Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: Ég fer að fiska. Þeir segja við hann: Vér komum líka með þér.Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.
Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. Jesús segir við þá: Drengir, hafið þér nokkurn fisk?
Þeir svöruðu: Nei.
Hann sagði: Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir. Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: Þetta er Drottinn. Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík hann var fáklæddur og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.
Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
Jesús segir við þá: Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða.
Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir.
Jesús segir við þá: Komið og matist. En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: Hver ert þú? Enda vissu þeir, að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum. Jh. 21. 1-14
Lærisveinar Jesú á netinu
Þeir ákváðu að fara á netið, strákarnir, enda tímarnir breyttir og eðlilegast að snúa sér að því sem menn kunnu best og þekktu í þaula. Þetta voru þeir Símon Pétur, Tómas, Natanael og synir Sebedeusar og tveir aðrir af lærisveinum Jesú sem höfðu átt ótrúlega daga með ótrúlegum manni sem sagði þeim ótrúlega hluti og gerði ótrúleg verk. Síðustu dagarnir voru hreint út sagt ótrúlegir, beinlínis súrrealískir, fjarstæðukenndir. Meistari þeirra var horfinn eftir grimmilegan dauðdaga. Á þessum tímum var engin skipulögð áfallahjálp sérfræðinga til. Grátkonur mátti jú panta gegn greiðslu samkvæmt gjaldskrá. En áfallahjálp var engin. Menn gerðu bara það sama og Íslendingar hafa gert um aldri: bitu á jaxlinn og héldu til fyrri iðju. Strákarnir fóru aftur að fiska. Þeir voru heppnir að ekki var búið að taka upp kvótakerfi í millitíðinni! Nú geta ungir menn á Íslandi ekki sagt við sjálfa sig: Ég fer að fiska, fæ mér bát og gerist sjómaður. Þannig hugsuðu sumir leikfélaga minna í bernsku og sumir urðu sjómenn. Þá var hafið opið og rígaþorskur í djúpum og rækja í fjörðum. Nú eru fiskimiðin orðin eign nokkurra einstaklinga en ekki þjóðar. En strákarnir við Tíberíasvatn gátu altént sagt: Ég fer að fiska.
Nýir tímar?
Nú eru tímarnir aðrir og allt aðrir en þeir voru fyrir tvö þúsund árum. Þó ekki að öllu leyti. Er ekki mannfólkið við sama heygarðshornið? Erum við ekki eins innréttuð og fólkið forðum enda þótt önnur stjórnskipan sé við lýði og önnur tækni? Í það minnsta er það svo að kirkjan glímir við sömu spurningar og fyrr, sömu mótbárur, sömu gagnrýni, sömu óvini og forðum. Umræða liðinna mánaða um málefni kirkju og þjóðfélags ber því vott.
Þeir voru komnir til hlés strákarnir forðum, „búnir á því“, eins og nú er stundum sagt, farnir aftur á sjóinn. Þeir höfðu verið í kastljósi „fjölmiðla“ þess tíma, voru sumir þekktir fyrir að vera fylgisveinar þessa undarlega manns sem sneri Jerúsalem á hvolf og gerði allt vitlaust. Þeir voru hættir, draumar brostnir og hvunndagur tekinn við í öllu sínu tilbreytingaleysi. En þá gerðist undrið. Sérhverjar aðstæður, líka þær vonlausu, eru tækifæri til nýsköpunar og nýs upphafs - upprisu! Gott er að muna það í erfiðum aðstæðum daglegs lífs.
Grillveisla á strönd
Hann stóð á ströndinni og spurði hvort þeir ættu fisk. Hann ætlaði að bjóða í grillveislu. Strákarnir áttu engan fisk þrátt fyrir strit alla nóttina. „Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir“. Alltaf hefur mér þótt þetta hálf landkrabbaleg setning: Hægra megin við bátinn! En kannski var þetta málvenja þá í stað þess að segja á stjórnborða sem tekur mið af stefni báts. En samt var þessi setning ekki sett fram af neinum viðvaningi. Sá sem mælti vissi allt, þekkti allt og skildi því þarna var kominn hinn krossfesti og upprisni, hinn himneski á jörðu, Guð og maður, sem þekkti djúp sjávar og himinhæðir og allt þar á milli, innstu fylgsni sálar manns og tilveru allrar.
Og Símoni Pétri varð svo mikið um að hann fleygði sér til sunds og kom öslandi í land til að hitta meistara sinn. Þessi frásaga af grillveislu hins upprisna með lærisveinum sínum sem hann kallar drengi eða stráka í þessari frásögu, er djúp og tær. Í henni birtast mikilvæg sannindi sem kristin kirkja hefur ávallt staðið vörð um. Hinn upprisni er ekki vofa, hann er af holdi, hann hefur líkama, hann talar, hann finnur til, hann matast og hefur samskipti við fólk.
Upprisa holdsins í fersku minni
Upprisan hefur ávallt verið fólki ráðgáta. Hún er ótrúleg, eins og hver önnur skröksaga en er það samt ekki. Þetta áréttar Páll postuli, þessi stórgáfaði maður og rökfasti, þegar hann ritar um upprisuna í pistli dagsins (1. Kor 15). Hún er staðfest af sjónarvottum. Kristur „birtist Kefasi, [Pétri] síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa dags, en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði“, segir Páll. Hann ritar þetta um það bil 20 árum eftir krossfestinguna. Og þá eru margir sjónarvottanna enn á lífi. Og annað eins muna nú menn og upprisu manns frá dauðum, jafnvel þótt áratugir hafi liðið. Manstu hvar þú varst 23. janúar 1973, fyrir 32 árum, og manstu hvað gerðist? Hafið var eldgos í Vestmannaeyjum. En manstu hvar þú varst 22. nóvember 1963, fyrir 42 árum og manstu hvað gerðist? Þann dag var Kennedy forseti Bandaríkjanna myrtur í Dallas. Ég man hvort tveggja eins og það hefði gerst í gær og var þó aðeins á fermingaraldri þegar fyrri atburðurinn átti sér stað.
