Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. Jóh. 14. 15-21
Í ævisögu séra Jóns Bjarnasonar frá Winnipeg, fyrsta prestsins á Nýja Íslandi, segir frá því hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu að Íslendingar í Kanada þyrftu að stofna eigin kirkju. Hann hafði verið með Norðmönnum, sem vildu gjarna fá hann sem prest hjá sér, en fannst guðfræðilegar áherslur þeirra íhaldsamari en hann hafði kynnst heima á Íslandi. Einnig taldi hann að íslenskir söfnuðir yrðu góður vermireitur fyrir íslenskt þjóðerni. Hann áttaði sig á því að guðrækni landans og þjóðrækni færi saman.
Á erlendri grund finnum við oft best hvað það er að vera Íslendingur. Það er fátt skemmtilegra en að segja áhugasömum útlendingum frá landi og þjóð. Einnig er það sérstök tilfinning að hitta landa sína og ræða landsins gagn og nauðsynjar, og syngja með þeim messu á hátíðarstundum. Íslendingar erlendis hafa því lagt áherslu á að stofna íslenska söfnuði og kalla til sín presta. Guðrækni og þjóðrækni blandast saman.
Kirkjan var stofnuð á hvítasunnu, 50 dögum eftir upprisu Jesú og 10 dögum eftir uppstigningu hans. Þá var heilögum anda úthellt yfir lærisveinana og allir nálægir skildu orð postulanna. „Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala? Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?“ Og þeir sem heyrðu tóku trú.
Lærisveinarnir töluðu til allra þjóða, sem nálægar voru þennan dag. Frá þeim degi hefur það verið hlutverk kirkjunnar að boða stórmerki Guðs þannig að sérhver einstaklingur skilji, og alla tíð hefur það verið markmið kirkjunnar að ná til allra þjóða. Í gegnum aldirnar hefur kirkjan greinst í margar kirkjudeildir, misstórar og margar afar ólíkar. Kirkjan hefur lagað sig að menningu og siðum þjóðanna, því að Guð er faðir allra og Jesús bróðir allra manna. Guðrækni og þjóðrækni fara víða saman. En þó svo alheimskirkjan sé margar kirkjudeildir, hafa þær allar sama mark og mið, að boða trúna á Jesú Krist, skíra og kenna. Því er það vel við hæfi að kalla hvítasunnu þjóðadag.
Saga íslensku þjóðarinnar og kirkjunnar er næstum jafn gömul. Íslendingasögurnar, Biblían, passíusálmarnir og guðsorðabækurnar mótuðu og varðveittu tunguna og hugmyndir kynslóðanna. Eftir siðaskipti voru Íslendingar níunda þjóðin sem eignaðist Biblíuna á eigin tungu. Guðbrandsbiblía er því stórmerkilegt afrek, en um leið vitnisburður um þjóð sem átti lifandi tungumál og ritmál. Nú var hægt að lesa um þau stórmerki Guðs á eigin tungu, sem kirkjan var send til að boða. Boðskapinn um það hvernig Guð hafði sent Jesú Krist, sem sannaði nærveru Guðs með orðum sínum, táknum og undrum, að hann hefði verið deyddur á krossi, en risið upp, og að á hvítasunnu hefði loforð hans ræst, því andi Guðs væri kominn, og honum var úthellt yfir allan heiminn. Kirkjan varð til og dreifðist um allan heim, til Íslands náði hún skömmu eftir að land byggðist.
Og aftur til nútímans. Í kirkjunni okkar, og nú á ég við kirkjuhúsið, er Guðs orð boðað á sunnudögum og stórhátiðum árið um kring. En þar er einnig staður þar sem söfnuðurinn mætir Guði á tímamótum fjölskyldunnar, við skírnir, giftingar og útfarir, og fermingu eins og hér í messunni í dag. Tveir piltar játast því að hafa Jesú Krist fyrir leiðtoga lífsins, og fjölskyldur þeirra taka þátt í þessum hátíðlegu tímamótum.
Kirkjan okkar getur verið nýtt guðshús, en hún getur einnig verið aldargömul sveitakirkja. Hvort sem hún er gömul eða ný, þá er hún miðstöð kristins menningararfs, sem er afar mikilvægt að varðveita og miðla. Hún geymir minningar frá gleðistundum fjölskyldunnar, en sýnir einkum mikilvægi sitt, þegar áföll dynja yfir. Hún hefur hýst bænastundir og minningarathafnir, sem hafa sameinað heil byggðarlög og þjóðina alla í bæn til Guðs um hjálp og huggun. Þjóðkirkjan er og á að vera eins og æðakerfi í líkama, sem flytur fagnaðarerindi Jesú Krists, fyrirgefningu og kærleiksboðskap, til allra hluta líkamans, til innstu dala og ystu nesja. Hún á að hvetja okkur öll til að elska Guð og náungann og kenna hvernig það á að koma fram í verkum okkar.
