Guðspjall: Matt. 11. 1-11 Lexia: Pistill:
Á sunnudagsmorgni vaknar heimilisfaðir einn upp með andfælum við það að vekjaraklukkan glymur í eyrum hans. Hann teygir sig í hana og þeytir henni út í horn. En klukkugarmurinn heldur áfram að hringja látlaust úti í horni í annarlegum tón. Tær heimilisföðurins leita þá loks út á gólf og rata inn í baðherbergi þar sem andremman hverfur í Colgate tannkremi. Kaffiilmurinn fyllir vitin ásamt lyktinni af brenndu brauði. Augu hans nema húsmóðurina þar sem hún er úti í garði að taka veðurbarinn þvottinn af snúrunum. Gamlar veðraðar klemmur í regnbogans litum bærast sem fyrr fyrir vindi á snúrunum. Nær gefur að líta upplitaðan barnavagn á þröngum svölunum. Í fjarska má greina frystihúsið og kirkjuna með sínum háu turnum. Barnið á heimilinu horfir vonaraugum á Tinna í sjónvarpinu og Kolbeinn kapteinn lætur sér blótsyrði um munn fara eins og honum er einum lagið. Þeir feðgar setja utan á sig spjarirnar og knúsa örlitla stund í stofusófanum. Móðirin kemur inn með þvottinn og brýtur hann snyrtilega saman. Fjölskyldan sest að morgunverðarborðinu, neytir staðgóðs morgunverðar og spjallar saman um stund. Að því loknu vaskar maðurinn upp og gengur frá leirtauinu upp í skáp. Brátt berst ómur kirkjuklukknanna fjölskyldunni til eyrna og kallar hana til fjölskylduguðsþjónustu í kirkjunni.
Heimilisfaðirinn fór ekki á sjó þennan morgun heldur til kirkju ásamt eiginkonu sinni, fiskverkakonunni og barninu þeirra sem vildi ekki fara til kirkju nema hafa meðferðis sunnudagaskólapokann með lituðu verkefnablöðunum. Sem þau halda fótgangandi til hinnar háreistu kirkju í hverfinu þeirra þá verður konunni hugsað til kirkjunnar í upphæðum. Ósjálfrátt leitar á hana ljóð sem hún hafði lesið eftir Matthías Jóhannessen þar sem hann segir:
Í þínu nafni eru byggðar kirkjur með fjallháum turnum.
Við erum kirkjur án turna, án ljóss.
En þú hefur komið og kveikt ljós í musterum þínum,
þú hefur sagt: Verði ljós,
en þú hefur aldrei sagt: Verði háir turnar.
Á göngunni verður sjómanninum hugsað til sundurþykkjunnar og óheiðarleikans sem virðist ríkja meðal lærðra sem leikra innan kirkjunnar. Þar virðist hver höndin vera uppi á móti annarri og fáir friðflytjendur. Og ég sem hef bundið svo miklar vonir við kirkjuna og boðskap hennar, hugsar hann með sér. Skyldi presturinn í kirkjunni vera fagnaðarerindið holdi klætt? Skyldi hann vera hendur og fætur Krists eins og hann gefur sig út fyrir að vera? Sem hann er í þessum hugleiðingum þá kemur til hans lifandi orð úr hinni helgu bók þar sem Jóhannes skírari sendir lærisveina sína með orð til Jesú Krists og spyrja: "Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?". Hví ekki að leggja þessa spurningu fyrir prestana í kirkjunni, hugsaði hann með sér. Barnið staðnæmist ásamt foreldrum sínum fyrir framan risastóra kirkjuhurðina og virðir hana fyrir sér með tilhlökkun í brjósti vegna þess að það veit að fyrir innan þessar dyr stendur Jesús sjálfur í fullum skrúða. Saman ganga þau og leiðast hönd í hönd inn um kirkjudyrnar og vonast eftir því að fá andlega næringu, kraft og styrk til þess að þau eigi síðan hægara með að uppfylla sinn almenna prestsdóm í daglega lífinu, hvort fyrir sig og saman sem fjölskylda. Kristur svarar ekki spurningu lærisveina Jóhannesar öðru vísi en með því að benda á það