Þegar hauströkkrið hellist yfir

Þegar hauströkkrið hellist yfir

"Hafið þið einhverntímann velt því fyrir ykkur hvernig þið eruð á svipin þegar þið eruð að skoða eitthvað í símanum ykkar eða dagblaðinu? Flest erum við sennilega frekar ómeðvituð um svipbrigði okkar á þeirri stundu – enda er einbeiting okkar þá á öðru. Það hefur hins vegar verið rannsakað að svipbrigði okkar geta haft mikil áhrif á okkar innri líðan. Ef við ákveðum að vera glaðleg á svipinn og lyftum munnvikjunum örlítið upp, í stað þess að leyfa þeim að síga niður, þá plötum við heilann víst og hann heldur að við séum glöð og í góðu skapi. Og um leið og við lyftum munnvikjunum örlítið erum við einnig að miðla gleðinni, ljósinu og voninni og þannig erum við líka betur í stakk búin til að mæta því óvænta af öryggi."

Prédikun flutt í útvarpsmessu í Hafnarfjarðarkirkju 29. september 2024

 

 

Það voru kannski einhver ykkar sem tókuð eftir því hér áðan í kirkjunni að við upphaf messunnar kveiktum við á litlu kertaljósi uppi við altarið. Á þessu litla ljósi var kveikt fyrir öll þau sem hafa átt um sárt að binda vegna áfalla undanfarnar vikur. Ljósið litla sem logar hér í kertastjakanum og þið sem heima sitjið sjáið ekki  - en finnið kannski fyrir - er ljósið okkar allra, því í þessu ljósi sameinum við hugi okkar og glæðum neistann sem býr innra með okkur. Þetta ljós er merki um von og birtu og það styrkir okkur í trúnni um að hlutirnir muni fara á betri veg.

 

Það var kaldan en bjartan septembermorgun að við lögðum af stað tveir prestar héðan frá Hafnarfjarðarkirkju til Krýsuvíkur í þeim tilgangi að halda þar árlega haustmessu.  Við lögðum af stað glöð í bragði og dásömuðum náttúrufegurðina á leiðinni enda er upplifun að keyra Krýsuvíkurleið á björtum haustdegi - og þó að það sé jafnvel dumbungur í veðrinu eins og stundum er á þessu svæði,  þá leynir stórfengleg náttúran sér aldrei á þessari leið. Fjallavötn, sprengigígar og gular fjallshlíðar að hausti. Sköpun Guðs í allri sinni dýrð. Það er hins vegar gjarnan stutt á milli ljóss og myrkurs í þessum heimi og þegar við síst eigum von á þá fer lífið með okkur í óvæntar áttir. Samdægurs bárust okkur landsmönnum lamandi sorgarfréttir af þessum sömu slóðum. Ekki voru það fyrstu hörmungar fréttirnar sem íslenskt samfélag hafði fengið þessi síðustu misseri.

 

En hvernig getum við mætt slíkum fregnum? Getum við hjálpað með einhverjum hætti? Getum við verið ljósið á ljósastikunni og lagt okkar að mörkum? Sannarlega þráum við það mörg að geta orðið að liði.

 

Í textanum úr guðspjallinu sem lesið var hér áðan segir Jesús við lærisveina sína: „Ekki bera menn inn ljós og setja það undir mæliker eða bekk. Er það ekki sett á ljósastiku?” Jesús felur okkur það samfélagslega hlutverk að láta ljósið ekki slokkna sem hann hefur borið með sér í heiminn. Hann biður okkur að halda því á lofti og bera það manna á milli. Við erum áhrifavaldar segir hann og hlutverk okkar er að vera boðberar kærleikans í köldum og hörðum heimi.

 

Það er þrátt fyrir það margt sem bendir til þess að afskiptaleysi sé vaxandi vandamál í okkar samfélagi.  Óttinn við að ógna eigin öryggi kemur þá oft í veg fyrir að gripið sé inní aðstæður þar sem grunur leikur á að ekki sé allt með felldu. Þessi ótti er eðlilegur og getur átt rétt á sér, en við megum þrátt fyrir það ekki láta hann hindra okkur til góðra verka, heldur þurfum við nú sem aldrei fyrr að sýna hugrekki og samlíðan. - Láta okkur ekki vera sama um náungann.  Öll þörfnumst við umhyggju og samlíðunar frá samferðafólki okkar – og það sem meira er, við þörfnumst þess öll að sýna öðrum manneskjum samkennd og umhyggju. Við erum líka áhrifamikil segir Jesú. Við getum með orðum, gjörðum og allri veru okkar snert við fólki og áorkað þannig miklu. Við getum ýmist byggt upp eða rifið niður. Við getum fengið aðra með okkur í lið eða á móti. Við skiptum sköpum í lífi hvers annars þó við áttum okkur ekki alltaf á því.

 

„Gætið að hvað þið heyrið. Með þeim mæli, sem þið mælið, mun ykkur mælt verða og við ykkur bætt“. Hér biður Jesú okkur jafnframt að varðveita boðskapinn og vanda okkur þegar við miðlum honum áfram. Hann leggur til að við höldum því á lofti sem gott er en drögum úr neikvæðum sögusögnum sem byggðar eru á veikum grunni. Við eigum ekki að vera Gróa á Leiti samfélagsins, sem áttar sig sjaldnast á því hvaða afleiðingar ánægja hennar af frásögnum getur haft fyrir annað fólk.  En könnumst við ekki öll við að hafa verið Gróa í okkar í eigin lífi og gleymt okkur í sögusögnum sem við höfum haft litla vitneskju um hvort eru sannar? Jesús biður okkur um að vera minnug þess að slíkir sleggjudómar geta verið hreint samfélagsmein og að dómharka og hroki lýsa gjarnan hræddri manneskju. Nú má ekki skilja það sem svo að við höfum ekki fullan rétt á því að hafa áhuga á öðru fólki og lífi þess – þvert á móti leggur Jesús áherslu á að við sýnum öðru fólki áhuga - en verum meðvituð um á hvaða hátt við höfum áhuga á lífi annarra og skoðum hvers eðlis áhuginn er og hvaða tilgang hann hefur og leggjum okkur fram um að áhuginn sé uppbyggilegur – þannig vöxum við og þroskumst í samfélagi við annað fólk.

 

Kveiktu á ljósi hvar sem þú ert

kveikirðu á öðru er betur að gert

þó loginn sé veikur lýsir hann sterkt

og ekki gleyma öðru ljósi að morgni

 

Þetta bænaljóð Valgeirs Guðþjónssonar lýsir mikilvægi þess að við kveikjum ljós hjá samferðafólki okkar. En um leið og bænaljóðið hvetur okkur til að kveikja á ljósi í hjörtum annars fólks, þá hvetur það okkur líka til að halda loganum lifandi í hjarta okkar sjálfra – og kannski er það einmitt það sem gjarnan er vandasamast.  En þó að sá logi sé stundum veikur þá er hann ekki tilgangslaus. Ljósið, hversu veikt sem það er, á það nefnilega til að endurkastasta og speglast.

 

Í rannsóknum um áfallafræði kemur fram að fólk sem trúir og iðkar trú sína og bænalíf – kemst fyrr í geegnum erfið áföll sem það lendir í um ævina. Hugur okkar er nefnilega máttarstólpi í líðan okkar og getur stjórnað miklu um hvernig við komumst af þegar við erum hrædd eða sorgmædd. Og í ljósi þess er áhugavert að veita því athygli hversu miklu máli meðvitund okkar getur skipt í leit okkar að vellíðan og hamingju – í leit okkar að ljósinu.

 

Hafið þið einhverntímann velt því fyrir ykkur hvernig þið eruð á svipin þegar þið eruð að skoða eitthvað í símanum ykkar eða dagblaðinu? Flest erum við sennilega frekar ómeðvituð um svipbrigði okkar á þeirri stundu – enda er einbeiting okkar þá á öðru. Það hefur hins vegar verið rannsakað að svipbrigði okkar geta haft mikil áhrif á okkar innri líðan. Ef við ákveðum að vera glaðleg á svipinn og lyftum munnvikjunum örlítið upp, í stað þess að leyfa þeim að síga niður, þá plötum við heilann víst og hann heldur að við séum glöð og í góðu skapi. Og um leið og við lyftum munnvikjunum örlítið erum við einnig að miðla gleðinni, ljósinu og voninni og þannig erum við líka betur í stakk búin til að mæta því óvænta af öryggi.

 

Þegar hauströkkrið hellist yfir er fátt hlýlegra en að kveikja á litlu kerti. Ef þú hefur tækifæri til, hlustandi góður – kveiktu þá á litlu kerti þegar fer að rökkva í kvöld og hugsaðu til þeirra sem eiga um sárt að binda. Farðu jafnvel með stutta bæn í huganum, bæn frá eigin brjósti. Hún þarf ekki að innihalda mörg orð.

Trúin er nefnilega máttarstólpi í lífi okkar allra – ekki bara þegar á reynir hjá okkur sjálfum, heldur líka þegar við viljum sýna samstöðu og samhyggð með öðru fólki sem á um sárt að binda.

 

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen