Guðspjall: Mark. 4. 26-31 Lexia: Jesaja: 40. 6-8 Pistill: Heb. 4. 12-13
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Yfir altarinu í Hóladómkirkju er brík mikil, útskorin úr eik. Bríkin er með vængjum og þegar hún stendur opin, er hún nær tveggja metra há og þriggja og hálfs metra breið. Innan í henni eru útskornar líkneskjur af dýrlingum, postulum og helgum konum innan um súlur og skrautverk. Á miðbríkinni eru tvö myndverk. Annað þeirra er af krossfestingunni á Golgata og er annarri myndrænni frásögn fléttað þar inn í, svo úr verður ein heild. Sé vængjunum lokað, birtast þar málverk af því er Jesús birtist Maríu Magdalenu í garðinum eftir upprisuna og á hinum vængnum málverk af dauða heilags Sebastíans. Talið er, að Jón biskup Arason hafi gefið Hóladómkirkju bríkina um 1530 eða þar um bil. Eftir dauða Jóns Arasonar var reynt að fjarlægja bríkina úr kirkjunni, en fram í dal, kiknaði hesturinn undan henni og var henni varpað út í skurð. Þar fannst hún og var flutt aftur á sinn stað í kirkjunni.
Slíkar bríkur voru algengar í kirkjum á miðöldum. Þær voru sem lesefni fyrir ólæst fólkið. Þegar þau höfðu heyrt útleggingu prestsins á texta Biblíunnar, í kirkjunni af prestinum( hann einn gat lesið og skilið latneska þýðingu Biblíunnar), gengu þau yfir að bríkinni, horfðu á hana og þá rifjaðist textinn upp fyrir þeim. Bríkurnar sögðu sögur Biblíunnar í myndrænu formi.
Það var því ekki lítill ávinningur, að fá Biblíuna á sínum tíma í hendur á sínu eigin móðurmáli og í framhaldi af því, geta lært að lesa og öðlast aðgang að orði Guðs, láta það tala til sín beint
Í dag er Biblíudagurinn. Af því tilefni stendur hið íslenska biblíufélag fyrir söfnun um land allt til styrktar verkefni sem það hefur ákveðið að ráðast í undir yfirskriftinni ,,Orð Guðs - VON á Jamaíka og í Kongó”.
Á vef félagsins má lesa fréttir frá Jamaíka og Kongó Þar segir framkvæmdastjóri biblíufélagsins í Vestur Indíum, séra Courtney Stewart: „Börnin sem alast upp við ofbeldi og glæpi í fátækrahverfum borganna á Jamaíka finna stöðugt fyrir höfnun og að þau séu einskis virði. Við verðum að sýna þeim að til er önnur leið - leið vonar.“ Framkvæmdastjórinn er ekki í minnsta vafa um mikilvægi verkefnis félagsins sem hefur að markmiði að ná til barnanna sem búa við stöðugan ótta í fátækrahverfum Jamaíka þar sem glæpatíðnin er einhver sú hæsta í öllum heiminum. Undir heitinu „Björgum börnunum“ er Biblíufélagið í samstarfi við ýmis kristin samtök og söfnuði um að koma 10 þúsund Biblíum á ári til fólks sem sárlega þarfnast styrks og leiðsagnar að betri framtíð. Framtíð barnanna sem búa við þessar slæmu aðstæður er sérstakt áhyggjuefni og megin markmið verkefnisins er að bæta stöðu þeirra.
Nýlega birtist kynning á vettvangi Sameinuðu Biblíufélagana á verkefni sem Biblíufélagið í Kongó ætlar að ráðast í á þessu ári. Markmið þess er að ná til kvenna og stúlkna sem hafa mátt þola ofbeldi af hendi hermanna vegna stríðsástandsins sem ríkir í landinu og búa við einangrun og útskúfun samfélagsins. Kirkjurnar í Kongó ætla að taka sig saman og breyta þessu ástandi. Kaþólska kirkjan, kirkjur mótmælenda og ýmis kristin samtök sem láta sig ástandið varða ætla að vinna saman að þessu brýna verkefni. Innan kirkjunnar er kjörinn vettvangur til þess að vinna á fordómunum og veita andlega næringu. Þáttur Biblíufélagsins í Kongó verður að útvega Biblíur til að dreifa til fólksins bæði prentaðar og hljóðbækur fyrir þá sem ekki kunna að lesa. Orð Guðs er fært um að endurvekja von og veita styrk hinum þjáða og vekja til nýs lífs.
Biblíufélagið á Íslandi snýr sér til félaga sinna og stuðningsaðila með ósk um stuðning við þetta mikilvæga starf Biblíufélaganna á Jamaíka og í Kongó og færir þeim fyrirfram þakkir sem vilja styðja félagið til góðra vera í þágu hinna þjáðu.
Hið íslenska Biblíufélag var stofnað á prestastefnu í Reykjavík 10. júlí 1815, og er því elsta starfandi félag landsins . Þar var það tré gróðursett, sem átti eftir að festa rætur í íslenskum jarðvegi og bera ávöxt um langan aldur, þótt það ætti lengi erfitt uppdráttar, eins og flestur annar gróður á Íslandi. Hann spáði því maðurinn, sem frumkvæðið átti, Ebenesar Henderson, að félagið myndi verða til blessunar fyrir margar óbornar kynslóðir á Íslandi. Sú spá hefur sannarlega ræst. Tilgangur félagsins er að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar.
Eins og kunnugt er var ný útgáfa íslensku biblíunnar prentuð árið 2007 og gefin út 19. október. Um er að ræða 11. útgáfuna frá 1584 þegar Guðbrandsbiblía var prentuð. Nýjasta biblían er ný þýðing á gamla testamentinu, bréfum nýja testamentisins og opinberunarbókinni úr frummálunum en fyrri þýðing á apókrýfu bókunum, guðspjöllunum og postulasögunni endurskoðuð.
Margir hafa spurt hvers vegna þurfi að þýða Biblíuna upp á nýtt, hún sé þegar til á íslensku. En þá gleymir fólk því að Biblían hefur nú verið þýdd sex sinnum frá því að Guðbrandsbiblía kom út árið 1584. Sú útgáfa markaði tímamót í sögu þjóðarinnar og fullyrt er að með henni hafi verið lagður hornsteinn að varðveislu íslensks máls. Þau voru þó meiri áhrifin sem boðskapur Biblíunnar flutti inn í íslenskt samfélag.
Nýir tímar kalla á nýtt tungutak og tungumálið breytist í tímans rás. Það eru eflaust ekki margir í dag sem geta án erfiðismuna lesið í Guðbrandsbiblíu.
Sérhver ný þýðing Biblíunnar hefur að markmiði að fylgja breytingum tungumálsins og gera texta hennar aðgengilegan nýjum lesendum. Markmið Biblíufélagsins er að Biblían sé ætíð til á vönduðu íslensku máli sem fólk skilur.
Sérhver kynslóð á að geta gripið til hennar og lesið sér til ánægju, huggunar og uppörvunar hvenær sem á þarf að halda. Þýðingar Biblíunnar varðveita þannig málfar ólíkra tíma í sögu þjóðarinnar. Þeim er ekki ætlað að festa það um ókomna tíð, enda er það ekki hægt. Biblían hefur að geyma lifandi orð Guðs. Með því að þýða Biblíuna upp á nýtt er verið að flytja þetta Orð áfram yfir á tungumál sérhverrar kynslóðar. Þannig að þó að orðin breytist, breytist innihald Biblíunnar ekki. Þó að málsniðið sé annað á Biblíu 21. aldar en þýðingu Guðbrands er boðskapurinn hinn sami. Það er boðskapurinn um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Það er hið óbreytanlega orð Guðs: „En orð Drottins varir að eilífu. Og þetta orð er fagnaðarerindið sem ykkur hefur verið boðað.“ (1Pét 1.25)
Þetta eru hin merku tímamót allra nýrra þýðinga Biblíunnar: að fagnaðarerindi Krists er gert aðgengilegt hverjum Íslendingi. Og fagnaðarerindið er ekki aðeins orð á bók, heldur er það virkur kraftur sem mótar líf einstaklinga á hverjum degi. Það er ekki aðeins hluti af menningararfi þjóðarinnar, heldur mótar það líf hennar. Það er sá hornsteinn sem lagður er og ekki breytist, því að: „Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.“ (Heb 13.8)Opnum Ritninguna og leyfum krafti hins lifandi og lífgefandi orðs að verka á skynfæri okkar.
Jesús segir í guðspjalli biblíudagsins að Guðsríkið vaxi frá hinu smæsta til hins stærsta. Guð sjái um vöxtinn. Okkar er að sá og uppskera. Til að útskýra hvað hann ætti við, segir hann lærisveinum sínum hér tvær dæmisögur, sem báðar útlista, hvor á sinn hátt hvað hann vildi tjá með hugtakinu ,,Guðsríki”. Í báðum þessum dæmisögum ræðir Jesús um sáðkorn sem að fellur í jörð, eða réttara sagt er sáð í jörð. Við það að sáðkornið komist í jörðina, taka undur og stórmerki að gerast, á hátt og máta, sem að manninum er sannarlega þekkt. Hvaðan hinsvegar forskriftin kemur, sem stýrir atferli sáðkornsins, er manninum ókunnugt. Vöxturinn virðist gerast sjálfkrafa. Hann sækir sitt upphaf til annars en vilja mannsins.
Jesús segir, að þessu megi helst líkja við, þegar mustarðskorn, sem er hverju sáðkorni smærra er sáð í jörðu. Þegar það sprettur, þá verður það öllum jurtum stærri, eða á hæð við fíkjutré. Hér mætist hið smæsta og hið stærsta í einni og sömu jurtinni. Greinar þess bjóða fuglum himinsins sem gera sáðkornunum góð skil að gera þar heimkynni sitt í skjóli laufblaðanna, sem hlúa að og vernda. Sterkur stofn er gömul táknmynd um þann eða það, sem að ber uppi lífið og nægir þar að minna á ask Yggdrasils í fornum kveðskap.
Stofninn er ,,Guðsríki” Jesú. Hann segir okkur, að ríki Guðs sé þar sem að Guð er konungur, þ.e. þar sem að hann ríkir þar. Guðs ríki getur því verið innra með okkur sé við orði Guðs tekið með þakklæti. Ríki Guðs hefst í mér og þér. Valdatími þess hefst, þegar við lofum fagnaðarerindi Guðs að virka í okkur og móta lífsstefnu okkar. Þá finnum við, að það er máttur til gleði, til frelsunar manna frá ótta og kraftur til að lækna og veita lífi inn í tilveru sérhverrar manneskju.
Ríki Guðs á sér upphaf í orði hans til okkar í Biblíunni. Orð hans er sáðkornið. Það kann að virka lítið og máttlaust í öllum þeim orðaflaumi sem við heyrum daglega, en í því er fólgið lífskraftur. Í því Guðsríki sem fólgið er í orðum Biblíunnar er að finna vaxtarkímið fyrir hinu stærsta, svarinu við okkar innstu hjartans spurningu: hvaðan komum við, og hvert erum við að fara?
En það verður ekkert til af engu. Sáðkornið þarf jörð og orðið frá Guði sömuleiðis. Við, eða betur sagt hjarta okkar, okkar innri maður, erum jarðvegur orðsins. Sé það ekki lesið, þá lifnar það ekki við, miðlar engu, rykfellur sem bók í hillu, sem aldrei er lesin. Lesturinn opnar okkur hinsvegar óravíddir. Í Biblíunni talar Guð til mín og þín. Þegar við lesum t.d. Davíðssálma þá finnum við þar samsvörun og samhljóm við okkar eigin lífsreynslu og þess vegna eru þeir ómissandi þáttur í daglegri bænagjörð og helgihaldi kirkjunnar.Megi Guð gefa okkur náð til að opna Biblíuna öðru hvoru á vegferð okkar í gegnum lífið. Megi hann gefa okkur náð til þess að lesa hana með bæn því að hún er full af huldum fjársjóðum. Megi hún verða okkur sístreymandi uppspretta gleði og friðar, kraftar, hugrekkis og vonar.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Ég minni á Guðskistuna í andyri kirkjunnar en í hana er hægt að leggja framlög sem renna til hins íslenska biblíufélags. Margt smátt gerir eitt stórt.
Takið postullegri kveðju.