Vottað undur
Upprisa Krists er staðfest af sjónarvottum og þeir vottar sáu ekki bara anda eða vofu, svip eða sýndarveruleika. Nei, þeir sáu hinn krossfesta upprisinn í holdi. Og þeir mötuðust með honum, átu glóðarsteiktan fisk og brauð. Hann lifði sem líkami og einnig sem sál og andi. Við erum líkami sál og andi. Og VIÐ rísum EKKI upp ef SÁLIN EIN lifir eða andinn. Sú er hins vegar trú manna innan flestra trúarbragða að sálin sé eilíf. En kristin trú horfir lengra, nær dýpra, sér meira. Hún boðar upprisu holdsins. Og upprisutrúin er byggð á vitnisburði sjónarvotta. En það hefði verið auðvelt á sínum tíma að eyða þessari trú með því að leggja fram dauðan líkama hins krossfesta. Og ekki dugði tóm gröf til að sannfæra fólkið. Líkið fannst ekki og því ekkert hægt að sanna. Gröfin var aftur á móti tóm en sannaði ekki neitt í sjálfu sér. Nei, það var birting hins upprisna sem sannaði upprisuna, hans sem sagði og segir: Ég lifi og þér munuð lifa! Þetta var ástæðan fyrir því að hans nánustu vinir sem voru farnir aftur á sjóinn, á „netið“, sneru aftur til köllunar sinnar og fórnuðu lífi sínu fyrir vitnisburðinn um upprisuna og hinn upprisna. En þeir voru ekki þar með hættir að veiða.
Ný vertíð, nýtt net, ný tilvist
Nú var vertíðin hafin í alvöru! Köllun þeirra var að veiða menn, mynda tengslanet um allan heim, tengslanet hins upprisna við hin upprisnu. Við erum upprisin fyrir trú á Krist og ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs í Kristi (Rm 8.38n), engar ógnir, engir sjúkdómar, ekki einu sinni dauðinn!
Umbreyting alls lífs, allrar veraldar
Upprisan er ekki aðeins upprisa mannsins Jesú frá Nasaret og fylgjenda hans. Hún hefur mun víðari merkingu og skírskotun. Upprisa Krists segir okkur allt um framtíð heimsins, um það hvert allri sköpun er stefnt. Í upprisu Jesú birtist í smækkaðri mynd, í míkrókosmos, sú UMBREYTING sem bíður allrar sköpunar, alls kosmos. Tvennskonar hugsun er notuð um líf eftir dauðann: ódauðleiki sálarinnar eða upprisa það er að segja umsköpun allrar veru mannsins. Guðfræðingurinn Pannenberg sýnir fram á það með tilvísun í vísindalega þekkingu um að hugurinn sé háður líkamanum, að líf sálar eftir að líkaminn hefur rotnað sé algjör fjarstæða. Af því leiðir að UPPRISA er vænlegasta uppspretta vonar um líf eftir dauðann. Upprisan er skynsamlegasta lýsing á því sem bíður allrar sköpunar og þar með okkar, þín og mín. Við þessu er aðeins hægt að segja: Hellelúja! Lof sé Guði!
Gleðidagar og nýtt tengslanet
Og nú eru gleðidagarnir runnir upp, dagarnir 40 frá páskum til uppstigningardags. Vinir Jesú sáu hann upprsinn, tóku gleði sína á ný og boðuðu þá trú að lífið ætti von. Og það er einmitt fyrir þeirra orð og vitnisburð í lífi og dauða sem við erum hér saman komin í dag í Neskirkju á tímum Netsins. Nú merkir orðið net með ákveðnum greini allt annað en forðum. En myndlíkingin er sú sama. Net vísar til tengsla og í okkar tilfelli erum við í tengslaneti hins upprisna, við erum þræðir í því mikla neti sem nær um allan heim. Þetta net hefur aflað vel í gegnum aldirnar. Net aflar vel ef það er vel hnýtt og möskvarnir ekki of stórir. Er net kristninnar hér á landi að trosna? Eru kristnir menn á Íslandi hálfvolgir í áhuganum og trúnni? Vont hlutskipti það ef marka má orð Opinberunar Jóhannesar: „En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.“
Kirkjunni ber að viðhalda tengslaneti sínu í þjóðfélaginu og þar skiptum við mikli máli, hvert og eitt okkar. Tengslanetið er styrkt með bæn og trúaruppeldi, með því að halda á loft hinum kristnu gildum og standa vörð um hollt líf og helgað. Við gerum það með því að sækja kirkju og rækja samfélagið við Guð og menn.
Við megum aldrei hverfa frá hinum upprisna og leggja niður störf, snúa aftur til lífs án hans. Við erum kölluð til að lifa honum, til að kasta nýjum netum og færa fólk inn í nýtt samhengi, nýtt tengslanet réttlætis og sannleika, friðar og kærleika.
Þetta er stórkostlega hlutverk sem til er! Að rísa upp með hinum upprisna! Lifum uppreistu lífi í trú, von og kærleika. Sá er tilgangur allrar sköpunar.
Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.