Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði: „Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki. Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki. Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður. Matteus 5. 1-12
I Hvar er sæla á bak við sorg og óréttlæti?
Satt að segja hafa sæluboðin oft hitt mig illa fyrir. Mér hefur oft fundist þessi framsetning Jesú óþægileg, sælir eru fátækir og sælir eru sorgmæddir, sælir þeir sem órétti eru beittir o.s.frv. Orðið sæll var mér kennt að þýddi hamingjusamur.
Hver er meining Jesú með þessu? Við fyrstu sýn er þetta bara eintómt bögg, eins og unga fólkið myndi segja. Hér er teflt saman andstæðum.
Hvað getur verið gott við að vera fátækur í anda, sorgbitinn, eða ofsóttur. Við fyrstu sýn sé ég ekkert sælt eða blessað við þetta. Hvernig geta andstæðurnar breyst í blessun? Hvernig verður fátækt í anda að blessun hér og nú? Skoðum fyrst aðeins stöðu sæluboðanna í framsetningu Jesú. Þau eru eins og burðargrindin í boðun hans. Matteus guðspjallamaður hefur safnað þeim saman á einn stað á meðan Lúkas dreifir þeim um sitt guðspjall. Sæluboðin eru tíu. Aðeins fjögur þeirra fá umbun sína í nútíð, hin sex fjalla um aðstæður í nútíð en hugsvölunin liggur í framtíðinni. Þegar við skoðum forna texta er mikilvægt að skoða samhengi þeirra og fá skilning að baki mikilvægum lykilorðum. Gríska orðið sæll, makharios, er notað til lýsingar á einhverju guðlegu. Þannig gæti verið að hér sé vísað í guðlega gleði sem sprettur upp þegar Kristur snertir manneskju? Hér er þá gleði sem ekki verður af þeim tekin sem eru snortin af Guði, þó að ytri aðstæður verði óhagstæðar.
Máltækið segir; Drottinn leggur líkn með þraut. Það gæti átt heima hér. Það er alla vegana mín reynsla og ég veit að ég deili henni með þúsundum á þúsund ofan að þegar Guð snertir við lífi mínu, eða þegar ég bið Guð að koma inn í aðstæður lífs míns þá umbreytist allt. Mótlætið verður mýkra, sorgarhugur fær aftur von og þessi óútskýranlegi friður Guðs og öryggi ber mig áfram í gegnum dagana þar sem er nóg af ófriði, sundrungu, söknuði og óöryggi.
Á þann hátt get ég verið sæl, það er þessi guðlega gleði sem ekki er hægt að heimta. Aðeins er hægt að opna vanmáttugan lófa upp til Guðs, biðja bíða og vona. Þar í kyrrðinni þegar við erum ein út í horni með vanlíðan okkar, þar byrjar ástríkur skaparinn að græða sár okkar, blása okkur kjark í brjóst, greiða okkur leið með því að opna huga okkar fyrir nýjum leiðum.
Þessi eina leið sem okkur fannst eitthvert vit í er ekki eina leiðin. Það eru fleiri möguleikar í lífi okkar. Og þó að okkur finnist um stund, jafnvel um langan tíma að öll sund séu lokuð, þá sér Guð leið sem hann blíðlega bendir okkur á þar til við sjáum hana.
Nema náttúrulega að við viljum ekkert með Guð hafa, þá stígur hann skrefið til baka. Guð er nefnilega, (ég leyfi mér að sletta) sjéntilmaður. Hann þröngvar sér ekki inn í líf okkar ef við viljum hann ekki. Þá bíður hann aðeins álengdar eins og elskandi foreldri sem bíður eftir því að gelgjan renni af unglingnum svo að hægt sé að nálgast hann síðar.
Drottinn Guð allsherjar er Guð umhyggjunnar og elskunnar sem vill byggja og bæta mannlífið. Hann hefur gefið okkur það hlutverk að varðveita jörðina og það góða er á henni þrífst.
Hann hefur sett lífinu lögmál. Það felst í ábyrgð okkar að annast lífið í kringum okkur hvort sem það eru manneskjur, dýr eða náttúran.
Hann vill ganga með okkur til þess verks og hann er okkur aldrei nær en þegar við erum aðþrengd eða við höfum tapað fótfestunni. Á þeirri stundu erum við hins vegar svo upptekin af okkar eigin angri að við tökum ekkert eftir nærveru Guðs. Við finnum fyrst og fremst sársaukann.
En munum að þegar lokast dyr þá opnar Guð glugga. Þórdís Klara Ágústsdóttir ljósmóður, hefur nýlega gefið út ljóðabók. Hún hefur ort mörg falleg trúarljóð. Mig langar að deila með ykkur broti úr ljóði sem hún samdi á fyrstu dögum kreppunnar.
Komdu Guð með miskunn þína´og mildi minntu hvern og einn á lífsins gildi heyrðu andvarp hans sem til þín biður hjá þér Guð er huggun náð og friður Vertu nærri þeim sem þjást og líða þola smán og nýjum degi kvíða umlyk þá í ástarfaðmi þínum að þeir megi gleyma raunum sínum Laða fram í brjóstum barna þinna bæn til þín sem öllum hér vilt sinna gefa ráð og glæða von að nýju græða sár með elsku þinni´og hlýju
II Andstæðu-sæluboðin
J.B. Phillips og Robert Warren sömdu andstæðu-sæluboðin. Þar er ýmislegt kunnuglegt. Þar segir m.a.:
-Sælir eru þeir sem troða sér áfram því þeir munu komast áfram í lífinu. -Sælir eru vandræðagripir því þeir láta fólk taka eftir sér. - Sælir eru sinnulausir og siðlausir því þeir hafa engin gildi sem þvælast fyrir þeim.
Eitthvað minnir þetta á græðgisvæðinguna sem tröllriðið hefur samfélagi okkar síðasta áratuginn. Við höfum séð afleiðingar þess í efnahagshruninu. Það er spurning hvort við ættum ekki að leita okkur að dýrmætari visku sem þolað hefur tímans tönn.
Arabar eiga máltækið: “Eintómt sólskin skapar eyðimörk.” Það bendir á að lífið þurfi andstæðu endalausrar sólarblíðu svo að vissir hlutir geti dafnað. Í þjáningu og sorg erum við neidd til að horfast í augu við aðrar hliðar tilverunnar. Við togumst inn í myrkari hluta lífsins. Upp af hugsanaglímu í erfiðum aðstæðum sprettur oft þroski sem veitir huggun harmi gegn. Það dýpkar okkur.
III Minning látinna
Evangelísk-Lútherska kirkjan á Íslandi minnist allra látinna fyrsta sunnudag í nóvember ár hvert.
Við horfum til þeirra sem eru dáin og voru og eru okkur ástfólgin. En við horfum jafnframt upp til Guðs í gegnum sorgina og biðjum um huggun hjálp og styrk. Ég vísa áfram í ljóð Þórdísar:
Kveiktu ljós og líf í döprum huga ljósið þitt á hverri leið mun duga til að lýsa veginn létta skrefin líka þar sem ríkir sjálfur efinn Þú ert sá sem þekkir hjartasárin þerrar burtu heitu sorgartárin bendir á það eitt sem skiptir máli óháð hverri lystisemd og prjáli
Við felum ástvini okkar í hendur frelsarans. Horfum til þess ljóss og vonar í orðum Jesú að hver sem trúir á hann muni lifa þótt hann deyi. Í ljósi þess felum við okkur þeirri von að um síðir muni verða endurfundir ástvina í eilífu ríki hans.
Líklega hefur Jesús vísað til endanlegrar huggunar og sigurs í sæluboðunum sex sem ekki fá uppfyllingu í þessu lífi nema upp að ákveðnu marki. En það eru sæluboðin til syrgjenda, þeirra hógværu, miskunnsömu, friðflytjenda og hjartahreinu. Einnig gerir Jesús ráð fyrir að þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu fái ekki endanlega lausn í þessu lífi, ekki fyrr en allt hefur verið svelgt upp í sigur þess Guðs sem elskar og þráir að við komum fram af elsku. En það reynist okkur öllum svo erfitt.
