Guðspjall: Matt. 22: 15-22 Lexia: Sálm. 102. 19-23, 26-29 Pistill: Fil. 3. 17-21
Ég átti í nýliðinni viku erindi við móður hér í bæ. Þegar ég hringdi dyrabjöllunni þá kom ungur drengur til dyra sem brosti breitt þegar hann sá mig. Ég kynnti mig ekki vegna þess að hann þekkti mig úr sunnudagaskólanum. Ég spurði hann hvort mamma hans væri heima. "Já", svaraði hann,"hún er niðri í kjallara að sauma jólagardínur. Ég skal ná í hana". Þegar drengurinn gekk niður kjallaratröppurnar þá heyrði ég hann segja stundarhátt við mömmu sína: "Mamma, Jesús er kominn og vill tala við þig". "Hvað ertu að segja barn?", heyrði ég móðurina segja. "Jesús er kominn og vill tala við þig", sagði drengurinn ákveðinn.
Er hann gekk til móður sinnar og færði henni þessi skilaboð þá hugsaði ég með mér: "Hvað er drengurinn að segja?", Ég hugsaði með mér að barnið vissi ekki hvað það væri að segja. Í sömu andrá færðist bros yfir andlit mitt og ég hugsaði með mér að ef einhver ætti Guðs ríki skilið þá væri það þessi fallegi ungi drengur. Því að hann skynjaði það sem er hulið sjónum okkar fullorðinna manna. Jesú Kristi sjálfum bregður nefnilega fyrir í fari samferðamanna okkar. En Jesús sagði að það sem við gerðum einum hans minnstu bræðra það gerðum við honum. Á sama tíma og ég fékk að skyggnast inn í dýrlega saklausan hugarheim barnssálarinnar í þessum litla dreng þá kom brot af frelsaranum í veg fyrir hann í mínu dagfari.
Sakleysi barnssálarinnar var ekki að finna í fari nokkurra farisea og heródesarsinna er komu til Jesú og spurðu hann spurningar eins og guðspjall þessa drottins dags greinir frá. Því að þeir þóttust ætla að spyrja hann spurningar.
Þeir komu til að spyrja hann mjög góðrar spurningar sem var: "Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?"(Matt.22:17) Í rauninni snertir þessir spurning málefni sem hefur stundum valdið kristnu fólki áhyggjum. Er rétt að borga t.d. óréttlátum stjórnvöldum skatta sem stunda arðræna og kúga þegna sína og virða engin mannréttindi?
Þessi spurning átti rétt á sér á tímum Jesú þegar Rómverjar voru að arðræna Gyðinga. Þessi spurning átti rétt á sér í Suður Afríku þar sem stjörnvöld kúguðu og sviku mikinn meirihluta íbúa landsins, áður en Nelson Mandela forseti Suður Afríku komst til valda. Kristnir íbúar landsins veltu þá fyrir sér hvort rétt væri að borga stjórnvöldum skatt og hjálpa þeim þannig óbeint að kúga meirihluta þjóðarinnar sem er þeldökkt fólk. Þessi spurning á einnig rétt á sér í dag í Frakklandi þar sem stjórnvöld standa fyrir kjarnorkutilraunum gegn vilja flestra heimsríkja sem ógna heimsfriði og stefna lífríkinu almennt í hættu. Þessi spurning á í rauninni rétt á sér hvarvetna þar sem manneskjunni, kórónu sköpunarverksins, er stefnt í voða.
Farísearnir komu ekki til Jesú til þess að fá svar við spurningu sinni. Þeir höfðu svarið meðferðis en það var smápeningur með mynd af höfði keisarans. Þeir spurðu Jesú þessarar spurningar í því skyni að gera almenning fráhverfan honum. Ef Jesú hefði sagt: "Nei, þið skuluð ekki borga", þá hefði Jesús verið handtekinn af rómverskum yfirvöldum, sakaður um að vilja gera uppreisn gegn þeim. Ef Jesús hefði sagt: "Já, þið skuluð borga", þá hefði hann verið handtekinn af sínu eigin fólki sakaður um að vera pólitískur samverkamaður Rómverja en þeir kúguðu gyðinga. Jesús hefði þá jafnframt glatað hylli almennings.
