Prédikun flutt í Háteigskirkju og Áskirkju
Lexía: Slm 50.14-15, 23; Pistill: 2Kor 8.1-8; Guðspjall: Matt 6.1-4
Það
er dýrmætt að átta sig á því sem við sem mannkyn eigum sameiginlegt. Oft er
sagt: „Við erum öll eins“ en auðvitað erum við ekki öll eins. Það þýðir þó ekki
að þessi setning sé röng því eins og er svo algengt með tungumálið þá er
merkingin ekki alltaf fyllilega í samræmi við orðanna hljóðan. Hér er í raun um myndhverfingu að
ræða, líklegast væri réttast að flokka hana sem ofhvörf eða ýkjur, og tilgangur
hennar er að leggja áherslu á það sem við eigum sameiginlegt fremur en það sem
aðskilur.
Ég
hef einmitt alltaf túlkað texta John Lennon við lagið Imagine sem ofhvörf;
Lennon grípur til trúarlegra paradísarhugmynda og skapar heimsmynd þar sem fólk
lifir aðeins fyrir daginn í dag, allir lifa saman í friði og deila öllum
hlutum. Það er ekkert sem aðskilur: ekki þjóðerni, ekki trúarbrögð eða
trúarhugmyndir, engar eignir, í raun fullkomlega óraunsæ, útópísk hugmynd sem
er fullkomlega úr tengslum við nokkuð sem hægt er að kalla raunveruleika í
hefðbundnum skilningi. Og það er skemmtilega kaldhæðnislegt, að þessi draumsýn
Lennons er trúarleg frá a til ö og líkist mjög spámannlegum sýnum Gamla
testamentisins um þann tíma þegar allar þjóðir sameinast undir merkjum Drottins
og flykkjast til Jerúsalem. Í ljósi þessa er varla hægt að kalla það annað en
hlægilegt að lagið Imagine sé orðið nokkurs konar einkennissöngur þeirra sem
hatast við kirkjuna og trúarbrögð yfirleitt. Enda held ég næsta ljóst að Lennon
hafi í þessum texta sínum ekki verið að halda því fram að þjóðríki, trúarbrögð
eða eignir væru rót hins illa í heiminum. Auðvitað vissi hann að sú mynd, sem
hann brá upp, gæti aldrei orðið að veruleika, en með því að beita ofhvörfum og
nefna fyrirbæri sem eru hvað mest einkennandi fyrir mannleg samfélög nær hann
að leggja sérstaklega mikla áherslu á þann punkt sinn að þrátt fyrir að við
séum öll sérstök með tilliti til þjóðernis, trúarbragða og efnahags, þá sé
mannkyni nauðsynlegt að einblína á það sem það á sameiginlegt fremur en það sem
greinir á milli ef takast á að verja velferð allra og halda friðinn – en það
var einmitt inn í samhengi stríðsátaka sem hann samdi lag og texta.
Í
svipuðum dúr hljóma nú raddir, æ fleiri og æ háværari, út um allan heim, ekki
síst skærar og bjartar raddir, raddir ungmenna, raddir barna, í ákalli til
okkar allra en fyrst og fremst þeirra sem með völdin fara, hvort sem er
pólitísk eða efnahagsleg. Þetta ákall byggir einmitt á þeirri staðreynd að við
erum öll á sama báti þegar kemur að framtíð jarðarinnar, sama hversu ólík
samfélögin annars eru í menningarlegu tilliti. Þá erum við öll eins þegar allt
kemur til alls: við þurfum öll næringu til þess að lifa, við þurfum öll
húsaskjól til þess að verja okkur fyrir veðri og vindum, og við þurfum fast
land undir fótum fyrir húsin okkar og frjósaman jarðveg fyrir akrana okkar og
túnin; við þörfnumst stöðugleika í gangi náttúrunnar til þess að vera yfirleitt
fær um að afla okkur lífsviðurværis. Öllu þessu er nú ógnað og um leið okkur
sjálfum og öllum sem við elskum og öllum sem þau munu elska. Og það virðist
nokkuð ljóst að ef árangur á að nást þá er grundvallarbreytinga þörf á svari
hins vestræna samfélags við spurningunni: Hver er tilgangur lífsins?
