Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Jólin eru komin. Þessi árvissi gleðigjafi í miðju svartasta skammdeginu. Við fögnum því að daginn tekur að lengja og notum það tilvalda tákn úr gangi náttúrunnar, sigur ljóssins á myrkrinu, til að minnast þess þegar ljós lífsins, Jesús Kristur, kom í heiminn. Því staðreyndin er auðvitað sú að við höfum ekki hugmynd um það á hvaða árstíma Jesús frá Nasaret fæddist.
Við gefum gjafir, förum í sparifötin, eldum góðan mat og kýlum kviðinn. Greniangan fyllir vitin, nema þar sem ilmur af hangikjöti, rjúpum eða laufabrauði yfirgnæfir hann. Við vonum að við fáum hvít jól, af því að það er svo jólalegt, en þó ekki svo hvít að við komumst ekki ferða okkar. Passlega hvít skulu þau vera. Á jólunum á allt að vera fullkomið.
Jólin eru ekki tími þegar við veltum við borðum víxlaranna. Við stingum ekki á kýlum eða vörpum ljósi á meinsemdir samfélagsins. Jólin eru ekki tími hvassrar félagslegrar ádeilu eða vægðarlausrar gagnrýni. Á jólunum ruggum við ekki bátum, við ögrum ekki félagslegum viðmiðum eða storkum viðteknum hefðum.
Nei, jólin eru tími friðar og sáttar. Allir eru vinir á jólunum. Og jólin skulu vera eins í ár og þau voru í fyrra og árið þar áður og þar áður, alveg síðan við vorum lítil börn sjálf. Alla ævi leitumst við við að endurskapa okkar bernskujól. Spurningar á borð við „Hvernig gerir þú þetta eða hitt á jólunum?“ eða „Hvernig ert þú vanur eða þið vön að hafa þetta á jólunum?“ eiga sér yfirleitt alveg ákveðin svör. Mjög fáir svara: „Tja, það er nú misjafnt. Það fer eftir ýmsu.“
Á jólunum sækjum við nefnilega öryggi og huggun í ritúalið – það að gera hlutina alltaf eins. Þörf fólks fyrir ritúöl og hefðir sem uppsprettu einhverrar öryggiskenndar, fyrir fastan póst í tilverunni, nær langt út fyrir mörk skilgreindra trúarbragða og lífsskoðana.
Jólin eru prúðbúin, slétt og felld.
Við höllum okkur aftur og njótum þess að heyra helgisöguna fallegu, frásögn Lúkasar af fæðingu Jesúbarnsins: „En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara …“ og svo framvegis.
En málið er að sú frásögn er ekkert mjög slétt og felld. Hún er ekki um prúðbúið fólk að kýla kviðinn á kræsingum í skreyttum stássstofum. Hún er ekki um Guð sem kemur í kirkju til að mæta söfnuði sínum sem bíður hans þar í sparifötunum.
Þegar grannt er skoðað segir annar kafli Lúkasarguðspjalls frá fólki sem hrakist hafði undan gullgrafarahugarfari samferðafólks síns til að leita sér skjóls í gripahúsi af því að það var ekki rúm fyrir þau í gistihúsinu.
Sagan segir að í Betlehem hafi verið mikil umferð ferðamanna. Gera má sér í hugarlund hvort þessi holskefla aðkomumfólks hafi ekki haft einhver áhrif á verðlagið á gististöðunum á staðnum, sem alls ekki hafa náð að anna þessari óeðlilega miklu eftirspurn. Það hefur varla verið á færi annarra en ríka og fína fólksins að fá inni á sómasamlegum stað. Fátækur smiður frá Galíleu, með kasólétta unnustu, vart komna af barnsaldri, átti auðvitað aldrei séns.
Þessi saga er um það hvar Guð kýs að birtast mönnum. En það er bara á yfirborðinu sem textinn segir okkur hvar á yfirborði jarðar hann birtist. Í raun er sagan um það hvar í samfélaginu Guð birtist mönnum. Og Guð birtist mönnum einmitt þar sem hans er síst von – en mest þörf.
