Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ungur og saklaus drengur sem skírður var fyrr í messunni er fæddur inn í fallinn heim, heim þar sem hið góða og illa takast á. Í framtíðinni mun hann þurfa að glíma við lífið, glíma við freistingar, verða reyndur og prófaður. Við lifum í heimi freistinga, heimi sem reynir okkur, togar og teygir, í þeirri viðleitni að þroska okkur og efla. Líf sem aldrei er reynt verður ekki mikils virði. Hvernig verður sá vöðvi sem aldrei tekur á? Hvernig verðu sú sál sem engu mótlæti mætir? Lífið er skóli, lærdómstími og líka reynslutími eins og sr. Helgi Hálfdánarson segir í einu sálma sinna:
Reynslutími ævin er. Ó, minn Guð, mig veikan leiddu, gegnum böl, sem mætir mér, mína leið til heilla greiddu. Veit í trú ég vakað fái, veit ég sigri góðum nái.
Gott er að eiga vin að á reynslutíma, vin sem hefur verið reyndur og staðist.
Barátta góðs og ills. Hvers vegna takast þessi öfl á í tilverunni? Er Guð ekki góður, algóður og laus við allt illt? Jú, svo staðhæfir trúin. En hvernig stendur þá á hinu illa. Biblían tjáir okkur að veröldin eigi sér fullkomið upphaf, að einu sinni hafi lífið verið líf í fögrum heimi, Edensgarði eða Paradís, heilt og gott, líf sem var elskusemi og kærleikur í gegn. Sagan af Adam og Evu er sögð til að varpa ljósi á þennan leyndardóm að hið illa hafi komið til sögunnar. Lexía dagsins sem er á blöðunum sem dreift var er úr 1. Mósebók. Það er sagan af Adam og Evu og falli þeirra. Þetta er myndræn saga og gegnsæ. Þau freistast til að gera það sem ekki mátti. Adam kennir Evu um og hún höggorminum. Einn togar í annan. Enginn tekur ábyrgð. Síðar komu svo bræðurnir Kain og Abel til sögunnar og Kain drap Abel og svaraði Guði þegar hann spurði hvar Abel væri: Á ég að gæta bróður míns? Svona er mannlífið. Við færumst undan ábyrgð, kennum öðrum um. Svona erum við öll. Þessi staðreynd birtist okkur daglega í fjölmiðlum og á einkar ljósan hátt þessa síðustu daga. Sagan af fólkinu í Eden, er saga okkar. Þetta er saga sem staðhæfir að heimurinn sé fallin, að mannkyninu hafi verið úthýst úr Paradís og sé á vergangi, í eyðimörkinni á leið til fyrirheitna landsins. Vegvillt fólk. Og í þeim aðstæðum er það Orð Guðs sem er besti vegvísirinn.
Strákur var að lesa syndafallsöguna í gamalli Biblíu móður sinnar. Allt í einu rekur hann upp stór augu því úr bókinni fellur eitthvað á gólfið. Hann tekur það upp og skoðar og sér að það er stórt, þurrkað, laufblað. Hann kallar á mömmu og segir:
- Mamma ég fann svolítið í Biblíunni þinni! - Nú, hvað fannstu vinur, spurði mamma. Og hann svaraði: - Ég held að það séu nærbuxurnar hans Adams!
Já, hún er myndræn frásagan í 1. Mósebók. Guð er til að mynda eins og manneskja á göngu í kvöldsvalanum í aldingarðinum. Afskaplega heimilisleg mynd og hugljúf. En svo er það líka skepna sem vekur óhug. Höggormur. Þeir eru nú ekki nein gæludýr í augum okkar. Að minnsta kosti fannst mér það ekki þegar leiðsögumaður minn í golfi í Thailandi í liðnum mánuði hélt á einum í greip sér og drap áður en hann henti honum út í buskanna. Var hann hættulegur þessi? spurði ég. Já, stórhættulegur. Ef slíkur höggormur bítur þig þarftu ekki að kemba hærurnar, sagði hann. Og það fór um mig hrollur.
Hvað óttast fólk helst í heiminum? Bandarískt dagblað spurði fólk eitt sinn um slíkar hættur og fékk þessi svör og að mig minnir í þessari röð: Fólk óttast mest: 1. snáka, 2. rottur og 3. að halda ræðu!
Ég er sama sinnis hvað varðar 1. og 2. lið en er nú farinn að venjast því að halda ræður! Man þó hvernig ég skalf þegar ég stóð fyrst í ræðustóli frammi fyrir fullum sal af fólki.
En aftur að syndafallssögunni. Hún flytur okkur djúp sannindi sem sett eru fram í skáldlegu líkingamáli, sannindin um staðreynd hins illa. Já, hið illa er til. Sumir segja að hið illa sé aðeins skortur hins góða. Biblían gengur lengra og persónugerir hið illa, segir það hafa vilja og mátt, hugsun og frumkvæði. Hvað sem líður skilgreiningum á hinum illa hljótum við að vera sammála um að það er til staðar. Immanúel Kant, sá merki guðfræðingur sem uppi var í lok 18. aldar og náði að lifa fram á 19. öld sagði að hið róttæka illa vera í manninum sjálfum. Tilvist þess er óútskýranleg en er eigi að síður staðreynd. Hið illa er allt í kringum okkur. Fjölmiðlar, blöð og sjónvarp, eru uppfullir af hinu illa. Hið illa selst víst líka betur en hið góða.
