Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Heilagi Guð og faðir, helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen.
Kæri söfnuður. Hér er hús Guðs. Hér er hlið himinsins. (1.Mós.28.17b) Hér er kristinn tilbeiðslustaður. Um leið er þetta hús allra þeirra sem inn koma, hverrar trúar sem þeir eru og hver svo sem ástæða inngöngunnar er. Þetta er opið hús og eins sjaldan lokað og mögulegt er. Hér kemur fólk sem hefur áhuga á byggingalist, á tónlist, á myndlist, á sögu, á því að eiga stefnumót trúarinnar á helgum stað, eða alveg engan áhuga á nokkru nema kannski eigin spegilmynd. En á móti þeim öllum sem inn ganga kemur Kristur. Gangandi út úr náttúrulegum litum Biskupstungnanna og um leið allra staða íslenskrar náttúru. Austurveggur kirkjunnar rofnar í þessari mynd eins og gröfin opnaðist á páskamorgni. Jesús stígur fram.
Skáldið og presturinn Hjörtur Pálsson tjáir þessa sýn í ljóði sínu er hann segir:
Kaldan steinvegg hefur þú rofið, hljóðlaust með útbreiddan faðminn stígur fram úr þokunni, stígur út úr skýinu sveipaður litum sakleysis, birtu og vonar.Frá svo óvæntum atburði flýjum vér úr húsi þínu slegin ótta
og sjáum af hlaðinu í hnígandi kvöldsól sáttmála þinn og leyndardóm
fjall eins og brauðhleif vatn rautt eins og blóð.
Í guðspjallinu talar Jesús og segir: Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. (Matt 5.43-48)
Kæri söfnuður. Þessi sunnudagur er í þjóðkirkjunni sérstaklega helgaður þjónustunni við náungann, kærleiksþjónustunni, líknarþjónustunni, díakoníunni. Og í guðspjallinu er sagt við okkur, rétt eins og ekkert væri sjálfsagðara: Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. (Matt.5.48)
Maðurinn er skapaður í mynd Guðs og hann er fullkominn þegar hann endurspeglar himneskan veruleika Guðs. Fullkomleiki Guðs er sýnilegur í ómælisdýpi miskunnar hans, sem hann gefur öllum mönnum af, jafnt þeim sem stríða á móti honum og þeim sem ganga erinda hans. Rétt eins og allir, góðir og vondir, njóta yls frá sömu sólu og hressast við sama regnskúr.
Við erum ekki bundin af lögmáli endurgjaldsins: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn, heldur megum við starfa eftir lögmáli kærleikans: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Það er leið þeirrar fullkomnunar, sem ber mynd Krists frammi fyrir heiminum. Fullkomleiki Guðs barna er ekki ávöxtur af breytni þeirra og gjörðum, heldur náðargjöf Guðs sem gerir þau sem hungrar eftir réttlætinu södd, með því að ummynda þau til sinnar eigin myndar.
Um mynd Guðs höfum við líka lært í dæmisögunni um miskunnsama samverjann, þar sem Jesús birtist okkur í senn sem sá sem liggur barinn við vegin, og sá sem lýtur niður að honum í miskunn. Vínviðargreinar vér erum börn þín, Drottinn, vaxin af sama stofni. (Sb.713)
Fáar myndir birta jafn skýrt sambandið milli Jesú Krists og játenda hans og líkingin um vínviðinn og greinarnar. (Jóh.15.5) Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert.
Samfélagið við Jesú Krist er samfélag við veru hans, persónu hans, guðdóm hans, í heilögum anda. Því samfélagi er líkt við samband vínviðarins og greinanna, og þar með þrúgnanna. Þrúgurnar velja sér ekki grein til að hanga á, þær verða til á greininni. Þið hafið ekki útvalið mig, ég hef útvalið ykkur, segir Drottinn. Til þess að bera ávöxt. (Jóh.15.16)
Og aðferð hans sem velur okkur er ekki eins og þess sem segir fyrir verkum, eða skipar fyrir, þess sem í umboði valds stjórnar í undirmönnum sínum eða starfsfólki, sem er yfirborðssamband, heldur er það hið djúpa samband vináttunnar. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. (Jóh. 15.15.) Við erum með honum í verki. Samábyrg. Og þessi samábyrgð kemur fram í kærleikanum okkar í milli og milli okkar og hans. Við erum ekki send út með þungar byrðar af áhyggjum um það hvernig við ættum að uppfylla óskir Guðs um það hvernig við erum og hvað við erum og hvernig við getum sýnt honum ávexti þess að hann hefur kallað okkur. Og, við erum alls ekki kölluð til að vera eins og litlu börnin sem hafa lært að standa á öðrum fæti og kalla: sjáðu hvað ég get!
Það sem okkur er falið er að elska hvert annað og hvíla í elsku Guðs í Jesú Kristi. Þá verða ávextirnir til og Guð les sjálfur þrúgurnar af greinunum, því hann er sá eini sem örugglega þekkir þær og kann að nýta þær.
Það fólk sem er í verki með honum er þekkt af því að Guðs elska streymir óhindruð frá þeim út til allra. Eins og spegill sem varpar ljósinu frá sér á nýjan stað. Vinir Jesú Krists eru speglar Guðs ástar og sjálfir ljós í myrkri.