Þá langaði til þess að veiða hann í netið eins og þeir gerðu síðar þegar þeir hrópuðu í áheyrn Pontíusar Pílatusar: "Sakfelldu hann, krossfestu hann, hann sagði okkur að borga þér ekki skatt". Þá var Jesús borinn þeim sakargiftum að hafa ætlað að efna til uppreisnar gegn Rómverjum.
Farísearnir komu ekki til Jesú til þess að fá svar: Þeir höfðu ekki hlustað á hann til þessa: Þeir höfðu spurt hann: "Hvað eigum við að gera?" Jesús hafði svarað þeim: "Seljið allar eigur ykkar og gefið þær fátækum". Þetta fannst þeim fáránlegt svar og þeir gengu hlæjandi burtu.
Þeir komu ekki til Jesú til þess að fá svar við því hvernig þeir ættu að frelsa þá sem voru fátækir og kúgaðir. Þeir kúguðu sjálfir fátæka. Jesús ásakaði þá, faríseana og aðra trúarlega leiðtoga fyrir að fyrirlíta fátæka og niðurlægja og fyrir að leggja á þá byrðar sem þeir vildu ekki bera sjálfir og hagnast þannig á þeim.
Þess vegna sagði Jesús við þá: "Hví freistið þér mín hræsnarar. Ykkur stendur á sama um allt og alla. En ég mun gefa ykkur svar mitt. Sýnið mér peninginn sem goldinn er í skatt. Einn af faríseunum var nógu barnalegur til þess að sýna honum einn pening. Jesús tók peninginn og sýndi þeim myndina af keisaranum og spurði: "Hvers mynd og yfirskrfit er þetta? Fariseinn svaraði: "Þetta er höfuð keisarans". Jesús henti þá peningnum til baka og sagði: "Ef þetta er höfuð keisarans, gefið þá keisaranum það sem keisarans er", síðan bætti Jesús því við sem hann sjálfur vildi segja við þá á þessari stundu og sagði, "og gefið Guði það sem Guðs er", þ.e. gefið Guði það sem er skapað í Guðs mynd.
Við þetta svar opnaðist nýr heimur. Hvað er skapað í Guðs mynd? Hvar er áletraða Guðs mynd að finna?
Með fjandskap sínum og hræsni gagnvart Jesú þá neituðu farísearnir og heródesarsinnarnir að viðurkenna að þeir væru skapaðir í Guðs mynd. En Jesús vildi benda þeim og sínum lærisveinum á það að þar sem maðurinn væri skapaður í Guðs mynd þá væri ekkert til í þessu lífi sem kæmi Guði ekki við.
Hvað ætlast Guð til að við gefum honum?
Hvorki fagran helgidóm, hluti úr gulli eða silfri, né bænir eða fallegan raddaðan kórsöng. Guð vill fyrst og fremst sjá að okkur auðnist að gjöra vilja sinn. Þetta er sá skattur sem hann vill að við borgum til þess að við getum tilheyrt ríki hans hér á jörð. Við höfum ekki enn staðið full skil á þeim skatti.
Hvarvetna eru næg verkefni fyrir hendi. Við getum ekki unnt okkur hvíldar fyrr en við kristnir menn höfum t.d. mætt þörfum hungraðra barna um allan heim. Ég minni á jólsöfnun hjálparstofnunar kirkjunnar í þessu sambandi. Þar getum við lagt okkar skerf af mörkum til þess að fæða og klæða vannærð börn í vanþróuðum ríkjum.
