Guð lífsins

Guð lífsins

Guðspjallið er saga úr daglega lífinu. Og þó er efni þess svo gjörsamlega allt annað en hið daglega líf. Daglega lífið segir: Það var borinn út dauður maður. Daglega lífið er ekki tillitsamt um tilfinningar. Það fannst hálfdauður maður á götuhorni. Um hann var ekkert annað sagt, og ekkert annað er frétt.

Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans. En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“ Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið. Lúk 7.11-17

Bæn

Guð lífsins, þú sem reistir son þinn upp frá dauðum og opnaðir okkur leið til eilífs lífs. Við biðjum þig: Hjálpa okkur að treysta því að ekkert getur tekið þetta líf frá okkur aftur. Þú, sem varðveitir okkur örugglega í þinni hönd um aldur og ævi heyr þá bæn í Jesú nafni. Amen. Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Nú höfum við sungið þrjú vers úr guðspjallssálmi Helga Hálfdánarsonar: Guðs son mælti, grát þú eigi. (Sb. 194). Þar segir hann: Þegar hryggðin hjartað sker,huggun orð þau veita mér. Og svo segir hann líka: Guði, víst er annt um þig ,... hann sem fæðir fugla smá, fyrir þér mun einnig sjá.” Þessi lína er nú reyndar mörgum kunn sem borðvers.

Í gömlu Biblíunni minni var skrifað ,,Sjá: Þá var borinn út dauður maður.” Mörgum þóttu þetta hranaleg orð í guðspjalli. Enda var þessu breytt í síðari þýðingum Biblíunnar. Nú segir þar: ,,Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja.”

Kæri söfnuður. Sannleikurinn er alveg jafn hranalegur í þessu orðalagi og hinu þegar sannleikurinn er jafnframt dauðinn. Líf og dauði takast á.

Guðspjallið er saga úr daglega lífinu. Og þó er efni þess svo gjörsamlega allt annað en hið daglega líf. Daglega lífið segir: Það var borinn út dauður maður. Daglega lífið er ekki tillitsamt um tilfinningar. Það fannst hálfdauður maður á götuhorni. Um hann var ekkert annað sagt, og ekkert annað er frétt.

Það eru þrjár frásagnir af því í guðspjöllunum að Jesús kalli dauða til lífs. Þrjár persónur: Lasarus, dóttir Jairusar og sonur ekkjunnar frá Nain. Þau eru kölluð til baka frá dauðraríkinu inn í lífið aftur. Markús segir frá dóttur Jaírusar, Lúkas líka, -Lúkas einn greinir frá syni ekkjunnar í Nain, Jóhannes segir frá Lasarusi, hinir ekki. Þetta eitt, meðhöndlun guðspjallamannanna, er umhugsunarefni, en við látum það liggja milli hluta í dag. Efnið er nóg án þess.

Allar frásagnirnar vekja spurningar, og allar eru þeir leyndardómur sem predikarinn jafnt og áheyrandinn standa frammi fyrir, jafnvel í nokkru ráðaleysi.

Hér er rætt um atburði sem við getum ekki fellt inn í okkar venjulega reynsluheim. Hvað gerðist? Ekkert þeirra sem hér voru nefnd koma aftur inn á spjöld sögunnar. Guðspjöllin greina ekki frá frekari atburðum í lífi þeirra. Aðeins Lasarus er nefndur aftur með nafni, þar sem hann tók þátt í máltíð. Ekki einu sinni sjálf borgin Nain er nokkurntíma nefnd aftur í guðspjöllunum.

Við megum álykta sem svo að þau þessi þrjú sem nefnd voru, hafi svo bara dáið aftur í fyllingu tímans eins og aðrir dauðlegir menn. Þá má spyrja hvort nokkuð hefði gerst annað en þegar til dæmis dauðveikt fólk fær viðbótar ár í ævi sinni, eða kannski nokkur slík þó að læknavísindin væru búin að segja annað?

Guðspjöllin geyma margar frásagnir af fólki sem biður Jesú um hjálp í alvarlegum veikindum. En það biður enginn Jesú ásjár þegar dauðinn er orðin að veruleika. Svo endanleg stærð er dauðinn. ,, Bara að þú hefðir komið fyrr, - þá væri bróðir minn ekki dáinn, segir Marta. Jairus biður Jesús um hjálp, af því að hann á dóttur sem er dauðvona en lifir þó enn, þegar hann kemur til Jesú með bæn sína.

Jesús gengur gegnum þvögu grátandi fólks við hús Jairusar, inn í herbergið þar sem stúlkan liggur og hann reisir hana upp frá dauðum. ,,Stúlka litla, rís þú upp” (Lk.8.54) (Mk.5.41.) segir hann við hana og hún hlýðir.

