Það er ekki laust við að það sæki að manni minnimáttarkennd og óöryggi við lestur spekiorðanna sem eru höfð eftir móður Lemúels konungs og Biblían geymir í Orðskviðunum. Hvaða kona nær að uppfylla þessi glæsiviðmið sem þarna eru tínd til og eru sögð einkenna hina góðu konu?!? Hún er, undir öllum kringumstæðum, fullkomin í fjölskyldulífi og viðskiptum, frábær kokkur, örlát, undirbúin, fögur, sterk, vitur, dugleg, árrisul, útsjónarsöm og ástúðleg. Já, það er víst að við flestar myndum fölna í samanburði við þessa ofurkonu - jafnvel á okkar bestu dögum - haldið þið það ekki?
Það er reyndar áhugavert að virða fyrir sér uppruna þessa glæsilista. Hann er nefnilega runninn undan rifjum móður sem leggur syni sínum lífsreglurnar:
"Orð Lemúels konungs í Massa, sem móðir hans kenndi honum" - er yfirskriftin. Manni kemur óneitanlega í hug myndin af mömmunni sem finnst innst inni að ENGIN stúlka sé nógu góð fyrir drenginn hennar og reynir af öllum mætti að gera son sinn svo kröfuharðann að það verði vonlaust fyrir hann að finna sér kvonfang sem er honum verðugt.
Þessi velmeinandi - en stjórnsama - móðir, veit sem er, að konur muni dragast að syni hennar sem er í þeirri stöðu að vera ríkur og voldugur. Þess vegna varar hún hann við - vertu ekkert að gefa þessum stelpum of mikið af þér, þær dreifa bara athyglinni þinni frá því sem máli skiptir. Engin af þeim kemst heldur með tærnar þar sem mamma hefur hælana.
Já, kæru systur í Kristi. Við ætlum að íhuga mömmurnar í Biblíunni í dag. Það er nóg um mömmur í Biblíunni og þær eru margbrotnar og magnaðar. Þær eru ólíkar - alveg eins og mömmurnar sem við þekkjum úr okkar eigin lífi. Mömmurnar í Biblíunni finna sig oftar en ekki í flóknum aðstæðum - og orð þeirra og gerðir virðast stundum óskiljanleg og ógeðfelld í augum okkar sem fylgjumst með úr fjarlægð. Eins og aðrar persónur sem við lesum um í Biblíunni eru mömmurnar þar farvegur fyrir vilja Guðs, þær eru verkfæri kærleika hans til manneskjunnar og þannig séð fyrirmyndir okkar.
Sálfræðin bendir okkur á að við komumst aldrei frá okkar eigin mömmu þegar við leggjum mat á aðrar mömmur - og í raun á allt annað líka! Frumtengslin og ægivaldið sem mamman hefur í lífi barnsins er eitthvað sem mótar manneskjuna allt hennar líf.
Það er magnað að vera mamma. Mig langar að deila með ykkur reynslunni minni af þessu hlutverki og verða svolítið persónuleg. Ég er rík kona þegar kemur að móðurhlutverki - raunar vellauðug!Hópurinn okkar er stór og litríkur - á fleiri en einn hátt. Ég veit að það er ekki sjálfsagt ríkidæmi að eiga börn og hef verið í þeim sporum sjálf að velta því fyrir mér hvort það ætti fyrir mér að liggja að verða aldrei móðir. Það sýnir kannski vel að Guð hefur húmor - eins og ein góð vinkona mín myndi segja - að í dag á konan sem var með þá sjálfsmynd að eignast ekki börn - 6 börn! Kjörbörn, stjúpbörn og líffræðileg börn, 6 einstaklinga sem vaxa upp undir mínum verndarvæng og þiggja mömmuleiðsögn og mömmuvernd úr minni hendi.
Sjónvarpskonan geðþekka, Eva María Jónsdóttir, er einmitt í viðtali í Fréttablaðinu um helgina og orðaði vel reynsluna að vera móðir og stjúpmóðir með stóran barnahóp. Hún lætur mörg falleg orð falla um fjölskylduna sína og börnin öll, sem bera henni fagurt vitni sem móður.
Stundum tölum við eins og samsettar fjölskyldur með börnum úr mörgum samböndum sé nýtt fyrirbæri. En það er öðru nær - eins og fjölskyldusögurnar í Biblíunni sýna okkur. Þar finnast eiginlega allar fjölskyldutýpur sem við getum ímyndað okkur. Ein er um Jakob, ættföðurinn í Gamla testamentinu - þessi sem glímdi við Guð - sem átti 12 syni, tvær eiginkonur og fleiri barnsmæður.
