Flutt 11. maí 2018 í Heydalakirkju
Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmislig. Þá líf og sál er lúð og þjáð, lykill er hún að Drottins náð. Amen.
Þannig hefur þjóðin beðið með sr. Hallgrími Péturssyni um aldir. Í áföllum, þá sagði móðir mín gjarnan: „Nú dugar ekkert annað en að biðja Guð um að hjálpa okkur“. Hún sagði upphátt það sem allir voru að hugsa. Í þjónustu minni í gegnum árin, þá hef ég svo oft orðið vitni að því hvernig bænin bar inn í sárar aðstæður frið, næði, von og umvafði fólkið hlýju og ást.
Fyrir stuttu síðan kom ung kona að máli við mig og sagði: „Mig langar svo mikið til að biðja til Guðs, en ég kann það ekki, ég veit ekki hvernig ég á að bera mig að“. Þessi spurning vekur til umhugsunar, að þeim kunni að fjölga í framtíðinni á meðal þjóðarinnar sem enga reynslu eða þekkingu hafa af Guði, trúnni og samfélaginu í kirkjunni.
Það á ekkert skylt við efann sem einlæg trú veltir fyrir sér gagnvart stærstu spurningum lífsins.
Ég á við að nú sé að alast upp fjöldi barna í landinu sem lítið veit um
Guð og nýtur ekki uppeldis í trú. Það er áhyggjuefni. Hvaða áhrif mun
það hafa í þjóðlífinu?
Það þekkjum við, sem eigum reynslu áranna að baki, hve kristin trú er
dýrmæt burðarás í siðrænu gildismati, göfgar menninguna og verið
haldreipi þjóðar í blíðu og stríðu.
Alltaf hefur hvers konar Guðsafneitun verið til staðar, sem frekar hefur
þjappað fólki saman um trúna en sundrað. En að láta sér trú í léttu
rúmi liggja eins og skipti ekki máli. Það er áhyggjuefni, að þeim kunni
að fjölga sem hvorki hafa kynnst Guði né lært að eiga samtal við hann í
bæn.
Er hér um almennt sinnuleysi að ræða og varðar þá ekki aðeins trúna,
heldur líka samfélagsvitundina, ábyrgðina og afstöðu til samferðafólks?
Af því að í trúnni beinast augu og verk ekki aðeins að sjálfum sér,
heldur að velfarnaði náungans. Í bæninni biðjum við fyrir ástvinum okkar
nær og fjær, líka fyrir þeim sem við þekkjum ekki. Lifandi bæn ræktar
ábyrgð og glæðir vitund um að vera saman á lífsveginum.
Við lifum á miklum umbrotatímum. Nútíminn hefur borið okkur slíkar
tæknibyltingar, að einstaklingurinn gæti haldið augnablik, að kæmist af
einn og sér af sjálfum sér. En ef nær er skoðað, þá hefur hann sjaldan
fyrr verið jafn ósjálfbjarga og öðrum háður í verldlegum skilningi.
Framfarir tækninnar byggjast á samstarfi, þar sem fjölmargir koma að
verkum, sérhæfing á öllum sviðum eykst í flókinni veröld, og allt gangi
upp, hnökralaust.
Það byggist á trausti, að við getum treyst að tækin bregðist ekki og
án þess að þekkja, þarf ekki einu sinni að spyrja, hvernig allt þetta
tækniundur er í potinn búið.
Líklega hefur tíðarandinn aldrei verið jafn auðtrúa á veröldina og einmitt núna.
Að fljúga í flugvél hátt uppi í himinhvolfinu er mikið undur og virkar stórhættulegt við fyrstu sýn. En reynslan kennir að við getum treyst þessari tækni og án þess að óttast. Við spyrjum engra spurninga áður en gengið er um borð, en treystum öðrum algjörlega fyrir lífi okkar.
Traustið nærist þannig af reynslu. Treysti ég Guði fyrir lífi mínu? Hef ég reynslu af samfélagi með Guði? Ekki konan sem spurði mig hvernig ætti að biðja, en fann innra með sér þrá til að kynnast Guði, sagði mér að inni í sér væri andlegt tóm, eins og ráðvilt í leitinni að tilgangi lífsins.
Hún spurði ekki af því að allar bjargir væru bannaðar í leit að hálmstrái til að bjarga lífi, heldur vegna þess að samkvæmt tíðarandum átti allt að vera fullkomið hjá sér, hafði eignast allt sem hugur girntist og allt í lukkunnar velstandi að hinu ytra. Samt var þarna inni eitthvað tómt sem lét hana ekki í friði. Hún þráði að kynnast Guði, læra að þekkja hann, biðja, elska og vona með Guði.
Maðurinn þráir frið í sálina, þráir næði til að njóta gæða sem ekki bjóðast á markaðstorgum, heldur úr andlegum fjársjóði sem hefur burði til að uppfylla krefjandi þrá.
En nútíminn elur á því gildismati, að allt megi kaupa og allan vanda leysa með auknum fjármunum. Ef útaf bregður, þá sé hjálpina að finna hjá öðrum en sjálfum sér. Í þessu gildismati felst líka að ófarir séu öðrum að kenna og því þurfi að finna sökudólga. Og allt á að vera svo sjálfsagt og fyrirhafnarlaust.
