hafa sett fram margar bænir, eins og þessa:
Opna augu allra þeirra sem þar þurfa að sjá skírt til að ákvarða réttilega, og sjá nógu langt til að gera sér grein fyrir fjarlægum afleiðingum.
Gef þeim anda þinn, sem á þessum dögum fjalla um réttláta stefnu í loftslagsmálum heimsins. Gef þeim anda hugrekkis og sannleika og samfélags allra manna. Að þeir sjái lengra en aðeins það sem á þessum dögum virðist vera það þægilegasta.
Kirkjan ákallar anda sannleikans. Hún biður hann að hindra blekkingaleik og blíðmælgi og löngunina til að laga útkomuna að eigin þörfum með samkomulagi sem er of einfalt og kostar ekki neitt, af því að við í ríku löndunum viljum ekki greiða verðið fyrir sannleikann og réttlætið.
Sannleikurinn og réttlætið er fjársjóður svo dýrmætur að fyrir hann má fórna ekki bara tíma sínum og orku heldur lífi sínu öllu, og lifa þó.
Guðspjallamaðurinn í guðspjalli dagsins kynnir til sögunnar þær ástæður Jóhannesar fyrir spurningunni, að hann hafi í fangelsinu heyrt um verk Krists. Í boðun kirkjunnar er Jóhannes alltaf fyrirferðarmikill í aðdraganda jólahátíðarinnar og algjörlega óháð öllum ráðstefnum heimsbyggðarinnar. Þar fer saman hinn trúarlegi undirbúningur fæðingarhátíðarinnar og ryðjið konunginum braut, boðskapur Jóhannesar, þar sem megin áherslan hvílir á því að hreinsa skuli hismið frá hveitinu eða í nútímasamhengi að rugla ekki saman umbúðum og innihaldi.
Jóhannes hafði verið tekinn til fanga. Miðað við stjórnarhætti þess tíma (sem sumir hafa reyndar tileinkað sér trúafastlega allt til þessa), gat hann allt að einu búist við því að hann myndi enda ævi sína þarna í fangelsinu. Vegna sannleikans. Hann hafði jú gerst svo djarfur að gagnrýna yfirvöldin, meira að segja æðstu yfirmenn gyðinganna, og siðferði þeirra, og ákært þau fyrir brot á boðorðinu: Þú skalt ekki drýgja hór. Við vitum að fyrir þetta missti hann höfuðið. Þess vegna er Jóhannes alltaf hvatning til þess að þora að segja sannleikann, hversu óþægilegur sem hann er, þegar þarf að segja hann. Jóhannes sá að lífsstarfi hans, því hlutverki að ryðja brautina, að undirbúa komu frelsarans, væri líkast til lokið. Þá sækir að honum þessi stóra spurning, sem sækir að manni þegar ævidegi hallar og kvöldið nálgast: Gerði ég eitthvað gagn? En hjá Jóhannesi er spurningin eðlilega ennþá stærri en það, því að hún snertir sjálfa fyrirætlun Guðs um heiminn, um lífið, um sköpun hans alla, um frelsun mannanna, um sjálfa frelsisins lind.
Í þeirri spurningu sem lærisveinar Jóhannesar eru sendir með til Jesú : Ert þú sá sem koma skal, felst þetta: Hefur spádómurinn ræst? Er það sem við væntum, sem við vonuðum, í mörg hundruð ár, orðið veruleiki.? Er HANN kominn? Guðspjallið gefur afdráttarlaust svar við afdráttarlausri spurningu. Það er svar Guðs við spurningu mennskunnar: Ert þú …?
Spurning Jóhannesar kallar eftir yfirlýsingu fagnaðarerindisins um hina endanlegu opinberun Guðs, um veginn, um sannleikann og um lífið sjálft. Og fær hana.
Þetta stef er ekki bara virkt á þriðja sunnudegi í aðventu., Öll tenging og binding kirkjunnar við játningar hennar, vill og skal þjóna því að predikun kirkjunnar sé ekki svífandi og ómarkviss, eða festist jafnvel í hugmyndum sem stríða hver á móti annarri, heldur boði þann sannleika sem spurning Jóhannesar: ert þú, kallar á.
