Gæðastjórinn

Gæðastjórinn

Dauðinn er gæðastjóri lífsins. Lítill fugl hvíslaði þessu að mér. Litlir fuglar geta víst verið kjarnyrtir og sannorðir. Getur það ekki allt eins verið að við vöndum okkur heldur meira við lífið vegna þess að við þekkjum ekki dauðann?

Dauðinn er gæðastjóri lífsins. Lítill fugl hvíslaði þessu að mér. Litlir fuglar geta víst verið kjarnyrtir og sannorðir. Getur það ekki allt eins verið að við vöndum okkur heldur meira við lífið vegna þess að við þekkjum ekki dauðann? Vinur minn einn hélt því eitt sinn fram að drifkraftur lífsins lægi í kynhvötinni, það ætti við alla og meira að segja Guðsmenn. Það má vel vera að hann hafi haft eitthvað til síns máls. Það er þó margt sem hefur áhrif á okkur og rekur okkur áfram í lífinu, en dauðans leyndardómur hlýtur að vega þar þungt.

Hver þekkir það ekki þegar árunum og gráu hárunum fjölgar þá förum við að velta trúmálum meira fyrir okkur. Sumir hafa tekið upp á því að sækja meira kirkju en þeir gerðu áður og velta eilífðarspurningum upp eins og enginn væri morgundagurinn. Dauðinn nálgast og við erum farin að gera upp við okkur sjálf og lífið. Það er bara gott. Þess vegna er það svo dýrmætt og gefandi að hafa fengið að kynnast trúarlegri umræðu og fræðslu á yngri árum og þess vegna boðun trúar. Ýmsir virðast reyndar hræðast það nú orðið að nefna hugtakið trúboð, slíkt er málað sem skratti á alla veggi og myndir í huga birta ofbeldiskenndan heilaþvott.

Það er leitt, því boðun trúar snýst ekki um heilaþvott, heldur að koma þeim boðum áleiðis, sem trúin felur í sér og slíkt getur stutt óendanlega mikið við í sjálfsuppgjöri manneskjunnar þegar fram líða stundir. Margir rúmlega miðaldra hafa bent á það. Ef við vissum að við værum eilíf hér á jörðu myndum við eflaust hegða okkur á annan hátt en við gerum. Ekki það að ég viti það, en ég væri reyndar alveg til í að upplifa einn slíkan dag þar sem mannkyn hefði sönnur fyrir því að það væri eilíft á jörðinni. Bara einskær forvitni.

Ætli ringulreið myndi eflast? Kæruleysið gæti orðið allsráðandi, þetta skiptir engu máli því ég drepst hvort eð er ekki. Við yrðum kannski eins og ofdekruð börn, já eitthvað í líkingu við Adam og Evu forðum áður en þau ráku sig á og lærðu að þekkja mun á réttu og röngu.

Þær eru margvíslegar hugmyndir fólks um dauðann. Endurholdgunarkenningar, spíritismi, miðlar og þar fram eftir götum. Skáldsagan “Svo fögur bein” eftir Alice Sebold dregur fram sérkennilega atburðarrás tengda dauðanum, þar sem söguhetjan er myrt og situr síðan uppi á himni og fylgist með rannsókn morðmálsins án þess að fá rönd við reist. Guð gefi að dauðinn feli ekkert slíkt í sér, að við þurfum ekki að standa sem áhorfendur að jarðlífinu eftir okkar dag.

Og það er einnig í öllum skilningi vont að standa bara sem áhorfandi að lífinu yfir höfuð og fara á mis við að vera beinn þátttakandi. Það að vera þátttakandi er t.d. að hafa skoðanir á mönnum og málefnum, láta þær í ljós, beita áhrifum sínum til góðs. Já, leggja sitt af mörkum eins og um 700 ungmenni æskulýðsfélaga kirkjunnar gerðu á Landsmóti á Akureyri í októbermánuði síðastliðnum. Þau frelsuðu þar þrælabörn á Indlandi með því að skapa og afla tekna í þágu fátækra og fjötraðra barna, sem búa við ömurlegar aðstæður. Það er þetta að finna fyrir þeim gæðum að geta hjálpað og stutt við úr fjarlægð. Þannig snertir maður Guð, slíkt gefur lífinu tilgang eða eins og hugsuður einn orðaði það og er víst ekki flókin lífsspeki: “Þegar menn eru gefendur, þá er lífið ekki lengur tilgangslaust”.

Dauðinn sem gæðastjóri vekur okkur vonandi til umhugsunar um það að sem þátttakendur í lífinu höfum við tækifæri til þess að skilja eitthvað eftir okkur og skilja jafnvel vel við okkur. Gefa þeim kynslóðum, sem á eftir koma eitthvað bitastætt til þess að moða úr og að minning okkar haldi áfram að hvetja og næra fremur en að letja, ég tala nú ekki um að særa.