Postulinn Páll ritar í öðru Korintubréfi: (2.Kor. 9. 10-15) Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar.Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur.Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði.Þegar menn sjá hvers eðlis þessi þjónusta er munu þeir lofa Guð fyrir að þið farið eftir fagnaðarerindi Krists sem þið játið og gefið með ykkur af örlæti bæði þeim og öllum. Og þeir munu biðja fyrir ykkur og þrá ykkur vegna þess að þeir sjá hve ríkulega Guð hefur veitt ykkur náð sína. Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!
Postulinn biður söfnuðinn í Korintu um þjónustu, sem er samskot handa söfnuði sem af einhverjum ástæðum hafði lent í hremmingum. Þessar gjafir sem hér er rætt um eru frummynd hjálparstarfs safnaðanna og fyrirmynd okkar. Samfélag kirkjunnar er heima í héraði og á sama tíma í fjarlægum söfnuðum og fjarlægum löndum. Sýnileiki kirkjunnar kemur fram í samhjálp í öllum greinum. Ekki aðeins í hinu ytra heldur og í hinu innra. Ekki aðeins í fjárhag heldur einnig í líkamlegri og andlegri velferð. Í þessari hjálp sér postulinn ekki aðeins ávöxt hins andlega lífs, heldur lýsir henni sem sáðkorni sem dreift er um akrana og upp af því sáðkorni mun upp spretta ný blessun.
Sjá, eins og kornið, vaxið um víða akra, verður að einu brauði, safnar þú saman, Kristur, til starfa kirkjunni þinni. Lof sé þér, Drottinn.
Því meir sem maðurinn finnur ástæðu til að lofa Guð fyrir gjafir hans til líkama og sálar, því auðugar flæðir lífið fram sem vitnisburður um það hvernig aurarnir sem við leggjum fram sem gjöf, geta orðið verkfæri kærleikans og kallað fram djúpa gleði og þakklæti til Guðs.
Kæri söfnuður. Það væri auðvitað ósköp notalegt á þessum fallega og hátíðlega degi að geta látið sér nægja að horfa bara á sólargeislana og gleðjast yfir þeim og fagna yfir þessari hátíðarguðsþjónustu í Skálholtsdómkirkju. En þetta er nú einu sinni dagur díakoníunnar og hlutverk hennar er alltaf að minna á þá guðsþjónustu sem fer fram við veginn, eins og guðspjallið um miskunnsama samverjann er besta dæmið um. Við heyrðum í lexíunni úr Jesajabókinni:
(Ef þú) réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á, þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
Við lifum í heimi sem í senn er fullur af mat og af hungri. Við glímum sannarlega við vanda hér heima fyrir sem við getum leyst í sameiningu. En við þurfum líka að horfa lengra. Veröldin er orðin að litlu heimsþorpi og samábyrgð okkar rúmar það allt. Á fimm sekúndna fresti deyr barn sem er yngra en tíu ára úr hungri. Dag hvern deyja 37 þúsund manns úr hungri og næstum því einn miljarður þjáist af vannæringu samkvæmt upplýsingum FAO. En sama skýrsla segir að landbúnaðarframleiðsla heimsins gæti dugað til að næra helmingi fleiri en þau öll sem búa á jörðinni.
Það eru ekki möguleikarnir til að hjálpa sem skortir. Það er viljinn. Og það er þessi vilji sem við þurfum að glæða og lúta. Hjálparviljinn. Jesús segir : Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. (Jóh.14.26)
* * *
Þegar Páll postuli kvaddi fólkið í Efesus og hélt til Rómar, sagði hann: Hafið gát á sjálfum ykkur og allri hjörðinni sem heilagur andi fól ykkur til umsjónar. Verið hirðar kirkju Guðs sem hann hefur aflað sér með sínu eigin blóði. Í þessum orðum Páls er samhljómur við samtal Drottins við Pétur í síðasta kafla Jóhannesarguðspjalls. Hirðishlutverkið sem Drottinn felur Pétri og þar með kirkju sinni byggir á auðmýkt þess manns sem þekkir veikleika sína og í ljósi þess að hafa sjálfur afneitað meistara sínum á ögurstundu, þorir ekki einu sinni að svara spurningu Drottins : Elskar þú mig, nema með því að vísa henni til baka: Þú veist það! Rétt eins og þegar við segjum með Sálminum : Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. (DS 139)
Að vera falið aukið hirðisstarf í kirkjunni beinir athyglinni þangað á degi sem þessum. En fyrst og fremst beinir það athyglinni að kirkjunni sjálfri og öllum hirðum hennar, vígðum þjónum og óvígðum, að háreistum helgidómum og hljómmiklum söngvum, og að hjali barns við móður eða föður, við bænarorð og vers og lágan söng. Allt sem við eigum höfum við þegið, og megum enn þiggja í leyndardómi Guðs náðar í Jesú Kristi sem við nú göngum til við altari hans.
Og vér sem þig svikum í lofsöng og fögnuði færumst frá dauða til lífs er vér þiggjum og neytum og nærumst.
Við sem erum kölluð og blessuð og send.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.