Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir, því að miskunn hans er voldug yfir oss og trúfesti hans varir að eilífu. Hallelúja.
Gleðilega hátíð! Í djúpri auðmýkt og hugheilli þökk stend ég hér í dag, á lýðveldishátíð, þegar áratugur er liðinn frá kristnihátíð á Þingvöllum, og þegar minnst er að 150 ár eru liðin frá vígslu Þingvallakirkju. Ég óska sóknarpresti, sóknarnefnd, söfnuði, Þingvallanefnd, þjóðgarðsverði og öllum hollvinum Þingvallakirkju til hamingju. Hér hefur verið unnið að umbótum utanhúss, lagningu stéttar og kirkjutröppur endurnýjaðar. Ég þakka það hve vel hefur verið að verki staðið. Nú er nauðsynlegt að lagfæra húsið sjálft og verja skemmdum og vona ég að framhald verði á þeirri góðu samvinnu sem orðin er milli kirkju, þjóðgarðsvarðar og Þingvallanefndar í þessum efnum. Þetta hús er gersemi, þjóðargersemi. Þingvallakirkja lætur ekki yfir sér, en er elsta mannvirkið á helgum Þingvelli og hið eina sem minnir á sögu og samhengi lands, þjóðar og menningar Íslendinga. Þingvallakirkja er ein allra minnsta kirkja landsins, áreiðanlega einhver minnsti og fátæklegasti þjóðarhelgidómur í heimi. En sem er án efa einhver hinn fegursti í öllu látleysi sínu og hógværð, eins og lítill demantur í undurfögrum hring, sem náttúra Þingvalla er.
Á Þingvöllum talar sagan til sérhverrar íslenskrar sálar. Hér hafa þeir atburðir orðið sem mestum áhrifum hafa valdið í lífi þjóðarinnar, og við megum aldrei gleyma. Hér urðu Íslendingar þjóð, allt það sem tengir okkur sem þjóð í þessu landi geyma Þingvellir, hér voru þau ráð ráðin og lög sett sem markað hafa líf okkar í aldanna rás. Hér setti Þorgeir þá sáttargjörð sem markaði samstöðu um gildagrunn samfélagsins. Hér var lýðveldið stofnað og frelsinu fagnað. Þessar helgustu minningar þjóðarinnar geyma Þingvellir. En líka þær sárustu og skelfilegustu. Drekkingarhylur og Gálgaklettur minna á harðneskju og grimmd, ranglæti og refsigleði myrkra alda. Því megum við aldrei, aldrei gleyma. Það er áminning um að samfélag og menning er ekki eitthvað sem sett er í eitt skipti fyrir öll heldur þróað, ræktað, nært á vettvangi dagsins. Hin góðu gildi, hin hollu áhrif, hin heilbrigða menning, hið góða samfélag, það kemur ekki af sjálfu sér, það þarf einatt að verja það, að verja hið góða, hlynna að því, berjast fyrir því, sem og öðru því sem viðkvæmast er og brothættast.
Kirkjan sem hér var reist árið 1859 átti sér fyrirrennara um níu alda skeið, og ber því vott um órofið samhengi kristins siðar á Íslandi. Þegar klukkurnar hringdu hér í turni kirkjunnar áðan þá endurómaði sá hljómur klukknahljóminn sem óslitið í þúsund ár hefur ómað hér yfir vellina á helgum og hátíðum í þúsund ár. Í þúsund ár og gott betur hefur Þingvallakirkja kallað til helgra tíða og signt og helgað landið. Hér voru börn borin að skírnarlaug. Hér bundust brúðhjón ævitryggðum og hér var hinsta kveðjan flutt við ævilok. Og á bæjunum hér í kring var börnunum kennt að signa sig og biðja Faðir vor, kynslóð eftir kynslóð allt frá kristnitöku og til þessa dags. Og í þessu samhengi skynjum við eitt það allra mikilvægasta við það sem gerir okkur að þjóð: Við eigum sameiginlega reynslu og sögu. Þrátt fyrir alla dimma flekki í sögu kirkjunnar, þá vantar ekki, þrátt fyrir illvirki spilltra presta og biskupa, -jú, ekki hefur þá vantað í aldanna rás-, en þrátt fyrir það þá hefur kirkjan í áranna rás varðveitt samhengið og verið hvatberi þeirra áhrifa og anda sem efla og næra lífið í samfélagi. Það er þess vegna sem altarið er í miðdepli hvers kristins helgidóms, dúkað veisluborðið þar sem allir sitja við sama borð, og sú siðferðilega áminning á að móta samfélag og menningu þar sem umhyggjan er í fyrirrúmi, réttlæti og mannúð.
Við erum ekki hér til að orna okkur við minningar og að mæra liðna sögu. Tími kirkjunnar er samtíðin, dagur kirkjunnar er í dag, orð hennar og atferli er í þágu lífsins á líðandi stund og þess dags sem í vændum er. Og erindi hennar að iðka, móta, rækta og efla samfélag á traustum grunni með glögg viðmið og framtíðarsýn.
Sá sem hefur tapað minni sínu er viðskila við sjálfa sig. Sú þjóð sem missir tengsl við sögu sína og minningar rótslitnar og eyðist. Það eru því miður margir haldnir andlegu minnistapi í þessu landi, viðskila við sjálfa sig og eigin rætur. Ýmsum er því miður í mun að brjóta niður þau helgu vé sem fyrri kynslóðir þessa lands áttu það að þakka að þær gátu komist gegnum þau hret og ógnir sem þær áttu að mæta undir erlendri og innlendri áþján og andspænis ofurkröftum náttúruaflanna. Það var og er hin kristna trú og siður og því vilja margir gleyma.
Sviptingar okkar samtíma hrista og skekja samfélagsbyggingu okkar við grunn, og kristin trú og siður fer ekki varhluta af því. Fordómar gegn kristni og kirkju vaða uppi í bloggheimum og spjallrásum, í fjölmiðlum og hvarvetna þar sem menn tjá sig. Nú eru meginstoðir samfélags okkar hér í landi meir og minna laskaðar eftir hrunið. Alþingi og þjóðkirkjan þar á meðal.
Löggjafinn nýtur ekki mikils trausts um þessar mundir, né sú pólitíska umræða sem lýtur lögmálum flokkshagsmuna um skiptingu auðs og valda. Nýliðnar sveitastjórnarkosningar leiða í ljós andúð almennings á því, og eru að vissu leyti dómur yfir ónýtu flokkakerfi og stofnanakerfi sem ekki hefur tekist á við lexíur hrunsins. Nú er stefnt að því að landinu verði sett ný stjórnarskrá. Það er ef til vill nauðsynlegt, en hefur lítið að segja ef samfélagssáttmálinn er ekki fyrir hendi, ef samstaðan um grunngildin er ekki fyrir hendi. Er nokkurt þjóðfélag í raun frjálst án þess að samskilningur ríki um grundvallar siðgildi og siðferðisleg markmið? Hvert viljum við stefna sem þjóð og samfélag og ríki? Hver eru þau gildi sem við viljum halda fram og miðla og greiða veg? Hverskonar samfélag viljum við vera?
