Náð sé með ykkur og friður frá Guði og Drottni Jesú Kristi og gleðileg jól! Það var farið að dimma þegar við ókum út fyrir bæinn Uppsali í Svíðþjóð fyrir 10 dögum síðan, mánudaginn 15. desember. Við ókum sem leið lá gegnum bæinn Marsta og upp í sveit að gömlum kirkjustað þar sem eitt sinn var heimavistarskóli. Skólinn var aflagður fyrir nokkrum áratugum eins og vel flestir heimavistarskólar á Norðurlöndum. En húsið stendur enn því þrjár konur keyptu skólann og ákváðu að gefa Guði líf sitt í orðsins fyllstu merkingu.
Það var orðið niðamyrkur þegar við renndum upp að húsinu, en það var ljós í öllum gluggum og hlýlegt heim að líta. Þegar við komum að dyrunum og ætluðum að banka, var okkur sagt að hér væru dyrnar alltaf opnar. Þegar í forstofuna kom voru þar ótal skópör í öllum stærðum, snjógallar, húfur og vettlingar og smám saman birtust andlit af stórum og smáum, börnum og fullorðnum, svörtum og hvítum og allt litrófið þar á milli. Skyndilega birtist öldruð kona í gráum búningi, nunnubúningi. Samt var hún ekki katólsk, heldur lútersk eins og við. Hún bauð okkur innilega velkomin og bauð okkur til stofu. Þar hafði verið lagt á borð fyrir okkur og hlýja og kærleikur streymdi um alla stofuna.
Systir Karen sagði okkur frá starfseminni í húsinu. Þær voru þrjár konurnar sem ákváðu að gefa Guði líf sitt, systir Karen, systir Marianne og systir Ella. Þær ákváðu að opna húsið fyrir þeim sem þurftu á því að halda, utangarðsfólki og einstæðingum og þeim sem hvergi áttu höfði sínu að halla.
Árið 1979 var hringt til þeirra og þær beðnar um að taka að sér flóttafólk. Síðan þá hefur Alsiker skólinn verið athvarf fyrir flóttafólk. Frá upphafi hafa þær ekki notið neinna opinberra styrkja, enginn styrkur frá ríki eða sveitafélagi eða kirkjunni. Við lifum á banka Guðs sagði systir Karen og benti okkur á stóra kippu af gosdrykkjum sem verið var að geyma til jólanna. Gosdrykkirnir voru komnir yfir síðasta söludag. Ég spurði hvað þær hefðu pláss fyrir marga. Hún svaraði. Við höfum pláss fyrir 20 manns, en núna eru hér 42! Þegar líða tók á frásögn systur Karenar, fann ég að tár voru farin að renna niður kinnarnar á mér og mér hitnaði allri að innan. Ég fann hreinlega líkamlega fyrir kærleikanum sem ríkti þarna.
Af hverju skyldi ég hefja jólaræðu á þessari frásögn?
Í fyrsta lagi er þetta mér í svo fersku minni af því það er svo stutt síðan. Þetta var í alvöru fyrir 10 dögum síðan. Og í öðru lagi er það vegna þess að um þetta nákvæmlega fjallar kristindómurinn. Um þetta fjalla jólin.
Við höldum jólin hátíðleg af því að Guð gerðist maður. Hann kom til þess að kynnast kjörum okkar. Hann kom ekki bara til að kynnast kjörum okkar sem höfum setið við alsnægtaborð jólanna. Hann kom og hann kemur til allra, ríkra og fátækra. Hann kemur til svartra og hvítra og alls litrófsins. Hann kemur til barna og fullorðinna. Hann kom líka og kemur til að kynnast kjörum flóttafólks. Ástandið í heiminum er víða skelfilegt eins og við þekkjum svo vel af fréttum. Ástandið í Sýrlandi, Palestínu og mörgum ríkjum Afríku og Asíu. Og til Svíðþjóðar koma í viku hverri yfir 2000 manns aðeins frá Sýrlandi, yfir 2000 manns á viku!
Við búum öll á einni jarðarkúlu. Við eigum hana sameiginlega og það voru manneskjur sem fundu upp landamæri. Þau eru ekki náttúruleg, nema kanski hér á Íslandi af því við búum á eyju. Við þurfum að koma annað hvort fljúgandi eða með skipi til og frá landinu, en ég veit að það er fólk hér inni í dag sem hefur búið í löndum þar sem eru landamæri og við vitum hvað þau eru furðulegt fyrirbæri. Ég man þegar ég ók einu sinni frá Þýskalandi með börnin mín í gegnum Holland og til Belgíu. Börnin voru hissa á því að hvergi sást nein náttúruleg breyting.
Við sem búum á þessari jörð erum öll á sama báti. Við erum öll af holdi og blóði. Við eigum okkar sorgir og gleði.
Við eigum öll djúpar tilfinningar, sem geta verið sárar, en líka fylltar svo óumræðilegri gleði.
Það ríkir ekki alls staðar friður á jarðarkúlunni okkar og því er skiljanlegt að fólk vilji flýja ófriðinn. Við eigum að taka þeim sem vilja flýja ófrið opnum örmum. Við eigum að bjóða þeim það sem við höfum upp á að bjóða. Við eigum ekki að senda vegabréfslaust fólk orðalaust í fangelsi. Við eigum að virða það eins og okkur sjálf.
Í Betlehem fæddist barn í fátækt. Þetta barn bjó við ógn og ofsóknir. Það þurfti að leggja á flótta undan ofríki ungt að árum. Jesús þekkir þetta. Hann þekkti það að vera flóttamaður. Hann var ekki með neitt vegabréf.
Jesús sem fæddist í Betlehem kenndi okkur það fallegasta sem við höfum lært á lífsleiðinni. Hann kenndi okkur gullnu regluna: “Allt sem þið viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gjöra”. Hann kenndi okkur tvöfalda kærleiksboðorðið um að elska Guð af öllu hjarta, öllum mætti og allri sálu okkar og náunga okkar eins og okkur sjálf. Og síðast en ekki síst kenndi hann okkur orðin sem standa í 25. kafla Matteusarguðspjalls: Því hungraður var ég og þið gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þið gáfuð mér að drekka, sjúkur var ég og þið vitjuðuð mín og í fangelsi var ég og þið komuð til mín. Allt sem þið gerið einum minna minnstu bræðra og systra það hafið þið gert mér. Þessi orð úr Matteusarguðspjalli eru einkunnar orð systranna í Alsiker. Þær taka á móti Jesú hvern einasta dag. Þær hafa gefið líf sitt í þessa þjónustu. Þegar við vorum að fara spurði ég hver myndi taka við af þeim Þá sagði systir Karen: “Það er nóg af ungu fólki sem vill koma hingað og vinna sjálfboðavinnu um tíma, en það er enginn tilbúinn til að gefa líf sitt.” Svo brosti hún á skilningsríkan hátt.
Kristur kallar okkur öll til að gefa líf okkar til kærleiksþjónustu. Öll getum við lagt okkar að mörkum. Við skulum gera það þessi jól. Við skulum vera verkfæri kærleika Krists og farvegur friðar hans. Og látum einkunnarorðin úr 25. kafla Matteusar verða að einkunnarorðum ársins 2015: Allt sem þið gerið einum minna minnstu bræðra og systra það gerið þið mér. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.