Í dag lýkur Ólympíuleikunum, þessum stóra og mikilfenglega viðburði, með þátttöku fólks hvaðanæva að úr heiminum. Í rúmar tvær vikur hafa augu og athygli heimsins beinst að Ólympíuleikunum og keppendunum sem þangað hafa komið til að gera sitt besta. Frá borginni stóru berast myndir og fréttir af afrekum í íþróttagreinum sem sumar hverjar eru framandi og furðulegar - en áhugi okkar vaknar ekki síst á mannlegu hliðinni, á einstaklingum sem hafa lagt mikið á sig í langan tíma til að vera með. Þar eru heillandi og hvetjandi sögur - eins og af írska stráknum í gólfleikfiminni sem þurfti að berjast við veikindi og lömun á unglingsárum en vann sig upp í heimsklassa í fimleikum. Eins fyllist ég aðdáun að fylgjast með hlauparanum frá Suður-Afríku, sem hleypur á gervifótum og keppir meðal þeirra allra bestu. Konur sem keppa fyrir hönd ríkja sem aðstæður til íþróttaiðkana og menntunar stúlkna og kvenna eru settar þröngar skorður vekja líka aðdáun og minna á hvað mikið skortir upp á að mannréttindi allra séu virt.
Það þarf hugrekki til að brjótast út úr stöðluðum væntingum og erfiðum aðstæðum, eins og Oscar frá Suður-Afríku og Tahmina frá Afganistan sýna okkur með veru sinni og frammistöðu á Ólympíuleikunum í borginni stóru. Vitanlega geyma borgir sögur af áföllum og sigrum, þótt ekki gerist þær á vettvangi Ólympíuleikanna. Borgarmyndin sem blasir við okkur héðan af Kjalarnesinu er engu lík þegar Reykjavík er annars vegar. Í gær fór fram gleðiganga samkynhneigðra, sem er fyrir löngu orðinn að stóratburði á vettvangi borgarinnar og tákn fyrir samstöðu og fjölbreytileika mannlífsins. Sögurnar sem eru sagðar í kringum gleðigönguna varpa oft ljósi á mikið hugrekki sem hommar, lesbíur og transfólk hefur búið yfir. Sérstaklega koma í hugann vitnisburðar eldra fólks sem barðist við að vera samkynhneigt í umhverfi sem vissi ekki alveg hvernig bregðast skyldi við. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og það er gaman að geta tekið undir með skólakonunni Margréti Pálu Ólafsdóttur sem skrifaði í gær á facebook síðuna sína:
"Svo er ég innilega glöð og þakklát þjóð minni fyrir að ganga öllum þjóðum framar í stuðningi og samstöðu með mannréttindum okkar. Fyrir að skilja kröfu okkar um tilfinningafrelsi og standa þétt saman um rétt lesbía og homma til hamingju rétt eins og allir aðrir. Fyrir að hafa endurheimt fæðingarrétt minn sem þegn í mannlegu samfélagi eftir að hafa glatað houm um árabil; þegar réttindin voru engin, þegar lesbíur og hommar urðu að afsala sér réttinum til barna, þegar ég og konan mín vorum reknar úr leiguhúsnæðum, þegar dónasímtöl á nóttunni og aðkast á götum úti voru partur af daglegri tilveru, þegar atvinna okkar var í húfi og útskúfun þjóðkirkunnar var viðurkennd eins og ekkert væri. Þegar erfðaréttur okkar var enginn, sambúðarlöggjöf engin ... "
Það er ástæða til að gleðjast yfir því að jöfnuður og jafnrétti náist með eins afgerandi hætti og við höfum séð þar sem samkynhneigðir og transfólk eru annars vegar. Það er líka ástæða til að muna eftir öllunum tárunum sem féllu og sársaukanum sem ríkti fyrr á tímum - og hafa í huga að enn eru meðbræður og -systur í kreppandi og niðurbrjótandi aðstæðum þar sem mannvirðing er fótum troðin og fegurð og gæska lýtur í lægra haldi fyrir ásælni og skeytingarleysi.
