Hvíld og fasta

Hvíld og fasta

Hann leit á mig og spurði: „Hva, ertu ekki presturinn okkar hérna?“ „Jú, jú, ég er það.“ svaraði ég. „Nú, fastar þú ekki núna fyrir jólin?“

Lexía: Jes 30.15, 18-19

Pistill: Kól 4.2-6

Guðspjall: Lúk 13.10-17

 

Biðjum: Góði Guð!

Þín umsjón æ mér hlífi,

í öllu mínu lífi,

þín líknarhönd mig leiði

og lífsins veginn greiði. (sl.532:4) Amen.  

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Ljóðið um sköpun heimsins

 

Á fyrstu síðum Biblíunnar má finna hið undurfagra ljóð um sköpun heimsins, sköpunarsöguna. Þar segir frá því er Guð skapar heiminn á sjö dögum.

 

Kenningarnar um Miklahvell segja að heimurinn hafi orðið til í mikilli sprengingu fyrir 13,7 milljörðum ára, eins og þið kannski þekkið.

 

Síðan þá hefur alheimurinn verið að þenjast út, samkvæmt þeim kenningum.

 

Mér finnst þetta spennandi kenningar. Hugmyndin um Miklahvell vekur upp margar spurningar, skemmtilegar spurningar, sem ekki er auðsvarað. Hvað var það sem sprakk, fyrst ekkert var til?

 

En nóg um það.

 

Stundum hefur því verið haldið fram að hugmyndin um Miklahvell og ljóðið um sköpun heimsins séu svo miklar andstæður að vart sé hægt að tileinka sér þá lærdóma báða tvo, án þess að lenda í óleysanlegri mótsögn. Ekki sé hægt að trúa boðskap Biblíunnar og á sama tíma viðurkenna mikilvægi kenningarinnar um Miklahvell.

 

Hvað finnst þér? Hvernig hugsar þú um þessa hluti? Er um að ræða ósamrýmanleg mál, eða hvað?

 

Ég fagna hvoru tveggja. Ég fagna kenningum í náttúruvísindum sem veita okkur svör við áhugaverðum spurningum og á sama tíma vekja svo margar aðrar skemmtilegar spurningar. Ég fagna einnig því merkilega og sterka tungutaki sem sköpunarljóðið miðlar til okkar um eðli lífsins á jörðunni. Það tungutak hefur þróast svo lengi sem menn hafa gengið um á jörðunni og miðlar slíkum sannindum um mildi og kærleika sem hvergi annarsstaðar er að finna.

 

Viðfangsefnið er það sama, þ.e.a.s. heimurinn og umhverfi okkar, sköpunin, en sjónarhóllinn er ólíkur. Kenningin um Miklahvell fjallar lítið um spurningarnar „Af hverju?“ og „Til hvers?“, en meira um spurninguna „Hvernig?“

 

Sköpunarljóðið fjallar hins vegar meira um spurningarnar „Af hverju?“ og „Til hvers?“, þar sem hugmyndir um tilgang og hlutverk, eðli lífsins, markmið og stöðu mannsins hér í heimi, eru sem rauður þráður textans, og þeirra texta sem á eftir koma. Hinir fornu textar Biblíunnar geta nefnilega gerbreytt því hvernig þú hugsar og hvernig þér líður, enn í dag. Gerbreytt því á ljóssins máta, þér til blessunar.

 

Svo hefur einnig verið sagt að sköpunarsaga Biblíunnar fjalli um andlegan veruleika, þ.e.a.s. þegar sál mannsins vaknar. Að sköpunarljóðið fjalli um andlegt líf mannsins, andlegt líf mitt og þitt. Hægt er að skilja ljóðið í slíku samhengi, þ.e.a.s. þegar við opnum augun fyrir því að Guð er til, þá er eins og heimurinn verði til að nýju. Eins og þegar talað er um ljósin tvö í sköpunarsögunni, hið stærra og hið minna, sól og mána, er hægt að túlka það á þann máta að ljósin tákni tvenns konar skilning, hins mannlega og hins guðlega, en nóg um þetta í bili.

 

Sköpun á sex dögum eða sjö?

 

Í ljósi þeirra texta sem lesnir voru hér áðan, fannst mér mikilvægt að hefja þessi orð á vísun í sköpunarljóð Biblíunnar.

 

Guðspjall dagsins fjallar nefnilega um það er Jesús læknar á hvíldardegi, eins og þið heyrðuð áðan.

 

Hvíldardagur!

 

Hvaða merkingu hefur það hugtak í ykkar huga?

Haldið þið hvíldardaginn heilagan?

Hefur sá dagur þýðingu fyrir ykkur?

 

Sköpunarljóðið á fyrstu síðum Biblíunnar segir frá því er Guð skapaði heiminn á sjö dögum.

