Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugasanir yðar í Kristi Jesú. Amen.
Þetta er falleg kveðja sem Páll, postuli, sendi samferðafólki sínu í einu bréfa sinna. Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Fjalla jólin okkar ekki einmitt um þetta? Von um frið.
Er sá friður ofar jarðneskum skilningi okkar?
Margt er jarðneskum skilningi ofvaxið, en þessi hátíð er sérstök, umvafin andblæ sem verður tæpast lýst með orðum, en fyllir hugarþel hlýju, mildi, ró. Það er friður sem við skiljum með hjartanu.
Tilefni hátíðar á jólum er sagan úr Biblíunni um fæðingu Jesús Krists. Engin saga hefur oftar verið sögð og engin saga hefur valdið jafn miklu. Hún virðist svo einföld og falleg, en samt finnst mörgum hún vera ofar jarðneskum skilningi. Nokkrir keppast um að afneita sögunni og fara mikinn í fjölmiðlum, en halda samt jól með hátíðarbrag og gefa ekkert eftir í að hafa ytri umgjörð sem glæsilegasta. Skólafólkið veit tæpast í hvorn fótinn á að stíga á aðventu vegna skilaboða stjórnvalda um aðskilnað trúar og skóla, en tekur svo af skarið víðast hvar í skólum landsins fyrir jól og leyfir helgri sögu að ljóma þar líka með margvíslegum hætti, í söngvum, fallegum táknum og samtali um söguna sjálfa.
Mér er svo minnisstæt frá bernsku minni úr barnaskólanum hvernig jólaguðspjallið mótaði skólastarfið á aðventunni með hapunkti í litlu jólunum. Allan minn barnaskóla hófst hver einasti skóladagur með Faðir vor og höfum við skólasystkinin oft rætt það síðar hversu fallega og þakkláta minningu við eigum um það.
En er það einlægur vilji þjóðarinnar núna að bannað verði að hafa nokkuð fyrir börnum opinberlega sem minnir á kristindóminn? Hvað verður þá um þjóðsönginn og þjóðfánann, dagatalið og jólin? Við eigum það kannski framundan að mega bara hvísla Heims um ból heima innandyra og hvergi á opinberum vettvangi.
Er það þannig samfélag sem þjóðin vill búa sjálfri sér með því að banna það sem reynst hefur best og þráir að auðga mannlíf af ást og friði?
Já, víst er allt breytingum undirorpið í nútímanum í allar áttir. Fátt er eins og það var. Lífshættir nútímans væru fólkinu framandi sem háði lífsbaráttuna fyrir ekki meira en 100 árum. Sömuleiðis myndum við tæpast komast af, ef við ættum að þreyja lífið við þær aðstæður sem þá ríktu. Þessar byltingarkenndu breytingar á lífsaðstæðum á svo stuttum tíma eru í raun jarðneskum skilningi ofvaxnar. Tækniundrin öll sem eru kraftaverkum líkust, og engann gat órað fyrir á öldum fyrr að ættu eftir að móta daglegt líf. Bílar og flugvélar, raforkan og kjarnorkan, símar og tölvur, afskaplega saklaus og einföld orð, og svo sjálfsagðir hlutir, en hvíla samt á flókinni tækni vísindanna, sem aðeins er á færi fárra að skilja til hlítar.
Við látum okkur það í léttu rúmi liggja á meðan við getum treyst og byggt lífshætti okkar á notagildinu og allt virki vel, enda var Ipaddinn uppseldur á Íslandi nú fyrir jólin og 1500 manns á biðlista um að kaupa skv. fréttum. Hvernig í ósköpum geta heilar og margar myndir flogið samtímis um himinhvolfin á augabragði og orðið veruleiki á skjám í höndum milljóna manna. Reyndu að sannfæra 19. aldar mann um það?
En mitt í þessari þróun byltinga á lífsháttum, þá koma jólin enn og aftur með söguna sína frá Betlehem og lætur engann ósnortinn. Og með sinn krefjandi boðskap, að undan verður ekki vikist. Þessi hjarfólgna saga um Guð og mann, svo ólik öllu sem við eigum að venjast, og okkur þykir svo vænt um, að við höldum hátíð stærri og meiri þessari sögu til heiðurs og virðingar.
