Flutt 1. október 2017 í Breiðholtskirkju
Sálm. 130
Fil. 1:20-26
Jóh. 11:19-27
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Sá dagur mun koma að dauðinn mun deyja. Á það erum við minnt hér í dag. Jóhannes guðspjallamaður talar um dauðan. Dauðinn hefur knúið dyra og lokið sér af á heimili systkinanna í Betaníu. Lasarus, bróðir þeirra Mörtu og Maríu, sem við heyrðum einmitt um í guðspjalli síðasta sunnudags, er dáinn. Það ríkir því mikil sorg á heimili þessara góðu vina Jesú. Systurnar glíma við margar og erfiðar spurningar, en svo breyttist skyndilega allt. Kristur kom og reisir hinn látna og þeir sem viðstaddir eru sjá dýrð Guðs. Lífið sjálft sprengir af sér hlekki dauðans. Lasarus lifir!!!
Fyrir rúmlega 200 árum sat prestur nokkur, Eiríkur að nafni, á prestsetri sínu og skrifaði í dagbók:
„9. nóvember. Jarðaði litlu dóttur mína, hana Soffíu Amalíu, tveggja ára
gamla og síðar sama dag eldri dótturina, Bóthildi, fjögurra ára. Og 22.
sd. eftir trinitatis yngstu dóttur mína, Elsu Kristínu, hálfs árs
gamla. Bólan tók þær allar þjár.“
Sr. Eiríkur þekkti vafalaust guðspjall dagsins og framhald þess eins og
það er skráð hjá Jóhannesi. Þekkti glímu systranna við sorgina og
spurningarnar erfiðu. Hann hefur þekkt orð Jesú við Mörtu í framhaldi
frásögunnar, þegar hann segir:
„Sagði ég þér ekki: „Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs“?“ (v.40)
Hann hefur þekkt orð Jesú til hins látna er hann hrópaði skömmu síðar:
„Lasarus, kom út!“ Og undrið varð. Allir urðu vitni að dýrð Guðs.
Hann þekkti þetta allt, en grafirnar hans Eiríks voru bara ekki tæmdar eins og forðum gerðist í Betaníu. Þar kom engin út. Ekkert frekar en hjá kollega hans Hallgrími Péturssyni, sem við minnumst hér í dag, sem varð fyrir samskonar missi og sorg. Missti börnin sín hvert eftir annað. Hans grafir voru heldur ekki tæmdar.
Hvers vegna? Og hvers vegna ekki grafirnar okkar? Mínar grafir og þínar? Hvers vegna tæmast þær ekki. Þannig spyrja margir.
Við verðum daglega vitni að því hvernig óræðar ráðgátur og hryllingur
tilverunnar hvolfist yfir okkur mennina. Þær skelfilegu holskeflur
virðast oft engan enda taka. Við skiljum þá ekki þján-inguna, bölið og
hryllinginn allan. Og hvað með allar vonirnar sem brustu? Hvað með allar
væntingarnar sem slokknuðu og voru jarðaðar, lagðar í gröf? Hvert okkar
á sér ekki sinn litla persónu-lega kirkjugarð, þar sem slíkir hlutir
liggja grafnir? Vonir okkar, væntingar og þrár – og það sem erfiðast er:
Ástvinir okkar, sem hrifnir hafa verið burt. Þær grafir eru sannarlega
ekki tómar. Það er svo margt sem við höfum misst og grafið. Svo margt
sem við söknum, syrgjum og grátum.
Afhverju reisir Kristur ekki allt hið beygða og brotna eins og hann gerði með Lasarus forðum? Af hverju ræður dauðinn enn ríkjum í tilveru okkar og læðist að okkur á sinn lymskufulla hátt? Er Kristur þá kannski eftir allt saman liðin tíð, ónýtur og valda-laus þegar við stöndum við grafirnar okkar og heyjum glímuna við spurningarnar erfiðu?
Ég veit auðvitað ekki fyrir víst hverju sr. Eiríkur hefði svarað slíkum spurningum, þótt ég þykist samt vita hvert hann leitaði svara, en ég hef þó tekið eftir einu, sem oft hefur vakið mig til umhugsunar í þessum efnum:
Það eru svo oft ekki endilega þeir, sem hafa orðið hvað harðast fyrir barðinu á sjúkdómum, þjáningu, sorg eða jafnvel dauðanum, sem eru reiðastir við Guð. Þeir sem eru hvað reiðastir eru oft þvert á móti hinir heilbrigðu og önnum köfnu. Þeir eru svo oft reiðir fyrir hönd fórnarlambanna, ef svo má segja. Finnst sér misboðið með ranglætinu öllu og steyta jafnvel hnefan að Guði og heimta svör. Ef þeir afskrifa hann þá ekki bara alveg, sem hvern annan ónýtan brúkshlut úr því að hann kippir ekki hlutunum í lag.
En hvað gerum við þá með kraftaverkið sem greint er frá í guðspjalli dagsins? Til hvers er það? Hefur það eitthvert gildi fyrir okkur, þig og mig, úr því að okkar grafir eru ekki tómar?
Við getum auðvitað bara ákveðið, eins og sumir gera, að Jóhannes hljóti bara að vera að skrökva. Þetta sé allt saman hrein vitleysa. Það var jú komið á fjórða dag. Nályktin orðin stæk og í þessum hita var rotnunin vafalaust hafin. Andlitið orðið þrútið og jafnvel tekið að springa. Sá sem hefur verið látinn svo lengi lifnar ekki á ný. Það veit hvert mannsbarn af bituri reynslu. Grafirnar okkar tæmast ekki.
Þannig getum við auðvitað reynt að afskrifa Guð. Leita okkar eigin leiða eins og þeir, sem telja sig sjálfa færasta um að leysa erfiðu spurningarnar og raunar allan vanda.
En áður en þú tekur slíka ákvörðun vil ég þó samt fá að benda þér á tvennt í þessu sambandi, sem ég bið þig að íhuga:
Í fyrsta lagi ætti engin að snúa baki við Kristi og trúnni á hann vegna
þess, að það er eitthvert atriði í boðskap fagnaðar-erindisins, sem við
getum ekki trúað eða fellt okkur við, eins og t.d. upprisu Lasarusar eða
raunveruleika glötunarinnar.
Trúin er nefnilega ekki einhverskonar andleg aflrauna-keppni, þar sem
við bítum á jaxlinn og rembumst þar til við getum stunið út á milli
samanbitinna tannana: „Nú get ég trúað! Ég skal geta trúað! Ég skal
sjálfur!“
Nei, trúin er einfaldlega það, að nálgast Krist opnum huga og gefa honum færi á að skapa, lífga, og gefa trúna, jafnvel mitt í glímunni miklu við efasemdirnar og mótlætið, eða mitt í okkar daglegu önnum. Trúin er einfaldlega það, að súa sér til hans í allsleysi sínu og aðstæðum öllum og þiggja það sem hann vill gefa. Setja traust sitt á hann eins og þær gerðu systurnar forðum í Betaníu, þrátt fyrir spurningarnar allar.
Síðara atriðið, sem ég vil draga hér fram og biðja þig að skoða, er svo þetta, að ef við gefum okkur það fyrirfram, eins og svo alltof margir hafa gert, að kraftaverk gerist ekki, geti hrein-lega ekki átt sér stað, þá verður enginn kristindómur eftir, engin Kristur, engin Guð. Þá verður ekkert eftir nema einhverskonar guð í vasabókarbroti. En slíkur Guð, sem við getum stungið í vasann, ef svo má segja, hann er ekki lengur Guð!!! Hann er þá einskis virði, það skilja jafnvel börnin sé um það rætt. Það er í raun eins og að reyna að troða stóru málverki í alltof lítinn ramma, að reyna að fara þannig með Guð. Það er ekki hægt án þess að eyðileggja málverkið.
En hvað gerum við þá með kraftaverkið í Betaníu?
Best er raunar held ég að gera bara alls ekkert með það! Heldur láta það
einfaldlega vera eins og það er. Láta það bara tala til okkar. Því það
megum við vita, að sú góðmennska Guðs, sá óumræðilegi kærleiki hans, að
hann skuli hafa gefið okkur upprisu Krists á páskadagsmorgni, er í raun
mannlega skoðað fjarstæðukenndari en svo, að hún verði nokkurtíma skilin
eða skýrð, til hlýtar, mannlegum huga. Hér er ekkert sem við höfum
verðskuldað eða unnið fyrir. Við getum aðeins tekið á móti því sem okkur
er gefið, í þökk. Við útskýrum ekki gröfina tómu! En við megum þiggja. -
Það er fagnaðarerindið!!
Gerum við okkur grein fyrir þessu, viðurkennum við raun-verulega
stöðu okkar frammi fyrir almættinu og leyfum Guði að vera Guð, skapari
himins og jarðar, þá getum við einfaldlega litið á táknin þegar Jesús
reisir hina látnu upp frá dauðum, sem nokkurs konar auka bónus.
