Eina leiðin til áhrifa

Eina leiðin til áhrifa

Það býr viska í náttúrunni, ævaforn lögmál sem eru stærri en við. Og þegar við brjótum þau verðum við landfólta í veröldinni. En við Íslendingar önsum engu svona. Við ræðum bara ný viðskiptatækifæri í þeirri staðreynd að íshella norðurskautsins er að hverfa með hækkandi meðalhita á jarðkúlunni og hækkandi sjávarmáli sem taka mun land frá milljónum, valda tíðari fellibyljum og matarskorti og auka líkur á styrjöldum. Við hlustum ekki.

Nútímasálarfræði hefur leitt í ljós að það er ekki hægt að kenna með refsingum. Ef barnið þitt stelur í búð þá getur þú refsað því þannig að það dragi úr líkindum þess að það steli aftur. En það er sama hversu mjög þú refsar barninu þínu, það lærir ekki að bera virðingu fyrir eigum annarra með þeirri aðferð. Refsing getur hindrað tiltekna hegðun, líkt og rafmagnsgirðing hindrar búfénað í að ganga í burtu, en hún getur ekki mótað æskilega hegðun.

Sumir hafa sagt að Biblían sé bara eins og besti reifari, því fyrsta morðið, sagan af Kain og Abel sem við heyrðum flutta hér áðan, kemur strax á fjórðu síðu. En ástæðan er ekki sú að hér sé verið að skemmta spennuþyrstum lesendum, heldur er það eðli ritningarinnar að hún kemur beint að efninu. Biblían og trúin á Guð fjallar um það hvernig við eigum að lifa og hvernig við eigum að skilja okkur sjálf. Sagan af Kain og Abel er sístæð saga, hún er allaf að gerast um allan heim í samskiptum fólks. Öfundin tekst á við elskuna, eigingirnin glímir við umhyggjuna, og sektarkennd og ásökun vegast á við sáttina og trúnaðinn. Abel vegnaði betur, og er það tjáð með orðunum “Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurútur. Þá mælti Drottinn til Kains: “Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? Er því ekki þannig farið: Ef þú gjöri rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, ef ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefur hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?” (1.Mós. 5-7) Og þarna stendur Kain frammi fyrir því sem við öll verðum að horfast í augu við í lífinu: Það getur enginn lifað þínu lífi í þinn stað! Það getur enginn spilað úr þínum spilum, staðið í þínum sporum, nema þú. Við vitum ekkert hvað það var sem gerði það að verkum að líf Kains var skakkt. Við vitum bara að í stað þess að horfa á sitt eigið líf og lifa því, þá horfði hann á líf bróður síns til þess að bera sig saman við hann.

Það var sagt um fólk í tilteknu þorpi úti á landi: “Þau kunna ekki að lifa, en þau kunna að herma.” Þar var heimóttahátturinn orðinn slíkur að enginn lifði sínu lífi, allir horfðu á alla og reyndu að vera flottari en hinn. Líf í samanburði, það er ekki líf. Og Guð talar við Kain og hvetur hann til að horfa á sitt eigið líf. “Ef þú gerir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur.”

En Kain valdi ekki að rétta úr sér, heldur hélt hann áfram að horfa út undan sér á Abel bróður sinn og öfundin náði taki á sál hans. “Göngum út á akurinn!” Sagði Kain við Abel. ‘Förum inn á þitt yfirráðasvæði, þar sem þú ert öruggur.’ Var hann að segja. Því Abel var jarðyrkjumaður. “Og er þeir voru á akrinum,” segir orðrétt, “réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: ‘Hvar er Abel bróðir þinn?’ en hann mælit: ‘Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?’

Hvar er bróðri þinn? Spyr Guð. Hvar er bróðir þinn? Spyr samviskan í hjarta þínu og mínu. Og við höldum í sífellu áfram að spyrja í forundran og þrjósku: Á ég að gæta bróður míns? Þetta er grundvallar spurning, sem Biblían er að svara, vegna þess að hún liggur hverri vitiborinni sál á hjarta. ‘Á ég að gæta bróður míns?’ Kemur fólk mér yfir höfuð við, og hvers vegna þá?

“Og Drottinn sagði: ‘Hvað hefur þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni!’ Heyr! Hlustaðu með mér segir Guð við þig og mig. Hlustiði með mér, segir hann við okkur morðingjana. Hlustiði á blóð allra þeirra sem dáið hafa vegna þess að þið lifið í græðgi og öfund. Hlustiði á blóð allra þeirra sem þjást og deyja vegna þess að ykkur tekst ekki að móta friðsama menningu heldur lifiði í sátt við græðgina og byggið sjálft hagkerfi ykkar á lögmáli framboðs og eftirspurnar en hugið ekki að réttlætinu, miskunnseminni og trúfestinni. Hlustið á blóð allra þeirra sem þjást og deyja vegna þess að hagkerfi ykkar er svo háð vopnaframleiðslu að stríð eru óhjákvæmileg til að snúa hjólum viðskiptalífsins og t.d. jarðsprengjur sem taka fæturna undan saklausu fólki eru framleiddar í Bandaríkjunum, Ítalíu, Rússlandi og víðar. “Skaltu nú vera bölvaður og burt rekinn” sagði Guð við Kain. “Skaltu nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi. Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni.” (v. 11-12.) Félagslegt rótleysi og gæftaleysi náttúrunnar, er hlutskipti syndugs mannskyns. Sjálf náttúran lokar dyrum sínum fyrir okkur þegar við umgöngumst lífið af vanvirðu. Það býr viska í náttúrunni, ævaforn lögmál sem eru stærri en við. Og þegar við brjótum þau verðum við landfólta í veröldinni. En við Íslendingar önsum engu svona. Við ræðum bara ný viðskiptatækifæri í þeirri staðreynd að íshella norðurskautsins er að hverfa með hækkandi meðalhita á jarðkúlunni og hækkandi sjávarmáli sem taka mun land frá milljónum, valda tíðari fellibyljum og matarskorti og auka líkur á styrjöldum. Við hlustum ekki.

