Soli Deo Gloria
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Vorið bjarta er orðið að fögru sumri, þegar þið sem síðasti hópur fermingarbarna Hafnarfjarðarkirkju að þessu sinni, gangið fram til að fermast við fagurt altari kirkjunnar. Blóm og grös hafa enn einu sinni sprottið úr jörðu, fuglar, margir langt að komnir, búið sér hreiður og klakið út eggjum og komið upp ungum og lauf vaxið á trjám til að næra þau á ilgeislum sólar. Nú í vor hefur líka sérstakt og litfagurt tré verið að vaxa og laufgast í fremra anddyri Strandbergs, safnaðarheimilis kirkjunnar. Fermingarbörn vorsins og þið að sjálfsögðu þar á meðal, hafa gert laufin, sem eru komin á það og eru ekki bara græn að lit heldur marglitt enda um mósaíklistaverk að ræða. Verkið felur í sér keltneskan sólarkross með hring um krossmiðju sem lífsins tré samkvæmt einföldum grunnhugmyndum mínum. Kanadíska listakonan Alice O. Clarke vinnur verkið og útfærir það á listilegan hátt. Svo vill til, að hún er móðir Signýjar Æsu, sem er í ykkar fermingarhópi.
Laufin á trénu eiga að tákna ykkur fermingarbörn vorsins sem Jesú Kristi tengd og bundinn, og einnig fermingarbörn tveggja næstu ári er gefast mun kostur að bæta við laufum í glæsta laufkrónu trésins. ,,Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar” hefur Jesús sagt og laufin þá væntanlega líka. Ekkert lauf á mosaíkverkinu er eins enda eruð þið öll einstök, en mestu varðar, að það sé líf og kraftur í ykkur eins og í líflegum laufum. , ,,Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir."segir Jesús við þá lærisveina, sem hann hafði frætt og fylgst höfðu með verkum hans. Og þetta segjum við prestarnir við ykkur í hans nafni á fermingardegi, þegar þið horfið hvort tveggja í senn yfir liðna tíð og vongóð fram mót óræðri framtíðinni á ykkar æskuvori. Það gera líka ástvinir ykkar. Þeir fagna því að þið eruð blómleg og gæfuleg að sjá og þakka það, að góðar óskir ykkur til handa og fyrirbænir allt frá fæðingu hafa ræst og vona og biðja þess að þið fáið þroskað vel atgerfi ykkar og hæfileika, notið lífsins á ábyrgan hátt og látið gott af ykkur leiða.
Ánægjulegt hefur verið fyrir okkur presta kirkjunnar að kynnast ykkur og eiga með ykkur gefandi fræðslu- og samverustundir.
Eftir fjörlega kvöldmessu á æskulýðsdegi, var ljósmyndum varpað á vegg í Hásölum Strandbergs frá ferðum ykkar í Vatnaskóg á liðnu sumri og hausti.
Þið eruð brosmild og glöð að sjá, þegar þið róið út á Eyravatni, gangið í fjörunni, eruð að leik í íþróttahúsinu, sitjið í Friðrikskapellu og skemmtið ykkur á kvöldvökunum í Gamla- skála og eruð þar í ýmsum hlutverkum. Skemmtilegar myndir voru líka teknar af ykkur á helgarnámskeiði, sem við sr. Kjartan stóðum að ásamt leiðtogum æskulýðsstarfsins. Þar unnuð þið verkefni og sáuð valda kafla úr kvikmynd sem gerð er eftir Lúkasarguðspjalli og sunguð sálma og fjörlega söngva undir leiðsögn Þorvaldar Halldóssonar, hins velþekkta söngvara. –Þið hafið sótt morgunmessur og kvöldmessur af ýmsu tagi í kirkjunni. Þakklátir erum við prestarnir foreldrum og ástvinum ykkar, sem hafa sótt hana með ykkur og styrkt þannig fjölskyldu- og kærleiksböndin. All mörg fermingarbörn hafa einnig tekið virkan þátt í gefandi æskulýðsstarfi kirkjunnar og munu halda því áfram. Vel er þar tekið á móti nýjum félögum sem í góðum félagsskap þroska Guðs- og trúarvitund sína. Trúarhugsun og -vitund í Jesú nafni skerpa skilning á raunsönnum verðmætum lífsins, sem fæst verða metin til fjár en einkennast jafnan af því að stuðla að framgangi lífsins og farsæld þess.
