Innsetning forseta
Íslands 1. ágúst 2024. Matt. 7:24-27.
Náð sé með yður og
friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Á þessu ári minnumst við þess
að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Þá lauk erfðafestu
þjóðhöfðingja hér á landi því fram að þeim tíma var Danakonungur lengst af þjóðhöfðingi
landsins. Þjóðin hefur nú gengið að
kjörborðinu og kosið sér nýjan forseta og þess vegna erum við saman komin hér í
dag. Mikilhæf kona hlaut flest atkvæði
og nú ber svo við í fyrsta sinn í sögu
landsins að maki forseta er karl. Ég bið
þér nýkjörnum forseta Halla Tómasdóttir farsældar í mikilvægu embætti. Einnig bið ég eiginmanni þínum Birni
Skúlasyni og fjölskyldunni allri blessunar því ég veit að þegar einn
fjölskyldumeðlimur þjónar heilli þjóð þá getur það reynst álag á þau öll sem
tengjast viðkomandi ástúðarböndum.
Stundin hér í
Dómkirkjunni í dag er fyrirbænar- og þakkarstund. Hún minnir okkur líka á samfylgd þjóðar og
kristinnar trúar í þúsund ár. Minnir
okkur á þau kristnu gildi sem hafa mótað hugsunarhátt þjóðarinnar og lagt grunn
að lagasetningu og viðmiðunum í samskiptum fólks.
Fyrir nokkrum árum kom
ungur maður frá Malaví til landsins á vegum Hjálparstarfs Þjóðkirkjunnar og fór
um landið og sagði frá verkefnum Hjálparstarfsins í sínu landi og hve mikils
virði það væri að fá aðstoð við að létta samlöndum sínum lífið. Sagði hann til dæmis frá öllum brunnunum sem fermingarbörnin
á Íslandi höfðu safnað fyrir. Það gerir
fólkinu kleift að fá hreint vatn sem þau höfðu ekki aðgang að áður. Þegar hann fór um Suðurlandið þá hafði hann á
orði að hann hefði aldrei séð svona mikið vatn.
Hvarvetna blöstu við ár og lækir og fossar. Þetta fannst honum stórkostlegt því eins og
við vitum er vatnið eitt að dýrmætum jarðar og undirstaða lífs plantna, dýra og
manna.
Undanfarið hefur okkur
þótt helst til of mikið af vatninu góða í kringum okkur. Það rignir nánast upp á hvern dag. Og það er ekki bara hér á landi heldur víða
um heim. Undanfarnar vikur hafa borist
fréttir af flóðum þar sem vatnselgurinn hefur engu eyrt á vegferð sinni.
„Vatn flæðir yfir brúna
yfir ána Skálm og á Hringveginn á um kílómetra metra kafla austan við brúna“
var ein fréttin. „Nokkur flóð hafa
skollið á norðausturhluta Indlands síðustu mánuði vegna mikillar úrkomu. Óvenju
miklar rigningar hafa herjað á svæðið á yfirstandandi rigningartímabili“ var
önnur nýleg frétt og „Úrfelli á meginlandi Evrópu hefur leitt af sér flóð í
Þýskalandi, Belgíu og Hollandi. Rýma þurfti ákveðin svæði sökum flóðahættu“ en
svo var ástandinu í þessum löndum lýst í vor.
Slíkar fréttir hafa verið
fleiri undanfarin ár en oft áður. Þar er
um að kenna loftslagsbreytingum sem hafa breytt veðurfari til hins verra fyrir
mannkynið og jörðina sem það byggir.
Reynsla elstu manna eða minni kemur að litlu gagni til að bregðast við
þessum breytingum. Við byggjum margt á
reynslunni þó oft gangi fólki illa að byggja á reynslu fyrri kynslóða.
Í Biblíunni eru
fjölmargar sögur af reynslu einstaklinga og heilla kynslóða. Þessar sögur kenna okkur hvernig best er að
verja lífinu á þessari plánetu sem stynur nú undan ágangi og græðgi mannanna.
Ein þessara sagna var
lesin hér áðan, dæmisaga sem Jesús sagði um mennina tvo sem byggðu sér
hús. Annar var hygginn. Hann byggði hús sitt á bjargi og hinn
heimskur, hann byggði hús sitt á sandi.
Það kom steypiregn og húsið á bjarginu stóð fast, en það sem á sandi var
byggt féll og fall þess var mikið eins og segir í sögunni. Við þekkjum þessa sögu vel enda er söngur
byggður á þessari sögu enn sunginn og kenndur börnum.
