Guðspjall: Lúk. 19. 1-10 (B)
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Það var undarleg tilfinning að standa við sjáanlegar rústir Jeríkóborgar fyrir fimm árum tæpum og virða þær fyrir sér. Hver einasti steinn hrópaði til mín þannig að myndskeiðin á svæðinu greyptust í huga minn. Steinþrepin voru þreytt og sigin eftir marga fætur. Það var ekki laust við að maður fylltist lotningu fyrir þessum helga stað. Þarna hafði Jesús gengið um og kallað á Sakkeus, tollheimtumanninn góðkunna sem öll íslensk börn þekkja, að minnsta kosti þau sem hafa komið í sunnudagaskólann. Þar sem ég stóð á aldagömlum vegslóðanum þá fór ég ósjálfrátt að leita að trénu, því sama og Sakkesu hafði fyrrum klifrað upp í til þess að hann gæti séð Jesú. Ég sá nú ekki mörg stór og tíguleg mórberjatré í næsta nágrenni við mig þannig að ég gerði ráð fyrir að það hefði geispað golunni fyrir löngu síðan.
Ég man að ég reyndi þarna á þessum stað að setja mig í spor Sakkeusar þegar hann var uppi.
Jeríkóborg var þá mjög auðug og mikilvæg. Bærinn var staðsettur á mikilvægum verslunar-og samgöngustað. Frá Jeríkó lá leiðin vestur til Jerúsalem um fjölfarinn veg. En áin Jórdan var austan við Jeríkó. Þar var hægt að fara yfir hana á vaði og halda til landanna í austri.
í Jeríkó var mikill pálmaskógur og rósagarður. Þar var einnig heimsþekktur lundur þar sem ilmjurtir uxu. En ilmsmyrsl voru búin til úr þeim. Þau voru útflutningsvara sem Rómverjar nýttu sér óspart.
Allt þetta varð til þess að gera Jeríkó að einni mestu skattamiðstöð Palestínu. Tollheimtumenn auðguðust mjög af störfum sínum í þágu Rómverja. Þeir tóku við miklu fé af almenningi en skiluðu því ekki öllu í pyngjur Rómverja. Fyrir þessi störf í þágu óvinanna, Rómverjanna og fjárdráttinn voru þeir hataðir af mannfjöldanum. Mannfjöldinn hafði sem minnst samneyti við þá. Tollheimtumaðurinn Sakkeus var einn af þeim sem mannfjöldinn hataði.
Hann var auðugur en hann var ekki hamingjusamur. Hann var einmana vegna þess að hann hafði valið sér leið sem olli því að hann var útskúfaður af ölum samborgurum sínum.
Hann hafði heyrt um Jesú sem bauð tollheimtumenn og synduga velkomna og sat til borðs og neytti matar með þeim. Af þessu hreifst Sakkeus. Og nú var þessi Jesús kominn til heimabæjar hans, Jeríkóborgar. Sakkeus velti því fyrir sér hvort Jesús kæmi til með að veita sér athygli. Hann þráði svo að upplifa kærleika þessa manns sem svo margar sögur fara af.
Sakkeus ákvað að sjá Jesú og lét ekkert stoppa sig. Það eitt að blanda sér í mannfjöldann krafðist hugrekkis af honum því að hann gat átt von á því að fá olnbogaskot, spark eða hrindingu. En Sakkeus lét ekkert aftra sér, örvæntingin rak hann áfram. Mannfjöldinn sá til þess að hann sá ekki neitt til ferða Jesú. Þess vegna klifraði hann upp í tré í vegkantinum.
Sakkeus tók stór skref til þess að sýna samfélaginu að hann væri breyttur maður. Þegar Jesús tilkynnti að hann myndi dvelja í húsi hans þennan dag og þegar hann uppgötvaði að hann hafði fundið nýjan og dásamlegan vin í Jesú þá tók hann ákvörðun. Hann ákvað að gefa helming eigna sinna fátækum, hinn helminginn ætlaði hann ekki sjáflum sér heldur þeim er hann hafði brotið gegn. Hann skilaði öllu fjórfalt sem hann hafði tekið.
Samkvæmt lögbók Gyðinga þá þurfti Sakkeus sem afbrotamaður ekki að ganga svona langt. En Sakkeus var ákveðinn í því að gera mun meira en kveðið var á um í lögmálinu. Með verkum sínum sýndi hann að hann var breyttur maður. Hann var því góður vitnisburður. hann ákvað að breyta lífsmáta sínum vegna þess að Guð hafði í Jesú Kristi mætt honum og fyrirgefið honum syndir hans. Afleiðingarnar urðu sýnilegar í góðum verkum Sakkeusar og góðum hug hans í garð allra þeirra er hann hafði brotið gegn.
Jesús vill ekki breyttan orðaforða heldur breytt líf, líf sem er í samræmi við vilja Guðs, líf í fullri gnægð. Sakkeus lifði áður lífi sem var ekki í samræmi við vilja Guðs. Þess vegna var hann týndur. En Jesús fann hann og bauð honum að ganga inn í fögnuð Herra síns vegna þess að hann skynjaði að Sakkeus hafði til að bera iðrandi hjarta. Í kjölfar fyrirgefningarinnar leitaðist Sakkeus við að hlýða Guði föður upp frá því.
Það er erfitt fyrir okkur að setja okkur í spor Sakkeusar sem var hafnað af mönnum fyrir fjárdrátt og samskipti við óvininn, Rómverja. En þó eru margir sem upplifa mikila höfnun í lífinu t.d. í hjönaböndum þegar annar aðilinn gerist sekur um hjúskaparbrot. Enginn fær lýst þeim sárindum sem þá koma upp á yfirborðið nema sá sem reynir þau sjálfur. Samviskubit getur hvílt eins og mara á fólki. Það er nefnilega svo að Guð hefur skrifað lög sín á hjörtu okkar. Samviska okkar er rödd Guðs innra með okkur. Er þá engin lausn til? Jú, Guð fyrirgefur, hann hefur fyrirgefið. En til þess að fólk geti fengið fyrirgefningu þá verður það að iðrast og breyta hegðun sinni í kjölfarið til samræmis við vilja Guðs.
Sá sem hefur upplifað mikla höfnun í lífinu hann þarf á miklum kærleika og umhyggju að halda, stöðugum kærleika. Guð er sú persóna í Jesú Kristi, hinum upprisna og lifandi Drottni sem getur veitt okkur slíkan kærleika.
Ef okkur finnst við vera útskúfað af mönnum þá skulum við ekki dæma þá heldur leita í ríkari mæli eftir kærleika Guðs. Þá getum við orðið farvegur fyrir náð hans inn í líf annarra. Megi góður Guð gefa að sagan um Sakkeus verði okkur hugstæð. Megi hann einnig gefa að líf okkar geti breyst og lotið vilja Guðs í ríkari mæli en áður. Amen.
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.