Gestrisnin: Hin æðsta dyggð

Gestrisnin: Hin æðsta dyggð

Reglum gestrisninnar hefur verið lýst sem því sviði þar sem trúarhugsun Miðausturlanda kemur til framkvæmda gagnvart manninum sem kærleikur, ekki aðeins gagnvart þeim sem tilheyra sama ættbálki eða fjölskyldu heldur gagnvart hverjum þeim sem kveður dyra. Gestrisnin er þannig í raun birtingarmynd hins sanna guðsótta, sem er í grunninn traust á lífsstyrkjandi mátt góðs guðs, sem endurspeglast í gestrisninni.
Mynd

Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við undirbúning þessarar prédikunar setti ég leitarorðið „gestrisni“ inn í netleitarvél í tölvunni minni. Meðal þess sem leitin skilaði var grein á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um starfsþjálfunarefni, sem hugsað er fyrir starfsfólk í framlínu í ferðaþjónustu á Íslandi og ber yfirskriftina „Þjálfun í gestrisni“. Það sem höfundar telja að feli í sér „galdurinn í gestrisni“, eins og það er kallað, er áhersla á persónulega hæfniþætti eins og samkennd og skynjun á líðan annarra og tilgangurinn er að tryggja ánægju og vellíðan gestanna sem komnir eru um langan veg og gera hótelið eða gistihúsið að tímabundnum dvalarstað sínum. Gestrisnin, sem höfundar þjálfunarefnisins hafa í huga, felur meira í sér en einvörðungu þjónustulund. Þjónn getur tamið sér óaðfinnanlega en fullkomlega vélræna þjónustulund án þess að hafa í raun nokkurn áhuga á líðan eða tilfinningum viðskiptavinarins. Gestrisni hótel- eða gistihússstarfsmannsins felur hins vegar í sér að sýna gestinum sem persónu áhuga, hvaðan hann kemur og hvert hann er að fara, felst í því að láta hann finna að hann sé velkominn.

Hugtakið „gestrisni“  lýsir í upprunasamhengi sínu fyrst og fremst viðmóti heimilismanna gagnvart gestkomandi og viðurgjörningnum sem þeim er veittur. Þegar notkun sambærilegra orða í ensku og þýsku eru skoðuð kemur hins vegar í ljós að sama orð hefur verið notað um aldir í rótgrónum borgarsamfélögum um viðmót gistihúsaeigenda til gesta sinna; það hefur sem sé verið yfirfært af sviði heimilisins yfir á svið gististarfseminnar og sýnir þannig í hnotskurn að gistihúsið þjónar í þessu tilliti hlutverki sem húsráðendur á hverju heimili gerðu áður: að taka á móti gestum og veita þeim viðurgjörning þeim til styrkingar og jafnvel hýsa þá.

Nákvæmlega þessu hlutverki húsráðenda í hinu forna samfélagi, sem Abraham og Sara, forfaðir og formóðir Ísraels, tilheyrðu, er lýst í 18. kafla 1. Mósebókar, hvers byrjunarvers voru lesin í lexíu dagsins.

Sagan lýsir mikilvægustu dyggð síns tíma: gestrisninni. Reglum gestrisninnar hefur verið lýst sem því sviði þar sem trúarhugsun Miðausturlanda kemur til framkvæmda gagnvart manninum sem kærleikur, ekki aðeins gagnvart þeim sem tilheyra sama ættbálki eða fjölskyldu heldur gagnvart hverjum þeim sem kveður dyra. Gestrisnin er þannig í raun birtingarmynd hins sanna guðsótta, sem er í grunninn traust á lífsstyrkjandi mátt góðs guðs, sem endurspeglast í gestrisninni.

