Prédikun í Grensáskirkju 17.5.20: Þolgæði
Þvílík gleði að geta aftur safnast saman í kirkjunni okkar! Við höfum gengið í gegn um skrítinn tíma sem hefur verið mörgum erfiður. Það hefur reynt á, vissulega, og gerir enn að mörgu leyti, ekki síst fyrir þau sem nú leita leiða til að bæta upp tekjumissi eða jafnvel atvinnumissi. Fólk hefur veikst, misst ástvini, verið einmana og einangrað, og líklega höfum við flest þurft að hætta við eitthvað sem við vorum búin að skipuleggja, fjölskylduviðburði, ferðalög og svo margt annað.
Það sem okkur í kirkjunni hefur þótt hvað erfiðast hefur verið ýmislegt í kring um andlát og útfarir og að geta ekki fermt á þeim dögum sem gert hafði verið ráð fyrir. Það var líka svekkjandi fyrir okkur mörg að missa af helgihaldi um bænadaga og páskahátíð. Við reyndum að bæta okkur það upp með því að senda út helgistundir og sunnudagaskóla á fasbókinni og heimasíðum kirknanna, bæði helgar og hátíðir og Eva Björk og Jónas voru líka með örhelgistundir í hádeginu á miðvikudögum. Við Ásta höfum líka verið með streymi frá kyrrðarstundunum okkar í hádeginu á þriðjudögum og svo færðum við núvitundarstundirnar til hádegis á fimmtudegi og streymdum þeim líka. Við höldum þeim áfram út maí og svo sjáum við til. Pálmi hefur líka verið með daglegar hugvekjur á Fasbókinni, alveg frá seinnihluta mars og er það sannarlega vel af sér vikið.
Á uppstigningardag, sem er núna í vikunni, þann 21. maí, verður send út helgistund héðan úr Grensáskirkju þar sem Hólmfríður djákni hefur hugleiðingu, Eva og Daníel eru með lestra og bænir og Ásta og kórfélagar sjá um söng. Öllu þessu hefur verið frábærlega tekið og boðskapurinn hefur náð til stærri og fjölbreyttari hóps en áður. Þannig að gamla máltækið „Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott“ sannar sig í þessu sem öðru. „Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs“ segir Páll í Rómverjabréfinu (8.28). Í traustinu til Guðs getur allt á einhvern hátt orðið til góðs, líka það sem einmitt núna virðist eintóm þjáning og vesen.
Páll postuli segir í sama bréfi (Róm 5.1-5):
Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.
Að fagna í þrengingum er ávallt tengt voninni. Við fögnum ekkert sérstaklega yfir þrengingunum sem slíkum, jibbí, nú eru erfiðir tímar! Nei, við getum fagnað vegna þess að við eigum von, von sem byggir á traustinu til Guðs sem leiðir allt til góðs. Þrengningar geta verið verkfæri, leið fyrir okkur að vakna upp úr svefndrunga daglegs lífs, skoða líf okkar í ljósi reynslunnar og finna hvernig þolgæðið getur vaxið við hverja raun.
Þolgæði er gott orð. Nú er í tísku að tala um seiglu sem á ensku er perserverance. Við gætum líka notað orðið úthald eða þrautsegja. En þolgæði er virkilega gott orð: Það eru gæði að auka þol sitt. Við dáumst að íþróttafólki sem byggir upp þol og styrk, til dæmis eins og unga konan í einu blaði helgarinnar sem hjólar 200 kílómetra á dag eins og ekkert sé. En það gerðist ekki bara si svona, hún hefur unnið hörðum höndum að því að auka þol sitt yfir langan tíma.
Þol snýst ekki bara um líkamleg uppbyggingu
heldur einnig sálræna og andlega. Við getum haft mikið um það að segja hvernig
andlegur styrkur okkar er og þjálfað sálrænt þol, æft okkur í þrautsegju. Ein
leið til að æfa upp betra andlegt þol er að stunda kyrrðarbæn, iðka núvitund
eða aðrar leiðir íhugunar. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi í kófinu að taka reglulega
þátt í íhugunarkapellu á netinu sem enn verður boðið upp á á mánudögum og
fimmtudögum eitthvað áfram. Þá sitjum við hvert á sínum stað við tölvu eða
síma, iðkum kyrrðarbæn í 20 mínútur og síðan er biblíuleg íhugun, bæn hjartans
eða önnur góð leidd íhugun. Það er alveg magnað að sitja heima og þegja með
fólki á netinu!
Já, við getum byggt upp þolgæði á öllum sviðum lífsins. Og í því erum við ekki ein. Við erum saman í þessu og við erum umvafin elsku Guðs sem gefur okkur styrk og þol í aðstæðunum. Í dag heyrðum við einn af uppáhaldsritningarstöðum margra:
Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn. Jer 29.11-14a
Það eru ómetanleg gæði að leita Guðs af öllu hjarta í öllum aðstæðum, gefast Guði heilshugar, fela sig traustinu til Guðs sem veitir okkur vonarríka framtíð. Vonin er hér og nú, við erum stödd í Vonarstræti, lifum vonina á þessu augnabliki. Það þýðir að sama hvernig allt veltist erum við fólk vonarinnar „og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.“
Í bæninni finnum við þessa tengingu við Kærleikann, við Lífið, sem ekki staðnæmist í okkur heldur er ætlað að flæða áfram. Ég sé stundum fyrir mér að ég sé eins og sólarrafhlaða, útflött á stráþaki í Afríku, sem drekk í mig orkuna frá sólinni, ekki sjálfri mér til góðs, því hvað á rafhlaðan að gera við orkuna nema það eitt að gefa hana áfram í þjónustu við daglegt líf fólksins?
Og
hvort sem bænin okkar er orðuð eða ekki gefur hún ávöxt í friðsamlegu og rólegu
lífi í guðsótta og siðprýði, eins og segir í fyrra Tímóteusarbréfi:
Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. [...] Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla. 1Tím 2.1-6a
Bænin, beðin í Jesú nafni eins og guðspjallið talar um, nafninu sem er eins og rafmagnssnúra sem tengir himinn við jörð, getur umlukið allt okkar líf, dag og nótt, í andlega ástarsambandi okkar við Guð sem gefur okkur hvert andartak. Og eins og allt það sem við setjum út á alnetið verður þar um aldur og ævi getum við sagt að bænirnar okkar lifa um alla tíð. Það er góð tilhugsun að vita að bænir forfeðra okkar og formæðra umlykja líf okkar og þannig er með okkar bænir líka fyrir börnunum, fæddum og ófæddum.
Jesús segir:
Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni
mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og
þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn. Jóh. 16.23b-24
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, sem var, er og verður kraftur okkar, kærleikur og kjarkur. Amen.
Takið postullegri blessun: Guð vonarinnar fylli ykkur öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Róm 15.13
Guðspjall:
Jóh 16.23b-30
[Jesús segir:]
Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni
mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og
þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.
Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við
yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi
munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir
yður því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að
ég sé frá Guði kominn. Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn
aftur og fer til föðurins.“
Lærisveinar hans sögðu: „Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum
við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við
að þú sért frá Guði kominn.“