Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“ Lúk.12.13.-21
Tilviljanir eru ekki til. Það eru alltaf orsakir fyrir aðstæðum og atburðum. Þegar þú hittir gamlan skólafélaga sem þú hefur ekki rekist á í mörg ár, í flugvél á leið til Indlands og svo kemur í ljós að þið eruð skráð á sama hótel í Kalkútta af öllum þeim þúsundum hótela sem þar finnast, þá er ekki um furðulega tilviljun að ræða. Að baki aðstæðum liggja skýringar og orsakir, þú pantaðir þér herbergi á þessu hóteli vegna þess að vinkona þín hafði dvalið þar áður og gamli skólafélagi þinn pantaði sér þar gistingu vegna þess að hann á frænku sem vinnur á hótelinu og þið voruð í sömu flugvél á sama tíma vegna þess að þú varst í sumarfríi en hann var að fara að vinna á barnaheimili og hann varð að byrja á sama tíma og þú varst að fara í frí vegna þess að vinur hans sem ætlaði að vinna þar með honum var á leið í nám til Bandaríkjanna mánuði síðar og þess vegna var ekki um neinn annan tíma að ræða. Tilviljanir eru ekki til. Guð gaf þér vilja til þess einmitt að líf þitt væri ekki rekið áfram af tilviljunum einum. Þess vegna er efnahagsástand þjóðarinnar enginn tilviljun, að baki því liggja ótal orsakir sem voru reknar áfram af mannlegum vilja til að koma ár sinni vel fyrir borð og safna auðæfum í stærri og stærri hlöður. Guðspjall dagsins er skuggalega óþægilegt, dálítið eins og útdráttur úr sögu hins íslenska efnahagshruns, þar sem orsakir og afleiðingar eru afhjúpaðar. Guð sagði við hann: “Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.” Hvaða lærdóm eigum við að draga af þessum orðum Jesú, hann sendir okkur mjög skýr skilaboð í lokasetningunni, svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs. Heimsókn friðarberans og búddamunksins Dalai Lama hingað til lands vakti að vonum mikla athygli, hann kom hingað á hárréttum tímapunkti, sem var enginn tilviljun því heimsókn hans var löngu ákveðin en koma hans var enn áhrifaríkari vegna þess að hann tjáði með orðum og atferli sínu svo mikla andstöðu við þau gildi sem hafa verið afhjúpuð með harkalegum hætti undafarna mánuði. Allt sem hann hafði fram að færa, allt frá hinu glettna brosi til hinna djúpvitru orða var eins og vin í eyðimörk, hann kom hingað á hárréttum tíma. Ef hann hefði komið fyrir rúmu ári hefðu orð hans og einlægt atferli ekki haft aðra þýðingu en þá að vera krúttlegt í ljóshraða uppgangsins og útrásarinnar. Kannski hefðu ráðamenn þá ekki verið jafn tvístígandi að eiga orðaskipti við hann á opinberum vettvangi af því að þá vorum við svo ótrúlega stór þjóð og þurftum ekkert að óttast, nema kannski okkur sjálf eins og síðar kom á daginn. Nei Dalai Lama kom hingað á hárréttu augnabliki, hann varð fyrir vikið ekki bara enn ein skrautfjöðurinn í hatti íslensku þjóðarinnar sem hefur safnað sér Íslandsvinum í gegnum tíðina sem hafa allir verið spurðir how do you like Iceland vegna þess að við vissum svarið og þurftum ekkert að óttast, öllum fannst við æðisleg og við vorum líka æðisleg, bara ekki á réttum forsendum. Þess vegna hafði heimsókn þessa hógværa friðarbera svo djúpstæða merkingu, vegna þess að nú þyrsti fólki í að spyrja hann alvöru spurninga og hlýða á alvöru heimspeki sem er grundvölluð á trúnni á hið góða. Hann sagði margt mikilvægt en ekkert af því var borið fram á flókinn máta heldur talað í allra eyru eða kannski allra hjörtu eins og öll alvöru viska á að gera, alvöru viska á að vera auðskiljanleg til þess að allir eigi möguleika á að tileinka sér hana, hvort þeir svo geri það er allt önnur saga. Það sem ég tók persónulega best eftir og geymdi í hjarta mínu var umfjöllun hans um hinar innri auðlindir manneskjunnar. Kjarninn í því sem hann sagði um þær er mér vissulega kunnur en hvernig hann bar það fram og lýsti sem auðlindum, það heillaði mig vegna þess að hugtakið auðlindir hefur hin síðustu ár valdið mér meira kvíða en gleði og minnt mig á það sem græðgin getur klárað. Hin síðari ár höfum við sem þjóð einblínt á að nýta í botn þær auðlindir sem þarf einmitt að vernda vegna þess að þær endurnýja sig ekki eða koma ekki tilbaka, þar er ég auðvitað að tala um náttúruna sem við megum aldrei umgangast af ágirnd eða hroka, því hún hlúir að okkur án þess að krefjast nokkurs tilbaka, því megum við aldrei gleyma. Við höfum líka einblínt á aðrar auðlindir, nefnilega viðskipti og peninga sem hafa verið okkar grundvöllur undanfarin ár, ekki þó sem klettur eins og dæmin sanna heldur sandur sem sjórinn hefur nú hreinsað. En hinar innri auðlindir, sem eru lífgefandi, bæði í andlegu og veraldlegu tilliti og óþrjótandi með öllu, við höfum því miður sparað þær á kostnað samstöðunnar og samhygðarinnar. Hverjar eru þessar innri auðlindir sem myndu ekki klárast þó úr þeim yrðu gerðar tíu þúsund Kárahnjúkavirkjanir? Páll postuli lýsir þeim einna best í 13.kafla fyrra Korintubréfs, það er sannleikurinn að baki kærleikanum sem er kraftur þessara auðlinda, kærleikurinn sem er langlyndur, góðviljaður, sem öfundar ekki er ekki raupsamur, leitar ekki síns eigin, reiðist ekki, er ekki langrækin, gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum, já hann sem breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Þetta eru þær auðlindir sem Dalai Lama var að vísa til, hann sagðist ekki geta gefið okkur praktísk ráð til að leysa kreppuna enda væri hann munkur og hefði þar af leiðandi engan áhuga á peningum en hann hefur áhuga á manneskjunni og andlegri velferð hennar og hann hefur áhuga á samfélagi mannanna, að það sé heilbrigt og gott, réttlátt og satt. Það var líka fyrst og síðast markmið Jesú frá Nasaret og þess vegna vissi hann fátt verra en þegar manneskjan treysti á skepnuna en ekki skaparann, á hinn veraldlega auð en ekki hinn andlega. Jesús Kristur hvatti hverja manneskju sem hann mætti til að virkja sínar innri auðlindir og deila þeim með öðrum svo þær mættu skapa eilífðina hér og nú og tendra ljós í myrkri. Tilviljanir eru ekki til. Lífið er allt of merkilegt til að vera grundvallað á tilviljunum, allt á sér orsakir, en líka afleiðingar og það eru þær sem við þurfum gjarnan að glíma við en það eru líka þær sem gefa okkur tilefni til að þroskast og stækka í lífinu og verða samferðarmönnum okkar til blessunar, þess vegna eigum við aldrei að nema staðar og treysta á það sem fyrir hefur safnast heldur halda áfram að takast á við aðstæður, hlýða á visku manna sem eru fyrirmyndir í lifanda lífi, þeir eru englar, sendiboðar Guðs, en þó eigum við umfram allt að treysta á algóðan Guð og taka við hans heilaga anda. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.