Lúkas 8.4-15
Í dag er Biblíudagurinn, hátíð heilagrar ritningar í kirkjunni. Vissulega eru allir dagar kirkjunnar Biblíu-dagar, líf hennar og iðkun er vitnisburður um lífsins orð. En kirkjan okkar heldur samt sérstakan Biblíudag árlega annan sunnudag í níuviknaföstu til að minna á bókina helgu og Hið íslenska biblíufélag, sem allt frá árinu 1815 hefur annast útgáfu og dreifingu Biblíunnar hér á landi. Dagurinn er valinn vegna þess að guðspjall dagsins er dæmisaga Jesú um sáðmanninn og hina fernskonar sáðjörð.
Við heyrðum þessa sögu hér og þekkjum hana væntanlega vel. Í dæmisögunni dregur Jesús upp ljóslifandi mynd af sáðmanninum sem gengur út á akur sinn og dreifir korninu á báðar hendur. „Sæðið er Guðs orð,“ segir Jesús, um fræin sem þyrlast út frá höndum sáðmannsins út yfir akurinn, mikið fer greinilega til spillis, það sáð sem fellur í grýtta jörð, eða meðal þyrna og á götuna. En hluti þess fellur í góða jörð og nær að bera ríkulegan ávöxt. Og Jesús hrópar til mannfjöldans: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri!“
Það er Biblíudagur í dag, helgaður Biblíunni og útbreiðslu hennar, bókar bókanna. Það er staðreynd að Biblían er mest seld og mest lesin allra bóka í heiminum. Að þessu sinni fagnar hið íslenska biblíufélag yfir útkomu Biblíu 21. aldar, miklu þrekvirki sem lengi hefur verið að unnið að tilstuðlan fjölmargra. Við gleðjumst yfir henni og biðjum fyrir henni, þeim sem að verkinu hafa unnið og þeim sem við bókinni taka. Svo er útkoma hinnar nýju Biblíuþýðingar líka hvatning til okkar allra að sækja fram fyrir hönd íslenskrar tungu. „…nú geymir að eilífu Ísa-láð þitt orð á lifandi tungu.“ yrkir Matthías fyrir munn Guðbrands Hólabiskups Þorlákssonar. Söm er bæn okkar og játning nú frammi fyrir biblíuútgáfunni nýju.
Svo er spurt: Til hvers þurfti nýja þýðingu, af hverju mátti Biblían ekki bara vera eins og við höfum vanist henni? Það er góð spurning og gild. Biblían er hið eilífa Guðs orð, en það fellur samt ekki fullskapað af himni og er ekki meitlað í stein. Af því að Guð varð maður á jörðu, orðið varð hold.
Bandarískur guðfræðingur, Lamin Sanneh, sem fæddur er og uppalinn í Gambíu í Vestur Afríku og hefur ritað mikið um samskipti trúarbragða, samskipti kristni og Íslam sérstaklega, hann segir: „Christianity is a translated religion” - „Kristindómurinn er þýdd trúarbrögð,“ - einstæður meðal trúarbragða heims að því leyti að hann er frá öndverðu borinn fram og boðaður óháð frumtungu og þjóðmenningu stofnanda síns.
Kristindómurinn er þýdd trúarbrögð, af arameisku, sem var móðurmál Jesú, yfir á grísku og sýrlensku, síðar Latínu og svo áfram, og enn heldur þýðingarstarfið áfram. Þýðing og endurskoðun texta Biblíunnar er viðvarandi verkefni, ekki aðeins af því að það auðveldar boðun trúarinnar, heldur einnig vegna þess að orðið er lifandi orð, mannamál. Að kristnum skilningi hefur móðurmálið eigið gildi, sem andsvar jarðarbarna við ávarpi Guðs. „Kristindómurinn er þýdd trúarbrögð“ - vegna þess að Orðið varð hold, líf, maður í þessum heimi, á okkar jörð. Með öllum þeim takmörkunum sem því fylgir. Í litlu barni fékk orð Guðs líf, orðið sem í öndverðu hljómaði yfir djúpin dauðu: „Verði ljós!“ og það varð ljós, nú hljómaði það sem ambur, bros, hjal og grátur ómálga barns í Betlehem. Og smám saman sem orð og mál, sem auglit, atlot, mál móður og ástvina laðaði fram af munni hans, alveg eins og þegar þú fékkst málið. Guðs sonur, frelsari heims, eignaðist móðurmál, sem honum var lagt á tungu og á hjarta. Síðar kom hann fram sem kennari, meistari, leiðtogi sem fræddi um Guð og vilja hans og markmið á móðurmáli sínu, með ræðum, sögum og líkingum sem dregnar voru fram úr sjóði máls og sögu, minninga, trúar og menningar þjóðar hans.
