Guðspjall: Jóh. 15. 26-16.4 Lexia: Es. 37. 26-28 Pistill: 1. Pét. 4. 7-11
Það hefur ekki farið framhjá neinum að sumarið er komið. Undanfarna daga hefur ríkt sannkallað sólarlandaveður hér um slóðir og mannlífið og náttúran hefur tekið mikinn fjörkipp. Það er skemmtilegt að fylgjast með gróskunni í náttúrunni og einnig hjá blessuðum skepnunum. Sauðburði er að ljúka og lömbin vitna um sumarkomuna ásamt kúnum sem ráða sér ekki fyrir kæti þegar þeim er sleppt út í græna haga. Og mannfólkið klæðir sig í litskrúðug sumarfötin og tekur til við garðvinnuna og brosir út í sumarið. Enginn veit nema sá sem reynt hefur hvað það er gefandi að rækta vel sinn garð. Það er sem maður komist nær sköpunarverki Guðs en áður. Þá er hægt að gera sér smátt og smátt grein fyrir því hversu öllu er haganlega og skipulega fyrirkomið af skaparanum. Við vitum að lífríki jarðarinnar er ótrúlega umfangsmikið, fjölbreytt og flókið, raunar svo að mannskepnan er ekki ennþá búin að ráða allar gátur hennar. Víst má telja að við erum öll háð lífríki jarðarinnar á einn eða annan hátt.
Víðáttumiklir regnskógarnir í S. – Ameríku sjá okkur fyrir súrefni en án súrefnis gætum við ekki lifað. Fiskimiðin og búpeningurinn sjá okkur fyrir fæðu. Maðurinn má ekki ganga oft hart á auðlindir jarðar því að með hætti skapar hann sér sjálfskaparvíti. Við vitum að mjög hart er gengið á regnskógana í Suður Ameríku um þessar mundir því að eftirspurnin eftir trjávið eykst stöðugt í heiminum. Þá er sífellt verið að ryðja skóga til þess að byggja akbrautir eða jafnvel heilu borgirnar. Þá er öll iðnaðarframleiðsla heimsins farin að stefna ózonlagi gufuhvolfsins í hættu. Vísindamenn tala nú um að gat sé komið á það yfir norðurheimskautinu og fari stækkandi. Þá eiga útfjólubláir geislar sólar greiðari aðgang að okkur en þeir eru hættulegir öllu lífi.
Það er ekki laust við að mér hafi verið hugsað út í þetta síðustu sólardaga þegar ég hef verið í garðvinnunni og reynt að hlúa að viðkvæmum trjám og plöntum við prestssetrið.
Lögmál náttúrunnar er stórkostlegt. Það er trú mín að Guði sjái náttúrunni fyrir góðum skilyrðum til þess að hún geti dafnað sem best. Þökk sé góðum Guði sem gerir alla hluti nýja, sumar, vetur, vor og haust. Okkur mönnum ætti að vera ljós ábyrgðin gagnvart vistkerfi jarðarinnar. Í það minnsta kæmi okkur vart til hugar að traðka á gróðrinum sem umhverfis okkur er, einkum þar sem hann á erfitt uppdráttar. Jeppaeigendur, sumir hverjir, hafa orðið uppvísir að því upp til heiða því miður. Við skulum í sameiningu leitast við að sýna ábyrgð gagnvart umhverfi okkar og lífríki jarðar.
Við megum ekki gleyma því að rækta okkar eigin garð, þann garð sem er innra með okkur. Við þurfum töluverða hjálp til þess að geta ræktað þann garð. Sú hjálp kemur frá skapara himins og jarðar. Með því að eiga samfélag við Guð í gegnum bænirnar okkar, orð hans, heilaga kvöldmáltíð og samfélag kristinna manna þá getum við ræktað fallegan, litskrúðugan og góðan garð sem okkur væri sómi af. Það eru fjölmargir sem eiga slíkan garð í góðri rækt en við þurfum að hafa töluvert fyrir því að hann fölni ekki. Við þurfum að gefa okkur tíma til þess að rækta garðinn innra með okkur. Það er gott að geta treyst Guði og eiga samfélag við hann allar stundir. Slíkt gefur okkur gott hjartalag gagnvart öllum aðstæðum lífsins. Hafið þið hugleitt hver hjálpi okkur til þess að trúa á Jesú Krist?
