Gleðileg jól.
Mikið eru jólin einstæð og sérstök hátíð. Og þjóðin á þessa hátíð saman og allt í opinberu skipulagi tekur mið af því. Engin hátíð hefur staðist tímans tönn eins og jólin. Þrátt fyrir annríki, ómælda fyrirhöfn, válynd veður á þessum tíma árs og mikinn kostnað, en bankinn hefur reiknað út að hátíðin kosti fólkið í landinu 15 milljarða, þá viljum við halda hátíð á jólum. Og andinn sem svífur yfir hátíðinni er samofinn von um frið, ást og fegurð. Dagskráin í fjölmiðlunum tekur mið af þessu. Frásagnir af hjálpfýsi og gjafmildi fólks verða áberandi, minningar af bernskujólum streyma fram, tónlistin ómar fögur og blíð, yndislegar jólakveðjurnar, og auglýsingarnar taka líka svipmót af hátíðinni. Og þjóðin skrýðist sínum fegursta skrúða, að innra og ytra.
Og þegar við horfum okkur nær, þá er þessi hátíð svo dýrmæt í persónulegu lífi. Einhver hrífandi andblær fyllir huga og hjarta, og þú getur ekki útskýrt með orðum. Þú finnur þetta strax á aðventununni. Eftirvæntingin umvafin í bernskunni svo mikil, að dagarnir eru taldir niður og spennan eykst, en hinir eldri tala um allt sem á eftir er að gera og í mörg horn að líta, allt verður að vera tilbúið á réttum tíma. Og efst á blaði er, að ástvinir geti verið saman á hátíðinni, fjölskyldan, ættingjar og vinir.
Svo gengur hátíðin í garð og alltaf eins og ný, en samt svo gömul, jafnvel forn, af því að við ríghöldum í gamlar venjur og siði. Þannig tengjast fortíð og nútíð saman í hátíð um leið og horft er fram á veg þar sem manni finnst ósjálfrátt allt verða fegurra, vonbetra og sælla. Þetta er sannarlega heilög hátíð, hvort sem þú leggur í það orð veraldlega eða trúarlega merkingu. Hvað veldur öllu þessu? Fögnuður yfir að nú fer sól að hækka á lofti? Þrá eftir kærkominni tilbreytingu i dimmasta skammdeginu og þar með tilefni til að gera sér dagamun? Eða hreinlega löngunin til þess að fá sér einu sinni ærlega gott að borða og loksins kominn tími til að gefa fólkinu sínu sæmilegar gjafir?
Dugar þetta til að fylla hátíð innihaldi og tilgangi? Er þetta nóg til þess að réttlæta allan viðbúnaðinn, eftirvæntinguna og umfangið?
Hvaðan kemur þá boðskapurinn um ástina og friðinn, hjálpfýsina og samkenndina? Hvaðan koma fyrirmyndirnar sem skreyta og fegra umhverfið? Hvaðan kemur andinn sem fyllir huga og hjarta og umvefur hátíðina, og skilaboðin um að eiga hátíðina saman í samfélagi ástvina? Eða sagan um lífið sem jólin boða?
„Það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi, keisara“. Hann bauð til mannamóts, ekki til þess að fagna með hátíð, heldur til þess að koma skikk á manntalið svo skattheimtuna mætti auka. En fáir minnast Ágústusar og var þó valdamikill og sigursæll í herförum. En hans er reglulega minnst fyrir það að vera getið í sögu af barni sem fæddist í fjárhúsi í Betlehem. Ekkert sérstakt var við það, að barn fæddist í gripahúsi, heldur ekki á víðavangi, sem er hlutskipti margra á jörðinni enn í dag.
Hvað er þá svo einstakt við þessa gömlu sögu sem hefur valdið svo miklu? Og þrátt fyrir að engin saga hafi verið meira rannsökuð,- og oftar hafnað eða véfengd, og öllum vísindalegum meðulum beitt í þeim tilgangi og tæpast líða jól, að ekki er útvarpað fregnum af uppgötvunum sem eiga að laska trúverðugleika sögunnar.
Ómar þó enn sagan og ekki af minni mætti en áður.
Hvað væru jól án þessarar sögu?
