Það var gæfuskref að safnaðarheimili Neskirkju skyldi verða sýningarsalur fyrir myndlist. Þessi vettvangur hér er svo eftirsóttur að reglulega þurfum við að afþakka framlag listafólks sem vill sýna hér. Já, færri komast að en vilja.
Jarðneskt og himneskt
Listin og kristnin hafa haldist í hendur frá öndverðu. Tónlistin á þar vitanlega ríkulegan og verðskuldaðan sess. Bach er sagður hafa gert hið jarðneska himneskt og hið himneska jarðneskt í tónlist sinni. Með þeim orðum mætti raunar lýsa viðleitni sérhvers listamanns sem vill kynna hið forgengilega fyrir eilífðinni! Já, listin túlkar heiminn á þann hátt að þegar vel tekst til höfða verkin til fólks á öllum tímum.
Samspil trúar og myndlistar er vissulega flóknara en á við um önnur listform. Í lögmáli gamla testamentisins er til að mynda lagt blátt bann við því að gera eftirmyndir af því sem var skapað. Enn í dag ber listsköpun tveggja hinna þriggja abrahamísku trúarbragða, gyðingdóms og islam, merki þess fyrirvara. En þá finna skapandi hugar og hendur tjáningunni form í byggingum og skrautskrift.
Kristindómurinn hefur með fáeinum undantekningum látið eins og þetta ákvæði hafi ekkert gildi. Við eigum ógrynni málverka og skúlptúra þar sem höfundar hafa á sinn hátt reynt að tengja saman himin og jörð eins og Bach gerði í tónlist sinni.
Og listafólk sem hefur sýnt á okkar vettvangi hefur í sumum tilvikum unnið verk sín sérstaklega fyrir þetta rými, kirkjuna. Stundum hafa eldri verk öðlast nýja merkingu í ljósi þessa samhengis. Þar vísa ég í yfirlýsingar höfundanna. Þeir hafa sjálfir séð afrakstur sinn í öðru ljósi þegar hann hefur prýtt veggi og gólf hér á Torginu.
Já hvað gefur kirkjulegu rými þá sérstöðu sem ýmist kallar á nýja sköpun eða gefur eldri hugmyndum annað og dýpra inntak? Ég skil ykkur eftir með þær vangaveltur og sný talinu að þeirri sýningu sem við opnum hér á Torginu.
Yfirskrift sýningar sr. Arnar Bárðar Jónssonar er, Vatn og jörð. Þar vísar hann í tvö frumefnanna sem talað var um í fyrndinni. Þeir Örn og Rúnar hafa verið hér fram eftir kvöldi, að upphugsa þá bestu leið til að verkin fengju notið sín. Í því sambandi er einkum áhugavert að geta þessara standa sem þeir hafa látið smíða og eru fastir á gluggunum. Þar gefst fólki kostur á að blaða í bókum listamannins sem dregur upp myndir af því sem hefur vakið athygli hans.
Já, það var löngu tímabært að sr. Örn Bárður skyldi birta hluta verka sinna hér. Hann sýndi framsýni og frumkvæði þegar hann beitti sér fyrir því að safnaðarheimilið yrði þessi vettvangur myndlistar.
Hallgrímur
Og hér í dag mætast listastefnurnar. Tónlistin og sjónlistin hafa verið nefnd en á þessum degi, 27. október 1674 andaðist skáldið Hallgrímur Pétursson. Aftur leitar hugurinn að samspili himins og jarðar. Sr. Örn Bárður flutti þekktasta sálm hans hér áðan. Hann syngjum við þegar mold hefur verið komið fyrir á kistuloki. Við hugleiðum stöðu okkar í hinu stóra samhengi lífsins ,,Af jörðu ertu komin og að jörðu skaltu aftur verða". Þar mætir okkur sú staðreynd að tími okkar allra er takmarkaður.
Ævi okkar er aðeins tímaskeið í hinu stóra samhengi frá því að við vöxum upp úr djúpinu og til þess að við mætum moldinni að nýju. Við erum í þeim skilningi dauðvona. Þegar við ritum nöfn nafntogaðra einstaklinga liðinna tíma, fólks á borð við Hallgrím, þá setjum við sviga fyrir aftan nafnið. Í hans tilviki er það 1614 til 1674. Það var hans tímaskeið.
Oft hendir það okkur að missa sjónar á hinu stóra samhengi. Áhyggjur hellast yfir okkur vegna atvika sem mæta okkur á þessu agnarsmáa skeiði sem okkur er úthlutað. Við greinum ekki heildarmyndina, týnum okkur í smáatriðunum, látum eins og ekkert hafi gerst áður en við mættum og allt muni hverfa þegar við svo sameinumst moldinni.