hvernig spádómar Gamla testamentisins hafi ræst í orðum sínum og verkum: "Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi". Það má líkja þessum orðum Krists við það þegar eyðimörk breytist í alblómgaðan reit þar sem unaðslegur blómailmur fyllir loftið og dýrð Drottins er við það að koma í ljós. Lærisveinar Jóhannesar báru honum þessi skilaboð. Ég vona að hann hafi skilið þau. Ég vona að við skiljum þau sem sitjum þessa prestastefnu vegna þess að ég er hræddur um að við líkjumst Jóhannesi skírara að því leyti að hann var að missa trúna á Krist. Tíminn í fangelsinu hefur eflaust verið Jóhannesi þungbær. Maður sem hefur geisað um óbyggðirnar og lifað óheftu lífi á erfitt með að hírast bak við lás og slá. Hann bíður og er ekkert yfir sig bjartsýnn yfir því sem koma skal. Hann er á krossgötum, efast um það sem hann hefur gert og aðrir eru að gera, jafnvel Kristur sjálfur. Viðbrögð Jóhannesar eru þannig holl til skilnings fyrir trúarlífið. Trú fæstra er stöðug eins og lokaður bankareikningur. Hún er frekar eins og verðbréf, á sínar hæðir og lægðir. Við getum öll fallið og flækst burtu eins og Jóhannes var að gera í fangelsinu. Og ætli svar Jesú bíði okkar ekki einhvers staðar á göngu okkar inn í nýja öld þar sem kirkjan stendur á krossgötum, ég og þú. Sem kristnir einstaklingar, lærðir sem leikir þá sækjum við reglulega kirkju og tökum virkan þátt í umfangsmiklu starfi kirkjunnar af miklum eldmóði og áhuga. Við byggjum kirkjur í upphæðum og klifrum upp metorðastigann innan kirkjunnar hægt og bítandi í því skyni að skapa okkur sjálfum minnisvarða sem við teljum okkur sjálfum trú um að mölur og ryð eyðir ekki. Erum við svo upptekin við þetta basl og puð að við erum hætt að heyra hvað raddirnar úti í þjóðfélaginu, sjómaðurinn og fiskverkakonan eru raunverulega að segja? Fólkið í landinu spyr gjarnan: Hvað segir kirkjan um málefni líðandi stundar? Fólkið væntir breytinga í þjóðfélaginu og vonast til þess að kirkjunni auðnist að koma skikkan á sín innri mál og takist síðan í auknum mæli að koma sígildum boðskap sínum á framfæri í málefnalegri umræðu samtíðarinnar. Ella mun það missa trúna á kirkjuna í enn ríkari mæli. Drottinn Jesús Kristur hefur falið okkur lærðum sem leikum að breyta eyðimörkinni í alblómgaðan reit með hjálp Guðs sem vöxtinn gefur. Það getur vel verið að kirkjurnar okkar fyllist stöku sinnum, en ríkir réttlæti í þjóðfélaginu? Við ástundum reglubundið og fallegt helgihald en hefur sú ástundun og ákvörðun til lífstíðar gefið af sér að blindir hafa fengið sjón, lamaðir hafa gengið, eða dauðir risið upp? Hefur okkur auðnast að vera fagnaðarerindið mitt á meðal fátækra í þessu landi? Hefur þér tekist það? Erum við reiðubúin að staldra við á vegferð okkar inn í nýja öld og leggja við hlustirnar eftir svari Krists, meðtaka það í huga og hjarta og stefna eftir því í tímans straumi? Til þess þarf firringin, óheilindin og aðskilnaðar meðal lærðra sem leikra að minnka en fyrirgefning, lækning og líf að glæðast á meðal okkar. E. Kihlgren orti:
Hvað hefur Kristur kennt mér? Auðmýkt til að flytja frið á jörðu. Kærleika til að vera glaður og góður. Skilning til þess fyrst að gagnrýna sjálfan mig- en skilja síðan aðra. Trú til þess að gera lífið þess vert að lifa því.
Friður Guðs sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.