Það er ekki bara skotið á handboltamörk þessa dagana heldur er Júróvisjónundirbúningurinn hafinn. Fyrsti hlutinn byrjaði í gærkvöldi. Manstu hvert var Júróvisjonlag Íslendinga árið 1986? Það var Gleðibankinn. Þar segir: "Þú leggur ekki inn í gleðibankann tóman blús." Ýmsir hafa hins vegar sungið þetta svona:” Þú leggur ekki inn í gleðibankann tóma krús." Og það er munur á krús og blús.
Börn læra oftast texta hratt og hika ekki við að segja vitleysur. Eftiröpunin er þáttur í máltöku, en misheyrn þeirra getur oft verið fyndin. “Faðir vor” hefur oft orðið í munni barna að: “Það er vor...!” Misheyrn og ruglingur er ekki bara mál ungviðis, heldur hendir fólk á öllum aldri, í söng og tali. Allir textar, líka trúarlegir, geta brenglast á leið um eyru og í huga. Og af því söngvatíminn er hafin í lífi þjóðarinnar eru hér tvö söngleg misheyrnardæmi.
Til er Sigurgeirsútgáfan af þjóðsöng Íslendinga. Í stað: "... sem tilbiður Guð sinn - og deyr...." sprettur óvænt fram karlinn Sigurgeir í misheyrnar-útfgáfum: "... sem tilbiður Guð, Sigurgeir!”
Svo er hitt misheynardæmið skagfirskt: "Fram í heiðanna ró fann ég bólstraðan stól ...." Eitthvað passar bólstrunin illa við fjallageiminn. Er þetta réttur texti? Nei, það á að vera: "Fram í heiðanna ró, fann ég bólstað og bjó..."
Misheyrn og misskilningur Misheyrn getur verið merkileg og jafnvel stórkostleg. Misheyrn varðar einhvers konar klúður, ef ekki á heyrn - þá á skilningi, reynslu og þegar verst lætur á veruleikatengingu og lífi. Það varðar mál okkar í dag.
Heyrn er alla vega hjá fólki og skerðist hjá mörgum með árunum. Þegar maður heyrir ekki vel það, sem við mann er sagt svarar fólk yfirleitt með ágiskun. Þetta gera heyrnarskertir gjarnan, svara oft í samræmi við ímyndun og svara því stundum út í hött.
Svo heyra margir ágætlega, en eru svo fastir í fyrirframgefnum skoðunum, að þau nema ekki af því að fordómar þeirra eru svo rótgrónir og vaninn bindur skilning, heyrn og huga. Við heyrum jú það, sem við viljum heyra. Við túlkum eins og við erum vön, viljum að lífið sé og varnarhættir okkar leiða til. Fólk lifir í eigin túlkunarheimi og skilur jafnvel ekki hið augljósa. Ótrúlega margir vilja eða geta ekki opnað augu fyrir eðli og birtingarmyndum ofbeldis, neyslu, misnotkun og breytinga. Þá vilja menn ekki viðurkenna hið skelfilega, geta það ekki af einhverju ástæðum. Eitt er misheyrn, djúptækari eru túlkunarmynstur og túlkunarferlar, sem meina fólki að aðlaga heyrn, hugsun og líf að því sem passar við staðreyndir. Sakkeus Sögurnar í textum dagsins eru um menn misskilnings. Sagan af Sakkeusi er sögð í guðspjalli dagsins. Nafnið Sakkeus merkir “Guð man.” Biblían kennir að menn séu í huga, minni, Guðs þótt þeir hrapi í áliti manna eða lendi í villum. Sakkeus var Gyðingur, sem hafði sagt skilið við “gott siðferði,” fékk starf hjá óvininum í auðborginni Jeríkó þar sem hann gat innheimt tolla að vild. Hann hafði lent í ógöngum en ákvað að hlusta á þann fræga furðumann Jesú Krist. Það var síðan í minnum haft, að Jesús sá hinn smáa þrátt fyrir alla hina stóru, sá hann upp í tré, greindi angist hjartans og sá í gegnum tollaraklæðin. Jesús kallaði til hans. Þá breyttist líf Sakkeusar. Jesús rakti upp vef misheyrnar og ruglings Sakkeusar og samferðarfólks hans. Þegar hlustað er á þann sem segir satt batnar líf manna.
Samúel Svo er í hinni sögu dagsins merkileg æskusaga, köllunarsaga Samúels. Hann varð einn af risunum í sögu hebrea og tvær bækur í Gamla testamenntinu eru við hann kenndar. Nafnið Samúel merkir “Guð heyrir.” Mamma Samúels gat ekki átt barn en hún bað um frjósemi. Samúel varð henni bænasvar. Guð heyrir og misskilur ekkert.
