Ég elska þig, gleymdu því aldrei!

Ég elska þig, gleymdu því aldrei!

Jesús vill að við getum tekið á móti og þegið lífið sem hann vill gefa, mitt í ölduróti tilverunnar, mitt í mótlæti, þjáningu, veikindum og sorg.
fullname - andlitsmynd Gísli Jónasson
24. mars 2020

Þegar við hjónin vorum að svæfa börnin á kvöldin sögðum við oft við þau: „Ég elska þig, gleymdu því aldrei.“

 

Þetta sögðum við vegna þess að við elskuðum þau og við báðum þau að gleyma því aldrei vegna þess, að jafnvel þótt ýmislegt hefði komið uppá yfir daginn þá vildum við samt umfram allt að þau finndu að grunntónninn milli okkur væri kærleikurinn. Að við elskuðum þau vegna þess sem þau eru en ekki bara vegna þess sem þau gerðu eða gerðu ekki.

Það var einmitt oft á þessum stundum þarna við rúmstokkinn, þegar nándin var hvað mest, sem spurningarnar erfiðu voru settar í orð. Spurningar um dauðann, lífið, óttann við veikindi eða það að missa góðan vin o.s.frv. Og þá var það svo gott að geta sagt: „Ég elska þig, gleymdu því aldrei.“

Skömmu fyrir dauða sinn talaði Jesú um kærleika Guðs til okkar manna. Hann hvetur okkur til að elska hvert annað og bætir svo við: „Ég er upprisan og lífið!“

Guð er líf og Jesús vill gefa okkur þetta líf með sér, líf í fullri gnægð. Þessi gleðitíðindi koma aftur og aftur fram í boðskap Jesú. 

Hann orðar þetta með ýmsum hætti:
„Ég er brauð lífsins.“
„Ég er hið lifandi vatn.“
„Ég er góði hirðirinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir hjörðina að hún megi lífi halda.“

Jesús biður þess, að við gleymum aldrei elsku hans, að við gleymum því ekki að hann er upprisan og lífið og að Guð er líf. Það er einmitt þess vegna sem hann vakti vin sinn Lasarus upp frá dauðum. Hann vildi leyfa mönnunum að skyggnast inn í eilífðina, þó ekki væri nema eitt augnablik, þannig að þeir mættu venja augu sín við ljós upprisunnar svo að þeir gætu þekkt Jesúm aftur þegar hann risi upp. Og gleymdu aldrei þeirri mikilvægu staðreynd að hann er upprisan og lífið. 

Hann vill m.ö.o. að við getum tekið á móti og þegið lífið sem hann vill gefa, mitt í ölduróti tilverunnar, mitt í mótlæti, þjáningu, veikindum og sorg. Já, jafnvel mitt í dauðanum. Jesús sýnir það og staðfestir í öllu því sem hann segir og gerir að Guð er líf.

Þegar Jesús stöðvar þá sem voru að grýta hórseku konuna gaf hann henni lífið. 

Þegar Jesús snerti manninn holdsveika, sem var útlægur ger úr öllu mannlegu samfélagi og enginn hefur því snert í fjölda ára, þá er lífið endurnýjað.

Og hið sama gerist þegar Jesús sér betlarann blinda sem situr við veginn. Sér manninn, sem allir aðrir vilja bara þagga niður í, en alls ekki sjá né heyra, og spyr hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Á þeirri stundu var lífi hans endurskapað. 

Guð er líf og hann gefur okkur líf. Nýtt líf og þá ekki bara á himnum heldur hér og nú.

Þegar Lasarus var vakinn upp frá dauðum þá hrópaði Jesús hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Og Lasarus kom út, hann yfirgefur gröfina. Honum var gefið líf.

Jesús kallar einnig á okkur. Hann sér okkur hvert og eitt, vill mætta okkur, taka þátt í lífi okkar og ganga með okkur hvert okkar skerf. Hann kallar okkur úr viðjum dauðans, kallar okkur frá ótta og einmanaleika, uppgjöf og tilgangsleysi. Kallar okkur til lífsins, kallar okkur til sín, að fylgja sér. Og það er þarna, í nærveru Jesú, sem allar spurningarnar erfiðu um lífið eiga heima. Spurningarnar um dauðan og lífið, um einmanaleika okkar og ótta, um þjáningu, ábyrgð og sekt. Þær eiga allar heima hjá honum. Og þegar við komum með þær fram fyrir hann og leyfum orðunum að endurspegla og tjá sorgina, ugginn og óttann sem við berum í brjósti, þá getur vonin kviknað og brotist fram. 

Og þá er ég ekki að tala um einhverskonar fínpússaða „patent“ von, sem ætlað er að breyta öllu eins og einhverskonar töfrastafur, heldur þá von sem spírar fram og vex upp innan frá vegna kærleika hans og þess lífs sem hann skapar. Von sem gefur okkur nýjan grundvöll og örugga fótfestu í lífinu, festu sem varir að eilífu. Og gleymum því aldrei að þessi von getur aðeins sprottið fram og vaxið í nærveru Jesú og fyrir kærleika hans.

Við megum og getum nálgast hið erfiða ef við erum í nærveru hans. Því Jesús víkur sér ekki undan hinu erfiða. Hann gekk í dauðann fyrir okkur til þess að við séum aldrei ein og yfirgefin þegar við mætum myrkri og dauða. 

Jesús er upprisan og lífið og hann kemur út úr gröfinni, út úr dauðanum, með orðunum: „Óttist eigi“ og gefur okkur lífið. Hann hefur því ekki bara varpað svolitlu ljósi yfir eilífðina, heldur hefur hann opnað hana í eitt skipti fyrir öll, gefið okkur hlutdeild í henni. Okkur öllum, sem þorum að setja traust okkar á hann.

Þegar ég í dag sit við rúmstokkinn eða sjúkrasængina er ég stundum spurður: „Ertu hræddur við dauðan?“ Þá svara ég oft: “Nei, en ég er stundum hræddur um lífið og hvernig ég nota það, þessa stórkostlegu gjöf sem Guð hefur gefið mér.“

 

Ég vil að sjálfsögðu lifa. En ég er ekki hræddur við dauðan. Guð gaf mér lífið og ég hef notið þeirra forréttinda að hafa fengið að finna fyrir því alla mína ævi að Guð elskar mig. Og ég trúi því og treysti, að það sé hinn sami Guð, sem tekur á móti mér þegar ég dey, hann sem elskar mig, eins og ég er. Því þarf ég ekki að vera hræddur. Ég hef fengið forsmekkinn af eilífðinni í nærveru Jesú. Og Jesús er upprisan og lífið. Gleymum því aldrei.