Sagan af Abraham og mönnunum þremur tilheyrir ævafornri sagnahefð. Fjöldamargar hliðstæður hennar má t.d. finna í grískum og rómverskum goðsögum þar sem guðir eða guðlegar verur af einhverju tagi reyna fólk, hvort það sé guðlaust eða guðhrætt, ranglátt eða réttlátt, með því að láta reyna á gestrisni þess. Í einni slíkri birtast Seifur, Póseidon og Hermes skyndilega og fá góðar móttökur og viðurgjörning hjá hinum barnlausa Hyríeusi, án þess að hann viti hverjum hann er að þjóna, og launa honum gestrisnina með því að 10 mánuðum seinna fæðist honum sonur.

Hið sama er upp á teningnum í lexíunni: Drottinn er að prófa hvort og þá hversu dyggðugur Abraham sé. Og í stuttu máli, þá glansar hann á prófinu:

Hann auðsýnir hinum ókunnu ferðalöngum dýpstu virðingu þegar hann hleypur til móts við þá og kastar sér á hnén og beygir sig í duftið. Hann forðast að tala um sjálfan sig í 1. persónu en talar frekar um sig sem „þjón“ aðkomumannanna. Og með því að vera fyrri til og leggja fast að ferðalöngunum að þiggja hressingu forðar hann þeim frá þeim pínlegu aðstæðum að þurfa að biðja um hana.

Því, sem fylgir á eftir í samhenginu en er ekki í lexíunni, er einnig ætlað að undirstrika hve yfirmáta gestrisinn Abraham er: Hann býður þeim „smá brauðbita“ til að hressa sig en setur allt heimilið á hvolf til þess að bera fram hina mestu veislu: nýbakaðar kökur, nýslátraðan kálf, áfir og mjólk. Og hver kannast ekki við þann sið íslenskra húsmæðra – margir af eigin reynslu – að standa hjá á meðan gestirnir mötuðust: „Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust.“ (18.8).

Skemmst er frá því að segja að gestrisni Abrahams borgar sig því hinir ókunnugu menn gefa honum það fyrirheit, að Sara eiginkona hans muni eignast son að ári liðnu þótt öldruð sé.

Lexían þjóni þeim tilgangi að sýna fram á fyrirmyndar-guðhræðslu Abrahams sem er enda launuð með fyrirheitinu um fæðingu Ísaks. Á sama tíma undirstrikar sagan mikilvægi náungakærleikans í augum Guðs, náungakærleikans sem kemur best í ljós í gestrisninni í samfélögum þar sem ferðalög við fjandsamlegar náttúrulegar aðstæður geta verið lífsógnandi og slík gestrisni er enn í dag einkennandi fyrir bedúínasamfélög Miðausturlanda sem og önnur hefðarsamfélög sem af hroka hins vestræna sjónarhóls eru talin „frumstæð“.


Nú er kórónuveiran víðast hvar á undanhaldi í nágrannalöndum okkar og vonir standa til að komur ferðamanna til landsins aukist verulega, bágbornum efnahagnum til styrkingar. Þá verður þörf á því að rifja upp starfsþjálfunarnámskeiðið í gestrisni svo hinir erlendu gestir upplifi sig velkomna og vilji helst koma aftur.

En það eru aðrir erlendir gestir hér á landi sem upplifa sig ekki eins velkomna.

Síðustu daga hafa fjölmiðlar verið undirlagðir af fréttum af hópi níu palestínskra hælisleitenda sem Útlendingastofnun svipti húsnæði og fæðisgreiðslum í liðinni viku á grundvelli þess að þeir neituðu að fara í Kóvíd-próf þegar senda átti þá úr landi til Grikklands með vísun til ákvæða hinnar mjög svo umdeildu Dyflinnarreglugerðar sem heimila stjórnvöldum að senda hælisleitendur aftur til þess Schengen-ríkis sem þeir komu fyrst til á þeim grundvelli að stjórnvöld í því landi eigi að fjalla um umsókn þeirra um hæli. Afleiðingin er sú að mennirnir eru allslausir á vergangi en með því að grípa til þess örþrifaráð að neita að fara í Kóvíd-prófið velja hinir palestínsku hælisleitendur  hinn skárri af tveimur afarkostum: að vera frekar á götunni í Reykjavík en í Grikklandi.