Hrunið leiddi í ljós að gálaus kynslóð, gleymin á það sem máli skiptir, fékk áminningu. Við fengum áminningu. Íslendingar lifðu í draumi um hríð, drauminum um að við værum fremst allra þjóða í fjármálum, okkar menn vissu best, kynnu mest, það var draumurinn um hina tæru, íslensku snilld, sem frjálshuga, framsækin og hömlulaus lagði heiminn að fótum sér. Og við horfðum á kraftaverkin gerast. En draumurinn reyndist martröð, kraftaverkin reyndust tál, gullið sem malað var og lá að því er virtist í hrúgunum um allt, reyndist glópagull. Og heimilin í landinu sitja eftir með sárt enni og þungan skuldaklafa á herðum. Nú þarf allt góðviljað fólk og allar grundvallarstofnanir samfélagsins að taka höndum saman um að græða þann áverka sem þjóðin hefur hlotið af völdum blindrar trúar á villuljós hugmyndafræði sem heillaði og tryllti stóran hluta heimsins og hrundi. Við sitjum í rústunum. Þjóðin er að gera upp við hjarðhegðun og hópþrýsting, fljótræði, makalaus lausatök á lagasetningu, regluverki og eftirliti. Þjóðin er að gera upp við siðrof og hefðarrof sem leiddi okkur öll í ógöngur. En höfum við eitthvað lært af óförunum? Reiðin gerir erfitt fyrir að ræða málefnalega og af virðingu. Það er hættulegt ef þjóðfélagið nær einungis samstöðu um það sem menn vilja ekki sjá, samstöðu gegn einhverju. Slík samstaða hefur iðulega leitt þjóðir í glötun. Sundurlyndisfjandinn gengur enn laus og vinnur hervirki sín og öskumistrið frá eldstöðvum hans leggst yfir byggð og land. Við höfum leitast við að byggja opið samfélag á grundvelli trausts og verið stolt af því. Það hefur verið eitt einkenni samfélags okkar sem við höfum verið hvað stoltust af. Ég var á Austurvelli í morgun og horfði á meiri fjölda löggæslumanna en nokkru sinni, sem þarna stóðu vaktina, gráir fyrir járnum. Áreiðanlega ríkar ástæður fyrir því, eða hvað? Ég fann sting í hjarta og sársauka í sál: er svona komið fyrir okkur, og er það svona samfélag sem við viljum sjá? Þolum við þá tilhugsun að lifa í samfélagi sem markað er tortryggni, ótta og reiði? Nei, það gerum við ekki og við eigum ekki að gera það! Nú er brýnt að við gætum andlegrar heilsu okkar og eilífra heilla betur en áður. Á lýðveldishátíðinni var sungið og oft og iðulega síðan, - og hvern lætur það ósnortinn?- : „Hver á sér meðal þjóða þjóð sem þekkir hvorki sverð né blóð en lifir frjáls við ást og óð og auð sem friðsæld gaf.“ Er þessi lýsing skáldkonunnar, Huldu, blekking? Er friðsæld, farsæld og frelsi okkar bara skýjaborg, ímyndun, draumsýn? Nei! Við skulum gera það að okkar framtíðarsýn og innræta hana börnum okkar! Hverri þjóð sem og einstaklingi er nauðsynlegt að eiga sér drauma og framtíðarsýn, holl markmið til að stefna eftir. Hvar sjáum við það betur en einmitt hér á þessum stað, undir lágri hvelfingu þessa helga staðar þar sem minningarnar og sagan tala svo skýru máli og sjónum er beint til hins góða? Daðrið og lýðskrumið mun engu skila til góðs. Við þurfum að endurheimta traust á grunnstofnunum samfélagsins og traust á hvert öðru, traust á góðvild, umhyggju, virðingu hvers annars. Ég er sannfærður um að þau viðmið og gildi sem veginn vísa til framtíðar séu þau sem hin fornu lög mæltu fyrir að skyldu vera upphaf laga vorra, boðorðin og bænin í Jesú nafni, leiðsögn gullnu reglunnar, Vegurinn, sannleikurinn og lífið. Í guðspjallstexta þjóðhátíðardagsins, orðum Jesú sem hér voru lesin áðan er trausta leiðsögn að finna í þeim efnum: „Allt sem þér því viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“
Listaskáldið, Jónas, stóð og virti fyrir sér undur náttúrunnar hér á helgum Þingvelli, þetta undursamlega verkstæði skaparans. Og hann, náttúrufræðingurinn og guðfræðingurinn, spyr:
Hver vann hér svo að með orku? Aldrei neinn svo vígi hlóð; búinn er úr bálastorku bergkastali frjálsri þjóð. Drottins hönd þeim vörnum veldur; vittu, barn, sú hönd er sterk; gat ei nema Guð og eldur gjört svo dýrðlegt furðuverk.
Og hann bendir á hvernig uppbyggingin fylgdi í kjölfar hinna miklu hamfara. Úr eyðingunni spratt lífið og vefur blómskrúði:
Grasið þróast grænt í næði glóðir þar sem runnu fyrr;
Megi það líka verða eftirmál okkar daga, að lífið nái að gróa og dafna í næði þar sem hamfarir hruns og eyðingar geysuðu fyrr, að lífið fái að dafna, niðjum okkar til blessunar í landinu okkar góða. Það gefi góður Guð í frelsarans Jesú nafni.