Ljórar

Ljórar

Hverjir eru ljórar lífsins? Hvar og hvaðan skín ljósið í brjóstkirkju þinni? Textar dagsins fjalla um brigsl Adams og Evu en í 1. Mósebók er saga þeirra sögð sem er um leið saga okkar allra.

Hverjir eru ljórar lífsins? Hvar og hvaðan skín ljósið í brjóstkirkju þinni? Textar dagsins fjalla um brigsl Adams og Evu en í 1. Mósebók er saga þeirra sögð sem er um leið saga okkar allra. Páll talar um miklar andstæður í pistlinum í mögnuðum og ægifögrum texta og svo er það guðspjallið um freistingar Jesú í óbyggðum. Hvar eru óbyggðirnar, eyðimörkin í lífi okkar? Hver freistar okkar? Getur hið illa jafnvel komist inn í sjálfa brjóstkirkjuna? Um þetta og margt fleira er rætt í prédikuninn sem hægt er að lesa á vefsíðu höfundar. Þar er líka hægt að hlusta á ræðuna. Smelltu hér til að halda áfram.

Eitt sinn var hér fermingarstúlka í heimsókn frá öðrum söfnuði. Hún var með bók sem hún átti að skrifa í eitthvað um kirkjuheimsóknina. Þegar hún tók í hönd mér eftir messuna bað hún mig að staðfesta að hún hefði verið í kirkju sem ég gerði með gleði með því að setja bæði stimpil Neskirkju og undirskrift mína í bókina svo hún gæti sýnt það prestinum sínum. Ég las ekki það sem hún skrifaði, nema fyrirsögnina, sem ég komst ekki hjá að sjá. Þar stóð ritað:

„Neskirkja – engir gluggar . . . “

Og þið lítið upp og horfið í kringum ykkur!

„Engir gluggar? spurði ég undrandi. En reyndi svo að segja henni, án þess að hún tæki það nærri sér, að í kirkjunni eru 41 gluggi.

Já, það eru 41 gluggi í kirkjuskipinu, 40 litlir gluggar á hliðarveggjum kirkjuskipsins, 20 hvorum megin og svo einn stór gluggi sem reyndar er með 42 rúðum ef grannt er skoðað. Samt er hægt að upplifa þetta hús sem gluggalaust!

En hvað merkja þessir gluggar? Ég veit ekki hvað arkitektinum, Ágústi Pálssyni, gekk til, en ég gef mér að 2×20 gluggar eða 40 samtals vísi til áranna 40 sem Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni og daganna sem Jesú var freistað.

Neskirkja er hönnuð utan um ljós eða út frá ljósi. Þegar við göngum inn og komum að kirkjuskipinu [innskot á hjóðupptöku]þá er gluggi að baki okkur sem lýsir okkur fram á veginn. Reyndar taldi ég þann glugga ekki með því hann er ekki í kirkjuskipinu sjálfu. En ef hann er talinn með þá eru gluggarnir 42, eins og rúðurnar í stóra glugganum!

„Já, sæææll“, mundi „snillingurinn“ á Næturvaktinni, segja.

Ljórarnir 40 varpa ljósi inn á veginn sem liggur til fjallsins, til borgarinnar á fjallinu, til Jerúsalem, til altarisins, þar sem stóri glugginn varpar inn birtu sinni og lýsir allt upp. [Innskot á hljóðupptöku] Ljósið fylgir okkur og leiðir. Á veginum lærum við visku hvort sem tírurnar eru litlar eða ljósið skært. „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ (8.12)

Hann var í óbyggðum, í eyðimörk, hann var leiddur þangað af andanum, af heilögum anda. Merkilegt hvernig guðspjallið byrjar. Andinn leiddi hann!

Hann var einn í óbyggðum og engar hjálparsveitir á leiðinn til að finna hann og bjarga honum og þaðan af síður þyrlur. Hann var einn í óbyggðum, í eyðimörk. Hvar eru eyðimerkur okkar? „Yfir kaldan eyðisand“, syngjum við í ljóði Kristjáns Jónssonar, Fjallaskálds og í ljóði Gríms Thomsen, Á Sprengisandi, erum við minnt ógnir óbyggða og hálendisins. Landið getur verið hættulegt og það kann að freista okkar til margs eins og dæmin og slysin sanna.