En sjálfstraustið og sjálfsbjargarhvötin gæti verið í molum, þetta sem var aflvaki til góðra verka forðum. Hvað verður þá um að elska náungann eins og sjálfan sig? Þá gætu símarnir með öllum sínum tengingum og skilaboðum dugað skammt.
Fyrrum var mörgum annt um virðingu sína, þrátt fyrir fátækt og
fábreytni, af því af að skilningur mannsins á sjálfum sér var ekki
metinn til fjár, heldur í gæðum sem ól hugsjón um að þjóna lífinu af
ábyrgð og trúfesti. Sjálfsvirðingin var þá metin af umgengni og þjónustu
með samferðafólki.
Þau sjá þetta best sem eiga árin að baki og meta lífið í ljósi
reynslunnar. Þá verða það ekki auðæfi heimsins eða ljóminn með frægðinni
af sálfum sér sem gaf lífinu mest, heldur samfélagið í vináttu með
ástvinum. Börnin okkar, fjölskyldan, ættingjar og vinir. Einmitt þetta
sem trúin í samfélaginu með Guði beinir sjónum okkar að. Að elska Guð og
náungann. Um það fjalla lifandi bænir okkar.
Efnislegir hlutir koma og fara og verða forgengileikanum að bráð. En vináttan með samferðafólki, þar sem við þjónum hvert öðru af ástúð og umhyggju, er það sem skiptir mestu. Þar erum við saman hönd í hönd og ræktum traust ástar og hlýju.
Þar er góður Guð kjölfestan í orði sínu og verkum. Eins og leiðarljós í önnum daganna. Þetta ljós heitir kærleikur. Þennan kærleika umvefjum við barnið í skírninni og biðjum að megi verða ljósið á ævinnar vegi. Í fermingunni staðfestir barnið sjálft að hafa Jesú Krist, ljós heimsins, að leiðtoga lífsins. Við bjóðum til vina-og stefnumóts af fallegu tilefni með Guði og ástvinum. Að leiðarlokum kveðjum við, þökkum og minnumst í Guðs nafni. Allt er þetta umvafið í bæn kærleika og friðar. Og er grundvöllur í íslenskum sið og hefur sameinað þjóðina.
Í guðspjallinu, sem ég las frá altarinu og helgað er uppstigningardegi, ræðir Jesús einmitt um kjarna málsins og segir: „Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk sem ég gjöri“. Með þessum orðum leggur Jesús áherslu á ábyrgð kristins manns. Í trúnni felst köllun til að þjóna lífinu eins og Jesús gerði.
Ég segi oft við börnin í Kirkjuskólanum, að við erum hendurnar hans Guðs, eins og englar, sendiboðar, sem falið er að þjóna með góðum verkum lífinu til farsældar og heilla. Þar eru allir jafnir, enginn öðrum æðri. Það eru svo dýrmæt skilaboð og nærast af skilningi trúar.
Hvar sem litið er til ólíkra menningarheima á jörðinni, þá sækir samfélagið mannskilning sinn í trúarbrögðin. Ekkert hefur breyst um það. Þess vegna er svo mikilvægt, að kristin trú megi áfram vera kjölfestan í sið og menningu á Íslandi. Að áfram megi vonin á Guð blómgast, „verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár sem þroskast á Guðsríkisbraut“ eins og segir í lokaorðum þjóðsöngsins okkar og er lifandi bæn. Það er engin tilviljun, heldur játning um þjóð í för með Guði.
Og minnir á bóndann forðum sem steig út fyrir bæjardyrnar sínar í morgunsárið, horfði til himins, signdi sig, þakkaði Guði og helgaði honum nýjan dag. Fól lífið og þjónustu sína í umjsá hans sem yfir öllu vakir, blessar og græðir.
Þú sérð bóndann fyrir þér við bæjardyrnar sínar á fallegum morgni taka á móti vorinu. Gróandanum, sem við erum umvafin núna. Mikið undur er það, eins og kraftaverk og minnir á Guð að verki í lífi þjóðar. Þegar jörðin íklæðist skrúða sínum og lífið allt á henni fjörvgvast. Og gerist svo snöggt, á nokkrum dögum.
Mikið er vorkoman mkil blessun fyrir lífið á Íslandi. Hefur tæknin gert nútímann ónæman fyrir þeirri blessun? Trúin og sumarið hafa alltaf verið samofin í vitund af því að hér er Guð að verki, skapari himins og jarðar. Við umvefjum þá blessun í bænir okkar.
Þar blómgast inngróin gæði, að skynja lífið og gjafir þess með Guði og mega þakka fyrir það eins og sálmaskáldið gerði í bænaversinu sínu: „Velkomin gjöf þín, oss veri nú sumarið bjarta, við henni tökum með glaðværu og þakklátu hjarta. Heill til vor snú, hjá oss í sumar lát nú, blóm þinnar blessunar skarta“. Amen.