Íslendingar hafa stundum verið sakaðir um að vilja ekki hleypa nógu mörgum flóttamönnum inn í landið. En nú bregður svo við að 25 bosnískir flóttamenn flytja á næstunni til Ísafjarðar í boði bæjarstjórnarinnar en þar eru fyrir hendi margar félagslegar íbúðir sem standa tómar. Hvað með okkur húsvíkinga? Erum við tilbúin að feta í fótspor bæjarstjórnar Ísafjarðar og bjóða flóttamönnum afnot af félagslegum íbúðum sem hér kunna að standa auðar? Þetta er áleitin spurning. Hvernig tökum við á móti aðkomufólki sem ekki á neinar rætur hér? Erum við tilbúin til þess að sjá lengra en nef okkar nær og framkvæma það sem Kristur fer fram á er hann segir: "Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra". Hvernig vildum við láta taka á móti okkur ef við værum flóttamenn í fjarlægu landi?
Ég veit ekki hvað verður um rúmensku flóttakonuna sem kom hingað til lands um daginn. Hún tilheyrir minnihlutahópi í Rúmeníu sem er ofsóttur. Hún er sem stendur í umsjá Rauða krossins. Hún er mjög þakklát fyrir það að búið er að veita henni hæli sem pólitískur flóttamaður. Við gætum tekið af skarið og boðið henni að koma hingað til Húsavíkur. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað þurfi mikið til þess að við séum tilbúin að hjálpa öðrum. Tvö snjóflóð hafa fallið á þessu ári og valdið miklum mannskaða. Samhugur í verki var mikill og almennur og mikið fé hefur safnast. Ég vona að það þurfi ekki alltaf stórslys til þess að fólk sé reiðubúið að sýna samhug sinn í verki. Verkefnin eru óþrjótandi hérlendis sem erlendis sem þarf að sinna af fullum þunga.
Ég minnist orða Krists er hann sagði: "Það sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra það gjörið þér mér". Jesú Kristi bregður fyrir í fari sérhvers vandamanns sem á um sárt að binda vegna náttúruhamfaranna fyrir vestan. Honum bregður fyrir í fari sérhvers stríðsþjáðs einstaklings og barns sem óskar eftir hæli hér á landi sem annars staðar. Honum bregður fyrir í fari sérhvers einstaklings sem tilheyrir minnihlutahópum um heim allan sem sæta kúgun og ofsóknum hvers konar. Honum bregður fyrir í fari sjúklinga. Hann kemur í veg fyrir okkur í fari eyðnismitaðra. Honum bregður fyrir í fari samkynhneigðra. Við sjáum hann í fari náungans hver svo sem hann er um allan heim.
Þess vegna skyldum við varast fordómana. Það er aðeins einn sem dæmir en það er Guð. Við eigum hvort öðru skuld að gjalda m.a. vegna eigin fordóma sem hafa stundum staðið í veginum fyrir því að við höfum sýnt samhug okkar í verki.
Nýlega var skipaður umboðsmaður barna sem á að gæta þess að réttindi barna séu ekki fótum troðin á þessu landi. Fyrir stuttu fékk umboðsmaðurinn það verkefni í hendur að rannsaka hvort réttur barns hefði verið fyrir borð borinn í réttarkerfinu þar sem ekki var tekið tillit til vitnisburðar barnsins fyrir dómstóli. Mér finnst þetta mikið réttlætismál því að að fenginni reynslu þá eigum við að taka mark á börnunum okkar og hlusta á það sem þau segja og sérstaklega á það sem þau segja ekki. Þegar við gefum okkur tíma til þess að vera með börnunum okkar og hlusta á þau þá geta þau opnað fyrir okkur heim sem við héldum að við hefðum glatað er við urðum fullorðin.
Guð forði okkur frá því að loka okkur af í eigin fílabeinsturni með þeim hætti að við sjáum ekki neyðina allt í kringum okkur fyrir þessi jól og eftir. Minnumst þess að samkvæmt guðspjalli dagsins þá eigum við Guði skuld að gjalda. Þá skuld getum við leitast við að borga með því að mæta þörfum náunga okkar til líkama og sálar og búa honum þannig mannsæmandi lífskjör. Amen.