Ég minnist stundum samtals sem ég átti fyrir nokkrum árum við öldung einn úr prestastétt, góðan samstarfsmann og vin. Nú í vetur kvaddi hann þessa jarðvist, saddur lífdaga eins og við segjum.
Hann var næmur á lífsgæðin og þarna sagði hann mér frá mánaðarlegum samfundum vinahópsins úr menntaskóla. Þeirri hefð höfðu þau viðhaldið í þessa sex áratugi sem liðnir voru frá því þau settu upp stúdentshúfurnar, brosandi framan í lífið og framtíðina. Hann lýsti eftirvæntingunni áður en þau hittust og hvernig þeim tækist nánast að verða tvítug á nýjan leik þegar gleði minninganna náði tökum á þeim.
En árin taka sinn toll. Smám saman fækkaði í hópnum og vinirnir hittust æ oftar í jarðarförum þar sem eitt þeirra hafði fallið frá.
Hvaða áhrif hafði þetta á gömlu bekkjarfélagana? Hvernig mótuðu kveðjustundirnar samverur þeirra sem höfðu svo oft einkennst af hlátri og glaðværð? „Núna, á síðustu árum“, sagði hann, „þegar við komum saman hefur orðið svolítil breyting á því hvernig við heilsum hvert öðru. Nú föllumst við alltaf í faðma."
Þessi saga leitar gjarnan á mig þegar ég brýt heilann um texta eins og þá sem hér voru lesnir að því ógleymdu að senn hefst tímabil í kirkjunni sem við köllum föstu. Það eru vikurnar fyrir páska og þá átti að gæta alls hófs. Venjan var sú að kveðja helstu krásirnar með þar til gerðum hátíðardögum áður en fólk fór að spara við sig í mat og drykk.
Það eru jú dagarnir þrír sem bíða okkar með rjóma, feitmeti og sætindum. Sennilega átti svo framhaldið, sjálf fastan, upphaflega hagkvæmar skýringar. Lítið var eftir í búri og undaneldisgripir einir eftir í fjósi og fjárhúsum. Fólk hefði því étið sig sjálft út á gaddinn ef það hefði ekki gætt hófs á þessum mörkum vors og vetrar.
Sennilega eru þau búvísindi nútímanum framandleg. Við erum vanari því að heyra endurtekið, að við eigum þetta og hitt skilið og að freistingar séu til að falla fyrir þeim. Þetta heldur víst hagkerfinu gangandi. Rauðu viðvörunarljósin blikka nú samt í hverju horni. Samfélög sem eru drifin áfram af slíku stjórnleysi geta endað eins og býli þar sem enginn horfir til framtíðar.
Og já, fastan hefur ýmsar víddir. Við getum sagt að hinn aldni vinur minn og kollegi sem lýsti því hvernig fækkaði í vinahópnum hafi snert á djúpum tónum þessa tímabils. Hið hverfula og takmarkaða er hluti af inntaki hennar og þá ekki í þeim skilningi að við gætum þess að nóg sé eftir af matvælum í búrinu heldur snýr það að inntaki lífs okkar og tilveru. Það er ekkert minna en það.
Lífið er takmörkuð auðlind
Textar föstunnar fjalla um hið forgengilega, þá staðreynd að lífinu eru settar skorður. Allt sem lifir hlýtur að endingu að deyja. Við lesum líkingu um sáðkorn sem sett er í jörðu og ber fyrir vikið mikinn ávöxt. Og í framhaldinu, þverstæðan um hið eilífa líf. Ef við getum leikið okkur með orðin – hvernig dauða-hald okkar á lífinu getur að endingu orðið til þess að við glötum því.
Þessi texti er hluti af kveðju Jesú til vina sinna. Endalok hans voru skammt undan og þau áttu eftir að verða með öðrum hætti en fylgjendur hans höfðu vænst. Krossinn er vitnisburður um algert varnarleysi manneskjunnar gagnvart örlögum sínum og hlutskipti. Og hér er ekkert dregið undan. Hér er ekki talað af yfirvegun spekingsins, nei Jesús lýsir því sjálfur hvernig óttinn sækir að honum: „Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu?“
Og þótt fólkið hafi vænst því að hann yrði hjá þeim „til eilífðar“ var raunin ekki sú. Hann átti aðeins eftir að dvelja skamma stund hjá þeim. Þessi er sá tónn sem kristin kirkja miðlar til okkar, einkum í aðdraganda upprisuhátíðarinnar.