Þið fermist á sjómannadegi, sem hefur víðtæka merkingu og þýðingu fyrir íslenska þjóð, er um aldir hefur mjög byggt lífafkomu sína á sjósókn og vinnslu sjávarafla.
Sjómannadaginn ber að þessu sinni, svo sem oft hendir, upp á á þrenningarhátíð, sem er jafnan næsti sunnudagur eftir hátið andans helga, hvítasunnunni.
Við, sem tilheyrum kirkju Jesú Krists, fögnum þvi og þökkum á þrenningarhátíð, að lífsins Guð hefur opinberast í þremur myndum og persónum, sem faðir, sonur og andi helgur. Við getum ekki skilið með rökum einum hvernig það má vera, að Guð sé einn en jafnframt þríeinn, en numið samt í hjarta þýðingu þess og skynjað Guð sem himneskan föður og kraftinn og kærleikann að baki allri sköpun og lífi, séð Guð líka birtast í mannsmynd í Jesú Kristi og fundið einnig áhrif hans í huga og hjarta sem virkan andblæ og ljós heilags anda, sem byggir þar upp ríki Guðs.
Messa á þrenningarhátíð og sjómannadegi minnir á þýðingu þess að nema þann andblæ og breiða hann út og styrkja í mætti hans bæna- og björgunarbandið, sem liggur milli lands og sjávar. Hún minnir líka á þá ábyrgð, sem sjómönnum og útgerðarmönnum er falin að fara vel með fiskislóðina, gæta að viðgangi hennar og veiða því aldrei svo mikið að hætt sé á viðkomubresti fiskistofna, og huga einnig að viðkvæmum sjávarbotni og hafsvæðum, svo að þau viðhaldi gæðum sínum.
- Svo skemmtilega vildi til, að fyrir skömmu vorum við sr. Þórhallur beðnir með stuttum fyrirvara að fljúga til Akureyrar og blessa þar kanadískan rækjutogara, Labrador Storm, Labrador storminn, sem er í eigu dugandi íslenskra útgerðarmanna.
Ég fermdi einn þeirra á sínum tíma, Steingrím Erlingsson, og annar er Finnur Harðarson, faðir Hildar Elfu, sem fermist hér einmitt núna. Við færðum útgerð, áhöfn og skipi innihaldsríka sjóferðarbæn, á koparskildi og fagurbrúnni mahogniplötu. Bænin var lesin í brúnni og fest þar síðan upp á vegg, þegar sálmavers höfðu verið lesin og einnig Guðspjall sjómannadags. Áhöfn og útgerðarmenn tóku virkan þátt í helgistundinni sem minnti á þann frelsara er verndað fær og blessað ferðirnar út á vötn og hafsins djúp.
Guðspjallið segir frá því, að Jesús Kristur lægði storm og öldu. Og hann gerir það enn í víðtækum skilningi og ekki síst með því að gefa hugarró og styrk í erfiðum aðstæðum.
Á þeirri listahátíð sem enn stendur yfir hér í Hafnarfirði og ber nafnið ,,Bjartir dagar” hafa farið fram upplífgandi listviðburðir og sýningar. Í Góðtemplarahúsinu gefur t.d. að líta gamlar ljósmyndir og málverk af skipum, sem fyrrum voru gerð út héðan úr Firði og drógu mikla björg að landi og ekki má gleyma. -Framþróun mannlífs og mennta hér á landi hefur mjög fylgt framsækni í sjósókn og góðum aflabrögðum þótt skilningurinn á mikilvægi hennar hafi minnkað eftir því sem fleira fólk hefur flust á þéttbýlissvæðin frá sjávarplássunum úti á landi og atvinnulífið orðið margþættara en fyrr.