Já,
ég veit, þetta er stór spurning og ég ætla mér ekki þá dul að kunna við henni svar.
Og eflaust spyrja sig nú margir: „Hvert er maðurinn að fara? Það er ekki
hlutverk stjórnvalda eða fyrirtækja að velta fyrir sér tilvistarlegum, heimspeki-trúarlegum
spurningum á við þessa.“ Slík athugasemd væri skiljanleg og ætti fullan rétt á
sér en þá er því til að svara að spurningin um tilgang lífsins er ekki
einvörðungu tilvistarleg spurning sem hver og einn einstaklingur út af fyrir
sig veltir fyrir sér í þeirri viðleitni sinni að gefa lífi sínu merkingu; því það
er enginn maður eyland, eins og enski skáldpresturinn John Donne orti
réttilega. Líf einstaklingsins er alltaf sambúð með öðrum einstaklingum í
breiðri merkingu og án samfélagsins sem þannig verður til þrífast
einstaklingarnir ekki. Þar af leiðandi má líta svo á að hvert samfélag lifi
sameiginlegu lífi. Og nú, í ljósi loftslagvárinnar, verður mannkynið allt að
öðlast meðvitund um að það lifi sameiginlegu lífi ef ekki á að fara illa. Og þá
má spurningin um tilgang lífsins ekki lengur vera heimspekileg
tilvistarspurning sem hver og einn veltir sér upp úr í sjálfhverfu sinni og
snýst í grunninn bara um eigin vellíðan, heldur verður skírskotun
spurningarinnar að breytast. Í stað þess að skírskota til einstaklingsins
verður hún að skírskota til – ekki bara Mannsins – heldur sköpunarinnar allrar.
Við þurfum að frelsast frá sjúklegri sjálfhverfu okkar sem hampar græðginni og birtist
m.a. í hugmyndum um nánast „heilagan rétt“ fólks til þess að kaupa og neyta og
njóta lífsins, og kröfum um hagvöxt og arðsemi fyrirtækja í þágu gróðavonar
hluthafa. Hugmyndir um samfélagslega
ábyrgð fyrirtækja, sem hafa orðið æ meira áberandi síðust árin, lúta í raun að
þessu, þ.e. birta þá afstöðu að sérstaklega stórum og valdamiklum fyrirtækjum,
sem hafa mikil áhrif í sínum samfélögum og sum um allan heim, beri að hafa það
að leiðarljósi í rekstri sínum að gera samfélagslegt gagn um leið og þau afla
hluthöfum sínum arðs. Því ábyrgðin á loftslagsvánni er ekki allra, þótt að
afleiðingarnar bitni á öllum. hún liggur fyrst og fremst hjá okkur, hinum
vestræna iðnvædda heimi, og þess vegna verðum við að vera tilbúin til að færa nauðsynlegar
fórnir, sem hljóta óhjákvæmilega að felast í minni lífsgæðum skv. mælikvarða
neyslusamfélagsins.
Þær
ógnir, sem steðja að sköpuninni, krefjast þess í raun að allur heimurinn sé
samtaka um að leita allra leiða til að hætta öllum útblæstri gróðurhúsalofttegunda og umbreyta
menningu okkar og hugsunarhætti í átt til sjálfbærni, þar sem efnahagur, náttúruvernd
og félagsleg velferð haldast í hendur.
Það
mætti hugsa sér þetta þannig að öll stjórnvöld, öll fyrirtæki, allir jarðarbúar
myndu breyta í samræmi við eftirfarandi grein hins upprunalega læknaeiðs sem
kenndur er við Hippókrates:
Ég
heiti því að beita læknisaðgerðum til líknar sjúkum, eftir því sem ég hef vit á
og getu til, en aldrei í því skyni að valda miska eða tjóni.
Fyrsta
hluta málsgreinarinnar mætti þá umorða svo úr yrði eftirfarandi eiður og
markmiðsyfirlýsing:
Ég
heiti því að breyta þannig í hvívetna, eftir því sem ég hef vit á og getu til, að
það verði náttúrunni og samfélagi manna til gagns en aldrei í því skyni að
valda miska eða tjóni.