Sagan er um Guð sem tilkynnir þeim, sem töldust til mannlífssorans á sínum tíma, að þeim sé frelsari fæddur. Hún er um Guð sem segir þeim útskúfuðu og fyrirlitnu að vera óhræddir. Hún er ekki um Guð sem birtist þeim sem bíða hans, heldur hinum – sem hafa gefist upp á honum.
Botn samfélagsins
Við erum alin upp við hugmyndir um fjárhirða sem sællega og rjóða smaladrengi, en nú vitum við að þær hugmyndir eru alrangar. Á dögum Jesú frá Nasaret voru fjárhirðar lægsta stétt samfélagsins. Fjárhirðar urðu aðeins þeir sem enga almennilega vinnu fengu. Fjárhirðar voru álitnir óheiðarlegir lygarar og þjófar. Vitnisburður fjárhirða var ekki tekinn gildur fyrir dómstólum og vitað er um dæmi þess að fjárhirðum hafi einfaldlega verið óheimill aðgangur að bæjum og borgum, þeir voru einfaldlega skikkaðir til að halda sig utan borgarmarkanna. Trúarleg yfirvöld voru sérstaklega gagnrýnin á fjárhirða því skyldur þeirra komu í veg fyrir að þeir gætu haldið hvíldardaginn heilagan svo sem sanntrúuðum gyðingum bar og þar af leiðandi voru þeir „óhreinir“. Farísearnir, fyrirmyndarborgararnir, flokkuðu fjárhirða með vændiskonum og tollheimtumönnum, fólki sem var syndugt vegna atvinnu sinnar.
Ekkert af þessu kom þó í veg fyrir að prestarnir, farísearnir og hitt fína fólkið nyti afurðanna. Þau voru kannski of fín til að umgangast fjárhirða, en þau voru ekki of fín til að snæða lambakjöt. Þetta er kallað hræsni. Rétt eins og nú á dögum þegar við fordæmum barnaþrælkun hörðum orðum en kaupum okkur svo ódýrustu flíkina í erlendu stórversluninni án þess að velta fyrir okkur upprunalandinu eða ástæðum þess að flíkin getur verið svona ódýr.
Við þurfum ekkert að velta því fyrir okkur hvaða áhrif það hefur á fólk að vera í þeirri félagslegu stöðu sem fjárhirðar í Palestínu voru í á fyrstu öld okkar tímatals. Þvi miður. Þetta fólk er nefnilega enn á meðal okkar. Flökkulýður, Roma-fólk, sígaunar … Við getum einfaldlega aflað okkur beinharðra upplýsinga um það. Það hefur verið rannsakað.
Sá sem þekkir ekkert annað en að vera botn samfélagsins, fyrirlitinn og útskúfaður, fer smám saman að líta á það sem eðlilegt hlutskipti sitt … og bregst ekki væntingum. Ef ég er á annað borð er álitinn þjófur, hví að valda fólki vonbrigðum? Það er ekki eins og ég eigi mér viðreisnar von hvort sem er. Það er ekki eins og ég eigi einhvern möguleika á að sýna fram á að orðsporið sem fer af mér sé rangt. Samfélagið setur mig í hlutverk og áður en ég veit af er ég farinn að leika það af innlifun.
Hvernig skyldi kúltúr fjárhirðanna hafa verið? Skyldu þeir sín á milli hafa rökrætt af skynsemi og yfirvegun hve þeim sárnaði og sveið hið samfélagslega óréttlæti sem þeir urðu fyrir barðinu á eða skyldu þeir hafa verið meira fyrir að stæra sig af afrekum sínum á sviði ýmiss konar óheiðarleika og uppátækja? Hvort ætli sé líklegra að þeir hafi myndað óheflað testósterónsamfélag ómenntaðra karla sem breiddu yfir vanmátt sinn með mannalátum – eins og við þekkjum enn í dag hjá svipuðum hópum – eða verið blíðir, næmir, tilfinningaríkir og skilningsríkir einlægir sálufélagar hver annars? Ég læt þeirri spurningu ósvarað.