En margt bendir til þess að eftir hrun íslenska fjármálakerfisins sé nú aftur hugað að raunsönnum undirstöðum þjóðlífsins.
Auðurinn, sem hampað var, byggðist ekki sem skyldi á raunverulegum auðlindum lands og sjávar.
Því er nú leitað að betri kjölfestu og traustari verðmætum til að endurreisa samfélagið á.
Ljóst er að sjósókn og sjávarafli munu þar gegna miklu hlutverki sem fyrr og siðferðileg viðmið kristinnar trúar verða að gera það líka.
-Við sjáum ekki framtíðina fyrir en góðs er af ykkur að vænta. Hvað hyggist þið fyrir? Hvað munuð þið hafast að? Hvernig ykkur mun reiða af í lífinu, skiptir máli fyrir ykkur sjálf og aðra líka hvort sem þið munuð starfa á sjó eða landi. Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins. Fermingarbörn velja sér oft þessi orð frelsarans til að fara með á fermingarstundu. Fylgd við hann þarf að vara lífið á enda hér í heimi hvernig sem gefur á bátinn hverju sinni. Hvert sinn sem þið signið ykkur og eigið hljóða stund frammi fyrir Guði í hans nafni og hugsið til hans, eruð þið í raun og veru að opna huga og hjarta fyrir helgum anda hans og áhrifum, svo að það er eins og þið séuð um borð í skipi þar sem Jesús er samferða og getur lægt storma og öldur. Hann þráír að glæða með ykkur lífskjark og fórnfúsan kærleika og þá samvisku sem er næm á það hvað er rétt og hvað rangt.
Miklu varðar að fylgja leiðsögn síns innra manns og samviskunnar, sem upplýst er af Guðs orði og anda. Og þá megið þið ekki taka Hafnfirðinginn til fyrirmyndar, er var eitthvað niðurdreginn og fór því til sálfræðings sem bað hann endilega að hlusta vel á sinn innri mann. En Hafnfirðingurinn neitaði því algjörlega, því að hann léti ekki einhvern bláókunnugan mann segja sér fyrir verkum. -Þó að í þessari gamansögu sé gengið allt of langt í tortryggni er mikils um vert að sýna gagnrýna hugsun og aðgæslu og þroskast í skilningi á því hverjir vilja manni vel og hverjir ekki og hverjum má í raun treysta.
Í skírn og fermingu tengist þið og styrkist í því kærleiksvaldi Guðs sem er grunnkjarni lífsins og Jesús Kristur birtir. Andinn helgi gerir það vald virkt á hverri tíð en það verður að fá farveg í mannlegu lífi fyrir traust og trú. Frelsarinn krossfesti og upprisni er ljós heimsins í nafni föðurins himneska og þið eruð það líka og við öll sem gerumst í trúnni farvegir og leiðslur fyrir ljós hans og líf.
-Sólbjartur fermingardagur á þrenningarhátíð og sjómannadegi, þegar sumar er að ná fyllingu sinni, gefur fögur fyrirheit og mun geymast í minni.
Eitt megin tilhlökkunarefni ykkar er væntanlega að fá fermingargjafir.
Meira er samt vert og enn dýrmætara, að þið finnið hlýja kærleiksstrauma umljúka ykkur og getið glaðst yfir því og þakkað það að eiga góða ástvini, sem láta sig varða hag ykkar og heill og finnið til þess og trúið því, að þið séuð elskuð Guðs börn, sem í Jesú nafni eru gróskumiklar greinar og lauf á fögru lífstré hans.
Guð gefi að fermingardagurinn ykkar glæði með ykkur þá trúarvitund og skilning og vernd hans og blessun sýni sig fagurlega í lífi ykkar og framtíð.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.