I „Ég er að leita að ást…” Þannig syngja þeir í hjómsveitinni Hjálmum, við texta Páls Óskars. Ég er að leita að ást.
Ég held að þetta sé veruleiki sem við erum öll að leita að. Það er okkur svo mikilvægt að vita að við erum elskuð, viðurkennd, meðtekin. Það er þess vegna ekkert skrýtið að flestir popptextar fjalli um ástina í einni eða annarri mynd. Við þörfnumst öll ástar og við leitum öll eftir ást.
En vissir þú að uppspretta elskunnar, höfundur sköpunarverksins er að leita að þér. Hann leitar að þér til að veita þér af ást sinni. Guð elskar þig nákvæmlega eins og þú ert. Guð er ekki alltaf glaður með framkomu þína við sjálfan þig eða aðra. Þrátt fyrir það elskar hann þig heitri ást. Hann grætur með þér þar sem þú grætur og hann hlær við þér þegar allt leikur í lyndi.
Guði er ekki sama, hann ber hag þinn fyrir brjósti.
Framkoma Guðs birtist vel í verkum Jesú Krists. Í guðspjallinu heyrðum við af því að Jesús hafi komið í borgina Nain þar sem líkfylgd var á leið með einkason ekkju í kirkjugarðinn. Þetta hefur verið sár sorg ekkjunnar. Hún var að missa þarna eina aðstandanda sinn. En á þessum tíma höfðu konur ekki sama rétt og í dag. Ekkjan gat ekki farið að vinna sér fyrir viðurværi. Hún varð að treysta á að einhver af frændfólki hennar myndi taka hana að sér, annars gæti hún ekki séð sér farborða. Þarna var samankomin sorg yfir því að hún hafði misst eina barnið sitt, sorg yfir fyrri makamissi og að lokum angist yfir því hvernig hún ætti að geta lifað áfram ein án þess að njóta ástar fjölskyldu sinnar.
Inn í þessar aðstæður kom Jesús. Það er sagt að hann hafi kennt í brjósti um hana. Við svo búið stóð hann ekki aðgerðarlaus álengdar. Hann gekk til hennar og bað hana um að hætta að gráta.
Hvernig gat maðurinn sagt þetta þegar hann vissi um harminn. Stundum þegar ég les þessa frásögn finnst mér Jesús fara yfir strikið með því að segja konunni að hætta að gráta í þessum aðstæðum. Þegar hins vegar er horft á framhaldið verður það skiljanlegra. Jesús hafði vald sem við ekki ráðum yfir. Hann hafði vald til að vekja soninn til lífsins aftur. Það gerði hann og færði hann móður hans. Jesús rauf vítahring sorgarinnar. Með verkum sínum vísaði hann til lífsins. Þetta var forspá þess sem koma skyldi, því Jesús gekk sjálfur inn í mestu ógn við manneskjuna.
Hann tók á sig þjáningu og dó.
Það var ástvinum hans og fylgjendum sárt og það hefði verið sorglegur endir á ævi svo óvenjulegs manns. En það var ekki endirinn og það gerir kristna trú að því sem hún er. Sterkasti þáttur kristninnar er vonin um að lífið sigri dauðann. Að við sem játum trú á Krist fáum að rísa upp eins og hann og safnast saman með ástvinum okkar í nýrri bylgjulengd þar sem tímatal okkar gildir ekki lengur. Þar ríkir eilífðin, þar erum við laus frá togstreitu góðra og illra afla sem alltaf eru að takast á í tilverunni. Þar hefur hið góða unnið endanlegan sigur en ekki að hluta eins og nú.
Þar mun fegurðin ríkja ein.
Sæjuð þið fyrir ykkur fréttatíma á slíkum stað? Þar sem ekki væri hægt að elta uppi neikvæðu póstana í samfélaginu.
Þar væri bara hægt að flytja fréttir af því að þar ríki ást, traust og virðing manna á milli. Þar væri allt endanlega mótað af elsku Guðs.
Við erum fjarri þessum veruleika en stundum sjáum við bregða fyrir myndum af elsku Guðs í mannlífinu. Nýlegt dæmi er söfnun Jóhönnu Kristjónsdóttur fyrir börnum og mæðrum í Jemen sem búa við mikla fátækt og ólæsi. Þar birtist kærleikur fyrir náunganum og á hún og skipuleggjendur markaðarins sem söfnuðu yfir 30 milljónum króna miklar þakkir skyldar. Það voru margir sem lögðu því kærleiksverki lið, kannski einhver hér inni. Megi Guð blessa þau öll og blessa afrakstur þess fjármagns til heilla íbúum í Jemen.