Orð Guðs varð hold, lifandi orð á mannlegri tungu. Á móður-máli, mannamáli, en ekki engla. Og er því háð samhengi og túlkunum eins og allt mannlegt. Lengst af sögu sinnar var kirkjan hans reyndar án hins prentaða orðs og án þess að reiða sig á að lesa af bók. Sagan var sögð, orðið boðað, prédikað, sungið og beðið í samfélagi safnaðarins. Kristin kirkja er túlkunarsamhengi og samfélag, sem leitast eftir að heyra orðið handa orðanna, röddina að baki bókstafnum, orðið sem ávarpar okkur til að laða okkur til andsvars, til fylgdar í trú og kærleika.
Bænin er hámark málþroskans, og trúin hin æðsta viska. „Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.“
Biblíuþýðingar hafa einatt orðið til þess að tungumál eignuðust ritmál og björguðust frá glötun. Þetta er að gerast nú víða um heim þar sem Biblíuþýðendur sitja við að orðtaka og skrá tungumál, setja saman málfræði og stafróf til að geta þýtt boðskap ritningarinnar. Hið íslenska biblíufélag hefur um árabil stutt slíkt þýðingastarf til dæmis í Eþíópíu að tilstuðlan góðs fólks hér heima sem hefur látið fé af hendi rakna til þess starfs sérstaklega. Fullyrða má að þar sem Biblían hefur verið þýdd hafi það eflt þjóðir og þjóðflokka til sjálfsvirðingar og skipt sköpum um þróun og varðveislu menningar. Hlutar ritningarinnar eru nú til á 2500 tungumálum og mállýskum. Fjöldi tungumála sem eru lifandi og virk í samtímanum væru útdauð fyrir löngu ef kristindómurinn hefði ekki komið til. Það voru kristniboðar sem létu verða sitt fyrsta verk að þýða texta ritningarinnar yfir á tungumálið, og til þess þurfti oftar en ekki að búa til ritmál og kenna fólki að lesa. Þetta þekkjum við Íslendingar manna best. Hlutar ritningarinnar voru þýddir á íslensku þegar á 12. öld. Staðreynd er að það var með þýðingu kristinna helgirita, biblíutexta þar á meðal, að íslenska varð til sem ritmál.
Veturinn 1534-35 sat Oddur Gottskálksson í fjósinu í Skálholti við að þýða Nýja testamentið á íslensku. Sjálfur hafði hann á orði: „Jesús, lausnari vor var lagður í asnastall, en nú tek ég að snúa orði hans á móðurmál mitt í fjósi.“ Það er helgisagnablær yfir þeirri frásögn og hugrenningatengslin augljós. Orðið varð hold.
Áhersla íslenskra kirkjuleiðtoga siðbótartímans á að Orð Guðs skyldi ætíð vera boðað hér á íslenskri tungu hefur haft meiri áhrif en nokkuð annað á varðveislu móðurmálsins og sjálfstæði okkar þjóðar. Hómilíubókin, Nýja testamenti Odds og Guðbrandsbiblía, þessi öndvegisrit íslenskrar menningar eru vitnisburður um frjómagn tungunnar og samhengi hugsunar og tjáningar í landinu um aldir. Hin nýja þýðing íslensku Biblíunnar stendur á þeim trausta og göfuga grunni.
