Hið gamla er nýtt

Hið gamla er nýtt

Maður nokkur spurði nýverið: Er ekki löngu búið að segja allt sem segja þarf í predikun á jólum? Er virkilega hægt að bæta einhverju við eftir tvö þúsund ár? Er þetta ekki bara alltaf sama gamla tuggan?

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh. 1-5, 14

Bænin

Í dag er heimi frelsi fætt, er fær vor mein og harma bætt það barnið þekkjum blessað vér vor bróðir Jesús Kristur er.

Og oss til merkis er það sagt í aumum reifum finnum lagt það barn í jötu er hefur heim í hendi sér og ljóssins geim",.

Því bú til vöggu í brjósti mér minn besti Jesús handa þér. Í hjarta mínu hafðu dvöl svo haldi ég þér í gleði og kvöl. Amen (Sb 85)

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Gleðilega hátíð. Gleðilega jólahátíð og gleðilega aldarafmælishátíð Bræðratungukirkju.

Það er gott að vakna að morgni annars jóladags og vita að jólin eru ennþá, að hátíðin sem gekk í garð á jólanótt hún varir ennþá, ekki bara á almanakinu, heldur einnig í okkur sjálfum, og við ráðum því sjálf hversu lengi hún varir. Ein hinna fögru jólaminninga margra okkar hinna eldri er um ljósið. Það loguðu ljós alla nóttina.Það loga ljós, af því að ljósið er komið í heiminn. Í tvennum skilningi. Það loga ljós til að tengja saman dag og nótt. Ljósið er komið. Allt snýst til betri vegar. Við sem vorum svo heppin að alast upp á svæðum þar sem rafmagnið var ótryggt á vetrum, við skynjuðum þetta með sérstökum hætti. Ljósið fór, og ljósið kom. Kannski fór það strax aftur, en það gerði ekki til, það var vísbending um að bráðum kæmi það til að vera.

Kæri söfnuður. Maður nokkur spurði nýverið: Er ekki löngu búið að segja allt sem segja þarf í predikun á jólum? Er virkilega hægt að bæta einhverju við eftir tvö þúsund ár? Er þetta ekki bara alltaf sama gamla tuggan?

Það mætti þá segja hið sama um öll guðspjöll og alla predikunartexta. Og það sem meira er, þetta myndi gilda í yfirfærðri mynd um ýmislegt annað. Hversvegna segjum við gleðileg jól, fyrst við gerðum það líka í fyrra? Sumt þarf einfaldlega að segja oft, en ekki bara einu sinni. Það er til gamansaga um eiginmanninn sem sagði við konu sína á brúðkaupsdaginn: Ég ætla bara að segja þér það í eitt skipti fyrir öll að ég elska þig, og svo verður ekki minnst á það meir.

Hver nýr dagur hefur nýja sýn og nýja nálgun. Það sem var í gær er annað en það sem er í dag. Börnin vaxa, ástin þroskast og við eldumst. Það sem var venjulegt í gær er dýrmætt í dag. Það sem ég heyrði sagt í gær fór framhjá mér þá, án þess að ég tæki eftir því, en í dag hitti það hjartað. Í dag er allt nýtt og ferskt eins og mjöllin. Hið gamla er líka nýtt af því það mætir hinu nýja á nýjan hátt. Og samt er ekkert nýtt undir sólinni. Það segir Predikarinn: Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu. Og sólin rennur upp, og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp. Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá, og eyrað verður aldrei mett af að heyra. Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni. (Pred.1.4-5,8-9)

Þetta gamla guðshús, Bræðratungukirkja, sem reist var fyrir einni öld heilsar nú nýjum degi og nýrri öld. Rögnvaldur Ólafsson, húsameistari sem teiknaði kirkjuna var einn af vonarberum nútímans, fulltrúi nýrrar hugsunar í byggingalist enda ber kirkjan skýr merki listar hans og hugsjónar. Líkast til hefur alltaf staðið kirkja í Tungu frá því kristni kom í landið og miðað við það er þetta ekki gamalt hús, enda eru það ekki hús Guðs sem standa óbifuð, heldur orð Guðs, og yfir það eru kirkjur byggðar þó að það eigi heimkynni sín í hjörtum mannanna.

Og í dag hefur orðið sem var í upphafi verið talað til okkar. Og það er nýtt orð. Orðið sem skapaði þennan heim og greindi ljósið frá myrkrinu, það er að segja allur sköpunarkraftur Guðs, er orðinn maður, er orðinn barn í jötu. Og með því er þessi kraftur ofurseldur mannlegum duttlungum og mannlegum breyskleika. Hann var gefinn í hendur mannanna á ótryggum tímum. Þeir tímar eru enn. Orðið sem er barn í jötu og frelsari heimsins, hann er gefinn í hendur okkar. Orðið sem skapaði þennan heim, sköpunarorðið sjálft er komið til jarðar til þess að vera orð frelsisins, orð hinnar nýju sköpunar.

