Jólaboðskapur Lúkasar og Matthíasar

Jólaboðskapur Lúkasar og Matthíasar

Jólaræða flutt í Glerárkirkju við miðnæturmessu á jólanótt 2013 en upphaflega í Grundarkirkju 2010. Jólaboðskapur Lúkasar hugleiddur í tengslum við æskuminningu Matthíasar Jochumssonar í jólaljóði hans frá 1891. Það er mögnuð útlegging á jólaboðskapnum þar sem Matthías biður jólabarnið að snerta sig.

Gleðileg jól!

Okkur eru boðuð merkileg tíðindi enn á ný eins og væru þau flutt í fyrsta sinn. Boðskapur Lúkasar á jólanótt.

Okkur er sögð saga. Þær eru merkilgar sögurnar sem við kunnum. Sumar eru skemmtilegar eins og sagan Ég, afi og jólastubbur eftir Ole Lund Kirkegaard sem var lesin fyrir okkur á síðustu kóræfingu fyrir jól. Og við hlógum vegna þess að sagan var skemmtileg og meira en það í henni voru einhver sannindi sem við fundum fyrir, eins og það að fátt jafnast á við góða veislu og glaðværa söngva í góðum félagsskap, þó að það hafi nú verið jólasálmar sem gamla fólkið söng í þeirri sögu. Við værum ekki ærleg ef við viðurkenndum það ekki að góður matur í góðum félagskap skipti okkur máli á aðfangadagskvöldi.

Ekki meira um það að sinni. Jólasagan vekur aðrar kenndir en hlátur, dýpri, innilegri, viðkvæmari, gleðilegri, held ég. Reyndar er ég þeirrar skoðunnar að allar jólasögur eru sprottnar út af jólasögunni fyrstu sem byrjar með orðunum: “En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina...”

    1.

Ég vil nefna eitt dæmi til að skýra mál mitt og ég get ekki verið annað en sama sinnis höfundinum. Matthías Jochumsson, þjóðskáldið, lítur til baka til æsku sinnar á jólum 1891 þar sem fjórir bræður sitja með kertin sín og hlusta á móður sína flytja þeim jólaguðspjallið. Og hann skrifar: “... mamma settist sjálf við okkar borð; sjáið, enn þá man ég hennar orð”. Og hann festir ræðu móður sinna í ljóðstafi:

“Þessi ljós, sem gleðja ykkar geð, Guð hefur kveikt, svo dýrð hans gætuð séð; jólagleðin ljúfa lausnarans leiðir okkur nú að jötu hans”.

Svo lýsir hann sagnaþulinum móður sinni í himneskum ljóma jólasögunnar:

Síðan hóf hún heilög sagnamál, himnesk birta skein í okkar sál; Aldrei skyn né skilningskraftur minn skildi betur jólaboðskapinn.

Á þeim árum sem hann skrifaði ljóðið gengu yfir straumar guðleysis og afneitunar trúarinnar á landinu og þá glímu tekur Matthías í hugleiðingum sínum og veltir fyrir sér þekkingu sinni og lífsspeki en metur það allt sem innantómt miða við eitt hálmstrá frá jötu herrans: “Fyrir hálmstrá herrans jötu frá hendi ég öllu: lofti, jörðu, sjá.”

Þessi sögustund með móður sinni fyrir löngu síðan lagði lífgrundvöll skáldsins. Hann er að segja það. Kertljós flöktandi á baðstofuloftinu, móðurleg rödd, hlýja og innileiki, ytri umgjörð um kjarna lífsins. Í sögu eru sannindin skráð, en hún er ljóslifandi fyrir augum okkar, jólaboðskapur Lúkasar, þá eins og nú, þó að hún sé bundin við stað og stund, eru sannindi hennar hér og nú, við kertaljósin hér í kirkjunni.

    2.

Jólaboðskapurinn er engin skemmtisaga þó er hún skemmtileg og hrífandi. Lúkas er ágætur sögumaður. Hann setur þennan atburð í sögulegt samhengi. Það var þegar skrásetningin mikla fór fram. Þá var Ágústus keisari í Róm. Hann var tilbeðinn og tignaður sem guð og frelsari heimsins. Þá fóru allir til sinnar borgar.

Þá gerist það sem spámennirnir höfðu sagt fyrir. Það er ekki eins tignarlegt og mikilfenglegt og þegar sendiboðar keisarans þjóta um ríkið með boðskap valdhafans sem setur reyndar fólkið á hreyfingu. Jósef og María fara í þessa örlagaríku ferð frá Nasaret til Betlehem að láta skrásetja sig. Tilefnið mikilfenglegt valdaspil.

Boðskapur Lúkasar er sá að við eigum ekki að líta stórum augum á valdhafa, tignir og völd, heldur á það sem skiptir máli í lífinu. Það er ekki valdið, heldur kærleikurinn. Það var glóðinn sem brann í brjósti þjóðskáldsins forðum og móðir hans kveikti við kertaljós í lítilli baðstofu upp á Íslandi.

