Kærleiksþjónustan

Kærleiksþjónustan

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
17. apríl 2003
Flokkar

Guðspjall: Jóh. 13.1-15 Lexia: Sálm. 116. 12-19 Pistill: 1. Kor. 11.23-29

Jesús vissi að stundin var runnin upp. Það var komin tími fyrir sig til að hverfa úr þessum heimi til föðurins á himnum. Hann vissi það en þeir vissu það ekki. Jafnvel í upphafi starfsferils síns þá hugsaði hann ekki mikið um endalokin. Þegar þú heldur veislu þá hugsar þú heldur ekki hvernig best er að ljúka henni því að það er svo mikið sem þarf að hugsa um til þess hægt sé að halda góða veislu. Það þarf að bjóða boðsgestum, hugsa fyrir sætum handa þeim, drykkjarföngum, matnum og jafnvel umræðuefninu. En svo þegar veislan er komin vel á veg og um það bil að vera yfirstaðin þá kemur sú stund þegar samræðurnar taka enda og vandræðaleg þögn verður til sem sumir hræðast, læriisveinarnir jafnvel og Jesús. Þetta þekkjum við sjálf þegar við sitjum góða veislu að þegar henni fer að ljúka þá verður þessi þögn til sem varir stutta stund þar til einhver rýfur þögnina og hefur sig á brott með því að kveðja og þakka fyrir sig.

Jesús vissi að hann yrði svikinn af einum þeirra sem sat þessa veislu með honum í loftsalnum , af einum lærisveininum sem hafði fetað í fótspor sín í nærfellt þrjú ár. Jesús vissi að hann yrði handtekinn von bráðar, hýddur og pyntaður, krossfestur og drepinn á krossi þegar líða tæki á daginn þann.

Vitandi þetta allt þá reis Jesú úr sæti sínu þegar máltíð hans með lærisveinunum lauk. Þeir litu allir upp frá borðum sínum. Þeir þögnuðu. Þeir höfðu á tilfinningunni að eitthvað var í þann veginn að gerast. Júdas Ískaríot var horfinn á braut út í myrkur næturinnar. Hvað ætlaði Jesús að gera? Þeir veltu fyrir sér hvort hann myndi tala til þeirra í áminningartón líkt og deyjandi maður kynni að gera í garð sona sinna og dætra.

Hvað ætlaði hann að gera?

Skyldi hann biðja um blað og skriffæri til að skrifa niður erfðaskrá þar sem hann myndi tilkynna hvað kæmi í hlut hvers og eins lærisveins?

Jesús tók skál, könnu fulla af vatni og handklæði. Hann kraup á kné sér og þvoði fætur lærisveinanna án þess að líta upp. Þögull þvoði hann vandlega fætur þeirra hvers og eins. Hann þvoði fætur okkar allra, trúaðra og vantrúaðra, aldraðra og ungra, dýrlinga og syndara, hórmangara og hóra, páfa og biskupa, stjórnenda og þegna, ríkra og fátækra, mettaðra og hungraðra, klæddra og nakinna. Hann þvoði og þvoði fætur án þess að hugsa um hver ætti þessa fætur. Hann hefði ekki viljað hætta því vegna þess að hann sagði: “Skiljið þið hvað ég hef gert? Ég hef gefið ykkur eftirdæmi til að fylgja. Þvoið hvers annars fætur og brjótið brauðið að því loknu og deilið því út til heimsins til mannkynsins alls til þess tíma að ég verð með ykkur aftur þegar Guðsríkið verður fullnað, þegar Guðs vilji verður að fullu orðinn að veruleika á jörðu sem á himni”.

Þegar við hugsum um þetta atferli Jesú, þá kemur myndin af hinum líðandi þjóni í hugann sem svo vel er lýst í í ljóði í spádómsbók Jesaja þar sem segir:

“Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. En vorar þjáningar voru það sem hann bar og vor harmkvæli er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin sem vér höfðum til unnið kom niður á honum og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða. Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans”.

Í þessu ljóði um hinn líðandi þjón sjá kristnir menn dregna upp kunnuglega mynd sem þeim finnst passa við þá mynd af Jesú sem dregin er upp í guðspjöllunum, píslarsögu hans, dauða hans og greftrun. Þar er því einnig haldið fram að Jesús hafi verið syndlaus, svik hafi ekki verið til í munni hans. Guð opinberaði sjálfan sig í Jesú og gaf okkur með því til kynna að hann er kærleikur því að Jesús bar kærleikanum vitni í lífi sínu og starfi. Guð gaf okkur Jesú til að þjóna okkur en ekki til að drottna yfir okkur með harðri hendi. Í guðspjalli þessa skírdagskvölds er dregin upp sterk mynd af kærleiksþjónustu hans þar sem lögð er áhersla á að hann vill þjóna öllum í sannri hjartans auðmýkt og gefur okkur eftirdæmi að við fetum í hans fótspor. Víst má telja að heimurinn væri kærleiksríkari í dag ef mannanna börn hefðu öll sem eitt meðtekið fagnaðarerindið um hann og tileinkað sér kærleiksþjónustu hans í daglegu lífi. Hver kristinn maður er hvarvetna kallaður til þess að bera vitni frelsara sínum og Drottni og bera þannig ljósið frá Kristi út til þeirra sem með honum eru á veginum. Þannig ætti að verða til gagnkvæm þjónusta þar sem kristnir menn bera hvern annan á bænarörmum á lífsins vegi.

Kristileg þjónusta er allt annað og meira en við syngjum um og segjum á hátíðlegum augnablikum í hópi játenda trúarinnar. Kærleiksþjónusta birtist ekki fyrst og fremst í uppljómuðum kirkjusal, tjáir sig ekki best þar sem allt er þrungið ljóma og lofsöng. Ens og oft er hún þar sem ljósið hefur aldrei fengið að skína og lofsöngstónarnir ná ekki eyrunum. Því að þar er hennar þörf. Mér er hugstætt eftirdæmi Móður Teresu sem helgaði líf sitt kærleiksþjónustu í garð þeirra sem verst eru settir í öngstrætum borgarinnar Kalkútta á Indlandi. Með starfi sínu leitaðist hún við að leyfa gleði kærleiksþjónustunnar, von og bæn að komast að. Birta fagnaðarerindisins og hjartahrein guðsdýrkun birtist í dagfari hennar sem naut fyrir vikið virðingar um heim allan.

Mér kemur í hug í þessu sambandi saga af presti sem prédikaði um himininn. Áheyrendur gerðu góðan róm að ræðu hans. Morguninn eftir hitti presturinn áhrifamann í söfnuðinum og fór hann mörgum orðum um prédikunina. “Þetta var frábær hugleiðing um himininn”, sagði hann, “en þér sögðuð okkur ekki hvar himinninn er”.

“Jæja”, svaraði presturinn, “það get ég sagt yður. Sjáið þér hæðina þarna fram undan? Þar á veik kona heima í hreysi. Hún liggur í rúminu, ennfremur bæði börnin hennar. Ég er einmitt að koma þaðan. Í húsi hennar er ekki til kolamoli, eldiviður, brauð eða mjöl. Ef þér vilduð nú fara niður í bæinn og kaupa ögn af mat og slatta af kolum og færuð svo upp í kofann og læsuð 23. sálm Davíðs munduð þér átta yður á hvar himinninn er”.

Daginn eftir hitti maðurinn prestinn aftur og sagði: “Þér höfðuð rétt fyrir yður. Ég hef fundið himininn”.

Jesús kom með himininn þegar hann gekk um hér á jörð. Hann lifði kærleika Guðs meðal þeirra sem þjáðust. Birta og ylur himinsins bræddi kulda hjartnanna og rak skugga sorgar og áhyggju á brott.

Við megum feta í fótspor Jesú. Sá sem vill þjóna og gefa er erindreki Krists. Og Kristur sem sameinast fátækum, sjúkum og þjáðum, lætur blessun himinsins koma yfir hvern þann sem þjáist með þeim er þjást.

Erum við ekki fús til að vera erindrekar Krists og bera kærleika hans vitni í orði og verki gagnvarrt náunga okkar? Hefur Drottinn ekki verið okkur góður? Dagurinn í dag er gjöf hans, tækifæri sem hann veitir okkur til að meðtaka og gefa. Við vitum að í heiminum skortir þá sem vilja af lífi og sál, reka erindi hins góða meðal mannanna, hver í sinni stétt og stöðu, í orði, í viðmóti, í hjálpsemi og starfi. Mundum við vera fús til að vera slíkir boðberar Drottins með því að lifa lífinu vísvitandi í skjóli hans og reyna síðan studdir krafti hans að bera því lífi vitni í orði, í verki, í kærleika, í trú og hreinleika? Til þess hlutum við líf og náð og köllun.

Óneitanlega eru menn skyggnari á jarðneska hluti en himneska. Augun eru þá opin ef um er að ræða fjárhag, atvinnu, fæðu og klæði, jafnvel glauminn og glysið. Á allt slíkt erum við mun gleggri en hitt hvað sé rétt eða rangt, hver sé vilji Guðs með okkur. Hættan er sú að við horfum svo lengi í “hina áttina”, að við hættum að geta hugsað til Guðs og skynjað það sem hans er. Ennþá erum við þó frjáls að því að tilbiðja Guð og þjóna honum. Það á ekki að vera okkur frelsi til þess að spilla því sem dýrast er í lífinu. Hversu lengi endist okkur þetta frelsi? Hver veit það? Við skulum því nota það þá til blessunar meðbræðrum okkar og sjálfum okkur.

Hver er Drottinn okkar í dag? Hverjum þjónum við nú í orðum og hegðun og hugsun? Þú vinur minn er væntanlega skírður og þar með ertu helgaður einni tilveru,einni þjónustu, einu ríki,: Guðs ríki, ríki Drottins vors Jesú Krists. Þú átt hlutdeild í öllum gjöfum þess og gæðum og fyrirheitum. Þá áttu líka skyldum að gegna í guðs ríki. Ekki af nauðung heldur skaltu telja það heilög réttindi að fá að fara eftir orði Drottins, fá að þjóna Guði og náunganum., fá að vera friðflytjandi og bera blessun hans á einhvern hátt þeim sem í kringum þig eru. Það ætlar Guð þér að rækja í dag og alla daga.

“Af því skulu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars”, sagði Kristur. Sá kærleikur starfar til blessunar, sýknar, styður og leiðir. En þann kærleik höndlar enginn, fyrr en hann stendur sjálfur frammi fyrir hinni miklu fyrigefningu Guðs. Þar sem hún er þar sprettur kærleikurinn fram. Þetta mætir okkur í Kristi. Kærleikur Krists kallar fram kærleika lærisveinsins.

Á þessu skírdagskvöldi er okkur boðið að veisluborði sem þiggjendur. Í heilagri kvöldmáltíð býður Kristur návist sína með hið sigrandi líf krossins og upprisunnar, hann sem er í dag og í gær hinn sami og um aldir. Þar vill hann þvo okkur af öllu því sem lýtir, sýkir eða skaðar og búa okkur undir auðmjúka þjónustu við náungann í hinu daglega lífi. Amen.