Það er ekkert nýtt að jólin komi, þau koma á hverju ári á sama tíma, eins og líka sól fer hækkandi á sama tíma árs og aftur nú á þessum dögum. Sólin er hin sama og þó er þetta nýtt ljós, og ný jól og ný framtíð handa okkur, ef við viljum, ný framtíð með Jesú Kristi. Engillinn sagði: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn. Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu ...

Friður á jörðu? Hvernig geta englar Guðs talað um frið á jörðu, ef hann er ekki á jörðu, heldur ræður miklu fremur ófriðurinn? Það var ekki þannig að friði væri jafnað út og breiddur yfir allan heim hina fyrstu jólanótt. Hann var hann lagður í jötu. Það er einungis hægt að taka við honum að gjöf. Persónulegri gjöf. Það er ekki hægt að berjast fyrir honum. Friður fæst ekki með vopnavaldi. Það er ekki heldur hægt að tryggja frið með valdi. Þannig er bara hægt að tryggja ótta og kúgun. Það er hægt að semja um vopnahlé. En það er ekki friður. Friður jötunnar fæðist hið innra. Hvernig getur nokkur krafist þess að friður ríki í heiminum ef ekki er sinnt um hann í eigin lífi? Friður á jörðu, fæddur í jötu er persónulegur og persónugjörður, og það verður enginn friður á jörðu fyrr en persónur, eins og við tökum á móti honum og á móti friði hans, í persónulegri trú og trausti á handleiðslu hans. Orðið sem varð hold, það vill setjast að í mönnum eins og mér og þér og hafa áhrif á líf okkar og hugsun, áhrif á afstöðu okkar til annarra manna, með sama hætti eins og það nær að gera á jólunum. Boðskapur jólahátíðarinnnar einkennist af skörpum andstæðum eins og samanburði á myrkri og ljósi. Ljósið skín í myrkrinu. Leggið af verk myrkursins og framgangið í ljósinu. Ófriður í öllum myndum sínum, heyrir myrkrinu til.

Orðið sem í öndverðu skapaði heiminn skildi myrkrið frá ljósinu. Orðið sem í upphafi var, það varð hold á jörð og býr með oss. Í því var líf, og lífið er ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Þessi stóru orð mæta litlu fólki.

Hirðarnir á Betlehemsvöllum eru í stóru hlutverki í boðskap jólanna. Ekki hefur þá órað fyrir því í aðdraganda jólanæturinnar fyrstu, og ekki einu sinni þó að þeir hefðu eins og venja var stundum haft á vörum sér spádóminn um konunginn sem fæðast myndi Ísrael og við heyrðum um í lexíunni úr Jesajabókinni áðan. Hirðarnir voru meðal hinna smáu þessar jarðar. Ósýnilegir menn, allt til þessarar stundar. Hverjir eru þeir? Þeir verða sýnilegir í ljósi himnanna þegar engillinn ávarpar þá, og þegar þeir hafa hlaupið til og séð, hverfa þeir aftur inn í myrkur sögunnar. Hvernig voru þeir? Við höfum séð margar fallegar myndir af þeim. Og tónskáldin hafa samið undursamleg pastorale til að endurgera stemminguna á völlunum. Það eru ekki ósannar myndir, heldur ófullkomnar. Betlehemsvellir eru enginn sælureitur. Þar liggja menn oft í launsátri eins og vargar og skothvellir hafa borist þaðan allt til Íslands, þó að þetta sinn hafi verið messað í Betlehem óhindrað og ferðamannastraumurinn yfir torgið sem kennt er við jötuna hafi að þessu sinni frekar minnt á kjötkveðjuhátíð en frið jólanna. Betlehemsvellir voru aldrei sælureitur hvorki fyrir hirða né aðra. Lífsbaráttan var hörð, og þetta voru menn hertir af erfiði daganna og ótta næturinnar. Þeir sátu við eldinn og ornuðu sér, ærnar lágu í kring, hundarnir sváfu með annað eyrað opið vegna villtra dýra næturinnar sem ásældust lömbin, og hirðisstafurinn með króknum til að krækja fyrir sauðinn sem vildi annað en hann mátti, hann var líka vopn til að verja sig með. Hirðarnir sátu við eldinn hálfsvangir og þreyttir, klæddir lörfum og hefði ekki veitt af jólabaði. Hann hefur litið til ambáttar sinnar í lítilmótleik hennar segir í lofsöng Maríu, sem birtir enduróm þess er Gabríel hafði borið henni boðin um fæðingu Jesú. Kirkjan, staðurinn þar sem trúin er varðveitt, kirkjan er ambátt Drottins, og Guð lítur niður að henni. Guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer sagði: ,,Guð skammast sín ekki fyrir lítilmótleik manna. Hann gengur mitt á meðal þeirra, stígur niður til þeirra, velur menn til að vera sín verkfæri og gerir kraftaverk þar sem við eigum alls ekki von á.” Hér fyrir ofan predikunarstólinn er útskorin stytta af Andrési postula. Hann er líka einn af þeim smáu í hópi postulanna, og sjaldan minnst. En það var nú samt hann sem benti Pétri bróður sínum á Jesú. (Jóh. 1.40-42) Pétri sem Jesús afhenti lyklavaldið og treysti fyrir kirkjunni. Það var ekki lítið hlutverk Andrésar þann daginn.