Myndin af því þegar Jesús grætur yfir Jerúsalem kemur til okkar í dag eins og áminning um þjáninguna og sorgina sem er fylgifiskur lífsins og leggur stundum tilveruna undir sig. Jesús grætur vegna þess að hann finnur til, hann finnur til með þeim sem hann elskar. Þegar Jesús grætur yfir Jerúsalem, sjáum við Guð, sem finnur til með sköpun sinni, finnur til með viðfangi ástar sinnar.
Grátur er líkamlegt viðbragð, tjáning og losun. Stundum getum við ekki gert neitt nema grátið, frammi fyrir aðstæðum sem eru yfirþyrmandi. Stundum eru það fréttir eða vitneskja um það sem er óorðið sem kallar fram slíkan kvíða og ótta að grátur er eina svarið sem við finnum í okkur. Stundum eru samskipti við aðra, í nánum samböndum eða við ókunnuga, svo aðgangshörð og ranglát það eina sem við getum gert er að gráta. Við grátum af því við erum lifandi og við finnum til og við getum ekkert annað. Gráturinn er ekki aðgerð sem breytir stöðunni eða kemur hlutum til leiðar. Grátur Jesú sýnir tilfinningar hans og hæfileika að geta fundið til. Guðspjallið heldur síðan áfram með því að Jesús fer inn í helgidóminn og rekur út þá sem iðkuðu kaupmennsku, með þessum frægu orðum: "Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli."
Um helgina fór fjölskyldan í bíó saman og sá sögu um hugrakka stúlku sem þótti skemmtilegra að leika sér með bogann sinn og vera á hestbaki en að sinna því sem ætlast var til af ungum prinsessum. Boðskapur myndarinnar Brave er í samhljómi við margar af sögum helgarinnar, um átökin sem verða þegar einhver vill ekki og getur ekki hagað sér í samræmi við væntingar og kröfur umhverfisins, og afleiðingarnar sem geta hlotist af því. Prófið sem unga stúlkan í myndinni Brave stendur frammi fyrir er að ganga í sjálfa sig og bæta það sem fór úrskeiðis í bráðræði og tillitsleysi. Þannig vinnur hún sigur og verður sú hugrakka.
Önnur kvikmynd sem frumsýnd var í vikunni var líka um hugrakka konu. Heimildarmyndin fjallar um Hrafnhildi sem fór í kynleiðréttingu. „Kynleiðrétting er ekki val, hún er nauðsyn,“ segir Hrafnhildur sem eftir 26 ára þögn tilkynnti fjölskyldu sinni og vinum að hún væri ekki strákur – heldur stelpa. Hún hafði þá lengi reynt að bæla niður tilfinningar sínar og lifa sem strákurinn Halldór Hrafn. Hlutverkaleikurinn var henni óbærilegur og að lokum varð henni ljóst að valkostirnir væru aðeins tveir – að svipta sig lífi eða rjúfa þögnina.
Saga Hrafnhildar er ein sagan sem borgin geymir um hugrekki. Hugrekki sem gefur kraft til að gráta en líka til að breyta gráti í aðgerðir sem bæta og breyta. Eftir að Jesús grætur yfir Jerúsalem hrindir hann aðgerð í gang sem var nauðsynleg. Hann vildi hreinsa helgidóminn og reisa hann til þeirrar virðingar sem honum sæmdi. Það kallaði á sterk viðbrögð þeirra sem valdið höfðu - fyrirmenna þjóðarinnar - og þeir vildu ráða hann af dögum. Hugrekki Jesú var að vera daglega í helgidóminum þrátt fyrir þetta. Og fólkið vildi ákaft hlusta á hann.
Við heillumst af hugrekki. Þess vegna vekja sögurnar af Hrafnhildi, Meridu prinsessu, Óskari spretthlaupara og íþróttakonunni Tahminu áhuga okkar og aðdáun. Þess vegna höldum við áfram að hlusta á Jesú, sem nærir og styrkir trúna á að lífið færi okkur það sem við þráum. Það er boðskapurinn um ást Guðs sem frelsar, leysir og réttir við. Það er boðskapurinn sem gefur okkur kraft til að breyta og kraft til að lifa.