Ég hef kynnst mörgu góðu fólki um ævina. Mér hefur fundist heillandi að sjá hvernig bakgrunnur og lífsskoðanir hafa mótað einstaklingana. Ég þekki konu, sem var alin upp við það, að á sunnudögum klæddu sig allir upp í sparifötin, svo kom fólk af næstu bæjum rétt fyrir kl. 11. Stólum var raðað upp og svo var hlustað á messuna í eina útvarpstækinu í sveitinni. Allir tóku undir í sálmasöngnum. Foreldrar þessarar konu voru aldir upp við heimilisguðrækni eins og var siður í sveitum á öldum áður, þar sem lesið var upp úr postillum á veturna og passíusálmunum á föstunni. Trú þessarar konu er eins og bjarg. Guð óhagganlegur, traustur og heilagur. Ég hef kynnst manni sem ólst upp við gjöfula en óblíða náttúru, þar sem menn urðu að treysta á sjálfa sig og náungann, til að geta lifað af við bjargsig og útræði. Fyrir þessum manni er Guð forsjónin, sem allt gott lætur í té.
Þetta góða fólk ber með sér lífsskoðun og lífsgildi sín, hvar sem það umgengst aðra. Guðræknin kom í uppeldinu eins og hjá öðrum landsins börnum.
En trúaruppeldi kemur ekki af sjálfu sér. Hefðir eru að breytast. Ég hef áhyggjur af því að of fáir foreldrar koma með börnin sín í sunnudagaskóla. Það þarf að sækjast eftir sambandi við kirkjuna til að fá trúarlegt efni. Tímarnir hafa breyst. Það er mikil samkeppni um tíma barnanna og okkar.
Ég vil hvetja alla uppalendur til að biðja með börnunum sínum. Guð styður ykkur í heilögum anda sínum. Inntak hvítasunnunnar er að Jesús Kristur er kominn til kirkju sinnar á nýjan hátt, ekki í holdi heldur heilögum anda. Á þann hátt getur hann verið innra með hverjum manni og hjá öllum mönnum í senn. Guð í Kristi er ekki bundinn við einn stað, heldur vitjar kirkju sinnar þar sem hann er tilbeðinn og bæn er beðin í hans nafni. Það á við um söfnuðinn og sérhvern einstakling. Jesús sagði lærisveinum sínum, að hvar sem tveir eða þrír væru saman komnir í hans nafni, þar væri hann mitt á meðal.
Þannig er Kristur í anda sínum hjá foreldrunum sem kenna börnunum sínum:
Ó, Jesús bróðir besti og barnavinur mesti, æ breið þú blessun þína á barnæskuna mína.
Eða afinn sem fer með kvöldbæn ásamt barnabarninu og andi Guðs biður með þeim:
Láttu nú ljósið þitt, loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaði Jesú mæti.
Guði sé lof fyrir hve margir Íslendingar kunna bænir og fara daglega með þær. Í hvert sinn, sem við biðjum, þá er Guð nálægur okkur í anda sínum. Hann elskar okkur hvert og eitt, og við erum kirkjan. Við erum kristniboðar, er við kennum litlu barni að biðja:
Nú er ég klæddur og kominn á ról, Kristur Jesús veri mitt skjól. Í guðsóttanum gefðu mér, að ganga í dag svo líki þér.
Sjálfur naut ég þess að fá að læra bænir og vers hjá móður minni. Einnig man ég sérstaklega eftir séra Jóni Thorarensen í Neskirkju, því þar sótti ég barnamessur. Þó ég muni ekki mikið af því sem hann sagði, þá man ég hve líflegur hann var, þar sem gekk upp og niður ganginn milli kirkjubekkjanna og sagði okkur sögur, sem ég held að hann hafi sjálfur samið. Kæru foreldrar, afar og ömmur, farið með börnin og barnabörnin í kirkjuna. Góðu skírnarvottar, það er hlutverk guðforeldra að biðja fyrir börnunum og aðstoða foreldra þeirra við hið kristna uppeldi. Leyfið börnunum að kynnast trúararfinum, sem hefur hjálpað þjóðinni okkar í þúsund ár.
Þau eru mörg versin og bænirnar, sem mikilvægt er að koma áfram til nýrrar kynslóðar. Bænavers sem við lærðum og höfum notað daglega, en ekki síst þegar reynt hefur á. Þegar önnur sund hafa virst lokuð, leituðum við skjóls í bænum sem við beindum til Guðs, bænum, sem aðrir höfðu samið og sett í stuðla.
Það er gott að syngja versin, sérstaklega ef þau eru með fimmundarlagi, stunginn alíslenskur kvinntur.
Gefðu, að móðurmálið mitt, minn Jesús, þess ég beiði, frá allri villu klárt og kvitt, krossins orð þitt út breiði um landið hér, til heiðurs þér, helst mun það blessun valda, meðan þín náð lætur vort láð lýði og byggðum halda. Hallgrímur Pétursson (Ps. 35)
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun, um aldir alda. Amen.
Prédikunin var flutt á hvítasunnudag 27. maí 2007 í árlegri hátíðarmessu Hjallasafnaðar og Digranessafnaðar. Messunni var útvarpað. Sr. Sigfús Kristjánsson þjónaði fyrir altari ásamt sr. Magnúsi Birni Björnssyni.