Heimild íslenskra stjórnvalda til að senda hælisleitendur aftur á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins er skýr en það sama gildir um þá staðreynd að geta Grikkja til þess að taka við og sinna flóttamönnum hefur fyrir löngu náð þolmörkum sínum eða eins og fulltrúi Rauða krossins benti á: að flóttamannakerfið þar sé löngu sprungið og því nauðsynlegt að aðstoða Grikki í þeirri stöðu sem þeir séu í nú. Aðstoðin sem Grikkir þarfnast hlýtur að vera sú að aðrar þjóðir Evrópu veiti fleira flóttafólki hæli og hætti að senda það aftur til Grikklands og skáka í skjóli Dyflinnarsamstarfsins, sem – vel að merkja – veitir stjórnvöldum Schengen-ríkja ákveðna heimild en bindur engan veginn hendur þeirra varðandi stefnumótun eða framkvæmd hvers ríkis fyrir sig í málefnum flóttamanna.

Á héraðsfundi Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, sem haldinn var sl. miðvikudag, var samþykkt ályktun um málefni hælisleitenda.  Þar segir m.a. að fundurinn fordæmi þá ákvörðun Útlendingastofnunar að setja hælisleitendum, sem vísa á úr landi og neita að fara í PCR próf, þá afarkosti að neita þeim um húsaskjól og fæðispeninga. Það sé verulega ámælisvert að íslensk stjórnvöld neyti aflsmunar og geri fólk vísvitandi að útigangsfólki í samfélagi sem vill hafa kristin gildi og mannréttindi að leiðarljósi.  Eins sé það óásættanlegt að fólk skuli vera sent aftur í aðstæður í Grikklandi sem eru á engan hátt öruggar, eins og margar alþjóðlegar skýrslur vitni um, og að eina val fólks sé í raun í hvaða landi það vilji vera á vergangi. Tilvitnun lýkur.

Til þess að gæta sanngirni ber að halda því til haga að það fólk, sem starfar við afgreiðslu umsókna um hæli og framkvæmd úrskurða, er svo sannarlega ekki öfundsvert því ljóst má vera að forsendur kerfisins eru meingallaðar. Það staðfesti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í stefnuræðu sinni 16. september sl. þar sem hún boðaði afnám Dyflinnarreglugerðarinnar og stofnun nýs samevrópsks kerfis fyrir flóttamenn og hælisleitendur. Með ályktun sinni er héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra hins vegar ekki að hlutast til um afgreiðslu Útlendingastofnunar á einstökum málum á hennar borði heldur að gagnrýna framkvæmd sem felur í sér ómannúðlega og lítilsvirðandi meðferð á fólki sem í neyð sinni hefur leitað á náðir okkar Íslendinga. Sú leið, sem Útlendingastofnun valdi að fara í þessu máli, er í raun birtingarmynd á vanmætti og úrræðaleysi kerfisins gagnvart því risavaxna og vandasama verkefni sem straumur flóttamanna frá Afríku og Miðausturlöndum er.

Andspænis flóttamannavandanum fær hugtakið „gestrisni“ aðra vídd en hversdagsleg merking þess felur í sér – en þó er þar ekki um nýja vídd að ræða því það að vera útlendingur sem þarf að leita hælis í framandi samfélagi, er ekkert nýtt. Það endurspeglast ekki síst í grundvallarsögu Gamla testamentisins, dvöl Ísraels í Egyptalandi, sem byrjar sem hælisleit fólks á flótta undan hungursneyð. Það, að veita útlendingi skjól og koma fram við hann eins og væri hann innfæddur, er ein af grundvallarkröfum réttlætisins í Móselögum og er rökstudd með tilvísun í dvöl Ísraels í Egyptalandi en endurspeglar jafnframt kröfu trúarinnar um framkvæmd náungakærleikans í formi gestrisninnar – gestrisni sem Guð gæfi að við sem samfélag værum eins áfram um að auðsýna þeim sem til okkar koma allslaus og þeim sem hingað koma með úttroðnar pyngjur.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.