Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti. En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við. Lúk. 22. 24-32
Kæri söfnuður það kemur fyrir þegar prestur hefur upp sína predikun að honum þyki söfnuðurinn dálítið ósýnilegur. En að hann sé alveg ósýnilegur er þeim sem þetta talar ný reynsla.
Kannski verður þetta þá heldur engin predikun, heldur bara svona eintal sálarinnar, því að venjuleg predikun sem rís undir nafni er sett saman úr þrennu: Það er Orð Guðs, vitnisburður predikarans og heimfærslan til safnaðarins.
Hið fyrsta liggur ljóst fyrir, lið tvö er hægt að bjarga, en hið þriðja sem er ævinlega dálítið snúið er það ekki síst núna. En um leið er þetta spennandi viðfangsefni, og þökk sé þeim sem bjuggu til þetta tækifæri, eða öllu heldur þennan óvenjulega predikunarstól.
Guðspjallið á þessum fyrsta sunnudegi í föstu hefur verið lesið. Þessum degi tilheyrir líka freistingarsagan svokallaða, þegar Jesú er freistað af djöflinum eftir skírnina. Við skulum líka hafa það guðspjall í huga í dag, vegna þess að yfirskrift dagsins er freistingin.
Þér sem hafið verið með mér í freistingum mínum segir Jesús við lærisveinanna. Það er baráttan við freistinguna sem er tema guðspjallsins.
Þeir, það er að segja postularnir, fóru að metast um hver væri mestur. Það er nauðsynlegt að hafa í huga að þessi sena sem sýnd er í lestri Lúkasartextans sem við heyrðum, er í beinu framhaldi af frásögninni af síðustu kvöldmáltíðinni. Samkvæmt Lúkasi ganga lærisveinarnir ekki í djúpri lotningu eða lágværum söng frá máltíðinni út í garðinn heldur byrja strax að metast um það hver sé mestur.
Jesús svarar með því að vísa í muninn á þeim sem drottna yfir þjóðum og láta kenna á valdi sínu og þeirri leiðsögn sem hann býður: hinni þjónandi elsku.
Aðrir lestrar þessa dags, lexían sem segir frá baráttu Kains við sjálfan sig og syndina, sem leiðir hann til ódæðisverks, og pistillinn úr Jakobsbréfi sem segir frá baráttunni við freistinguna, og hversu sælt það er að sigra hana kallast á við efnið í frásögn Lúkasar. Markmiðið með því að setja þessa ritningartexta til umhugsunar á fyrsta sunnudegi í föstu er að vekja athygli okkar á því hvernig raunveruleg fasta sigrar raunverulegar freistingar.
Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: Guð freistar mín. (Jak.1.12)
Þessi pistill úr Jakobsbréfi er okkur til aðstoðar til þess að við skiljum betur hvað átt er við þegar talað er um freistingu.
Freisting er ill löngun fædd af girnd og hroka sem hvetur til illra verka.
Á bak við freistinguna er vilji freistarans til að spilla sambandi mannsins við Guð og spilla manninum. Freistingin er alltaf fyrst og fremst tilraun til að trufla samband manns og Guðs, og meira en það, að taka upp sið eða framkvæma gjörning sem stríðir gegn vilja Guðs og áætlun hans um samskipti barna hans innbyrðis, eða er beinlínis andstyggð í augum hans.
Það sem er andstyggð eru fyrst og fremst verk sem eru í eðli sínu afbrot gegn hinu heilaga. Það eru afbrot gegn lífinu, gegn mannhelgi og mannvirðingu, gegn sakleysinu, gegn trúnaðinum, gegn ástinni.
Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi upptalning Og Guð freistar okkar ekki.
En þetta er nú samt dálítið snúið. Guð reynir okkur. Alveg í ákveðnum tilgangi reynir hann okkur. Og það er nauðsynlegt og heilsusamlegt.
Vöðvi sem aldrei fær að reyna á sig verður slappur og gagnslaus og daginn sem á reynir fyrir alvöru, hlýtur hann að bregðast. Það er ekki hluti af áætlun Guðs um okkur að við bregðumst þegar á reynir. Guð reynir okkur. En Guð freistar ekki. Og alls ekki til ills, vegna þess að hann hefur góð áform fyrir manninn. Að gera Guð ábyrgan fyrir eigin ósigrum er hættuleg sjálfsblekking. En hún er mjög upprunaleg.
Freisting er möguleiki sem snýr að þeim sem veit að hann er fyrir augliti Guðs og ber ábyrgð gagnvart honum og að sú ábyrgð snýr að öðrum mönnum og að honum sjálfum
Freistingin leitar að manninum, mér og þér, hún birtist í verknaði og ber ávöx t í afleiðingunum. Freistingin felst því ekki síst í því að maðurinn hafni afleiðingunum, eða telji sig ekki bera ábyrgð á þeim.
Á máli Biblíunnar er þetta sá Adam sem felur sig bak við runna eða tré þegar Guð vitjar hans. Það er sá Adam sem reynir að kenna öðrum um.
Syndafallið?
Þetta er allt Guði sjálfum að kenna. Það er allavega mat Adams í feluleiknum. Við sjáum hann fyrir okkur benda gremjulega í átt til skapara síns og segja: Konan sem þú .... gafst mér, - tældi mig svo ég át! Með öðrum orðum: Þú lést mig gera þetta. Ég er saklaus.
Skyldum við hafa heyrt þetta áður?
Jesú var freistað á alla lund til þess að við megum hafa styrk af honum þegar við öxlum ábyrgð í eigin lífi, og kennum ekki bara öðrum um..