Við greinum það ef til vill í öðrum textum þessa dags hvað manneskjan er söm við sig. Þar sem okkar kynslóðir hlaupa á eftir tilboðum þá lesum við í orðum Jesaja hvernig samtímafólk hans eltist við forgengileikann. Skurðgoð voru þau nefnd og slíkur átrúnaður var eitur í beinum þeirra sem fylgdu Guði að málum.
Það var jú freistingin stóra að handsama hið guðlega, hafa stjórn á því og geta stýrt því að eigin vild. En slíkt er ekki eðli Guðs Biblíunnar. Hann verður alltaf handan seilingar. Þannig er því líka háttað með lífið sjálft. Því hér er jú komið að takmörkum hins skiljanlega og viðráðanlega. Skilaboðin eru þau að farsældin einkennist af því að viðurkenna þessi mörk, reyna ekki að stýra því sem við höfum ekki stjórn á. Lausnin getur þvert á móti falist í því að sleppa takinu, sjálfu dauðahaldinu.
Þetta var niðurstaða þessa roskna vinar sem kvaddi samferðafólkið hvert af öðru, uns tími hans sjálfs var kominn. Sorgin vísaði honum leiðina að þakklætinu yfir því sem hann hafði fengið að njóta og upplifa. Þegar bekkjarfélagar féllust í faðma þá beindu þau sjónum sínum að því sem hafði gefið lífi þeirra gildi en vissu um leið að það varir ekki nema í takmarkaðan tíma.
Þannig varð söknuðurinn í huga þessa lífsreynda hóps, ekki óþarfur sársauki heldur miklu fremur ein hlið kærleikans og allrar þeirrar gleði sem þau höfðu notið. Enginn óskar sér þess hlutskiptis að syrgja, en þegar sú tilfinning hellist yfir okkur þá skiptir sköpum hvernig við mætum henni.
Hún getur varpað fram mynd af því hver við erum og hvar við stöndum á þessu ferðalagi okkar frá vöggu til grafar. Mætum við aðstæðunum af æðruleysi eða finnum við okkur í sporum þeirra sem reyndu að tálga tilveruna í skurðgoð? Höfum við sett okkur mælikvarða á lífsgæðin sem eingöngu eru vegin og metin á vogarskálum hins forgengilega?
Dauðahaldið
Með öðrum orðum: „Sá sem elskar líf sitt mun glata því“ segir Jesús – er hann ekki að vísa í dauða-haldið sem okkur reynist stundum svo erfitt að sleppa?
Því hvernig sem á málið er litið, þá erum við undir sömu sökina seld og allt það sem lifir og hefur lifað – hvort sem það er auðugur keisari sem ríkir yfir þjóðum eða vesæl jurt sem læðist upp úr moldinni að vori og hendur okkar rífa upp án umhugsunar í tiltektinni í garðinum. Dauðinn mætir hvoru tveggju. Hið sama á við um okkur sem fæðumst inn í þennan heim og kynnumst svo ólíkum hliðum hans. Já, lífinu og fegurðinni, gleðinni og því sem byggir upp.
Það kann að vera þverstæða lífs og dauða en staðreyndin er þó sú að vitundin um takmörk okkar í tíma, ætti að brýna það fyrir okkur sem endurómar í boðskap trúarinnar: sem er að nýta vel þann tíma sem okkur eru úthlutaður. ,,Kenn oss að telja ævidaga okkar, svo við megum öðlast viturt hjarta” segir í Davíðssálmum.
Í þessari litlu sögu af eldri borgurum sem ræktuðu svo vel vináttuna, í hinum jafna takti hefðarinnar – kallaði vitundin um endalokin fram enn sterkari tengsl. Sorgin, á ýmsar hliðar og í þessu tilviki hafði hinn fundvísi vinur minn skynjað það hvernig dauðinn, ekki rænir lífið gildi sínu, heldur eykur verðmæti þess og innihald.
Að endingu verður það val okkar, ekki síst á dögum sorgar og mótlætis, hvort við ríghöldum í þræði lífsins, sleppum ekki dauðahaldinu, eða mætum þeim í því æðruleysi sem faðmlagið nær svo vel utan um. Þessi er boðskapur föstunnar.