Svar Jesú, endurtekur og útleggur orðið Sjá! sem er eins og rauður þráður í guðspjöllunum öllum.
Svar Jesú við spurningu Jóhannesar reynir ekki að útskýra, ígrunda eða sanna eitt eða neitt í orðum, heldur vísar það á tiltekna staðreynd sem má sjá. Svarið vísar á það sem er að gerast fyrir augum þeirra sem það geta vottað, og það sem gerist er nákvæmlega það sem hjá spámönnunum, til dæmis í Jesajabókinni, 29, 32 og 35 er kennimark þeirrar hjálpræðistíðar sem heitið var og vonast eftir. Blindir sjá og daufir heyra, haltir ganga, líkþráir hreinsast, dauðir rísa upp og fátækum er boðað fagnaðarerindið. Sem þýðir í stuttu máli: Guðsríki er þegar komið.
Hvorki er mögulegt að skilja þau hjálpræðisverk sem frelsarinn bendir á einungis sem tákn eða að taka síðasta hluta svarsins um að fátækum sé boðað fagnaðarerindið, einungis andlegum skilningi. Því að hjálpræðið og lækningin heyrir saman, bæði í verki Jesú sjálfs og í því verkefni sem hann felur lærisveinum sínum (Mt.10.7,8). Það heyrir svo óaðskiljanlega saman að þegar guðsríkið er kunngjört fátækum og aumum felst í því raunveruleg hjálp og umbreyting jafnt í líkamlegum sem andlegum efnum. Við erum bara búin að gleyma þessu, af því að kristniboðsakurinn er okkur of fjarlægur, og við erum kannski líka búin að gleyma orðunum sem Jesús bætir við upptalninguna: Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.
Það sem maður getur séð og heyrt er ekki þannig að það sé ekki hægt að efast um það, eða mistúlka það. Það er hinn sami Jesús, sem sumir “sjá” í dýrð Drottins, og er öðrum tilefni til hneykslunar, og verður þeim jafnvel að hindrun trúarinnar milli þeirra og Guðs. Þetta gildir með sérstökum hætti, eins og sífellt er minnt á, um krossinn, sem er hin stóra hneykslunarhella. En það gildir um frásöguna um Jesú í heild, og ef einhver vildi reyna að segja þá sögu þannig að engin gæti verið að ergja sig yfir henni eða hneykslast á henni, þá er alveg víst að hann væri að segja einhverja allt aðra sögu en söguna af hinum biblíulega Kristi, sem er hinn lifandi Drottinn.
Hvort tveggja verður að taka saman og skoða saman. Sá Guð sem birtist er um leið hinn huldi Guð. Og fyrir þau sem hafa ánægju af latínu: Deus relevatus er um leið, deus absconditus. Opinberunin er í senn birt og hulin. Sbr. Mt. 13.11-13. Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki. Þeim sem spyr er vísað á raunveruleika sem hann getur séð og á að sjá, en það er - að sjá þannig sem einungis trúuðum er gefið, þeim sem ekki láta villa um fyrir sér. Eins og þegar Tómas hefur sannfærst með því að þreyfa á, þá er honum og öllum sagt: Sælir eru þeir sem ekki sáu en trúa þó.
Kæri söfnuður. Við söfnumst saman í kirkjunni til guðsþjónustu á þriðja sunnudegi í aðventu. Hefur þetta samtal Jesú og Jóhannesar áhrif á guðsþjónustu kirkjunnar, eða eykur það skilninginn á henni.? Svarið við þeirri spurningu byggir á því hvort það sem hér er sagt og gert sé einungis óbundin meining eða skoðun í stórum trúarlegum samræðuklúbb, og að messan sé einungis tímabundin og forgengileg blómgun á hinu stóra tré trúarlegra túlkana og trúarkerfa , eða hvort spurning guðspjallsins gefi í eitt skipti fyrir öll gilt og fullmektugt svar við spurningu allra spurninga. Ert þú, sá sem koma skal? Eða eigum við að vænta annars?