Við erum fallið mannkyn. Og fallið mannkyn þarfnast lausnar, þarfnast lausnara. Og hann kom. Jesús Kristur kom í þennan heim til að frelsa heiminn. Hann var eins og við en hann var meira en maður, hann var í senn Guð og maður. Hið guðlega eðli hans kom þó ekki í veg fyrir að hann lifði hefðbundnu mannlegu lífi. Hann mataðist eins og við, hann gerði að gamni sínu, hló og grét, umgekkst fólk og átti sínar stundir einn með sjálfum sér - og Guði. Líf hans var ekkert plat. Hann varð fyrir freistingum alveg eins og aðrir dauðlegir menn. En hann stóðst þær allar. Enginn maður hefur fyrr né síðar staðist allar freistingar, enginn nema Jesús. Hinn fyrsti Adam féll en hinn nýi Adam stóðst allt. Þess vegna er hann höfundur nýs mannkyns. Og við erum systkin hans fyrir heilaga skírn og vígð eilífðinni með honum. Við byggjum líf okkar á sigri hans. Þegar þið skoðið syndafallssöguna síðar heima (sem er á blöðunum) sjáið þið að hún endar á frægum orðum sem eru dómur yfir öllum mönnum:
Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.
Þetta stef tekur sr. Hallgrímur upp í sálminum Um dauðans óvissan tíma og yrkir:
Adams er eðli runnið í mitt náttúrlegt hold, ég hef þar og til unnið aftur að verða mold.
Orð syndafallssögunnar um moldina eru sögð við hverja útför þegar rekum er kastað. „Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða.“ Eru þetta örlög okkar?
Já.
EN!
Kristin trú lætur ekki hér staðar numið heldur bætir við þessum orðum:
„Af jörðu skaltu aftur upp rísa“!
Upprisa Krists hefur rofið vítahringinn og leyst manninn úr viðjum moldar og gefið honum nýja tilveru. Paradís sem hvarf er endurheimt í Kristi, í honum sem freistað var af djöflinum en stóðst þær allar með því að vitna í hina helgu bók og visku Guðs.
Freistingarnar sem Jesús varð fyrir eru þær sömu og mæta okkur öllum. Djöfullinn lagði fyrir hann þrjár snörur. Sú fyrsta var freistingin um að lifa á auðveldan hátt, fara framhjá erfiðleikunum, búa til brauð úr steinum. Önnur snerist um frægð og aðdáun og hin þriðja um völd og áhrif. Nákvæmlega sömu freistingar mæta okkur öllum, mæta pólitíkusum landsins og heimsins, hvort sem er í borgar- eða sveitastjórnum eða á löggjafarþingum um veröld víða. Alls staðar bíða freistingarnar. Þær eru eins og fugl sem flýgur yfir þér, sagði Lúther, en láttu fuglinn bara ekki verpa á hári þínu.
Stöndumst við freistingar heimsins. Við getum það ekki í eigin mætt en við getum það með Kristi. Rússneska skáldið Leo Tolstjo sagði að allt Nýja testamentið gengi upp í bæninni Faðir vor. Þar er tekið á öllu sem máli skiptir. „Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.“ Í reynd erum við að segja í þessari bæn: Leiddu okkur ekki í gegnum of erfiða reynslu, ekki í gegnum próf sem við ráðum ekki við. Eða eins og Páll postuli segir:
„Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um að þér fáið staðist.“ (1Kor 10.23)
Djöfullinn, hið illa, mun áfram reyna að eyðileggja líf okkar, leggja snörur fyrir okkur og leitast við að okkur verði hált á svellinu.
Trúin á Jesú Krist er besta vörnin í þeim efnum. „Ritað er“, sagði Jesús. Við þurfum líka að þekkja hið ritaða orð sem er okkur vegvísir í viðsjárverðum heimi.
„Eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.“
Við eigum hann að sem aldrei brást, hinn nýja Adam, Jesú Krist, sem engum bregst og öllum hjálpar á erfiðum prófum lífsins.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
- - -
Lexían 1. Mós 3.1-19
1Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“ 2Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum 3en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ 4Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. 5En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ 6Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. 7Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur. 8Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. 9Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ 10Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ 11Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ 12Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ 13Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“ 14Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: Af því að þú gerðir þetta skaltu vera bölvaður meðal alls fénaðarins og meðal allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skaltu skríða og mold eta alla þína ævidaga. 15Ég set fjandskap milli þín og konunnar og milli þinna niðja og hennar niðja. Þeir skulu merja höfuð þitt og þú skalt höggva þá í hælinn. 16Við konuna sagði hann: Mikla mun ég gera þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér. 17Við Adam sagði hann: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. 18Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. 19Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.
Pistillinn 2. Korintubréf 6.1-10
1Sem samverkamaður Krists hvet ég ykkur einnig að þið látið ekki náð Guðs, sem þið hafið þegið, verða til einskis. 2Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðisdegi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. 3Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti. 4Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs: Með miklu þolgæði í þrengingum, nauðum og andstreymi, 5þegar ég hef mátt þola barsmíðar, verið í fangelsi, orðið fyrir aðsúg, í erfiði mínu, andvökum og sulti, 6með grandvarleik, þekkingu, þolinmæði og mildi, með heilögum anda, með falslausum kærleika, 7með orði sannleikans, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar, 8í heiðri og vanheiðri, lasti og lofi. Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, 9sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þó ekki deyddur, 10hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.
Guðspjallið Matteus 4.1-11
1Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. 2Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. 3Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ 4Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ 5Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins 6og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“ 7Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“ 8Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra 9og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ 10En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ 11Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.