Samúel hafði ágæt eyru og góða heyrn en túlkaði rangt. Hann fór til náms og þjálfunar hjá Elí í musterinu í Jerúsalem. Að næturlagi var kallað á Samúel og hann áleit að meistarinn Elí vildi finna sig. Þrisvar var kallað. Að lokum skildi Elí og kenndi Samúel hið mikilvæga: „Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“ Eftir misskilning kom loks geta til að hlusta, skilja og lifa. “Tala þú...” Að heyra þýðir, að maður er tilbúinn að lifa. Það er þá sem vorar, faðirinn opnar gleðibankann, krúsin fer í hönd Sigurgeirs, sem situr í sínum bólstraða stól og blúsinn hverfur honum alveg í heiðaró hugans! Allir vinirnir geta sagt saman: “Þú, sem manst og heyrir, tala þú. Því þú ert góður, tekur menn í fangið og gerir þessa tilveru svona skemmtilega og stórkostlega.”
Saga um Samúel er lykilsaga um fólk. Við getum lifað langa æfi og verið þó úr takti við okkur sjálf. Margir velja sér atvinnu í lífinu, sem ekki er í samræmi við langanir og hæfileika. Aðrir lifa óhamingjusömu einkalífi vegna rangra ákvarðana. Aðrir ná aldrei að vinna úr áföllum og lifa síðan í skugga eigin gerða. Eru framhjáskot þín ekki fleiri en eitt á æfinni, hittir ekki það sem þú miðar á? Við heyrum rangt, við misskiljum svo margt í lífinu – og brennum af hvað eftir annað.
ἁμαρτία Það er merkilegt að íhuga, að orðið sem er notað í Nýja testamentinu um synd er orðið hamartía (ἁμαρτία). Aristóteles notaði það um það, sem væri gallað eða um mistök. Almennt þýðir þetta gríska orð það sem missir marks. Þegar menn næðu ekki marki sínu væri það hamartía, þegar menn hittu ekki markið væri það hamartía. Það er því hamartía þegar handboltamaður skorar ekki. Misheyrn er því hamartía, misskilningur líka. Þegar samfélag manna er óréttlátt er það hamartía, en verstu mistökin eru þegar við göngumst ekki við hver við erum og til hvers. Það er guðstengingin. Þegar menn vilja ekki vera í sambandi við höfund og elskhuga lífsins er það synd, versta klúðrið, skot framhjá lífinu. Misheyrn varðar einhvern brest en að vilja ekki heyra Guðsorðið er framhjáhald, lífsbrestur, synd.
Guðsraddakór Oft er talað um orð í kristninni. Það eru ekki bara þessi töluðu orð munns til eyrna heldur varðar réttlæti samfélags eða að blóm vex. Orð Guðs birtist í ósk um að maður klifri ofan úr tré en líka sem orð samvisku í einveru eða nótt sálarinnar. Allt líf er kallað til rétts vaxtar og við erum kölluð til sjálfra okkar. Það sem greiðir úr ruglinu geta verið ábendingar vina, sem stjaka við okkur, bók sem við lesum, texti á YouTube sem allt í einu veitir skilning, nú eða bara hrifning yfir handavinnu eða fossúða í náttúrunni.
Alla ævi glímum við verkefnið að þroskast. Sumt, sem við gerum er grundvallað á misheyrn, fordómum, ófullnægðri þrá eða einhverjum tilfinningþáttum eins og kvíða eða hatri. En allt lífið berast okkur köll, sem eru orð Guðs. Í líkama okkar er kallað, í samfélagi okkar er talað til okkar og náttúran miðlar með margvíslegu móti. Allt tengist okkur, veröldin er stókostlegur kór radda, glæsilegur Guðsraddakór.
Hver ertu? Hvað langar þig að vera? Viltu lifa vel? Er það, sem þú velur þér, í samræmi við líðan þína og þrá? Er lífið þér smæðarlegt og fyrirgengilegt? Eða býr í því eitthvað annað, dýpra og æðra? Þetta stóra og mikilfenglega eru köllin til Samúels og Sakkeusar, kallið, sem Marteinn Lúther heyrði þegar hann las pistil dagsins, sem er í höndum þér í ljósriti. Alls staðar kallar Guð – alls staðar er Guð – hjá þér, í þér, í fólki og í veröldinni. Viðbragð Samúels var að segja “Tala þú....þjónn þinn heyrir.” Sakkeus hoppaði niður út tré og hentist heim til að opna hús sitt í fyrsta sinn fyrir lífinu.
Misheyrn, mistúlkun lífsins varðar afstöðu þína gagnvart eðli lífsins, þinni eigin þrá og hvernig þú túlkar Guð. Guð hættir ekki að vera til og kalla þótt þú viljir ekki heyra kallið. Guð heldur áfram að höfða til þín þótt þú viljir ekki trúa þínum eigin eyrum, viðurkennir ekki þrá hjartans og túlkir allt rangt og ruglað. Guð er þér nærri og bíður rólegur eftir að þú plöggir.
Já, þegar þú tengir er viðbragðið: “Tala þú, ég reyni að heyra, ég vil gjarnan vera vinur þinn. Þú greiðir úr lífinu, þú ert miðja og Mark lífsins.” Amen
Prédikun í Neskirkju 16. janúar 2010, 2. sunnudag eftir þrettánda.