Þar
með myndum við gangast við því hlutverki sem Guð ætlaði manninum að sinna skv.
1Mós 2.15: „Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til
að yrkja hann og gæta hans.“
Fyrir
sitt leyti hefur ritningin þannig svarað spurningunni „Hver er tilgangur
lífsins“ og – vel að merkja – sá tilgangur miðar ekki að fullnægju sjálfhverfra
eiginhagsmuna.
Í
ritningartextum dagsins kemur fram það viðhorf að góðverk séu í grunninn
guðsþjónusta og að sú þakkarfórn sem manninum beri að færa fram fyrir Guð eigi
fyrst og fremst að felast í miskunnarverkum gagnvart náunganum, sem birtist á
hvað skýrastan hátt í ölmusugjöfum og aðstoð við fátæka. Upphaflegur tilgangur
allrasálnamessu, sem er 2. nóvember ár hvert og við helgum þennan sunnudag, er
einmitt sá að syngja messu fyrir sálum fátækra til þess að stytta tíma þeirra í
hreinsunareldinum í samræmi við heimsmynd miðalda. Allrasálnamessa var því í
raun hugsuð sem miskunnarverk gagnvart fátæklingum. Þess vegna var og afar
viðeigandi að vatnssöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar með hjálp fermingarbarna
færi fram í liðinni viku en verkefni Hjálparstarfsins og annarra
hjálparstofnana munu í auknum mæli snúa að félagslegum afleiðingum lofstlagsbreytinga
á hag hinna bágstöddustu í þessum heimi. Í samhengi umhverfismála þarf því að
útvíkka og yfirfæra þá hugsun, að miskunnarverk við hinn þurfandi sé hin eina
sanna guðsþjónusta, yfir á sköpunina sjálfa. Því vegna hegðunar og aðgerða hins
iðnvædda neyslusamfélags er sköpunin orðin fátæklingur, sjúklingur sem þarfnast
aðstoðar og lækningar.
Í
nútímanum er allrasálnamessa fyrst og fremst helguð minningu látinna ástvina, bæði
í lútherskum kirkjum og kaþólskum. Þegar við minnumst þeirra, sem gengnir eru,
með því að sækja guðsþjónustu eða annað helgihald á þessum degi erum við sem
einstaklingar að tjá sorg og söknuð, en um leið þökkum við fyrir lífið, líf
þeirra sem við elskum, líf okkar og lífheiminn yfir höfuð. Gott dæmi um þetta
er hátíðin Dagur hinna dauðu, Día de los Muertos, sem er eins konar sambland fornrar
hátíðar frumbyggja og allraheilagra- og allrasálnamessu og fer fram 1. og 2.
nóvember í Mexíkó. Hún hefur fyrst og fremst þann tilgang að fagna lífinu um
leið og látinna er minnst. Á þessari hátíð er vinsælt að konur klæði sig upp
sem Calavera Catrina, sem er beinagrind íklædd fínustu klæðum hástéttarkvenna
að evrópskum sið 19. aldar. Þessari persónu er ætlað að tjá þann skilning að
undir öllum okkar manngerðu skrautklæðum séum við öll eins og þannig fær
hátíðin ákveðna samfélagskrítíska vídd sem gagnrýnir hvers kyns hégóma og prjál.
Þetta undirstrikar að allrasálnamessa er ekki aðeins farvegur fyrir
einstaklingsbundndar tilfinningar heldur hefur einnig samfélagslega þýðingu. Og
í samhengi dagsins í dag hlýtur hún að gera okkur sem samfélag meðvituð um að
við erum aðeins einn hlekkur í óralangri keðju kynslóða sem hafa yrkt þessa
jörð og gætt hennar. Um leið verður okkur ljós sú sláandi staðreynd að það
hefur ekki tekið okkur nema átta til tíu kynslóðir, frá upphafi iðnbyltingar,
að keyra heiminn fram á heljarþröm, og að það eru komandi kynslóðir sem munu
bíta úr nálinni. Og við hljótum að spyrja okkur: Hvernig viljum við að komandi
kynslóðir minnist okkar: fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi?
Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.