Á föstudag var frétt í Fréttablaðinu af ungri konu, Berglindi sem rann til rifja að sjá nágrannakonu sína Margréti svo illa veika af þunglyndi að hún gat ekki sinnt börnunum sínum. Berglind aðstoðaði Margréti til að fá nægilega læknishjálp svo að hún gæti komist aftur til heilsu og sinnt sér og börnum sínum. Hér er sannur náungakærleikur á ferð eins og Jesús mælir með. Við eigum að rétta hvert öðru hjálparhönd, vera stuðningur og létta sorg annarra með því að vera til staðar og taka þátt í vanlíðaninni með því að hlusta. Það eitt og sér getur létt þunga byrði. Margrét sem naut umönnunar nágrannakonu sinnar sagði: „Ég held að það hafi bjargað mér að eiga nágranna sem stóð ekki á sama um mig.“
Við skiptum öll máli fyrir hvert annað. Við eigum að vera náunga okkar innan handar. Við megum taka þessar konur okkur til fyrirmyndar. Þökkum fyrir góð verk þeirra.
Þökkum líka fyrir fjölskyldu okkar og hverja stund sem við eigum með henni. Spyrjum okkur hvort við getum verið einhverjum stuðningur í fjölskyldunni. Það sem við getum lagt fram getur oft verið meiri stuðningur en við höldum. Hvað er fallegra en að rétta öðrum hjálparhönd þegar þörf er á. Það er birtingarmynd á ást.
KK syngur -Það eina sem þú þarft er ást.
Lífið er ekki flóknara en það en það getur oft reynst okkur erfitt að sýna kærleika. Uppspretta kærleikans er Guð og við þurfum að snúa okkur til hans og biðja hann að fylla okkur af sinni ást, þá verður auðvelt að fleyta henni áfram til annarra. Pistill dagsins orðar þetta svo:
„Ef Kristur býr í hjörtum ykkar eruð þið rótfest og grunvölluð í kærleika.“ Ef.3.17
Oft er notað myndmál í Biblíunni til að lýsa ýmsu. Mönnum er þar líkt við leirker og talað um að þekkingin og ljósið frá Guði sé eins og fjársjóður í þessu keri.
Ef að vökvi streymir úr hreinu lindarvatni í slíkt ker er það fullt af fersku lindarvatni. Ef vatnið er látið standa í kerinu án þess að ausið sé af því þá fúlnar vatni, það verður það ódrykkjarhæft, en ef það streymir stöðugt í lindina og rennur úr henni þegar vatnið er komið upp á barma, þá heldur vatnið áfram að vera ferskt. Þannig eigum við að biðja Guð að gefa okkur kærleika og síðan eigum við að leyfa þeim kærleika að streyma áfram til annarra.
Og postulinn styður okkur þar sem segir:
„En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð…“ Ef.3.20
Gömul kínversk kona átti tvo leirpotta sem hún hengdi á sitthvorn endann á langri stöng sem hún bar á öxlum sér. Á hverjum degi sótti hún vatn langa leið í uppsprettu fjarri heimilinu. Annar potturinn var sprunginn eftir endilöngu og var því aðeins hálffullur þegar heim kom. Hinn potturinn var fullkominn og skilaði sér alltaf fullur af vatni eftir þessa löngu leið heim að húsinu. Svona gekk þetta í tvö ár, daglega gekk gamla konan með pottana að uppsprettunni og daglega kom hún heim með aðeins einn og hálfan pott af vatni.
Auðvitað var fullkomni potturinn ánægður með sína frammistöðu en sprungni potturinn skammaðist sín og leið mjög illa þar sem frammistaða hans var aðeins til hálfs við það sem hann var skapaður til að gera. Eftir tveggja ára vinnu talaði hann til konunnar við uppsprettuna. „Ég skammast mín fyrir frammistöðu mína, vegna sprungunnar á hlið minni lekur helmingurinn af vatninu burt á leiðinni heim. Þú ættir að henda mér og fá þér nýjan pott.“
Gamla konan brosti, „Hefur þú tekið eftir að þín hlið við götuna er blómum skreytt á meðan engin blóm vaxa hinum megin götunnar?
Það er vegna þess að ég hef alltaf vitað af þessum galla þínum og þess vegna sáði ég fræum á þinni hlið götunnar og á hverjum degi þegar við göngum heim vökvar þú blómin mín. Ég hef um árabil getað týnt þessi fallegu blóm og skreytt heimili mitt með þeim. Af því að þú ert eins og þú ert þá hef ég fengið að njóta fegurðar blómanna.“
Það er eins með okkur manneskjurnar, enginn er gallalaus. En það eru gallarnir og sprungurnar sem gera hvern og einn einstakan. Þess vegna er svo spennandi að kynnast og eyða ævinni saman. Við þurfum bara að læra að taka hverri manneskju eins og hún er og sjá jákvæðu hliðarnar hjá hvort öðru en ekki síst hjá okkur sjálfum. Við þurfum að leyfa umhverfinu að njóta hæfileikanna sem Guð hefur gefið okkur. Við þurfum að leyfa ást hans að flæða um okkur og út til náungans.