“Og Kain sagði við Drottin: ‘Sekt mín er meiri en svo að ég fái borið hana! Sjá, nú rekur þú mig burt af akrurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig.’ Þá sagði Drottinn við hann: ‘Fyrir því skal hver sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu.’ Og Drottinn setti Kain merki þess að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann. Þá gekk Kain frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden.” (v. 13-16)

Í kaflanum á undan sendir Guð Adam og Evu út úr aldingarðinum og rétt áður en dyrnar skella í lás að baki þeim stendur: “Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim.” (3.20) Hér er sonur þeirra að hrökklast í sömu sporum og foreldrarnir, og þá er skráð: “Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann.” Hvers vegna? Vegna þess að það er vissulega hægt að hindra tiltekna hegðun með refsingum, en rétt hegðun verður ekki kennd með þeim hætti. Hér er tjáð sú vitneskja að mannlífið, okkar sundurbrotna líf, er dýrmætt í augum Guðs. Hann horfir á sekar manneskjur með ástúð og von. “Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann.” Samt var hann morðingi, bróðurmorðingi.

Í Guðspjalli dagsins birtist Kain okkur að nýju, í fágaðri búningi. Nú er hann orðinn lögfræðingur! Það var lögvitringur sem sté fram vildi freista Jesú og mælti: “Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?” Það er tekið fram að spurning hans var ekki borin upp af einlægni, heldur til þess að reyna Jesú, og reyna sjálfan sig í augum þeirra sem á hlýddu. Hér stóð þessi maður, eins og við stöndum iðulega í okkar lífi, og var ekki að gera neitt annað en að bera sig saman við umhverfið. Hann var ekki að tala um eigið líf, ekki að lifa eigin lífi, heldur var hann að spegla sig í annarra augum eins og Kain allra alda gerir. Og hann kunni m.a.s. Biblíufræðin sín: “Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.” Þessi orð komu eins og romsa yfir gráðugar varir lögvitringsins. Sannleikur Guðs orðs var orðinn að formúlu í hausnum á þessum löglærða Kain, en hjarta hans var óbreytt. Jesús vissi það. Og vegna þess að í samskiptum við Jesú Krist kemur sannleikur hjartans alltaf í ljós, þá endaði með því að þessi nýji Kain spurði: “Hver er náungi minn?” Hann vissi tæknilega séð að við verðum og eigum að gæta bróður okkar, en það var eitthvað innra með honum sem alls ekki þoldi þessa vitneskju. Og til þess að teygja lopann og gera einfaldar staðreyndir að afstæðum kenningum eins og títt er að gera, þá spurði hann: “Hver er náungi minn?” Á bak við þetta fagmannlega útspil lögspekingsins var þó bara sama gamla spurningin, sama gamla þrjóskan: “Á ég að gæta bróður míns?”

Með sögunni um miskunnsama samverjann snýr Jesús spurningu lögvitringsins við. Í stað þess að segja honum það sem augljóst er og hann vissi vel, að allir menn eru náungar okkar, að við erum öll bræður og systur og við eigum að gæta hvert að öðru, - í stað þess að segja það, þá biður hann viðmælanda sinn eins og Guð bað Kain á sínum tíma að taka nú augun eitt andartak af öðru fólki og skoða sitt eigið líf.

Við munum að það voru presturinn og levítinn sem gengu framhjá en það var Samverjinn sem hjálpaði manninum í sögunni. Og Jesús spyr einfaldrar spurningar “’Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?’ Hann mælti: ‘ Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.’ Jesús sagði þá við hann: ‘Far þú og gjör slíkt hið sama.’” Í stað þess að svara spurningu lögvitringsins þá spyr Jesús hann eins og Guð spyr þig og mig og Kain allra alda: “Reynist þú náungi samferðarmönnum þínum?”

Í stað þess að spyrja að lögum og viðurlögum, skyldu og refsingu, þá spyr Guð að fordæmi okkar. Eina leiðin til að breyta hegðun, hafa áhrif á samferðamenn sína, hafa áhrif á mannkynssöguna, er að gefa fordæmi.

Amen

1.Mós. 4.3-16a 1.Jóh. 4.7-11 Lúk. 10.23-37