Þetta er sagan um mig og þig, samfélagið okkar, jörðina og himininn. Þú ert að lifa þessa sögu með eigin lífi, ganga inn í sjálfan veruleikann sem sagan boðar, heilsar samferðafólki og Guði svo hjartanlega og boðar gleðileg jól til þess að fagna yfir lífinu. Af því að þetta er saga sem vekur þig til umhugsunar og fjallar um lífið sem við þráum að lífa. Þetta er saga sem beinir huga okkar að því sem reynist dýrmætast.
Og í sögunni er Guð sem elskar og segir: „Barnið í jötunni er frelsari, Krisur Drottinn, fyrir þig“. Þá finnst þér þú verða eins og hirðir út í haga sem þráir það eitt að komast að jötunni, sjá, reyna, njóta. Þú finnur þá að þessi jata er í faðmi þínum, í hjarta þínu, líka heima hjá þér. Hún er þar sem þú átt allt sem dýrmætast er og með þínu nánasta fólki. Og þú ferð svo út á meðal ættingja og vina og tekur undir með englum fagnandi, lofar og þakkar: „Dýrð sé Guði í upphæðum, friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum“.
Það erum við í raun að segja, þegar við óskum hvert öðru gleðilegra jóla.
Þetta endurspegla jólin okkar af sögunni um lífið þar sem Guð skapar og blessar, og þjóðin staðfestir með háttafari sínu, menningu og hefðum.
Við finnum til gleði og sældar, ræktum hið góða og fagra, það besta sem í boði er. Þá eru gleðileg jól.
Og lofum og þökkum líka hækkandi sól, njótum velgjörða í mat og gjöfum, skreytum og lýsum upp umhverfi okkar, af því að Guð, höfundur himins og jarðar, skapar það allt. Og við ræktum samfélagið hvert með öðru og leggjum okkur fram um að elska náungann.
Líka minninguna um gengna ástvini, förum í kirkjugarðinn, tendrum þar ljós, heilsum með heilagri signingu og finnum að minningin um látna ástvini og horfnar kynslóðir skiptir máli fyrir mig og mína, hér og nú.
Og við þökkum og finnum hve sælt er að þakka.
Sagan um barnið í jötunni í fjárhúsinu í Betlehem á fyrstu jólanótt, sem engillinn boðaði að væri Kristur Drottin, vekur okkur til lífsins, verður eins og spegill þar sem ég kemst ekki hjá að spyrja: Við hvað vil ég líkja lífi mínu, á hvaða ferð er ég, og hver er náungi minn?
Þessi saga varpar ljósi yfir allt fólkið sem reynist mér svo vel, og ég finn að ég get ekki án verið.
Er þetta svona í raun og sannleika? Er þetta meira en væminn fagurgali út úr öllu korti? Eru það ekki hagsmunir, hetjudáðir og afrek daglegs lífs eða vonbrigðin þar, ósigrar og veraldleg áföll eða fjármunir og eilífur vöxtur sem í hita leiksins virðist eiga öllum úrslitum að ráða um heill og farsæld?
Hvað vegur þyngst í lífinu?
Á þessi saga erindi í hina berskjölduðu lífsbaráttu handan við hátíðina? Er hátíð jóla meira en stundarhlé eins og gerviveröld í engu samræmi við raunveruleikanum?
Ekki samkvæmt fagnaðarerindi sögunnar sem boðar að elska, ekki síst þegar það er erfitt, virðingu og frið, traust og ábyrgð. Þetta sem við viljum um fram allt að móti öll samskipti í dagsins önn og er sannarlega þörf á að efla nú um þessar mundir.
Þjóðin þráir svo innilega frið í sálina sína og mikil er þörfin, að virðing í samskiptum megi sín frekar. Gott er að setja sig í annarra spor og minnast orða Jesú, að allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Boðskpur jólanna hvetur okkur til að gera það. Hátíðin er því svo kærkomin um sína gefandi sögu með voninni um ást og virðingu fyrir samferðafólki, ábyrgð og traust, af því hún fjallar um lífið eins og það er í raun og veru og þráir svo mikið að farsældin blómgist.
Sagan glæðir virðingu í huga og hjarta andspænis hinu heilaga sem opinberar allt sem okkur finnst dýrmætast. Þá er hátíð og fegurðin ljómar af ljósi sem nærir fögnuð og gleði því yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn. Amen