Listin tekst á við þann veruleika. „Lífið er stutt en listin er eilíf“ sögðu rómverjar. Hún getur varpað fram mynd af því hver við erum og hvar við stöndum á þessu ferðalagi okkar frá vöggu til grafar.
Við flytjum trúarjátningar – þær hefjast á orðunum „Ég trúi“. Sálmur Hallgríms er í því samhengi ákveðin ,,lífsjátning“. Hann segir: „Ég lifi“. Og sálmurinn verður óður til æðruleysis, að býsnast ekki yfir því hlutskipti sem öllu lífi er búið. En að sama skapi er þetta einhvers konar tilvistarþrungið siguróp. „Ég lifi í Jesú nafni, í Jesú nafni ég dey.“ Og raunamaðurinn Job sem sjálfur horfði framan í grimmd heimsins fær sinn sess í þessum óð. Job flutti sína játningu með þessum orðum: „Ég veit minn lausnari lifir“ Hallgrímur rær á sömu mið þegar hann yrkir í miðjum sálmi: „Ég veit minn ljúfur lifir, lausnarinn himnum á“.
Við getum séð fyrir okkur hvernig sigurbros færist yfir andlit hans sem að sögn sjónarvotta var, eins og líkami Jobs, markað djúpum sárum. Er þetta ekki lífssýn listamannsins? Hann sér hið stóra, hið fagra og það sem er eilíft. Þá æðrast hann ekki yfir því sem hrörnar og deyr. Og þegar prestur mokar mold á kistu tengir sá gjörningur hið jarðneska við hið himneska. Hið þriðja fullkomnar athöfnina: „Af jörðu skaltu aftur rísa“
Já, hvað er það sem gerir manneskjunni kleift að lifa og deyja „Í Jesú nafni“? Hvað gefur listaverkum nýja merkingu þegar þau prýða kirkjulegt rými? Er það ekki snertiflöturinn sem hér hefur verið ávarpaður? Líf og dauði, hið forgengilega og hið eilífa?
„Sá sem elskar líf sitt mun glata því.“ Segir Jesús í guðspjalli dagsins. Hvað er það að elska líf sitt? Er það ekki dauðahaldið sem fyllir okkur angist og stöðugum áhyggjum? Þær beinast bæði að fánýtum atvikum í hinum stóra samhengi og svo auðvitað því sem við fáum ekki umflúið.
Já, og um þessar mundir hengir fólk upp beinagrindur í glugga og leggur glottandi grasker á stétt. Þetta er ævaforn siður ættaður frá keltum. Hann barst svo með írum til vesturheims og fékk þá vængi. Allra heilagramessa, Halloween, rennur upp í kringum fyrsta vetrardag hjá okkur hér á Fróni og það er engin tilviljun. Bændur höfðu komið uppskeru í hús og nú tók við þessi myrka og háskalega árstíð. Hinir fornu keltar, segir fyrstu aldar sagnfræðingurinn Tacitus, ögruðu þessum veruleika með því að tálga ógnandi andlit á gulrófur, stíga dauðadansa og mæta þeim óvættum sem þeir töldu að færu á stjá í upphafi vetrar. Með þeim gjörningi vildu þeir horfast í augu við það sem skelkar og skelfir. Já, listin tekur á sig ýmsar myndir.
„Dauði ég óttast eigi, afl þitt né valdið gilt“ orti Hallgrímur. Sprettur það viðnám ekki upp úr sama jarðveginum? Þetta er inntak listarinnar og þessi er boðskapur kristninnar. Hún tengir saman það sem er hverfult og það sem varir. Listin að deyja, ars moriendi, var viðfangsefni höfunda á tíma Hallgríms. Þar átti að leiðbeina fólki í lífinu svo það gæti mætt örlögum sínum í sátt.
Hið sama gerir listamaðurinn. Sr. Örn Bárður ferðast jafnt um nærumhverfi sem fjarlæg lönd með skissubækur sínar og lýkur svo verkinu þegar heim kemur. Afraksturinn verður þessi sýning sem í mínum augum er frásögn af því ferðalagi sem lífið er.
Já, tilvist okkar eru sigurlaun í happadrætti þar sem vinningslíkurnar voru litlar sem engar. Að baki okkur er atburðarrás sem nær aftur til upphafsins. Þar mátti engu skeika, hvorki í hreyfingum himintungla né í stefnumótum forferða okkar. Annars hefðum við aldrei fengið þessum tíma úthlutað, þessari ögn í eilífðinni, sem við köllum líf.
Vitundin um endimörk þess ætti að opna augu okkar fyrir inntaki lífsins og fylla okkur þakklæti fyrir það sem okkur hefur verið gefið. Sú er líka niðurstaða listamannsins sem flytur sína lífsjátningu á því verki sem mætir okkur hér í upphafi sýningarinnar.
Þar segir:„Lífið er undur og að vera til er ævintýri.“