Og ég mun ganga meðal yðar og vera Guð yðar, og þér skuluð vera mín þjóð. 3M 26.12
Kæru vinir og systkin í Kristi, Gleðilegan þjóðhátíðardag.
Fyrir skemmstu var sýnd í Ríkissjónvarpinu heimildamynd eftir unga kvikmyndagerðarkonu frá Nýfundnalandi, Lisu Moore, þar sem hún fjallar um íslenskt samfélag í þeim tilgangi að varpa ljósi á sitt eigið samfélag.
Nýfundnaland á margt skylt með Íslandi, bæði landfræðilega og félagslega. Bæði löndin eru eyjur í norður-Atlantshafi, veðurbarin og að mestu einangruð fram til nútímans. Fólkið í báðum samfélögum er, að hennar sögn, jafn hrjóstrugt og landið; drykkfellt, ákaft og sjálfstætt. Einnig á menning beggja fornar rætur. Við Íslendingar eigum Íslendingasögur og forn kvæði en íbúar Nýfundnalands djúpar sagna-, kvæða- og sönghefðir.
Þar með líkur þó samanburðinum, að sögn Moore, og fyrir rúmum sextíu árum, þegar þessar tvær þjóðir stóðu nánast í sömu sporum, nýlendur sem glímdu við sára fátækt, fóru þær hvor sína leiðina. Árið 1944 tók Ísland lokaskrefið í langri baráttu fyrir sjálfstæði frá Dönum og til varð Lýðveldið Ísland. Fimm árum síðar gekk Nýfundnaland í sambandsveldi Kanada og gaf þar með eftir hugmyndina um sjálfstæði. Í dag líta smáþjóðir heimsins til þeirrar miklu velsældar sem hér ríkir og erlend viðskiptarit keppast um að birta greinar um frumkvöðlaanda og útrásarhug Íslendinga. Á Nýfundnalandi er á hinn bóginn atvinnuleysi það mikið að ungt fólk flýr landið í leit að betri lífskjörum annarstaðar og einungis 2/3 hlutar íbúa þess teljast læsir.
Lisa Moore telur þennan mikla mun skýrast af sjálfsstæði okkar Íslendinga og talar fyrir því vaxandi minnihlutaviðhorfi á Nýfundnalandi að eyjan eigi að öðlast sjálfstæði frá Kanada. Niðurstaðar hennar er sú að frelsi til athafna og sjálfstæði þjóðar eru forsenda velmegunar.
Söguskýring Moore er sennilega einföldun en það er staðreynd að sjálfstæði okkar hefur þjónað þjóð vorri mun betur en þeim nágrannaþjóðum sem haldið hafa tengslum við gömlu konungsveldin. Á sama tíma og Evrópa er að verða að þéttriðnu þjóðaneti má víða heyra þrá eftir sjálfstæði líkt og nýafstaðnar kosningar í Skotlandi bera vott um en skoski þjóðarflokkurinn (SNP) er í fyrsta sinn orðinn stærsti stjórmálaflokkur þar í landi.
Þá sömu þrá bárum við Íslendingar í brjósti í sjálfstæðisbaráttunni og þegar leitað var eftir áliti þjóðarinnar árið 1944 var vilji hennar einróma tjáður. 99,5% þeirra kosningarbæru Íslendinga sem greiddu atkvæði vildu sambandsslit frá danska konungsveldinu.
,,Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“
Guðspjall dagsins er tekið úr fjallræðunni svokölluðu, ræðusafni í upphafi Matteusarguðspjalls, og tilheyrir jafnframt elsta kjarna ummælahefðar Jesú frá Nasaret. Í þessum kröftugu orðum er fólgið það loforð að trú er aldrei stunduð til ónýtis. Sá sem í einlægni biður, honum mun gefast, sá sem leggur af stað í það ferðaleg að leita æðri sannleika mun öðlast innsýn í hvernig lifa má frómu lífi og sá sem knýr á inngöngu í samfélag við lifandi Guð mun reyna gæsku Hans.
Í beinu framhaldi af þessu ákalli til iðkunnar bæna og sannleiksleitar dregur Jesús upp mynd af því nána og kærleiksríka sambandi sem þar liggur að baki.
,,…hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?“
Af mikilli mælskulist dregur Jesús upp fáránleika þess að faðir, jafvel slæmur faðir, mæti ekki þörfum barna sinna. Sá atburður að foreldri beri baneitrað skriðdýr á borð fyrir barn sitt er það biður um mat, er í huga Jesú jafn fjarstæðukennt og að Guð heyri ekki bænir okkar. Líkt og faðir leggur sig fram um að brauðfæða börn sín, þannig starfar Guð til þess að seðja og metta, jafnt líkamlegar sem sálrænar þarfir þeirra sem hans leita.
Myndin af Guði sem foreldri er ein sú algengasta í Biblíunni og í henni felst sú játning að við erum af Guði komin, sköpuð í hans mynd. Við erum elskuð af Honum og eigum hlutdeild í því sem er Guðs.
,,Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, … Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér ekki.” segir í spádómsbók Jesaja.(Jes 42.15)
Að lokum dregur Jesús saman alla trúarhefð hins gyðinglega átrúnaðar, lögmálið og spámennina, í þá setningu sem kölluð hefur verið Gullna reglan:
,,Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.”
Af ást er sprottinn vilji Guðs til að mæta þörfum, og af því að þiggja og meðtaka elsku Hans kviknar löngun hins trúaða til starfa í kærleika fyrir náungann.
Sjálfstæðisþrá okkar Íslendinga er á sama hátt sprottin af ást til lands og þjóðar og ættjarðarsöngvar fjalla með biblíulegu myndmáli um eyju vora sem föðurland og tungu vora sem móðurmál. Af þeim eru við fædd, alin og fóstruð.
Frjálsum manni er mikil ábyrgð sýnd og það á einnig við um þjóðir, en í frelsi til athafna felst máttur sem einungis verður með því sama frelsi fundinn. Andi þeirra sem fyrst settust hér að og vildu losna undan skattþunga og höftum, hefur á ný fundið sér farveg í frjálsu og sjálfstæðu Lýðveldi Íslendinga.
Frelsi til athafna er hornsteinn þeirrar velmegunar sem hér ríkir og vakið hefur aðdáun erlendra fjölmiðla. Það er ábyrgð okkar og arfleifð sem kristin Kirkja að standa vörð um það frelsi. Frelsi undan lögmáli til náðar og kærleika Guðs í Jesú Kristi. Frelsi til góðra verka í þjónustu við náungann
Sjálfstæði Íslendinga er bón sem var gefin og leit sem bar árangur. Þjóðin knúði dyra einum rómi og hliðinu var lokið upp til frelsis.
Um leið og ég óska ykkur gleði og friðar á þjóðhátíðardaginn vil ég gera bæn Hannesar Hafsteins að minni. Okkar fyrsti ráðherra, sem á svo margan hátt lagði grunninn að þeim draumi sem varð að veruleika 17. Júní 1944, orti þessa innilegu ástarjátningu til Íslands aðeins 18 ára gamall:
„Ef verð ég að manni, og veiti það sá, sem vald hefur tíða og þjóða, að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá, þótt lítið ég hafi að bjóða, þá legg ég, að föngum, mitt líf við þitt mál, hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál.“
Fáa hefði grunað af hversu miklum heilindum sá merki maður ætti eftir að starfa í þágu sjálfstæðisbaráttunnar og lifa eftir þessum orðum sínum.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.