 

Reyndar er það svo að Guð skapaði heiminn á sex dögum. Sjöunda daginn hvíldi hann sig.

 

Þá er það spurningin, hvort skapaði Guð heiminn á sex eða sjö dögum?

 

Í textanum er fögur lýsing á öllu því sem Guð skapaði hina fyrstu sex daga. Þar kemur til dæmis fyrir:

 

ljós og myrkur,

land og haf,

himinn og jörð,

tunglið og stjörnurnar,

dýrin og plönturnar,

og svo maðurinn.

En svo segir: Á sjöunda degi lauk Guð verki sínu og hvíldist hinn sjöunda dag frá öllu því er hann hafði unnið. Og Guð blessaði sjöunda daginn og helgaði hann því að þann dag hvíldist Guð frá öllu sköpunarverki sínu sem hann hafði unnið að. Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar.

 

Guð hvíldist, segir einmitt þarna og svo blessaði Guð sjöunda daginn og helgaði hann.

 

Ég velti stundum fyrir mér hvort við séum búin að gleyma mikilvægi hvíldardagsins. Fólk lendir í því í störfum sínum í nútímanum að brenna út. Öll þekkjum við slík dæmi og kannski þekkjum við slíkt á eigin skinni.

 

Að Guð skyldi hvílast virðist skipta máli. Sjöundi dagurinn er talinn með. Það eru ekki bara verkin, sköpunarverkin sjálf, sem teljast til sköpunarferilsins, heldur einnig hvíldin. Verkið er ekki fullnað fyrr en Guð hafði hvílst. Hvíldin fullnar verkið.

 

Þróun

 

Á þessu byggist einmitt hvíldardagsboðið í Biblíunni. Eitt af boðorðunum tíu er einmitt hvíldardagsboð, þriðja boðorðið.

 

En svo í þessum guðspjallatexta, sem lesinn var áðan, þá læknar Jesús einmitt á hvíldardegi.

 

Jesús sá ástæðu til að endurtúlka þetta boð. Eitthvað var það í samfélaginu og samtíma hans sem skapaði þá nauðsyn.

 

Að túlka textana er vitanlega eitt af mikilvægustu verkefnum kirkjunnar, þ.e. að spyrja ávallt spurninganna: Hvernig túlkum við þessi orð? Hvað þýðir þetta boðorð?

 

Það var einmitt það sem Jesús gerði gjarnan í samtölum við viðmælendur sína, hann spurði, hvernig túlkar þú? Með því felur hann viðmælendum sínum ábyrgð og hlutverk, því orðin má aldrei nota af ábyrgðarleysi, eins og stundum er gert, þar sem gripið er í textabrot úr Biblíunni, samhengislaust, og fólk lamið í hausinn með einstaka tilvitnunum.

 

Í guðspjalli dagsins spyr Jesús hins vegar ekki hvernig menn túlka, heldur framkvæmir hann, til að sýna fram á nýja túlkun. Hvernig skiljið þið það? Ég skil það þannig að Jesús vill að við leitumst ávallt við að hjálpa, lækna og líkna. Við eigum í það minnsta ekki að skýla okkur að baki gamalli túlkun á textum, sem kemur í veg fyrir að einhver hljóti heilsu, frelsi og lækningu.

 

Það er einmitt verkefni okkar allra, að bera slíka ábyrgð á túlkuninni og afstöðu okkar hvers og eins, og þróa þá túlkun í bæn, samfélaginu til heilla.

 

Hvíldin - leyndardómur

 

Það virðist svo með allt líf að hvíldin veitir vöxt, nýtt upphaf og úrvinnslu.

 

Það þekkist við jarðrækt og uppskeru. Akrana þarf að hvíla.

Dýrin hvílast, páfagaukurinn á grein sinni, hundurinn í bælinu og þannig mætti áfram telja.

 

Er það ekki einnig svo að börnin vaxa þegar þau sofa? Þegar þau vaka og borða, leika og ærslast eflast þau, en í hvíldinni vaxa þau og stækka.

 

Svefninn er auðvitað heilmikill leyndardómur. Draumar birtast, hugsanir og ýmislegt, sem erfitt er kannski að skýra að fullu. Biblían er uppfull af frásögum af því er fólki vitrast eitthvað í draumi. Í draumaheiminum eru opnar einhverjar samskipta- og boðleiðir sem virðast lokaðar er við vökum. Sumir eru næmari að þessu leiti en aðrir, eins og við þekkjum.

 

Góður nætursvefn er forsenda heilbrigðis. Svefn gefur líkamanum tækfæri til að hvílast og endurnýja sig og styrkir ónæmis- og taugakerfið. Án svefns er heilinn ófær um að skapa og halda utan um minningar og vinna úr tilfinningum og hugsunum. Svefnskortur eykur líkur á ýmsum heilsukvillum. Það er óumdeilt að svefn er lífsnauðsynlegur, grunnstoð líkamlegrar og andlegrar heilsu. 

 

Við þekkjum hvað dagarnir geta verið erfiðir ef við sofum illa. Talað er um fjögur stig svefnsins, sem endurtaka sig yfir nóttina. Bliksvefn eða REM, Rappit Eye Movembent, er einmitt tími draumanna.

 

Úrvinnsla áfalla

 

Það er svo merkilegt með áföll og missi að þau trufla gjarnan svefninn hjá fólki. Kannski þekkið þið þetta.

 

Ef fólk hefur gengið í gegnum einhverjar ítrustu aðstæður, þ.e.a.s. kannski séð einhvern hrylling gerast, eitthvað sem maður nær ekki alveg utanum, kannski hefur maður sloppið óskaddaður úr ferlegu bílslysi. Þá gerist það stundum að fólk vaknar um miðja nótt, hrekkur upp, veit kannski ekki af hverju. Af hverju er ég farinn að sofa svona illa?

 

Það er nefnilega einhver úrvinnsla í gangi í heilanum þegar við sofum. Úrvinnsla á því sem við höfum gengið í gegnum, myndir fara í gegnum hugann, raðast á sína staði, með einhverjum hætti. En svo þegar bílslysið kemur upp í hugann, eða einhver annar hryllingur, og við náum ekki utan um heildarmyndina, þá hrökkvum við gjarnan upp, því heilinn nær ekki að fullu utan um lífsreynsluna.

 

Þess vegna er gjarnan talað um áfallahjálp, í dag. Áfallahjálpin sem snýr að viðbragðsaðilum á vettvangi snýst oft um viðrun. Þ.e.a.s. þá kemur fólk saman sem hefur staðið í ströngu, sest kannski í hring, einhver leiðir stundina með hnitmiðuðum spurningum og veitir fólki tækifæri á að raða heildarmyndinni saman. Lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningarfólk, prestar og aðrir. Hvar varst þú þegar þetta gerðist? Og þú, og þú og þú. Hvenær varst þú kallaður út? Fyrsta gerðist þetta, og svo þetta, svo kom ég og svo komst þú, svo gerðum við þetta. Þannig fá viðbragðsaðilarnir ákveðna heildarmynd, sem hjálpar fólki að skilja og staðsetja sig og viðbrögð sín.

 

Þegar sú heildarmynd er komin, þá skilur maður betur, sér hvernig maður hefur brugðist við, hvað hefði kannski mátt betur fara, hvað vel var gert, og svo framvegis, þá er líklegra að fólk sofi betur á nóttunni.

 

Eitthvað meira

 

Varðandi hvíldina sem Biblían miðlar, þá boðar hún okkur meira en góðan nætursvefn. Boðskapurinn fjallar um hvíldardag. Ég tel að þarna sé enn einn leyndardómurinn, sem er kannski einnig augljós, þegar betur er að gáð. Leyndardómur sem getur skipt okkur verulegu máli, ef við berum gæfu til að tileinka okkur hann.

 

Að mínum skilningi fjallar hvíldardagsboðið um að við stöldrum við. Það fjallar um að við gefum okkur tíma og rými til að horfa yfir liðna daga, velta vöngum, meta stöðuna, horfa í eigin barm, varpa upp spurningum:  Hvernig gengur? Hvert er ég að stefna með þessu háttarlagi? Hvernig get ég gert betur?

 

Og svo kannski einnig að gera bara ekki neitt. Spyrja ekki spurning, heldur leyfa okkur bara að vera, finna, hugsa. Leyfa tilfinningunum og hugsunum bara að koma, jafnvel einhverju erfiðu, dvelja þar í trausti þess að Guð muni vel fyrir sjá.

 

Eins og Guð staldraði við, samkvæmt sköpunarljóðinu, og hvíldist hinn sjöunda dag, eins eigum við að gera.

 

Á kirkjulegum nótum gætum við spurt: Hvernig lifi ég lífinu samkvæmt vilja Guðs? Hvað ætli Guð vilji með mitt líf? Eru verk mín og hugsanir í samræmi við vilja Guðs? Hvernig get ég bætt þar úr?

 

Mikilvægt er að veita sér slíkt svigrúm til að staldra við og endurspegla liðna daga og atburði, áður en lengra er haldið.

 

Taktur

 

Það er ákveðinn taktur breytinga í lífinu. Árstíðirnar veita okkur þær breytingar, einnig dagar vikunnar. Svo er taktur innan hvers dags, þar sem morguntíminn hefur sína siði, hádegið og síðdegið, kvöldið og nóttin. Lífið rammast gjarnan inn af slíkum þáttum. Og svo eldumst við öll, hvert æviskeið virðist hafa sinn sjarma, einnig sínar áskoranir og verkefni.