Það sem gerðist var að barn fæddist og var vafið reifum, lagt í jötu í gripahúsi vegna þess að það var ekki pláss fyrir þau í gistihúsi. Ef þú hefur einhverjar tilfinningar í brjósti þér, sanngirni og réttlætisást, ætti sú saga að kveikja í þér vandlæti, vilja til góðra verka, þó það væri ekki af öðrum ástæðum en þeim að börn fæðast enn við slík skilyrði.

Líf allra barna, mannkynsins alls, er helgað með þessari fæðingu, vegna þess að sá sem fæðist þarna var Guð kominn til okkar. Guð lítur svo lágt að hann fer niður í hin lægstu kjör til að sýna okkur veg kærleikans. Þú verður að beygja þig til að elska.

Við okkur blasir myndin af móðurinn með barnið í faðmi sínum, mynd kærleikans. Ótal listaverk tjá þessa mynd, grunnmynd tilverunnar, eftir kristnum skilningi eða barnsins í jötunni ætti ég kannski frekar að segja. Festu hana í huga þér, gældu við hana í hjarta þér, vegna þess að með henni er Guð að tala við þig, segja, þegar hann fálmar eftir brjóstinu til að drekka, sígur lífgjöf sína af mannheimi, ég er Guð þinn, kominn til þín í því veiklulegasta í mannheimi, reifabarni, hvítvoðungi, til þess að þú vitir að ég snerti þig í raun og veru, líf þitt er mér falið.

“Ó, þá náð að eiga Jesú”, orti Matthías, “höfði halla í Drottins skaut”. Og í áðurnefndum jólasálmi heyrum við að guðspjall hans er nákvæmlega jólaboðskapur Lúkasar. Matthías biður Jesúbarnið að ljá sér litla fingur sinn, “ljúfa smábarn”. Stórt og smátt setur hann saman til að lyfta huganum, með öfgafullum andstæðum skýrir hann mál sitt. Hann finnur í jólasögunni “sálarfrið” æskunnar, grundvallartraustið, að Guð snertir tilveru okkar, heldur henni uppi í hendi sér, lítilli barnshendi, svo ég beyti fyrir mér dálitlum andstæðum.

    3.

Í seinni hluta jólasögunnar fyrstu breytist sögusviðið. Við erum kominn út á Betlehemsvellina. Þar erum við með fjárhirðum. Þeir voru ekki hátt skrifaðir í samfélagi manni í þá daga. Aftur er Lúkas að benda okkur á að vanmeta ekki það sem því miður er lítils virði í manna augum. Ástæðan er að sjálfsögðu að barnið í jötunni boðaði það með lífi sínu og starfi seinna meir.

Boðskapur englanna á jólanótt um mikinn fögnuð sem veitast muni öllu fólki, um fæðingu frelsara og tákn þess barnið í jötunni, endar í lofgjörðinni: “Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum”. Öll þessi himneska ræða beinir mönnum ekki til þess að glápa til himins heldur að fara beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur. Hirðarnir finna allt eins og þeim hafði verið sagt.

Reynum að setja okkur í spor Maríu. Þarna koma hirðar utan af haga og fara að segja það sem bar fyrir augu þeirra á völlunum stuttu áður. Boðskapur engils og lofgjörð himneskra hirðsveita: Dýrð sé Guði. Hún hlustar og geymir orðin í hjarta sér. Hugleiðir.

Hún horfist í augu við barnið sitt, undrandi, er að átta sig á, að þessir litlu fingur, þessi litli líkami, upp við hennar, er Guð. Getur það verið? Boðskapur Lúkasar er eins og samtalsbækur okkar tíma sprottinn af samtali við Maríu, trúi ég. Hann endurspeglar þessar hugleiðingar hennar. Í þeim birtist innileiki trúarinnar, kjarni, kærleikurinn.

Það er jólasagan fyrsta að segja að Guð er ekki nokkrar setningar, trúarjátning, reglufesta né vald, heldur persóna, sem kemur til okkar, talar við okkur, beygir sig niður til að lyfta okkur upp í faðm sinn. Hvað er þetta annað en skáldskaparmál, falleg saga, með öðrum fallegum sögum mannkynsins? Nei, þessi saga er meira og öðru vísi, því þarna birtist okkur grunnur tilveru okkar, þar er ekki tóm, óvissa og nagandi kvíði, heldur Guð sjálfur, hann birtist okkur sem ást, kærleikur og umhyggja. Því er þessi mynd, saga, meira en einhver saga, vegna þess að í öllum sínum ævintýraljóma varð hún, það gerðist sem hún greinir frá. Guð var á meðal okkar, ungbarn reifað og liggjandi í jötu. Gleðin er ekki byggð á hugarburði heldur á snertingu við Guð sjálfan, fingur Guðs í tilverunni, “ljúfa smábarn”. Það eitt veitir órólegum “sálarfrið”. En það er þá líka ástæða til að gleðjast, elska og byggja upp samfélag kærleikans í mannheimi, skapa frið á jörðu. Í þeim anda skulum við syngja jólasálmana góðu og láta þá verða til að uppörva okkur í lífinu. Óska hverju öðru: Gleðilegra jóla. Og lifa í þeirri sönnu jólagleði.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun.