Vaxandi meðvitund um að við skiptum máli

Vaxandi meðvitund um að við skiptum máli

Það sem við höfum í höndunum er heillandi, óreiðukennt, óútreiknanlegt, stundum ómælanlega fagurt, stundum hryllilega viðbjóðslegt safn af sögum, ljóðum, bréfum, köflum og guðspjöllum sem endurspegla vaxandi meðvitund um að við skiptum máli, að allt er tengt og að mannleg saga er á leið í tiltekna átt.

Rósamessa í Bústaðakirkju á Konudaginn


Jes. 55:6-11

2. Tím.3:14-17

Lk. 8:4-15

 

Biðjum:

Ó, birt mér þá bæn sem að beðið ég get

svo berist mitt lof að Guði.

Og kenn mér þá ósk sem æskja ég skal

svo verði´ allt mitt líf í Guði

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Kæru öllsömul, til hamingju með Konudaginn.

Rósin

Rósamessa í Bústaðakirkju í dag. Í dag ætlum við að segja það með blómum, eins og stundum er sagt og afhenda öllum konum sem viðstaddar eru guðsþjónustuna í dag, rósir að messu lokinni.

Rósin hefur margvíslega skýrskotun. Í nútímanum er hún gjarnan tákn ástar og umhyggju, og það er sú merking sem við hér í dag viljum miðla með henni.

En rósin er ævafórnt tákn.

María mey var kölluð rós án þyrna, þar sem hún var sögð án syndar. Rósavendir eða kransar geta verið tákn himneskrar sælu. Rósin er líka tákn Krists. Við krossinn var þyrnikóróna sett á höfuð hans. Rós getur líka táknað trúnað og þagmælsku, og er því gjarnan notuð sem skraut á skriftarstólum, til dæmis í kirkjunni út í Viðey, ef ég man rétt, sem er einn af mjög fáum skriftarstólum í lútherskri kirkju á Íslandi, í dag.

Táknin

Táknmál trúarinnar eru gjarnan fullt af leyndardómum og dulmáli. Sum tákn eru augljós og skýr, meðan önnur eru djúp og kannski margræð.

Tákn mæta okkur hvar sem er. Þau blasa við augum og kalla eftir athygli okkar, bera boðskap, leiðbeina, áminna og upplýsa.

Ein mynd, eitt tákn ber boð og segir meira en mörg orð.

Tákn er þýðing á orðinu Symbolon, sem er út grísku. Það merkir upphaflega hlut, hring eða leirplötu, sem var brotinn í sundur til staðfestingar á samningi, bandalagi eða sáttmála. Aðilar geymdu svo hvor sinn helminginn og þegar þurfti staðfestingar við þá voru hlutarnir lagðir saman. Við þekkjum þetta líka úr Íslendingasögunum þar sem fóstbræður brutu hring og geymdu hvor sinn heominginn allt til þess er rteyna skyldi á skuldbindingar, þá voru hringhlutarnir lagðir saman. Við þekkjum kannski svipaða táknfræði í hálsmenum nútímans, þar sem vinir deila hálsmeni, þar sem stendur kannski með skammstöfun, „Bestu vinir að eilífu“, og hvor varðveitir sinn hlutann. Gríska sögnin symballein merkir síðan að tengja saman.

Táknmálið

Táknmálið er andlegt mál sem er óháð takmörkunum orðanna. Það höfðar til tilfinninga og anda, jafnframt því sem það talar til skynsemi mannsins.

Trúin er reynsla, upplifun ósýnilegs leyndardóms, sem þó er raunverulegur. Þess vegna nægja henni ekki orðin ein til að tjá sig. Þar koma helgisiðir til, tjáningarform tilbeiðslunnar, sem með hjálp táknmálsins grípa inn á fleiri víddir en þær sem skynsemin ein skilur.

Táknmálið er sammannlegt. Það er ekki aðeins bundið kristinni trú, heldur hefur kristnin gjarnan tekið tákn og myndir í sína þjónustu, í þjónustu fræðslu og tilbeiðslu. Þess vegna hefur boðun kirkjunnar frá upphafi verið byggð inn í umgjörð helgisiða og tákna.

Rósamessan hefur því skýrskotun í ýmsar áttir, dregur fram kærleika manna á meðal og í samskiptum kynjanna, minnir á Jesú Krist og frásögurnar af kærleika Guðs til manna, minnir á Maríu móður Jesú.

Sögurnar í kirkjunni

Í kirkjunni erum við ávallt að fást við sögur. Grundvöllur starfsins alls, boðunar, bæna, sálmanna og fræðslunnar, eru sögurnar sem varðveittar eru í Biblíunni. Í dag er einmitt, auk Konudagsins, Biblíudagurinn.

En hvað er Biblían?

Biblían er bókasafn, skrifað af yfir 40 höfundum, á 1500 ára tímabili í þremur heimsálfum. Hún miðlar okkur reynslu kynslóðanna af glímu mannsins við samtíma sinn og þá huldu og augljósu krafta í tilverunni sem hafa áhrif á líf og heim.

Kærleikur Guðs gengur sem rauður þráður í gegnum hina ólíku texta.

Árið 2019 gaf Skálholtsútgáfan út í minni þýðingu bókina „Hvað er Biblían? Hvernig ævaforn ljóð, bréf og sögur geta gerbreytt því hvernig þú hugsar og hvernig þér líður.“

Höfundur bókarinnar er bandarískur guðfræðingur og prestur að nafni Rob Bell.

Hann kom hingað til lands árið 2017 og hélt fyrirlestur í Langholtskirkju. Í tengslum við það og í framhaldi af því, heillaðist ég af framsetningu hans og las og kynnti mér bækur hans, útvarpsþætti og fleira. Hann var árið 2012 valinn einn af 100 áhrifamestu mönnum heims af tímaritinu Time. Um tíma starfaði hann með sjónvarpskonunni Opruh Winfrie og ferðaðist með henni um Bandaríkin.

Í bókinni fjallar höfundurinn um Biblíuna á aðgengilegan og opinn máta, að mínu mati, á tungumáli sem er skiljanlegt fyrir nútímafólk.  

Hvernig er best að nálgast Biblíuna? Er hún óskeikul?

Hvernig er best að nálgast Biblíuna? Er hún óskeikul?

Til að svara þeirri spurningu, um hvort Biblíuan sé óskeikul, þ.e.a.s. að þar sé engar villur að finna í henni mætti eins spyrja hvort synfóníur Mozarts hafi sigrað?

Eiga lög Mozarts allt sviðið, eru konsertar hans sannir?

Þetta eru svolítið skrýtnar spurningar, þegar maður er að hugsa um tónlist, er það ekki? Maður hugsar ekki um tónlist Mozarts á þessum nótum. Það sem maður gerir við tónlist Mozarts er að maður hlustar á hana, eignast reynslu af henni og kannski leggur maður stund á að spila hana, en umfram allt nýtur maður hennar, er það ekki?

Hvort Biblían sé óskeikul, er kannski bara ekki nógu góð spurning, hún á kannski bara ekkert við þegar við erum að tala um Biblíuna.

Í fyrsta lagi er hvergi skírskotað til þess í Biblíunni að hún sé óskeikul. Ritararnir tala um orð Guðs, innblástur, áhrif og anda Guðs því þeir nota margar leiðir til að skírskota til sannleikans í ritningunum.

Í öðru lagi voru ritarar Biblíunnar að gera eitthvað miklu þýðingarmeira en að reyna að skrifa bréf, bækur og sögur án þess að gera mistök. Að nálgast textann á þeim nótum er því kannski ekki alveg í takt við innihaldið.

Það sem ritarar Biblíunnar tala um eru atburðir sem gerast í mannlegri tilveru sem þeir trúðu að opinberuðu Guð sem væri að verki í heiminum. Það sem þeir vilja er að lesendur sínir komi auga á þennan frumkraft og þessa hreyfingu, taki þátt í henni og finni í henni líf. Til að lýsa þessari hreyfingu nota þeir myndmál, tákn, dæmisögur, innsæi, drauma, bænir, sögulegar skírskotanir, vísbendingar og næstum hvaða aðrar hugsanlegar leiðir.

Það sem við höfum í höndunum er bókasafn ritað af fjölda fólks á löngu tímabili í sögunni. Stundum eru ritararnir fylgjandi hjónaskilnaði, stundum á móti honum. Einn segir að Jesús hafi verið frá Nazaret, annar segir hann frá Betlehem. Einn segir að Davíð hafi greitt eina fjárhæð fyrir landspildi, annar segir hann hafa greitt aðra fjárhæð fyrir þá sömu landspildu.

Listinn er langur af dæmum þar sem hugsanlega væri hægt að segja að ritin séu í einhverri mótsögn við framsetningu í öðru riti.

Biblían er hins vegar ekki vísindaleg kennslubók, eða handbók um það hvernig nota eigi þvottavélina.

Það sem við höfum í höndunum er heillandi, óreiðukennt, óútreiknanlegt, stundum ómælanlega fagurt, stundum hryllilega viðbjóðslegt safn af sögum, ljóðum, bréfum, köflum og guðspjöllum sem endurspegla vaxandi meðvitund um að við skiptum máli, að allt er tengt og að mannleg saga er á leið í tiltekna átt.

Hvaðan fengum við eiginlega þá hugmynd að farsælast væri að miðla dýpsta sannleikanum með einhverju sem er óskeikult?

Er sólsetrið óskeikult?

Er kærleikurinn milli þín og ástarinnar þinnar óskeikul?

Er besta máltíðin sem þú hefur bragðað óskeikul?

Við tengjum slíka reynslu ekki við þetta hugtak, því það myndi ræna reynsluna dýpt og gleði.

Síðan þegar við reynum að miðla þessari reynslu þá þurfum við á ljóðum að halda, myndum, myndmáli, sögum og táknum sem er auðvitað það sem við finnum í Biblíunni. Biblían miðlar hinum dýpsta sannleika um kærleika Guðs til mannanna, einmitt á þannig nótum.

Eins og í þessum fallegu textum dagsins, sem lesnir voru hér áðan.

Sáðmaðurinn

Dæmisagan um sáðmanninn, er guðspjallatexti dagsins. Það er mjög sérstakt við þá dæmisögu að Jesús útskýrir hana fyrir lærisveinum sínum. Flestar dæmisögur Biblíunnar eru óútskýrðar, þ.e.a.s. lesandinn, hlustandinn, viðmælandinn verður að lesa í táknin, samhengið, rammann og fylla inn í sjálfur. En hér útskýrir Jesús fyrir lærisveinunum hvað hann á við.

Hann er að tala um það hvernig manneskjan tekur á móti orði Guðs, hvort hún tekur á móti því, hvernig það hittir mann fyrir.

Hann staðhæfir að ávextir þess að taka á móti orði Guðs, séu ríkulegir og beri hundraðfaldan ávöxt í lífinu hér og nú. Það að leggja sig fram um að meðtaka orð Guðs, gefi ávexti andans, stöðuglyndi, göfugt og gott hjarta.

Það er því eftir miklu að keppa, að leggja sig fram í þessari íþrótt, því að sumu leyti er það eins og íþrótt. Maðurinn eflist að andlegum gæðum með andlegri iðkun, lestri Biblíunnar og iðkun bænar. Slíkir ávextir fást ekki í ávaxtadeild matvörubúðanna, heldur með andlegri iðkun og bæn. Orðið er sem áburður og næring inn í slíka iðkun. Textarnir eru djúpir, til dæmis úr Davíðssálmum: Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum, lætur hann mig hvílast, o.s.frv.

Og á öðrum stað:

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Og einnig:

Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Og svo yngri textar úr Nýja testamentinu:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki, er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp, er ekki langrækinn, leitar ekki síns eigin. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Þeir eru óteljandi textarnir sem glæða trú og efla mann, við lestur Biblíunnar og hina andlegu iðkun.

Kannski ættum við nú á Biblíudaginn að setja okkur markmið í þessum efnum, líkt og markmið með hreyfingu, eða markmið með vinnu, eða markmið í námi. Setja okkur markmið, til dæmis að lesa eitt rit Biblíunnar næsta mánuðinn. Gott er að byrja á Lúkasarguðspjalli eða Davíðssálmum. Og svo fikra sig áfram, kynnast orðum Biblíunnar, dæmisögum, frásögum, ljóðum og líkingum, spekiritum og spádómum, og öllum táknunum.

Fyrir lestur Biblíunnar og á meðan við lesum er gott að fara með stutta bæn, til dæmis á þessum nótum: Góði Guð, viltu með anda þínum opna upp augu mín fyrir boðskap þínum. Eða:  Lifandi Guð, viltu opna hjarta mitt fyrir boðskap þínum.

Megi Biblían vera ykkur brunnur gæsku og gleði, brunnur visku og blessunar. Svo við í sameiningu miðlum þeim kærleika sem þar býr.

Megi jafnframt rósin sem fylgir ykkur héðan vera tákn elsku og væntumþykju, því það er einmitt eitt grundvallarhlutverk kirkjunnar í dag, það er að vera uppspretta kærleika, vináttu og friðar, í samfélaginu á hverjum tíma.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Rósamessa í Bústaðakirkju á Konudaginn

Sunnudaginn 20. febrúar 2022 kl. 13