 

Endurskoðun og endurmat, er nauðsynlegur hluti af slíku samhengi öllu. Við þurfum að hafa tíma og rými til að staldra við á þann máta.

 

Hvíld og fasta

 

Frásögur Biblíunnar eru uppfullar af slíkum reynslusögum. Það er merkilegt að sjá í Biblíunni að tvennt virðist haldast í hendur þegar mikið liggur við, hvíld og fasta.

 

Áður en fólk tekur stórar ákvarðanir, þá fastar það, vissuð þið þetta? Áður en ráðist er í næsta verkefni, þá er búið að biðja, hvílast og fasta. Staðan tekin, og svo er hægt að taka næstu skref.

 

Fasta

 

Ég hef reynt að tileinka mér þetta hin síðari ár, þ.e.a.s. gert ákveðnar tilraunir varðandi föstur fyrir jól og páska. Það hefur verið mér dýrmæt reynsla, sem ég ætla að halda áfram að þróa í rólegheitunum.

 

Þegar ég starfaði sem sóknarprestur í Noregi, á Hitra í Þrændalögum, kynntist ég manni frá Eritreu, sem heitir Samúel. Eitt sinn mætti ég Samúel þar sem ég var á leið í kirkjuna, nýkomin úr matvörubúðinni, með hádegishressinguna undir höndunum, banana, epli, safa og fleira. Þetta var á aðventunni. Hann leit á mig og spurði: „Hva, ertu ekki presturinn okkar hérna?“ „Jú, jú, ég er það.“ svaraði ég. „Nú, fastar þú ekki núna fyrir jólin?“

 

Honum fannst þetta skrýtið að ég skyldi borða þarna á miðjum degi, í miðri jólaföstu. Enda alinn upp við aðra siði í Eritreu.

 

Við spjölluðum heilmikið um þetta og ég lærði margt nýtt, sem ég hafði ekki gefið mér tíma til að tileinka mér fram að því.

 

Síðan þá hef ég smátt og smátt reynt að tileinka mér þessa hluti betur. Fastað í sólarhring, frá fimmtudagskvöldi til föstudagskvölds, á jóla- og páskaföstunni. Það virðist henta mér ágætlega. Það er ekki víst að það sama henti öllum. Mikilvægt er varðandi allt slíkt að hlusta vel á líkamann og þiggja ráð frá þeim sem reynslu hafa og betur þekkja.

 

Reglulegar máltíðir eru auðvitað mikilvægar fyrir alla líkamsstarfsemina, líkt og svefninn. En svo virðist sem í gegnum hvíldardaga og föstur, getum við öðlast lífsnauðsynlega endurnæringu og uppbyggingu. Endurnæringu og uppbyggingu sem erfitt er að öðlast með öðrum hætti.  

 

Öll umfjöllun Biblíunnar um hvíldardaginn er sveipuð dulúð en einnig þunga. Það er ljóst að hvíldardagsboðið virðist skipta miklu máli. Stundum er sagt að boðorðin tíu séu sett fram í mikilvægisröð, þ.e.a.s. það mikilvægasta fyrst og svo framvegis. Boðið um hvíldardaginn er þar númer þrjú. Stundum hefur verið sagt að fyrstu þrjú boðorðin fjalli um Guð og síðustu sjö fjalli um náungann.

 

Hvíldardagsboðið er því spurningin um tengsl okkar við Guð. Biblían miðlar okkur því að við verðum að passa að tapa okkur ekki alveg hér í heiminum, heldur er hvíldardagsboðið eitt það mikilvægasta tæki sem við fáum til að rækta og efla tengslin við okkar æðri mátt, Guð.

 

Einnig virðist hvíldardagsboðið geta eflt okkur í tengslum okkar við okkur sjálf. En þrenns konar tengsl skipta alla menn máli, tengslin við okkur sjálf, tengslin við náunga okkar og samferðarfólk og svo tengslin við tilgang og merkingu, þ.e.a.s. tengslin við Guð.

 

Ræktun hvíldardagsins getur hjálpað okkur að brenna ekki út í störfum okkar og lífi. Það er mannlegt og skiljanlegt að manneskjan lendi í slíkri stöðu, því öll lifum við stundum og göngum í gegnum ítrustu aðstæður. Þess vegna geta svona siðir og lærdómar veitt okkur styrk og stuðning, sem skipta sköpum.

 

Ég bið að hvíld og friður megi vera reynsla þín í stóru sem smáu. Megi hvíldin færa þér endurnæringu og allt sem nauðsynlegt er, heilbrigðu lífi.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju. Náðin Drottins vors Jesú Krists kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.