Við minnumst látinna á þessum degi. Vonandi eru þær minningar góðar og þú ef til vill veltir um leið fyrir þér hvernig minningin um þig verður síðar meir. Mundu að þú getur haft áhrif á það strax núna. Af hverju ekki að hreinsa til í óuppgerðum samskiptum, fyrirgefa, biðjast fyrirgefningar og upplifa hvað slíku fylgir mikill léttir? Af hverju ekki að leggja á sig skipulagsvinnu sem býr til meiri tíma með fjölskyldunni, þar sem enginn mun spyrja þig hvað þú starfaðir lengi og mikið þegar að kallinu kemur?

Af hverju ekki að fara í heimsókn og hitta fyrir fólk, heldur en að eiga stöðugt samskipti í gegnum tölvu, þar sem þú leyfir þér stundum að láta gamminn geysa, sem þú annars myndir ekki voga þér augliti til auglitis. Er eitthvert hugrekki í því? Af hverju ekki að virða skoðanir og rétt allra þjóðfélagsþegna og opna leið að þeim forréttindum, sem þú nýtur? Hvernig væri að breyta hugsunargangi um hin og þessi réttindamál, sem þú ert búinn að pirra þig yfir í gegnum tíðina? Af hverju ekki að hugsa um hjúskaparmál samkynhneigðra á þann hátt að þú sért ekki að tapa sérstöðu hjónabandsins þó fólk með aðra kynhneigð fái aðgang að því.

Af hverju mega börn, sem notið hafa þeirra réttinda að heyra um kristni, kristin gildi og kristinn þjóðararf ekki heyra um neitt slíkt lengur í skólanum sínum vegna þess að það þarf að vernda önnur börn gegn því? Með því hljótum við að vera að senda þeim börnum, sem mega heyra um slíkt viss skilaboð að kristin áhrif séu óæskileg áhrif, eða hvað? Eru það óæskileg áhrif? Veistu um önnur áhrif sem eru æskilegri? Og það eru ekkert allir foreldrar, sem hafa tækifæri til þess að fara með börn sín í kirkjuna þó þeir glaðir vildu svo mikil er dagskráin alla daga vikunnar.

Og af hverju ekki að hugsa til kirkjunnar með þeim hætti að hún sé að hreinsa til í sínum ranni með því að stofna Fagráð fyrir þolendur kynferðisofbeldis, sem verður til þess að fleiri mál koma upp á yfirborðið, já fremur en að stimpla kirkjuna og þjóna hennar alla sem kynferðislega brenglað fyrirbrigði? Nú má skora á fleiri stofnanir og fleiri stéttir að stíga fram og opna graftarkýli, því það þarf enginn að segja okkur að kynferðisafbrotamál séu séreign kirkjunnar í dag.

Ég er búinn að spyrja margra spurninga, en í þeim felast um leið skilaboð, viss áhrif, þú mátt meðtaka og vinna úr því, með sjálfum þér og þínum. Vonandi viltu vita meira, þá ertu á réttri leið, þegar við viljum vita meira, þá erum við að fikra okkur upp þroskastigann.

Þess vegna er vont að útiloka hluti, afneita þeim, gefa þeim ekki einu sinni séns. Trúnna er ekki hægt að afgreiða sisona, sumum þótti það hrokafullt þegar nóbelskáldið okkar sagðist hafa verið búið að afgreiða kristindóminn, en því leyfðist nú víst allt. Trúin sækir á þig með aukinni lífsreynslu, hún er samofin svo mörgu því, sem þú reynir í lífinu, hún er samofin vangaveltum um dauðann. Áfallahjálp sú og sálgæsla sem prestar veita snýst m.a. um að opna farveg fyrir tilfinningaumræðu og þar með talið trúarumræðu, sjálfsuppgjöri.

Með öllu trúlaus einstaklingur myndi meira að segja ekki komast hjá því að minnast á trú og trúarlega þanka þegar t.d. dauðaumræðu bæri á góma. Það þyrfti ekki einu sinni að troða slíkum vangaveltum upp á hann. Ég hef sem dæmi skoðað umræðuvefi trúleysingja á netinu. Stærsta einkenni slíkra vefja er mjög mikil trúmálaumræða. Það er ekki bara vegna þess að Guð er húmoristi, heldur líka vegna þess að trúleysingjar eru jafnmiklar manneskjur og trúaðir, við höfum öll huga og við höfum öll hjörtu.

“Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá”. “Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða”.

Jesús Kristur var að kenna, hann var að fræða á fjallinu, hann var að túlka og hann var að vísa veginn, hann var að segja fólkinu hvernig það ætti að undirbúa sig fyrir framtíðina, hvernig það ætti að haga lífi sínu þannig að dauðinn hefði ekki ítök, svo dauðinn yrði lífinu ekki yfirsterkari. Það vildi Kristur augljóslega ekki kenna enda horfði hann til framtíðar. Og hvað sá hann? Jú, líf en ekki dauða. Amen.