Hugurinn hvarflar ósjálfrátt til Lia Xiaobo og konu hans Liu Xia sem hafa sætt ofsóknum vegna mannréttindabaráttu í Kína. Ég fagna ætlun íslensku ríkisstjórnarinnar sem hyggst senda fulltrúa sinn á afhendingu friðarverðlauna Nóbels sem Lia Xiaobo hlýtur í ár.
Þegar hugsað er til mannréttinda finnst mér mannréttindaráð Reykjavíkur gera helst til of lítið úr þeim 90% barna í skólunum sem eru kristin. Börnin fylgja foreldrum sínum að lífsskoðunum eðlilega eins og börn vantrúaðra fylgja sínu foreldrum.
Ef að það er tekinn frá kristnu börnunum mikilvægur hluti þess að undirbúa jólin eins og mannréttindaráð fer fram á þá verður jólaundirbúningurinn í skólunum eins og skrautlegur umbúðapappír án gjafar eða ólympíuleikar án íþróttafólks. Viljum við ala upp þannig kynslóð sem fær aðeins fræðslu um ubúðirnar en ekki innihaldið?
Húmanistar mega hafa sína lífsskoðun, tjá hana og rökræða við hvern sem er, en ég er ekki sátt þegar þeir vilja banna mér og 90% þjóðarinnar að hafa mína lífsskoðun. Okkar mannréttindi hljóta að vera jafnhá og þá er mikilvægt við finnum ásættanlega leið í tengslum lífsskoðunarfélaga og skóla. Í samskiptum við skólann er grunnatriði að lífsskoðunarfélagið komi inn á forsendu skólans sem er fræðsla en ekki trúboð. Það hefur Þjóðkirkjan lagt sig fram um að gera um árabil.
Jan Björklund menntamálaráðherra Svíþjóðar, skrifaði grein í Svenska Dagbladet um að skólar heimsæki kirkjur á aðventunni. Hann veltir því upp hvernig við getum unnið með fjölbreytileikann um leið og við varðveitum menningararfinn. Hann segist
aldrei mæta innflytjenda sem krefjist þess að menningu og sið gistilandsins sé rutt úr vegi. Það séu eingöngu öfgvafullir pólitískir rétttrúnaðarmenn í sænska kerfinu sem standi fyrir slíkum viðhorfum.
Mér finnst samhljómur með því sem er að gerast hér og í Svíþjóð.
En tökum eftir að menntamálaráðerrann segir að þar fari skólar í kirkjuheimsóknir fyrir jólin en þar er fullur aðskilnaður ríkis og kirkju. Norðurlandaþjóðirnar eru að átta sig á að í fjölmenningu þeirra er orðið svo fátt sem minnir á þeirra upprunalega arf. Kristnir siðir eru eitt af því fá sem eftir eru.
Jan Björklund segir að „umburðarlyndi sé ekki að útrýma sinni eigin sjálfsmynd heldur er það að virða annarra sið og sjálfsmynd á sama hátt og við viljum að aðrir virði okkur.“
IV Yfir í annað
Mér finnst skemmtileg sýnin á altarisgönguna sem altarisfreskan í Ólafsvallakirkju dregur fram. Þar komum við að grátunum og borði Guðs til að þiggja brauðið og vínið en framhald þess borðs nær inn í himininn og þar við sitja Kristur og lærisveinarnir. Þar sameinumst við í heilagri máltíð með öllum helguðum á himni og jörðu.
Við megum því koma með von í hjarta að þessu altarisborði, von um að Kristur snerti okkur þar eins og hann getur snert við látnum ástvinum okkar sem sameinast okkur við hátíðarborðið í altarisgöngunni.
Þá verður samhljómur á himni og jörðu eins og Helgi Hálfdánarson sagði í sálminum sem sunginn verður á eftir.
Þig lofar allur himins her og helga vegsemd greiðir þér. Þú, gleðin heims, þú gafst oss frið vorn Guð og föður sjálfan við. sb. 236 Helgi Hálfdánarson