Í íslensku hómilíubókinn frá 12. öld (hómilía merkir hugvekja eða prédikun) er talað um „brjóstkirkjur órar“ (ég rakst á þessa tilvitnun í bókinni hans Óskars Guðmundssonar um Snorra Sturluson: brjóstkirkjur órar) í einni bæn og vísað með þeim orðum til helgidóma hjartnanna, kirknanna í brjóstum okkar. Já, í brjósti okkar er helgidómur, rými sem helgað er Guði, brjóstkirkja. Fallegt orð. Stundum er þar hátíð og söngur en svo getur líka verið þar dauðans þögn og auðn, svartir sandar og „[Í] jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.“ Hvað eru margir ljórar í brjóstkirkjunni þinni? Kemst ljósið þangað inn?

Freistingar.

Fastan er gengin í garð og við íhugum freistingar. Orðið freisting í guðspjallinu merkir að reyna, prófa, leggja fyrir prófraun. Við erum stöðugt í prófum þótt skólanám sé að baki hjá okkur flestum. Lífið er skóli og þar eru tekin próf alla daga, allar stundir, á hverju andartaki. Hugsun okkar er stöðugt að glíma við afstöðuna til lögmálsins, til Boðorðanna 10, sem draga lögmálið saman í 10 greinar. Við erum alltaf í prófi. Sagan af Adam og Evu í Paradís er saga okkar. Sagt hefur verið um hana að hún er saga sem aldrei gerðist sem slík en er alltaf að gerast. Við bregðumst eins og þau og við kennum öðrum um það sem við gerðum rangt. Þannig er eðli okkar eftir syndafallið. En illskan í heiminum er ekki Guði að kenna. Heimurinn er góður í upphaf, heill og góður af hendi Guðs. „Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mós 1.31).

[Innskot á hljóðupptöku].

En – og það er stórt EN – heimurinn er fallinn! Biblían lýsir fallinu m.a. með sögunni af Adam og Evu sem gerðu það sem þau máttu ekki og svo er líka vísað til þess að engill Guðs hafi gert uppreisn og viljað vera jafn Guði. Hvernig sem þetta gerðist skiptir ekki öllu en eitt er víst, hið illa er staðreynd, hið illa freistar og tælir nú sem fyrr. Í eyðimörk hjartans verðum við fyrir freistingum eins og Frelsarinn. Við bregðumst en aldrei hann. Okkar er freistað hvern dag, hverja stund.

Íslands er líka freistað.

Staða íslensku þjóðarinnar er staða fallinnar þjóðar. Illur andi náði tökum á þjóð okkar og leiddi hana í ógöngur, í eyðimörk. Hið illa var þar að verki, hið djöfullega. Sagan af Adam og Evu er saga Íslensku þjóðarinnar. Hún er rekin út í eyðimörkina. Í guðspjallinu er hinn illi persónugerður og hann hefur nafn, diabolos á grísku, djöfull á íslensku. Hann er til og kænska hans rís hæst þegar hann fær fólk til að trúa því að hann sé ekki til. Þar rís kænska hans hæst. Hann er persónugerður. Við upplifum hið illa innra með okkur, í persónu okkar. Djöflinum er gefin sjálfstæð tilvera ekki vegna þess að hann sé til utan okkar heldur vegna þess að við upplifum hann stærri en okkur sjálf (William Sloane Coffin, Vol 2 s.363).

Freistingar eru við hvert fótmál hjá öllum mönnum, ungum sem öldnum og hvar í heimi sem er, innan allra trúarbragða og menningarsvæða, meðal karla og kvenna, í hjörtum allra manna, meira að segja innst inni í brjóstkirkjunni sjálfri.

En við skulum ekki örvænta. Guð þekkir eðli okkar og veit að við erum breysk og vanmáttug þegar tilboð hins illa birtast svo fagurlegar á sálarskjánum. Já, „Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd“, segir Páll á einum stað (2. Kor 11.14b). Ljósengisynd. Hann er svo slóttugur og snjalla og villir á sér heimildir. Páll vissi hvað hann söng. Hann lýsir því í pistli dagsins að hann sjálfur, þessi sterki boðberi fagnaðarerindisins, varð að þola mikið harðræði. Hann var laminn og barinn, hrakinn og húðstrýktur. Hann vissi að hann var misskilinn og stundum talinn villumaður og lygari. Hann lýsti lífi sínu með þessum orðum:

„Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þó ekki deyddur, hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.“

Þetta finnst mér algjör snilld hjá Páli. Ég er öreigi en á þó allt.

Við eigum allt í Guði. Hann er uppspretta alls hins góða og hann er miskunnsamur og fullur elsku. Við erum börnin hans. Gleymum því ekki. Okkur kanna að þykja lífið eyðilegt á vissum stundum og við yfirgefin og ein á hjara veraldar. En við erum aldrei ein því ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs í Kristi (Rm 8). Ekkert!

En nú kannt þú að hugsa og segja í hjarta þínu: En nú líður mér stundum þannig að mér finnst ég vera einn og yfirgefinn, ein og yfirgefin. Hvað er þá til ráða? Lúther lagði áherslu á að við látum ekki stjórnast af tilfinningum og hinu ytra. Við eigum að láta stjórnast frekar af því sem er áþreifanlegt, skjalfest. Við eigum Orðið, Biblíuna, þar sem fyrirheit Guðs eru skráð, loforð hans um nærveru og hjálp. Biblían flytur okkur fyrirheit Guðs, loforð hans á prenti.

Hann er með okkur. Treystum því. Lesum Orðið og lærum utan bókar vers sem styrkja okkur í andstreymi daganna. [Innskot á hljóðupptöku] Jesús gerði það. Hann sagði við djöfulinn: „Ritað er.“ Hann vitnaði í Biblíuna og kunni hana. En mundu að djöfullinn kann hana líka utanbókar. Hann vitnaði í það minnsta í hana þegar hann freistaði Jesú og sagt er frá í texta dagsins. Lærum okkar lexíu og látum styrkjast af Orðinu sjálfu.

Við lifum í heimi þar sem auðvelt er að hrasa og gera mistök en við eigum miskunnsaman Guð sem elskar okkur og hefur sjálfur lifað hér á jörð, lifað heilu lífi meðal syndugra og breyskra manna. Hann þekkir eðli okkar og veit að við viljum innst inni standa okkur. Leyfum ljósinu hans að skína inni í brjóstkirkjuna og leiða okkur um hinn rétta veg. Og munum að á vegferð okkar í glímunni við lífið, í prófum hversdagsins öðlumst við þroska og visku sem enginn getur öðlast sem ekkert reynir á sig eða ekkert er reynt á.

Engir gluggar?

Jú, gluggarnir eru margir í brjóstkirkjunni. Ljósið kemur víða að. Það lýsir til að mynda í orði Guðs, í bæninni, í altarisgöngunni, þegar við sækjum kirkju; ljósið lýsir líka í góðum vinum sem eiga góðan vilja, ljósið lýsir í elsku ástvina, í samferðafólkinu sem brosir og heilsar okkur. Ljórar lífsins eru margir. Tökum eftir þeim. Guð er við hvert fótmál. Hann fylgist með þér. Hann er vinur þinn og hann býr í vinum.

Finndu gluggana í lífi þínu – þeir eru að minnsta kosti 42 – og njóttu birtunnar sem þeir varpa á veg þinn og líf. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var upphafi, er og verður um aldir alda.

Amen.

- – -

Textaröð: A Lexía: 1Mós 3.1-19 (20-24) Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“ Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur. Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: Af því að þú gerðir þetta skaltu vera bölvaður meðal alls fénaðarins og meðal allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skaltu skríða og mold eta alla þína ævidaga. Ég set fjandskap milli þín og konunnar og milli þinna niðja og hennar niðja. Þeir skulu merja höfuð þitt og þú skalt höggva þá í hælinn. Við konuna sagði hann: Mikla mun ég gera þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér. Við Adam sagði hann: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.

Pistill: 2Kor 6.1-10 Sem samverkamaður Krists hvet ég ykkur einnig að þið látið ekki náð Guðs, sem þið hafið þegið, verða til einskis. Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðisdegi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti. Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs: Með miklu þolgæði í þrengingum, nauðum og andstreymi, þegar ég hef mátt þola barsmíðar, verið í fangelsi, orðið fyrir aðsúg, í erfiði mínu, andvökum og sulti, með grandvarleik, þekkingu, þolinmæði og mildi, með heilögum anda, með falslausum kærleika, með orði sannleikans, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar, í heiðri og vanheiðri, lasti og lofi. Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þó ekki deyddur, hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.

Guðspjall: Matt 4.1-11 Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“ Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“ Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.