Kyrrðarstund í Grensáskirkjuu 30.6.20
Verið velkomin á kyrrðarstund í Grensáskirkju.
Í dag ætlum við að æfa okkur í núvitund. Að vera í vitund um núið heitir á ensku mind-ful-ness sem merkir ekki að vera með hugann fullan af allskyns hugsunum heldur að vera árvökul, sýna umhyggju og aðgát, aðgát skal höfð í nærveru sálar. Árvekni er einmitt orð sem hefur verið notað á íslensku yfir mindfulness, sem og gjörhygli.
Á kínversku eru notuð tvö tákn: Annað merkir nærveru, vitund, að vera til staðar. Hitt er táknið fyrir hjarta. Hjartavitund er kannski gott orð. Kyrrðarbænafrömuðurinn Thomas Keating talar um vakandi huga, vökult hjarta sem lýsir líka vel því sem gerist í núvitundariðkun. Við erum í til staðar í hjarta okkar, vakandi í nærveru Guðs, hér og nú, og um leið í nærveru við okkur sjálf og allt sem lifir.
Við segjum saman orðin sem við höfum vanið okkur á að nota á núvitundarstundunum hér í Grensáskirkju og minnum okkur þannig á að Guð er hér til að mæta okkur – og við erum hér, eitt í vitund Guðs:
Ég er - Ég er hér
Ég er - Ég er hér
Ég er - Ég er hér
Í Efesusbréfinu, sjötta kafla, versi 18 segir:
Gerið [allt] með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum.
Gerið [allt] með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum.
Og nú erum við hér, sitjum hér með báða fætur á jörðinni og höfuð reist til himins. Við finnum jarðsamband með fótunum og himnasamband með höfðinu. Svo veitum við andardrættinum athygli, hvernig loftið kemur inn um næsavængina, fylgjum því eftir alveg niður í kvið og sömu leið til baka. Við bara drögum andann eins og okkur er tamt, án þess að breyta, án þess að dæma. Í hvert sinn sem hugur okkar fyllist af öðru en vakandi vitund beinum við athyglinni mjúklega að andardrættinum á nýjan leik.
Nú skönnum við líkamann, könnum lífið og vitundina sem flæðir innra með okkur. Að þessu sinni byrjum við á höfðinu, veitum athygli öllum skynjunum þar, í hnakka, hvirfli, enni, augum og kinnum. Kannski finnum við hita eða kulda, náladofa, spennu eða eitthvað annað. Eða ekki neitt. Það er allt í lagi.
Svo færum við athyglina neðar, niður hálsinn, að brjóstinu, alveg niður í kvið. Kannski er þar spenna, óróleiki eða eitthvað annað. Ef til vill finnum við tilfinningar sem hafa tekið sér bústað í hálsinum, brjóstinu, maganum. Það kann að vera kvíði, sorg eða eftirvænting. Við bara finnum þær og leyfum þeim að vera. Við það að sýna tilfinningum okkar athygli og leyfa því að vera sem er dregur oft úr spennunni innra með okkur. Við drögum andann meðvitað nokkrum sinnum og könnum hvort eitthvað breytist.
Þá færum við athyglina niður í vinstri hönd, finnum tilfinninguna í lófanum vinstra megin. Sama gerum við hægra megin, finnum tilfinninguna í lófanum hægra megin. Þetta getur verið gott að gera ef við eigum erfitt með svefn, bara beina athyglinni blíðlega til dæmis í vinstri lófa og fylgjast svo með andardrættinum á ferð hans um líkamann.
Og svo endum við með því að finna það sem er að finna í vinstri fæti, il og rist og svo hægri fæti, il og rist.
Ég er hér, Guð, og þú ert hér til að mæta mér.
Við drögum andann meðvitað og gefum okkur tóm í kyrrðinni til að anda að okkur orðum Páls um að vera árvökul í bæn:
Gerið [allt] með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum.
Verum árvökul og stöðug í bæn.
Góðar stundir.