Steypiregn var sem sagt
þekkt fyrir tvö þúsund árum annars hefðu áheyrendur Jesú ekki skilið
dæmisöguna. En auðvitað hefur þessi saga
dýpri merkingu. Hún fjallar um líf
okkar, á hverju við byggjum það, hvernig við bregðumst við aðstæðum og björgum
okkar þegar steypiregn birtist í formi áfalla og erfiðleika í lífi okkar. Hún fjallar um að byggja líf okkar á traustum
grunni trúar, vonar og kærleika. Á
traustum grunni virðingar, réttlætis og fyrirgefningar.
Jesús sagði þessa
dæmisögu til að minna okkur á að ef við treystum honum og fylgjum boðum hans þá
erum við eins og hyggni maðurinn sem byggði hús sitt á bjargi. Hann sjálfur er bjargið, hefur bjargráðin sem
okkur býðst að hafa í verkfærakistunni okkar.
Hann býður okkur að velja að treysta sér og þannig minnka áhyggjur,
kvíða og ótta sem geta sest að í huga okkar.
Hann býður okkur að bera byrðar lífsins með okkur til að létta okkur
lífsgönguna. Hann býður okkur samfylgd í
blíðu og stríðu. Hann flytur okkur
kærleiksboðskapinn um að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf. Hann þvingar okkur ekki til að treysta sér
eða fara eftir boðskap sínum því okkar er valið. Kristin trú felur okkur ábyrgð
á eigin lífi og vali um hvernig við viljum lifa því. Kristin trú er
samfélagsleg trú þar sem við erum aldrei ein á ferð heldur ávallt í fylgd
leiðtogans mikla Jesú Krists og samferðafólks okkar á hverjum tíma. Hins vegar er okkur ekki lofað lífi án
erfiðleika, heldur er okkur bent á leiðir til að bregðast við þegar þeir koma
upp.
Jesús setur kærleikann á
oddinn í kenningu sinni. Hann bendir á
réttlæti, miskunn og trúfesti sem grundvallaratriði. Manngildið er jafnframt
mikilvægt og umhyggjan fyrir öðrum. Og ekki má gleyma virðingunni fyrir sjálfum
sér og öðrum. Á Íslandi hafa þessi gildi
verið mótandi fyrir samfélagið og menninguna.
Gildin eru máttarstólpar lífshúss hverrar manneskju og það er gott að
sjá í leik- og grunnskólum víða um land að við blasa slík hugtök á veggjum.
Það eru miklar breytingar
sem eiga sér stað hér á landi og um allan heim þessi dægrin. Margar færa mál til betri vegar en því miður
er margt sem betur má fara. Til dæmis eru
upplýsingaóreiða og falsfréttir ekki til þess fallnar að auka á traust eða auka
öryggi fólks. Ekki heldur vopnaburður
eða efni sem draga úr möguleikunum til lífs í fullri gnægð.
Undanfarið hefur
kastljósinu verið beint að menntunarmálum í landinu. Aðstæður barna eru misjafnar. Sum börn þurfa að sitja í rútu allt að
klukkutíma hvora leið í skólann á meðan önnur ganga stuttan veg. Landið okkar fagra og fríða er ekki alltaf
auðvelt hvað samgöngur varðar þó ekki sé talað um veðurfarið sem stundum
hindrar ferðirnar til og frá skóla.
Mesti auður þessa lands er fólkið sem hér býr og vert að standa vörð um að
möguleikar séu til búsetu um allt land.
Við höfum ekki farið
varhluta að því að við búum í landi elds og ísa. Því miður hefur það orðið þess valdandi að
mikil röskun hefur orðið á högum fólks.
Nú síðast í Grindavík eins og kunnugt er. Það er þakkarvert að fólk flykkist að til
hjálpar án greiðslu og vinnuveitendur leyfi því að leggja niður störf sín þegar
á þarf að halda. Guð laun fyrir allt það
góða starf og Guð gefi öllum þeim styrk sem takast á við nýtt líf á nýjum
slóðum.
Samleið
forsetaembættisins og Þjóðkirkjunnar hefur frá upphafi verið farsæl. Ég bið
þess að svo megi áfram verða. Ég þakka fráfarandi forseta Guðna Th.
Jóhannessyni og frú Elísu samleið og störf svo og Ólafi Ragnari Grímssyni og
frú Vigdísi Finnbogadóttur sem hefur verið frábær fyrirmynd okkar kvenna hér á
landi og víða um heim. Ég bið verðandi
forseta farsældar í þjónustunni fyrir land og þjóð. Guð blessi þig og
fjölskyldu þína alla.
Dýrð sé Guði, föður og
syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.