Eigum við kannski að hlýta því ráði sem við svo sem höfum heyrt, að gefast algjörlega upp á tilgangslausri bið eftir fullgildri þekkingu, af því því að þá þekkingu sé hvergi að hafa. Við sem þó viljum fylgja Orði Drottins getum nefnilega lent í vandræðum þegar við eigum að vísa þeim sem spyrja á það sem þau eiga að sjá og heyra.
Auðvitað er hér eitt og annað að heyra og líka margt að sjá? En við erum ekki að hugsa um það sem tilheyrir liturgiskum og listrænum tilþrifum, sem augað og eyrað mega sannarlega gleðjast yfir, heldur spyrjum við miklu ákveðnar og róttækar, hvort í umhverfi kristinnar kirkju og innan hennar sé eitthvað sem gerist í raun og veru, hvort hér eru kraftar í gangi sem lækna, leysa og umbreyta.
Útfrá Biblíunni höfum við engan rétt til þess að vísa þess konar spurningum frá eins og þær ættu ekki rétt á sér, eða láta nægja að hugga fólk með þvi að segja að hér sé að minnsta kosti verið að tala um þessi mál.
Góð systkin, kirkjan er ekki mjúkur hægindastóll eftirvæntingarinnar, meðan mamma er enn í eldhúsinu eitthvað að fást við mat.
Í Jesú Kristi er ríkið sem vænst var, Guðsríkið, þegar komið.
Það er þess vegna fráleitt að róa sig niður yfir því að lítið gerist í hinni jarðnesku kirkju með þægilegri vísan til þess sem verður í hinum komandi heimi. Það er algjörlega í andstöðu við Nýja Testamentið eins og það leggur sig, og í andstöðu við alla kirkju Krists í jörðu, hvaða afbrigði hennar og kirkjudeild sem við nefnum, ef við lítum svo á að guðsþjónustan sé einungis fyrirheit og sýn til hins komanda, og væntum uppfyllingar spádómanna fyrst á efsta degi. Raunveruleiki Biblíunnar heyrir til raunveruleika kirkjunnar í helgihaldi hennar, vegna þess að hér er heilagur andi að verki. Hann sem er hinn lífgefandi Drottinn. (Dominius vivificans.)
Andinn er sannarlega þannig að verki að maður getur aldrei komið yfir hann höndum né böndum, eða sýnt hann og sannað. Það sem gerist er í hinu hulda og birtist þar. Hið guðdómlega Orð sem hulið er, kemur til okkar í fátæklegum hugtökum og orðum á mannlegri tungu og í huga og hjarta, rétt eins og hin himneska máltíð, hulin í örlitlu brauði, og dýrð Guðs sem engin víðátta fær rúmað tekur sér bústað í hinu óásjálega, og býður þeirri hættu heim að verða óþekkt og fyrirlitið aðhlátursefni.
Það eru hundrað hlutir í kirkjunni og meðal okkar þjóna hennar sem hægt er að ergja sig yfir og hneykslast á sem gerir trúnni erfitt fyrir og veikir hana. En við erum ekki í fangelsinu með Jóhannesi. Við erum úti á ökrunum með Jesú Kristi og þeir eru hvítir til uppskeru. Og á honum hneykslast enginn sá sem fylgir honum. Horfðu á myndirnar frá hjálparstarfinu hér í anddyri kirkjunnar og hlustaðu á frásagnir um hjálparstarf innanlands sem utan og leggðu þitt af mörkum! Við erum ekki heftur og þaggaður hópur hinna niðurbrotnu, heldur glaður og syngjandi hópur hins sigrandi anda sannleikans og þorum að taka undir þegar kirkjan syngur klukknasöng réttlætisins og ryður braut fyrir konung konunganna. Hósanna,syni Davíðs,blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Hann, sem er þegar kominn.