Og þrátt fyrir, að á öllum tímum hefur flest í mannlegu valdi einhvers staðar á jörðunni verið reynt til þess að afmá þessa sögu og útrýma Guði úr vitund lífs og siða og fátt hefur verið sparað í þeim efnum, ekki einu sinni hið dauðans vald eins og Jesús Kristur reyndi sjálfur á krossi sínum. Um það vitnar mannkynsagan. Það er ekkert nýtt við það, að efast sé um sannleiksgildi guðspjalls jóla eða að stjórnvöld gefi í skyn með valdboði sínu, að kristin trú sé fólki hættuleg, sérstaklega börnum í skólanum.
Eigi að síður ómar sagan um fæðingu frelsarans enn um heimsbyggðina og ekki af síðri mætti en fyrrum.
Er það ofvaxið skilningi okkar? Eða hrærir þessi saga við tilfinningum sem við viljum af hjartans einlægni varðveita, saga sem tjáir boðskap sem við viljum ekki án vera, þrátt fyrir allt? Að lífið er stærra og mera undur en svo, að tæknin og mannisns máttarverk með öllum sínum tilþrifum fái að uppfylla þær þarfir sem hjartað þráir. Og þá skiptir máli hverju get get ég treyst.
Fjárhirðarnir á Betlehemsvöllum treystu englunum og fóru samstundis að leita að frelsara fæddum, sem er Kristur Drottinn. Þeir treystu fagnaðarboðskapnum: Dýrð sé Guð í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.
Hvað þráir mannlífið mest? Hverju getur upplýstur nútímamaður treyst? Hefur lífsháttabyltingum og veraldarhyggju tekist að skapa frið á jörð? Útrýma hungri og fátækt. Uppræta deilur og átök, græðgi og hatur. Duga fullar hendur fjár til þess að tryggja hamingju og farsæld?
Heilög vonin sem bærist í einlægu hjarta er fagurt mannlíf, ræktin við ást og frið. Hafa lífsháttabyltinar uppfyllt allar hugsjónir okkar um það?
Guðspjall jóla kemur bókstaflega eins og himnasending inn í þessar aðstæður, svo innilega tímabær og róttæk ábending um þessi efirsóknarverðu gæði um ást og frið, sem er svo freistandi og auðvelt að sjást yfir í hraða og spennu hins daglega lífs.
Jólin gefa næði, stundarbil, og allt breytir um svip, umhverfið tekur stakkaskiptum í ytri búningi sínum þar sem einmitt fegurðin og ljómi dýrðar er í forgangi. Skilaboðin verða skír: Að kærleikur umvefji lífið allt.
Já, við fáum næði, það slaknar á hinu hefbundna áreiti, það gefst næði til að horfa sér nær, til ástvina sinna. Rækta samfélagið með fólkinu sem er okkur kærast. Þannig snýst borðahaldið á aðfangadagskvöld ekki aðeins um rjúpur, lambakjöt eða svínasteik, þó allt sé það gott, heldur um samfélagið við borðið. Njóta næðis og friðar, finna hvað er dýrmætast í lífinu og reyna að þetta er heilög stund, og dýrð Drottins ljómar allt um kring. Hátíð, sem geymir tilefni til að gera þetta, og sameinar þjóð í boðskap um ást og frið, er sannarlega máttug. Og ofar jarðneskum skilningi í ljósi tíðaranda daglegs lífs, þegar nær er skoðað. Og þetta tilefni er: Yður er í dag freslari fæddur.
Íslensk jól staðfesta það í fótsporum fjárhirðanna sem fóru á vettvang til að sannreyna boðskap englanna og allt var það eins og þeim var sagt. Það er einmitt þessi reynsla af jólunum sem fólkið í landinu á af jólahátíðinni sinni, ár eftir ár, af persónulegri reynsu eins og fjárhirðarnir reyndu.
Þess vegna er þráin eftir heilögum jólum svo einlæg í huga og hjarta, þrá sem segir af hjartans innstu rótum. Guð gefi þér gleðileg jól. Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu vor og hugsanir vorar í Kristi. Í hans nafni Amen.