Hirðarnir hlupu út í myrkrið með jólaboðskapinn knúðir af eigin gleði og fögnuði. Leyndardómurinn um elsku Guðs til mannanna verður ekki sagður með öðrum hætti. Þessi boðskapur er í senn elskulegur og ægilegur. Frammi fyrir hátign Guðs verður hver maður smár. Frammi fyrir hinu heilaga og hreina verður saurinn og syndin svo svört. Líka þegar Guð vil elska það allt saman burt. Reynsla hirðanna er reynsla allra manna þegar Guð birtist þeim. Hann er tjáður með orðunum: Ótti, undrun, friður, fögnuður. Hirðarnir reyndu það og síðan allir aðrir. Hinn huldi Guð verður sýnilegur. Sá Guð sem öll á himins hnoss, varð hold á jörð og býr með oss.

Þessvegna segjum við hvert öðru enn þessa sömu sögu. Þessi atburður er ekki fjarlægur og ekki bundinn neinum þeim veruleika sem er frábrugðinn okkar eigin, hverjar svo sem kringumstæður okkar eru, hið ytra eða innra. Engillinn kallar okkur til að koma og sjá og trúa í sömu einlægni og einfeldni og barn. Og þessvegna ljómar dýrð Drottins einnig í kringum þig og mig á þessum jólum og friður hans stígur inn í huga og hjarta og hreiðrar um sig í sálinni.

Í fæðingu frelsarans stígur Guð sjálfur niður til jarðarinnar. Himininn opnast. Guð býr meðal barna sinna. Hann er hér. Yngsti kirkjugesturinn í dag, sem nú er sofnaður, var mikið að spyrja um það áður en messa hófst hvort þetta væri mynd að Jesú þegar hann var dáinn, og hvort Jesú væri þá dáinn? Það var góð spurning. Já, hann er sannarlega dáinn og grafinn. En hann er fyrst og fremst upprisinn og stiginn yfir frá dauðanum og tekur til sín frá dauðanum til lífs með sér, þau sem við kveðjum. Hann er sannarlega hér. Guð er mitt á meðal okkar. Hann birtist í hinu smáa og hinu stóra. Hann málar listaverk á himininn og á jörðina, hann semur fegurstu hljómkviður heimsins með lækjarsitru, lambajarmi, fuglasöng og árnið, og áhrifamesta þögn tónlistarinnar er þögn náttúrunnar. Og hann blæs gáfu listarinnar börnum sínum í brjóst, svo þau megi syngja honum lof, tala orð hans, teikna upp og byggja honum hús og skrýða það og fegra. Þetta litla Guðs hús geymir mörg dæmi hinnar fegurstu listar sem mönnum er gefin. Og hér við þetta heilaga altari byrjar himininn. Þetta altari Bræðratungukirkju, af mannahöndum gjört, það er fótskör Guðs og merkissteinn á landamærum himins og jarðar, eins og altari hverrar kirkju. Og hér á þessum stað hefur hinn eilífi Guð verið tilbeðinn í þúsund ár og þessi litla kirkja heldur áfram að vitna um hann og horfa héðan yfir byggðina með augum Guðs sem vakir yfir búendum og byggð frá því fyrstu augu ljúkast upp þar til þau síðustu bresta. Þessi kirkja hefur í hundrað ár staðið í skjóli og vernd þeirra sem hér búa. Það er eins og hluti af arfleifð þeirra að gæta hennar, mann fram af manni. Guði séu þakkir fyrir það. Meðan ég beið þess að messa byrjaði var ég að rifja upp með sjálfum mér, og mig minnti að Sveinn heitinn kirkjubóndi hér, hefði alltaf lesið bænina úr sálmabók Skúla föður síns. Það er sálmabókin frá 1886, og ég vonaði að það væri gert enn. Og svo steig Kjartan fram og tók fram gömlu bókina, með orðalagi meðhjálparabænarinnar frá 1886. Í þessi hundrað ár sem kirkjan hefur staðið hefur hún fengið að heyra þessa sömu bæn, og söfnuðurinn allur. Það er gott. Og þökk sé þeim öllum sem ala önn fyrir þessu húsi Guðs, umgangast það af lotningu og kærleika, ditta að því og hirða um það svo það megi áfram bera vitni um Guð og nærveru hans og þau bera honum sjálf vitni með störfum sínum, svo að söfnuðurinn megi enn koma saman hér með presti sínum í Jesú nafni. Þess megum við nú minnast í þökk fyrir þjónustu í hundrað ár Og Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Takið postulegri blessun.