Ástarsagan um Jakob, Leu og Rakel er á við bestu sápuóperufantasíu, þar sem örlög, ástir, losti, afbrýði, svik, hamingja, sigrar og ósigrar leika stórt hlutverk. Sagan sú hefst á því að Jakob hrífst af Rakel og verður ástfanginn af henni. Hann gerir samning við föður hennar, Laban, um að fá hönd hennar að launum ef hann ynni hjá honum í sjö ár. Við munum að þetta fór ekki alveg eins og Jakob hafði planað - því eftir brúðkaupið kom í ljós að það var ekki Rakel sem hann hafði játast heldur eldri systir hennar, Lea. Sjö ár enn þurfti Jakob því að vinna fyrir tengdaföður sinn til að eignast hana sem hann ann.
Lea og Rakel verða því báðar eiginkonur Jakobs og vilja ala honum börn. Það gengur vel hjá Leu, sem eignast fjóra syni en verr hjá Rakel. Því grípur hún til ráða að leiða fram þernu sína, sem verður nokkurskonar staðgöngumóðir og elur Jakobi tvo syni í Rakelar stað. Lea grípur til sama ráðs og eignast enn tvo syni með hjálp sinnar þernu. Að lokum eignast Rakel sína eigin syni.
Það er síðan allur þessi strákahópur sem við hittum fyrir í sögunni um Jósef og bræður hans, saga sem kennir okkur allt sem við þurfum að vita um systkinaafbrýðisemi og meðvirkni í fjölskyldum.
Sérfræðingar í Gamla testamentinu hafa bent á að móðirin í Gamla testamentinu sé kona með áhrif og vald. Hún stjórnar lífinu heima við og í sumum tilfellum ná áhrif hennar víðar. Hún tekur sér rými hvort sem er félagslega, pólitískt eða trúarlega. Þessi staða tengist hlutverki hennar sem eiginkonu en miklu frekar því mikilvæga hlutverki sem hún hefur gagnvart börnum sínum, sem hún nærir og kemur til þroska. Það er þetta móðurhlutverk sem gefur henni statusinn - sem í samfélagi Gamla testamentisins er mun áhrifameira en að vera bara eiginkona, dóttir eða systir.
Lítum á nokkrar magnaðar mömmur í Biblíunni í viðbót. Hugurinn leitar til Evu - frummóðurinnar sem margar byrðar eru lagðar á í frásögum 1. Mósebókar. Sagan um Evu - eins og sköpunarsagan öll - er skýringartexti í söguformi. Hlutir eins og þjáning við barnsburð eru útskýrðir sem afleiðing fallsins úr Paradís. Dauði, erfiðleikar og þjáning sem hver manneskja mætir er rakið til óhlýðni mannsins og konunnar sem Drottinn setti í aldingarðinn. Sem móðir mætti Eva þeirri þungu sorg að þurfa að kveðja sitt eigið barn - sem var afleiðing bræðravígsins og fyrsta morðsins þegar Kain drap Abel.
Rebekka er önnur mögnuð mamma - sem leyfði sér opinskátt að gera upp á milli sona sinna, Jakobs og Esaú. Þeir voru tvíburar en þar sem Esaú fæddist á undan, féllu öll réttindi elsta sonar í hans hlut. Ísak, pabbinn, hélt upp á eldri drenginn, sem var svona íþróttatýpa og duglegur að vera úti - á meðan Rebekka hélt upp á Jakob. Svo langt gekk hún í að halda fram eftirlætisdrengnum sínum að hún lagði upp plan til að blekkja Ísak gamla í að veita Jakobi blessun í stað Esaú. Þarna lét hún kappið hlaupa með sig í gönur enda hafði þessi blekking miklar afleiðingar í för með sér.
Kíkjum líka á Batsebu sem var móðir Salómóns konungs. Batseba var konan sem Davíð konungur sló eign sinni á, sökum þess hve falleg honum þótti hún, og sendi eiginmann hennar í fremstu víglínu þar sem honum var bráður bani vís. Þetta þótti sérlega lúalegt af konunginum og spámaður Drottins lét hann alveg heyra það. En úr þessu vafasama sambandi kom erfingi sem átti eftir að vera sérlega farsæll og elskaður leiðtogi, sjálfur, Salómon.
Ein magnaðasta mamman í Gamla testamentinu var móðir Móse, Arons og Miriam. Hún fæddi soninn Móse og bjargaði lífi hans með því að leggja hann í körfu sem flaut, þannig að engin önnur en dóttir Faraós - sem hafði fyrirskipað að öllum sveinbörnum Hebrea yrði fargað - fann barnið og ættleiddi það. Einhverja aðstoð þurfti hún og þá kom hin klóka systir því til leiðar að móðir þeirra var sú sem annaðist litla drenginn. Magnað!
Við getum ekki fjallað um mömmur í Biblíunni án þess að minnast á mömmurnar í Nýja testamentinu, Maríu og Elísabetu. Önnur var alltof ung - hin of gömul. Og það voru kannski ekki nein meðal börn sem þær eignuðust - frændurnir Jesús og Jóhannes voru spámenn, leiðtogar og hlutu sömu örlög - að vera teknir af lífi af yfirvöldum sem þoldu ekki boðun og starf þeirra.