Við sem sækjum kirkju í Hallgrímskirkju horfumst oft í augu við túlkun listakonunnar Karólínu Lárusdóttur á guðspjalli freistingarsögunnar. Þarna er Jesús, hvítklæddur og langstígur og freistarinn á bak við hann. Svartur. Örlítið hávaxnari, örlítið líklegur til að lúta lengra og framar og ákafar en Jesús. Skuggi. Hans?
Kom freistarinn til Jesú með jafn sýnilegum hætti og Karólína kýs að mála, eða átti hann bara rödd og vilja sem þrýsti á og talaði til hans? Við vitum ekkert um það.
Hann var einn í baráttunni og frásagan er bundin því litla sem hann kaus að segja lærisveinunum um dvöl sína í eyðimörkinni. Hver gæti svo sem sett sér fyrir sjónir hvað það er sem freistað getur sonar Guðs.
En rökhugsunin segir: Ef Kristur er kominn til að eyðileggja verk hins illa eins og segir í fyrsta Jóhannesarbréfi, verður hann fyrst að glíma við djöfullega eða demoniska möguleika sem hann kann að geyma í sjálfum sér. Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins. 1.Jh.3.8.
Birtist freistarinn? Og ef hann birtist, hvaðan kom hann? Er hann hluti af Guðs góðu sköpun? Er einhver sköpun utan Guðs? Þetta er eitt af því sem við verðum að glíma við, í okkar eigin trúarglímu.
Við vitum ekki hvort freistarinn birtist í raun og veru eða var innri rödd sem sagði : Þú gætir nú kannski.... ... Hvaða ráðleggingar eru það sem koma til hans? Hvaðan koma þær? Eru freistingar Jesú Krists eitthvað líkar okkar eigin?
Maður – verknaður – afleiðing. Maðurinn getur einungis freistast þegar þeir möguleikar sem í honum sjálfum blunda verða honum hættulegir. ...... Hvað er það sem gerir freistingu að að freistingu?
Einhver magnaðasta uppfinning freistarans er kenningin um að hann sé ekki til. Sú næst magnaðasta er að gera freistingar að einhverju sem ekkert eða lítið á skylt við raunverulegar freistingar, nánast eins og þetta væri saklaus orðaleikur. Það er til dæmis gert með því að leggja að jöfnu spurninguna um það hvort maður á að borða aðra rjómabollu til ef maður er feitur eða sofa hjá konunni í næsta húsi ef maður er giftur.
Hvernig gerir freistingin vart við sig? Kemur freistarinn í ljós eins og myndin hennar Karolínu sýnir? Það getur vel verið. En það þarf ekki að vera þannig.
Freistarinn sest ekki með sýnilegum hætti við hlið ökumanna. Það ætlar heldur enginn að valda slysi. Það eitt að valda slysi, er slys, hver svo sem afleiðingin er. Röddin sem segir: aktu hraðar, hraðar, hraðar, er innra með ökumanninum: Þú reddar þessu, kauptu þér bara radarvara svo að þú fáir ekki sekt. Er hált? Ertu ekki á góðum dekkjum? Ertu ekki negldur? Ert´ ekki vanur?Ert ekki klár?
Að langa til að verða ríkur, er ekki freisting. Það eru aðferðirnar til að ná því marki sem geta geymt í sér freistingu sem leiðir til óhæfuverka.
Freistingu má mæta með föstu. Fasta er innri hreinsun, og undirbúningur fyrir sérstakt stefnumót við Guð, þessvegna heyra fastan og bænin saman.
Fasta snýst ekki um rjómabollur eða dýrar steikur. Fasta snýst um að hafa góða gát á öllu því sem við látum inn fyrir varirnar, gát á innihaldi, magni og gæðum og þýðingu og þörf. En hún snýst jafnmikið um það sem fer inn um önnur skilningarvit. Á hvað ertu að hlusta, á hvað ertu að horfa, hverju andarðu að þér
Þú ert að búa út þína eigin sálaríbúð. Og það er koma gestur.
Kannski hefur manneskjan aldrei staðið frammi fyrir öðrum eins freistingum og þeim sem nú eru í boði. Til dæmis þeim sem gena-tæknin býr yfir. Get ég búið til líf að eigin geðþótta og eytt því að vild?
Stærsta freistingin er að setja sig í sæti Guðs. Það þýðir m.a að tapa virðingunni fyrir lífinu og virðingunni fyrir hinu heilaga.
Lífið er heilagt vegna þess að hann sem gefur lífið er hinn heilagi Guð. Og ef hann er týndur?
Freistingin er einungis rauveruleg þegar hún höfðar til okkar eigin möguleika. Freistingin byggir alltaf á því sem okkur er mögulegt hverju sinni. Lífið mætir freistingunni. Það kallar á : Ábyrgð gagnvart sjálfum sér, ábyrgð gagnvart öðrum, ábyrgð gagnvart Guði.
Freistingin segir: Er ég ekki frjáls maður? Frjáls að haga lífi mínu og bera ábyrgð á því? Allt þetta tal um freistingu gerir ráð fyrir því að ég þurfi að sýna ábyrgð í lífi mínu.
Kæri söfnuður, það er einmitt hér sem við hverfum til baka til guðspjallsfrásagnar Lúkasar . Boðskapur Jesús Krists þar er einfaldur og auðskilinn. Þjónusta elskunnar tekur alltaf mið af þörfum annarra en gleymir sér ekki yfir eigin þörfum. Ábyrgðin gagnvart lífinu í öllum myndum þess er einkenni slíkrar lífsafstöðu. Og ábyrgðin gagnvart lífinu er vörn í freistingunni og sannarleg fasta!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Heilagi Guð. Sýndu okkur veg þinn að við megum ganga hann, ábyrg gagnvart lífinu, ábyrg gagnvart þér, í eftirfylgd Jesú Krists, að við megum standast freistingarnar og öðlast kórónu lífsins. Í Jesú nafni. Amen.