Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði og gleðilega jólahátíð!
Tilfinningar mínar hafa verið blendnar á þessari aðventu. Ég hef fyllst djúpri sorg yfir ástandinu í heiminum. Það er hræðilegt að hlusta á fréttir dag eftir dag af íbúum Aleppo í Sýrlandi þar sem fólk hefur verið innilokað, því hefur síðan verið leyft að fara burtu frá heimilum sínum og svo aftur fá þau ekki að fara. Það hlýtur að vera ólýsanlegt ástand og erfitt er að ímynda sér hvernig er að búa við slíkt ár eftir ár. Það hefur verið stanslaust stríð í Sýrlandi í fimm ár og afleiðingarnar eru þær að milljónir eru á flótta frá heimilum sínum og eru á vergangi í gegnum nágrannalöndin. Milljónir hafa lagt af stað fótgangandi yfir fjöll og álfur, sum hafa lagt í það að fara á litlum bátum yfir Miðjarðarhafið upp á von og óvon. Margir hafa drukknað, svo margir að við höfum engar tölur á reiðum höndum um hver sá fjöldi er. Og fólk flýr frá fleiri löndum en Sýrlandi, frá Nígeríu og Súdan í suðri og Írak og Afganistan í austri og miklu fleiri löndum sem of langt mál væri upp að telja.
Þannig vill til að á því ári sem nú er að líða undir lok, þá hef ég kynnst fjölda manns persónulega sem er á flótta undan aðstæðum í heimalandinu.
Þannig hef ég til dæmis kynnst fjögurra manna fjölskyldu, foreldrum með dætur sínar tvær, sem gerðust kristin af því það vakti áhuga þeirra hve kristið fólk sýndi mikinn kærleika. Eftir að þau tóku kristna trú var þeim ekki lengur líft í heimalandinu, því þar liggur við því dauðadómur að taka kristna trú. Þau flýðu og komu til Grikklands, en þar var þeim hent í fangelsi þar sem þau þurftu að dúsa í nokkrar vikur alsaklaus. Þau flýðu Grikkland þegar þau komust út úr fangelsinu og komu hingað til lands í von um betra líf í kristnu landi.
Heimurinn grætur og nú eru jól.
Nokkrum dögum fyrir jól gerist síðan sá voðaatburður að hryðjuverkamaður ekur flutningabíl inn á jólamarkað í Berlín, þar sem 12 manns létust og fjöldi manns slasaðist.
Fyrir nákvæmlega ári síðan var ég, Guðrún Þóra, Guðrún Helgadóttir og María Gréta á þessum sama jólamarkaði við minningarkirkjuna í Berlín þegar við vorum á ferð með kvenfélaginu. Þetta hefðu getað verið við sem urðum fyrir þessu hryðjuverki. Svona nálægt eru þessir hræðilegu atburðir okkur! En af hverju að hefja jólaræðu á þessum ósköpum?
Er ekki betra að tala um jólin í gamla daga, er ekki betra að tala um kertaljós og fallegar jólaminningar, er ekki betra að tala um söng englanna á Betlehemsvöllum?
Svarið er: Jólin fjalla um jarðneskan veruleika. Himnarnir opnast og við fáum fréttirnar: Óttist ekki! Ekki vera hrædd! Ekki vera kvíðin! Treystið Guði!
Þessi boðskapur er talaður inn í heim ótta og fátæktar, inn í heim ófriðar og kúgunar. Þessi boðskapur er til fólks á flótta frá heimahögunum.
Þó við hér á Íslandi höfum ekki alist upp við stríðsástand, þá tala þessi orð til okkar allra á þessum jólum. Þau tala til okkar af því við þurfum á þeim að halda.
Við höfum öll upplifað ótta. Við höfum öll upplifað kvíða. Við höfum líka áreiðanlega mörg okkar sem erum hér inni í dag upplifað það að vera á heljarþröm og vita ekki hvað við eigum að gera.
Við höfum upplifað það að vera ráðalaus. Hvað á ég að gera? Spyrjum við oft.
Á slíkum stundum er svo gott að geta varpað áhyggjum sínum á Drottin og þá meina ég bókstaflega og jafnvel líkamlega með því að anda áhyggjum okkar frá okkur og anda að okkur friði Guðs. Og þá finnum við frið sem er æðri öllum skilningi.
Skyldum við einhver okkar eiga svo djúpa trú að við getum varpað öllum okkar áhyggjum á Drottin. Slíka trú hef ég sjaldan fundið hjá nokkrum manni því öll efumst við einhvern tíma.
Ég fékk þó að kynnast henni þetta árið hjá vini mínum Morteza sem er dauðadæmdur í heimalandi sínu Íran fyrir að taka kristna trú. Hugsið ykkur að eiga svo djúpa trú að vera tilbúinn að láta dæma sig til dauða fyrir trú sína. Morteza hefur tvisvar fengið tilkynningu um brottvísun frá Íslandi, en hann á hugarró og treystir Guði algerlega fyrir lífi sínu. Samt lifir hann enn í óvissu. Hann veit ekki hvort íslensk stjórnvöld miskunni sig yfir hann enn einu sinni.
Á þessu ári sem nú fer brátt að kveðja hef ég oft spurt sjálfa mig: Í hvernig þjóðfélagi lifum við? Við höfum upplifað svo ótrúlega grimmd gagnvart fólki sem er á flótta. Svo mikilli grimmd að fólk hefur kveikt í sér í örvæntingu sinni. Og jafnvel lítil börn hafa verið send úr landi út í óvissuna. Getur verið að við séum að klippa á streng kærleikans?
Hvað er kærleikur?
Kærleikur er ást Guðs á öllu fólki. Guð elskar hvert og eitt okkar og því ber okkur að koma af virðingu fram við allar manneskjur. Kærleikurinn kom í heiminn á hinum fyrstu jólum í litlu barni. Guð kom í heiminn í litlu barni til að bræða hjörtu okkar. Og þetta barn snertir enn við hjörtum okkar.
Þess vegna tölum við um eitthvað fallegt á jólunum. Þess vegna kveikjum við á kertum og tölum um fallegar jólaminningar. Þess vegna tölum við um söng englanna á Betlehemsvöllum.
En það þarf að tala um allt hitt líka.
Guð gefi að við klippum aldrei á þann þráð sem tengir okkur við Guð sem skapaði okkur og sendi okkur Jesú Krist til að efla kærleikann á milli okkar. Guð gefi okkur öllum gleðileg jól!
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.