Ég veit aðeins að sá sem þekkir ekkert annað en að hann sé ekki bara í neðsta þrepi samfélagsstigans heldur líka í neðsta sæti vinsældalistans hjá Guði hann fer smám saman að trúa því sjálfur: „Guð hefur hafnað mér. Hann vill ekkert með mig hafa. Hann lítur ekki við mér. Það má vera að hann sé í góðu sambandi við ríka og fína fólkið, en hann kemur mér ekki við og ég kem honum ekki við.“ Og sú lífsafstaða kann að setja sitt mark á framkomu manna og atferli.
En það er þessi hópur manna sem Guð sendir engil til að tilkynna þeim að frelsari sé fæddur. Prestana og faríseana, sem beðið höfðu komu messíasar með öndina í hálsinum, hunsaði hann algerlega. Frelsarinn birtist ekki í musterinu, hvorki í musteri hins andlega né hins veraldlega valds, þar sem allt var til reiðu fyrir komu hans, heldur í líki bláfátæks hvítvoðungs sem lagður var í jötu innan um búfénað. Og svo bætir Guð gráu ofan á svart með að leita uppi þann versta trantaralýð – í augum góðborgaranna – sem hann gat fundið til að flytja fagnaðarerindið: „Barn er oss fætt. Sonur er oss gefinn.“
Farísearnir og fína fólkið hefðu hlegið ef þeim hefði verið sagt þetta, að frelsarinn hefði fæðst í fjárhúsi og að fjárhirðar hefðu verið valdir til að meðtaka gleðifréttina, svo fáránlega langsótt og súrrealískt hefði þeim fundist það. Og hafi broddborgunum komið þetta á óvart var það þó ekkert í líkingu við það hve gjörsamlega í opna skjöldu þetta kom fjárhirðunum sjálfum. Enda urðu þeir skelfingu lostnir. Í þeirra huga gat Guð ekki átt annað erindi við þá en að ná sér niðri á þeim, veita þeim makleg málagjöld.
En erindi Guðs var allt annað.
Til þín
Þannig er sagan ekki bara um það hvar í samfélagi manna Guð birtist. Hún er líka um það hvar í lífi þínu Guð birtist þér, hvenær þú þarft á Guði að halda.
Hann kemur nefnilega ekki endilega til þín þar sem þú situr í kirkjunni í sparifötunum á jólunum. Hann kemur ekki endilega til þín á mestu gleðistundum í lífi þínu, hann fagnar ekki endilega stærstu sigrunum með þér eða klappar þér á bakið yfir stærstu afrekum þínum. Enda er nóg af öðrum sem eru reiðubúnir til þess.
Kannski gerir hann þetta allt … en ekki endilega.
Guð elskar þig nefnilega ekki mest þegar þú ert vinsælastur, dáðastur og elskaðastur af öðrum. Guð elskar þig þegar þú þarft virkilega á kærleika hans að halda.
Þegar þú ert á botninum, kannski ekki endilega botni samfélagsstigans heldur þínum persónulega botni, hver sem hann er og af hvaða völdum sem hann kann að vera, þá stendur engill Guðs við hliðina á þér.
Og þú átt kannski von á því að hann segi: „Hvað sagði ég ekki? Þarna fékkstu það sem þú átt skilið. Gott á þig!“ Af því að þér finnst það vera það sem þú átt skilið að heyra.
En hann segir það ekki.
Hann segir: „Vertu óhræddur. Þú ert ekki einn. Guð er með þér. Þér er frelsari fæddur.“
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt við jólanáttsöng í Reyðarfjarðarkirkju á aðfangadagskvöld og við hátíðarmessu í Kirkjubæjarkirkju á jóladag.