Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég, þú komst, þú komst við hjartað í mér. Ég þori að mæta hverju sem er, þú komst, þú komst við hjartað í mér.Það er munur á, að vera einn og vera einmana. Ég gat ei meir, var dauðþreyttur á sál og líkama. Ég var að leita að ást! ég var að leita að ást!
Þannig er textinn eftir Pál Óskar í lagi sem hann og Hjaltalín hafa flutt með eftirminnilegum hætti á síðustu misserum. Að koma við hjartað í einhverjum. Hvernig gerum við það? Margt kemur upp í hugann. Þegar við verðum skotin og eitthvað gerist milli tveggja einstaklinga þá mætast hjörtu.
Líka þegar við gerum gott, orð eða verk sem gleðja. Þá komum við við hjörtu. Og þið hafið komið við hjörtu margra bara á þessu móti hér á Selfossi. Bara með því að vera þið sjálf, heilbrigðir og flottir unglingar sem hafið sýnt okkur öllum hér að unglingar eru frábært fólk. Verkefnin sem þið hafið verið að vinna hafa líka snert hjörtu og svo snertum við líka hjörtu þegar við umgöngumst hvert annað af umhyggju.
Ástin er fegursta tilfinningin sem við eigum í hjartanu okkar. Hún er viðkvæm en um leið ótrúlega sterk. Hún er auðsæranleg en líka afl sem er þess megnugt að breyta okkur og heiminum öllum.
Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég, þú komst, þú komst við hjartað í mér.
Guð vill líka koma við hjarta okkar.
Og fá að taka utan um okkur og hlusta á okkur. Hvað þýðir það í raun? Jú, ef Guð ætti ískáp þá væri mynd eftir þig utan á honum, ef Guð ætti veski þá væri mynd af þér í því og ef Guð væri á Feisbúkk þá væri statusinn: Ég elska þig og þegar þú lagðir þitt að mörkum við munaðarlausu börnin og unglingana í Japan þá komstu við hjartað í mér. Og svo þegar þú hjálpaðir stráknum þarna á ballinu í gærkvöldi og þegar þú splæstir hrósi á stelpuna sem þú hittir í hópavinnunni. Já, þú komst, þú komst við hjartað í mér! Og við mundum náttúrulega setja stórt læk á svona status.
Höldum áfram að koma við hjörtu fólks, fólks sem við umgöngumst daglega en líka þeirra sem búa á fjarlægum slóðum og þurfa á hjörtum okkar að halda. Það þarf oft svo lítið til. Orð, hrós, stundum tár, hlátur, verk eða faðmlag.
Í guðspjallinu í dag verður blindur maður á vegi Jesú. Og Jesús var spurður: Hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ Sem sagt það hlýtur einhver að hafa gert eitthvað af sér fyrst hann fæddist blindur, strákurinn eða mamma hans og pabbi. Það er hugsunin á bak við spurninguna. Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Og drengurinn fékk aftur sjónina. Unglingarnir í Japan sem búa við erfiðar aðstæður, eru foreldralaus, kvíðin og búa við stöðugt óöryggi. Með því að leggja þeim lið, eins og þið hafið verið að gera, eru þið að gera verk Guðs opinber. Því við erum hendur Guðs og hjörtu hans. Og við þurfum líka á því að halda að leita til hans um að fá sjón, hjálp þegar við erum í vanda og líka hjálp við að sjá það sem máli skiptir, sjá hvar hendur okkar og hjörtu nýtast best.
Förum varlega, elskum, fyrirgefum og krakkar; standið með ykkur sjálfum. Lífið er alltof stutt til að eyða því í fýlu og leiðindi. Bænin okkar allra hér í dag er einföld; að við höldum áfram að leita að ást og koma við hjörtu fólks, því þannig snertum við líka hjarta Guðs. Og í því hjarta ert þú. Elskaður og elskuð algjörlega eins og þú ert. ,,Og ég mun gefa þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst.“ Var yfirskrift landsmótsins í ár.
Með bjartsýnina að vopni og kærleikann og hláturinn eru okkur allir vegir færir; Segjum já við lífinu og því sem framundan er. Og talandi um að segja já við lífinu. Það var strákur sem var að fara að fermast á Akureyri, bjó þar í bænum en átti sér alltaf draum um að vera sveitastrákur. Hann var dálítið sérstakur og heyrnin var stundum aðeins að stríða honum. Og þegar kom svo að því að presturinn spurði hann á fermingardaginn: Vilt þú leitast við af fremsta megni að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins? Svaraði strákur: Uuu- já, ég er búinn að vera að bíða eftir því síðan ég fæddist. Á eftir talaði prestur við strákinn og hrósaði honum fyrir einlægnina þegar hann var spurður um var hvort hann vildi af fremsta megni hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Þá varð strákur undrandi: Já, sæll sagðirðu það! Ég hélt þú hefðir spurt mig hvort ég vildi fara í sveit á Fremsta Felli!
Jæja, elsku vinir. Flottu krakkar, fallegu leiðtogar og krúttlegu prestar. Gullhjörtun öll sem eru hér!
,,Ég þori að mæta hverju sem er, þú komst, þú komst við hjartað í mér.“ Guð gerir okkur kleift að mæta hverju sem er, þannig er það. Og ég þreytist ekki á að segja við ykkur: Þið eruð frábær og nú gildir að halda áfram öflugu starfi þegar heim er komið. Þið eruð andlit kirkjunnar okkar og hjörtu. Megi Guð blessa heimferð ykkar allra og geyma í hjarta sínu. Amen.