Guðspjall dagsins svarar því. Jesús Kristur gaf lærisveinum sínum dýrlegt fyrirheit á skírdagskvöld. Það var fyrirheit um sannleiksandann sem hann mundi senda þeim frá föðurnum. Að viku liðinni rennur upp hin mikla andans hátíð, Hvítasunnuhátíðin.
Þessi Drottins dagur er undirbúningsdagur fyrir hana en textar dagsins vísa til hennar. Starf heilags anda, sannleiksandans er fyrst og fremst það að bera Jesú vitni í hjörtum mannanna. Ekkert er eðlilegra en að við minnumst þessa starfs. Því að fyrir áhrif andans hefur hinn siðmenntaði heimur umskapast frá rótum.
Hvernig hefur sannleiksandinn fengið svo miklu afrekað? Einvörðungu með því að hafa áhrif á hjörtu mannanna. Þannig hefur sannleiksandinn kallað fólk til fylgdar við Jesú Krist. Án áhrifa heilags anda er samband okkar við Jesú Krist sem byggir á trú og trausti óhugsandi.
Marteinn Lúter leggur áherslu á þetta þegar hann segir: “Ég trúi að ég geti eigi af eigin skynsemi eða krafti trúað á Jesúm Krist minn Drottinn né til hans komist, heldur hafi heilagur andi kallað mig með gleðiboðskapnum, helgað mig og haldið mér í réttri trú”.
Það er sannleiksandinn sem upplýsir okkar, helgar og viðheldur trú okkar. Um þetta síðast talda segir Páll postuli: “Enginn getur sagt: Jesús er Drottinn nema fyrir heilagan anda”. Frá þeim degi er kristin kirkja var stofnuð á Hvítasunnudag hefur sannleiksandinn unnið mikið vitnisburðarstarf. Hann er enn að verki í hjörtum manna sem játa Jesú Krist sem Drottinn sinn, Guði föður til dýrðar. Í þessu liggur þungamiðjan í öllu starfi heilags anda, að hann með vitnisburði sínum hjálpar okkkur til þess að trúa á Jesú Krist sem Drottin okkar og frelsara.
Hver er vitnisburður heilags anda?
Fyrst og fremst sá að Jesús Kristur dó á krossi fyrir okkur synduga menn til þess að við mættum lifa fyrir hann. Fyrir hann eigum við aðgang að föðurhjarta Guðs. Fyrir hann getum við eignast frið sem er æðri öllum skilniingi og gleði sem tekur annarri gleði fram. Hvert er ásteytingarefnið? Það er prédikunin um krossinn. Sú prédikun hefur verið “gyðingum hneyksli, grikkjum heimska”, segir Páll postuli. Þó átti krossinn að verða og hefir líka orðið mönnum í tuttugu aldir náðar - og friðartákn.
Með hvaða hætti hefur það getað átt sér stað?
Við getum ekki þakkað hyggjuviti okkar eða dómgreind hversu góð sem hún kann að vera. Skynsemi okkar er krossinn áfram hneyksli eða heimska. Að hann hefur þó getað orðið hjörtum okkar hellubjarg vonar og trausts, það er Guðs verk sem hann hefur framkvæmt fyrir vitnisburð anda síns. Við getum aldrei komist til botns í leyndardómi krossins. En það sem við getum ekki með höfðinu það getum við með hjartanu þegar það er upplýst af Guðs anda.
Við getum kropið á kné frammi fyrir krossinum. Þegar við nálgumst það með friðarþyrstri sál þá berst okkur til eyrna vitnisburður heilags anda er hljóðar svo: Þetta gerði hann fyrir þig. Einnig þetta óskiljanlega er frá Drottni, honum sem elskar þig þrátt fyrir synd þína. Sáttargjörðin hefur verið kunngjörð. Djúpið er brúað milli okkar og Guðs. Þessi er vitnisburður andans. Á þennan veg upplýsir hann hjartað. En þessi upplýsing er skilyrði þess að eignumst djúpan, varanlegan frið sem hjálpar okkur í andstreymi daganna. Slíkum hjartans friði fylgir mikil gleði sem verður ræktarleg og sem slík varanleg þegar við leitumst við að lifa í samfélagi við Jesú Krist á hverjum degi og leyfum honum að taka þátt í því að rækta þann garð sem býr innra með okkur. Þá verður hann ljós á vegum okkar og lampi fóta okkar.
Megi Guð opna hjörtu okkar fyrir vitnisburði anda síns og gefi okkur öllum gleðilega hvítasunnuhátíð. Amen.