Nú höfum við rifjað upp sögur af nokkrum mömmum úr Biblíunni. En fleiri mömmur hafa haft áhrif og verið farvegur fyrir verk Guðs í heiminum. Flestar eru þær nafnlausar og verk þeirra ekki hlotið mikla athygli. Munum eftir mömmunum sem komu með börnin til Jesú að hann blessaði þau. Þær eru fyrirmynd og hvatning í hvert sinn þegar barn er skírt og guðspjallið um Jesú og börnin er lesið.
Munum líka eftir mömmunum í Betlehem sem grétu og syrgðu þegar börnin þeirra voru myrt að undirlagi Heródesar konungs sem í sjúklegu varnarbragði reyndi að koma í veg fyrir að nýr konungur yxi úr grasi.
Já, það er gleði og sorg sem tengist mömmunum í Biblíunni eins og mömmum enn þann dag í dag. Þessar tilfinningar koma til af þeim sterku tengslum sem mamman á við afkvæmi sitt. Það eru tengslin sem skapa tilfinningarnar. Tilfinningarnar spretta af tengslum og öllu því sem við látum í þau tengsl.
Þannig er móðurhlutverkið vitnisburður um hvernig Guð nálgast manneskjuna. Sköpunarkraftur og umönnunarhlutverk móðurinnar gerir hana að fremsta samverkamanni Guðs í sköpun og lífgjöf. Mömmusögurnar í lífinu eru sögur um kærleika Guðs. Samverjinn sem guðspjall dagsins fjallar um á degi kærleiksþjónustunnar, hagar sér í raun eins og allar mömmur myndu gera, og gera á hverjum degi. Þær láta eigin þægindi og jafnvel öryggi víkja til að geta þjónað og hjálpað barninu sem er í þörf fyrir umönnun og aðstoð.
Við lítum á miskunnsama Samverjann sem helstu fyrirmynd í þjónustu við náungann. Nú skulum við líka líta til þess krafts sem við sækjum í tengsl okkar við þau sem standa okkur næst og þiggja þjónustu okkar á hverjum degi. Sá kraftur sprettur upp úr tengslunum sem við sem trúaðar konur eigum við Guð.
Við erum sendar héðan út í haustið til að vera sterkar og skapandi, til að elska, þjóna, byggja upp. Til þess að vera mömmur í heiminum.
Orð Lemúels konungs í Massa sem móðir hans kenndi honum: Hvað á ég að segja þér, sonur minn, sonur kviðar míns, sonur áheita minna? Gefðu konum ekki kraft þinn, þrek þitt þeim sem táldraga konunga. Ekki sæmir það konungum, Lemúel, ekki sæmir það konungum að drekka vín eða höfðingjum áfengur drykkur. Þeir kynnu að drekka og gleyma lögunum og ganga á rétt hinna fátæku. Gefið áfengan drykk hinum lánlausa og vín þeim sem er beiskur í lund. Drekki þeir og gleymi fátækt sinni og minnist ekki framar mæðu sinnar. Ljúktu upp munni þínum fyrir hinn mállausa, fyrir málstað allra lánleysingja. Ljúktu upp munni þínum, dæmdu af réttvísi, réttu hlut hinna voluðu og snauðu. Dugmikla konu, hver hlýtur hana? Hún er miklu dýrmætari en perlur. Hjarta manns hennar treystir henni og ekki er lát á hagsæld hans. Hún gerir honum gott og ekkert illt alla ævidaga sína. Hún sér um ull og hör og vinnur fúslega með höndum sínum. Hún er eins og kaupförin, sækir björgina langt að. Hún fer á fætur fyrir dögun, skammtar heimilisfólki sínu og segir þernum sínum fyrir verkum. Fái hún augastað á akri kaupir hún hann og af eigin rammleik býr hún sér víngarð. Hún gyrðir lendar sínar krafti og tekur sterklega til armleggjunum. Hún finnur að starf hennar er ábatasamt, á lampa hennar slokknar ekki um nætur. Hún réttir út hendurnar eftir rokknum og fingur hennar grípa snælduna. Hún er örlát við bágstadda og réttir fram hendurnar móti snauðum. Ekki óttast hún um heimilisfólk sitt þótt snjói því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati. Hún býr sér til ábreiður, klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura. Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum þegar hann situr með öldungum landsins. Hún býr til línkyrtla og selur þá og kaupmanninum fær hún belti. Kraftur og tign er klæðnaður hennar og hún fagnar komandi degi. Mál hennar er þrungið speki og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar. Hún vakir yfir því sem fram fer á heimili hennar og etur ekki letinnar brauð. Börn hennar segja hana sæla, maður hennar hrósar henni: „Margar konur hafa sýnt dugnað en þú tekur þeim öllum fram.“ Yndisþokkinn er svikull og fegurðin hverful en sú kona sem óttast Drottin á hrós skilið. Hún njóti ávaxta handa sinna og verk hennar skulu vegsama hana í borgarhliðunum. Ok 31