Stórkostlega viðbótargjöf hans, en ekkert sem við eigum heimtingu á. Það
er í raun eins og hann segi við okkur: „Allt sem þið þurfið að vita um
mig og sigur minn yfir dauðanum fáið þið að vita á páskadagsmorgunn. En
vegna tregðu ykkar og skilningsleysis bæti ég þó við nokkrum dæmum,
tákn-um um það, að dauðinn hafi líka misst vald sitt yfir ykkur.“
Þess vegna reisti hann son ekkjunnar frá Nain, dóttur Jairusar
forstöðumanns í Kapernaum og Lasarus í Betaníu. Allt eru þetta dæmi um
kærleika hans. Tákn um kraft hans og dýrð.
Og einmitt þess vegna er það heldur ekkert undarlegt, að hann tæmir ekki allar okkar grafir, okkar kirkjugarða. Því hann hefur á páskum, í eitt skipti fyrir öll, vitnað um vald sitt yfir dauðanum. Það er táknið stóra sem öllu skiptir, öllu breytir, og við þurfum ekkert meira, því við fáum öll þetta stórkostlega tákn, þennan sama vitnisburð. Hann blasir við okkur hér fyrir ofan altarið. Hinn tómi kross ber honum og upprisu hans vitni. Hann er ekki lengur þar, ekki á krossi, ekki í gröf. Hann lifir og gefur okkur líf með sér!! Annað tákn þurfum við ekki og við getum engu við þetta bætt. Hvorki með svokölluðum sálarrannsóknum né nokkru öðru, sem okkur dettur í hug að reyna. Þetta vissi sr. Eiríkur, held ég, og Hallgrímur vitnar svo sannarlega með stórkostlegum hætti um hið sama.
En hvað gerum við þá með kraftaverkið?
Við getum auðvitað dregið hér fram þá staðreynd, að Jóhannes hefur
ákveðna sérstöðu meðal guðspjallamannana. Hann hefur sinn eigin stíl,
sinn eigin framsagnarmáta, eins og svo víða kemur fram. Og í dag vill
hann m.a. draga það fram og undirstrika, með því að segja okkur frá
þessu stórkostlega undri, að hvar sem Jesús kemur þar breytist allt! Því
Kristur endurvekur og endurskapar brostnar vonir, og gefur hinni
vanmáttugu eða dauðu trú nýtt líf.
Það er til að segja okkur þessa staðreynd nógu skýrt, þannig að við látum hana koma okkur við, að Jóhannes dregur upp fyrir okkur þessa mynd í guðspjalli dagsins, af Jesú við gröfina þar sem hann reisir upp mann, sem þegar er tekinn að rotna. Hér skal enginn vera í vafa um það, að hann hefur vald og vilja til að lífga. Kærleika hans eru engin takmörk sett.
Það er vissulega rétt, að Jóhannes hefur sinn sérstaka stíl og setur hlutina fram á sinn hátt. En um leið er hann líka rödd í voldugum kór þar sem engan falskan tón er að finna. Þennan kór skipa allir höfundar Nýja testamentisins. Og þessi kór flytur okkur þau boð, að sá dagur mun koma, þegar hinn áþreyfanlegi og kaldi dauði, sem okkur stendur svo mikil ógn af, mun deyja. Sá dagur mun koma, er hann mun tæma grafirnar okkar allar og kalla okkur fram, hvert og eitt. Spottarana og afneitarana jafnt sem hina vongóðu og eftirvæntingarfullu. Öll munum við þurfa að mæta honum augliti til auglitis. Sá dagur mun koma, því fær enginn mannlegur máttur breytt, ekkert frekar en við getum stöðvað framrás tímans með því að stoppa klukkurnar okkar.
Tími hans kemur, þegar sigurinn ótrúlegi verður leiddur í ljós á þann hátt, að allar spurningar, allar mótbárur, allar efasemd-ir, þagna. Þá verður dýrð hans öllum augljós og það líf sem hann þráir að fá að gefa þér, mér, og hverjum þeim sem það vill þiggja og honum treysta. Þá verður spurningunum öllum svarað og sérhver gröf tæmd. Hlustum því á orðin hans og tökum þau til okkar, þegar hann segir við okkur hér í dag eins og við Mörtu forðum:
„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“
Þeirri spurningu er beint til okkar hér í dag. Guð gefi okkur þessa trú og að við megum velja það að treysta honum. Það er þessi trú sem öllu breytir.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postulegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.