Tíðindum sætir að hin nýja útgáfa Biblíunnar inniheldur Apókrýfar bækur Gamlatestamentisins. Þær eru nú aftur komnar inn í Biblíu okkar Íslendinga. Þær voru það alla tíð allt frá Guðbrandi og fram á nítjándu öld. Okkur er rétt og skylt á þessum tímamótum að þakka þeim erlendu velgjörðamönnum Íslendinga sem stuðluðu að stofnun Hins íslenska biblíufélags. Það voru erlendir velgjörðarmenn sem sáu til þess að Biblían varð almenningseign á Íslandi. Við eigum Breska og erlenda Biblíufélaginu mikið að þakka. En þessir hollvinir okkar lögðu áherslu á að Apókrýfubækurnar væru ekki með og hinu vanmegna félagi úti hér var ekki annað fært en að lúta því.
Nú eru Apókrýfubækurnar aftur komnar heim. Nú geta Íslendingar aftur farið að vitna í spakmæli Síraksbókar eins og þeir gerðu um aldir. Apókrýfubækurnar gefa okkur dýrmætt tækifæri að fræðast enn betur um bakgrunn Nýja testamentisins, og þann undursamlega menningarheim og sögu sem Biblían geymir. Eins minna þær okkur á að kirkjan hefur aldrei álitið allar bækur Biblíunnar jafngildar. Þar er mikill munur á. Esterarbók, sem aldrei nefnir Guð, og Makkabeabók með bardagalýsingum sínum eru gjörólíkar Davíðssálmunum. Guðspjöllin bera af þeim öllum. Vegna þess að þar er lykilinn að finna. Jesús Kristur er orðið sem varð hold. Lúther sagði að Gamla testamentið væri jatan sem Jesús var lagður í. Fyrirheitin rætast í honum og í ljósi hans ber okkur að lesa og túlka og leita leiðsagnar í orðinu helga. Sérhvert rit Biblíunnar, orð og frásagnir megum við meta í ljósi hans og út frá mælikvarða fagnaðarerindis hans.
Biblían er Guðs orð, á mannamáli, marghliða blæbrigðarík, eins og maðurinn. Bækur Biblíunnar margvíslegar og mismunandi, eiginlega eins og margradda kór, tenorinn og bassinn, sópran og alt, þannig er Biblían, ljóðið og lagatextinn, ættartalan og annállinn, helgisögnin og ævintýrið, dæmisagan, heimspekin, bænamálið, lofsöngurinn, angistarkvein og reiðióp, þakkarandvörp, huggunarorð, prédikun og sagan. Á mannamáli, í mannlegri reynslu, í margradda vitnisburði og frásögnum. Ritningin túlkar ritninguna, eitt varpar ljósi á annað. Kristur er lykillinn, hann sem allt bendir til og vísar á, hann lýkur upp hirslum hennar og leyndardómum og birtist þeim sem hlustar og hlýðir og segir: „FYLG ÞÚ MÉR!“
„Kristindómurinn er þýdd trúarbrögð.“ Hann hét Hierónímus, guðfræðingurinn, sem þýddi Biblíuna á Latínu á fjórðu öld. Hann var einn lærðasti guðfræðingur fornaldar og með mestu biblíufræðingum allra tíma. Biblíuþýðing hans, Vulgata, var sannarlega stórvirki á sinni tíð og stuðlaði að útbreiðslu orðsins um hið rómverska heimsveldi og hafði mikil áhrif á þróun latínunnar til þeirra yfirburða sem hún naut í á annað þúsund ár sem tunga menntunar, vísinda og stjórnmála heimsins. Á efti árum settist Hierónýmus að sem einsetumaður í Betlehem, og setti á fót klaustur, með gistiaðstöðu fyrir pílagríma og skóla fyrir börn. Langdvölum dvaldi hann við bæn og íhugun í hellinum þar sem talið var að jata lausnarans hafi staðið og Fæðingarkirkjan var síðar reist. Hann sagði:„Nú er við höfum þýtt ritningarnar á tungu fólksins, þá verðum við að túlka orð hennar með verkum. Í stað þess að tala um heilaga hluti þá verðum við að iðka þá.“ Hann var að minna á það að besta biblíuþýðingin, og í raun sú eina sem skiptir máli, er sú sem birtist í breytni, viðmóti, líferni fólks. Með öðrum orðum, þegar orðið festir rætur eins og Jesús segir, hjá þeim sem „heyra orðið og geyma það í góðu, göfugu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.“
„Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri!“
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um alder alda. Amen.