Systur Lasarusar sendu boð til Jesú um að bróðir þeirra væri veikur. Hann fór ekki af stað fyrr en eftir að Lasarus var dáinn. Hann gekk að grafhýsinu. Steininum var velt frá. Hann kallaði: ,,Lasarus, kom út.”

Enginn bað hann að koma til Nain. Hann var bara á ferð. Við móðurina segir hann: ,,Grát þú eigi”, en við hinn látna: Ungi maður , ég segi þér rís þú upp.

Hvað er hér á ferðum? Hvaða erindi hefur þessi frásögn hingað, og við okkur? Er þetta ekki bara falleg helgisögn frá löngu liðnum tíma? Eða skírskotun til þeirra sem eru tilbúin að trúa á kraftaverk, um eitt slíkt, nefnilega um að það sé mögulegt að kalla dauða til lífs.

Við eigum ekki auðvelt með að sjá hvað þetta merkir, og eigum ekki heldur auðvelt með að sjá inn í frásögnina sjálfa. Hvaða áhrif hafði þetta á þau sjálf sem nefnd eru ? Ekkert svar. Ekkert þeirra gekk fram og lofaði Guð fyrir lífgjöfina. Það er þó oftast tekið fram um þau sem fengu lækningu.

Jesus gekk að líkbörunum og vakti upp þennan unga mann og gaf hann móður sinni aftur. Hvað þýðir þetta? Eða, hvað á þetta að þýða? Var ekki fullt af fólki sem stóð og syrgði látinn vin, bróður, systur, móður, föður, af hverju þessi eini. Af hverju ekki allir?

Var þetta einhver sérstök ekkja, sem með þessu var bjargað frá örlögum kvenna sem enga karlkyns fyrirvinnu áttu?

Það má orða þetta öðruvísi. Einn ferst og annars kemst af. Af hverju. Gerir Guð mannamun? Svona spurningar leita á hugann. Þetta eru þýðingarmiklar spurningar og finna má jafnt svör þeirra sem leita Guðs eða hafna tilvist hans.

Auðvitað spyrjum við líka sömu spurninga. Og hvert er svarið?

Tilefni frásagnanna sem hér var vitnað til, er ekki fyrst og fremst atburðurinn sjálfur heldur merking hans og tákn.

Jesús glímir við dauðann. Glíma hans við öflin sem starfa gegn Guðs vilja, geymir líka baráttuna við dauðann. Höfðingi þessa heims, hinn gamli óvin, eins og það heitir í sálmi Luthers, sýnir hræðilegustu mynd sína í afli dauðans. Dauðinn er hinn raunverulegi óvinur, hann er eyðandinn og spillvirkinn.

Dauðinn er ekki vinur og lausnari. Þegar hann er túlkaður sem áfangi á leiðinni heim til Guðs, sem auðvitað er sannleikurinn í ljósi upprisuundursins, - þá er verið að fegra hann meira en eðlilegt er. En við höfum ekkert orð Jesú sjálfs sem setur dauðann inn í mynd Guðsríkisins eins og það væri eðlilegur og rökréttur hluti þeirrar myndar. Og samt er ekkert eðlilegra lífinu en að það deyi,. En dauðin er ekki meðal áforma Guðsríkisins.

Jesús og dauðinn eru andstæðingar. Þar sem Jesús mætir dauðanum verður til barátta. Þar verður stríð. Í sálmi Lúthers og í þýðingu Helga Hálfdánarsonar segir:

Á hólm við dauðann Guðs son gekk að gætum sigur hlotið. (v.2) ... en styrjöld sú var hörðust, er þá var háð til lausnar lýð, er líf og dauði börðust. V.3 (Sb 157)

Og hvar var það? Á krossinum. Þar sem Jesús bjó til páska handa öllum, svo vitnað sé í Sigurbjörn Einarsson.

Drottinn gefst ekki upp frammi fyrir mætti dauðans. Hann ,,mótmælir” hinsvegar ekki í neikvæðri merkingu kraftlausra mótmæla, heldur stendur hann uppi í hárinu á dauðanum í jákvæðri merkingu. Hann stendur andspænis dauðanum sem vitni og fyrirheit um nýja og æðri reglu í heiminum þar sem dauðinn mun ekkert vald hafa framar.

Þessi barátta gegn dauðanum byrjar í hjörtum og samviskum mannanna og fullkomnast í upprisunni. Það er sá sigur á dauðanum sem geymdur er í líkingamáli frásagna guðspjallanna í táknum vonar um upprisu og eilíft líf.

Við stóðum í gær yfir moldum þess manns sem mest hefur mótað predikun og trúarhugsun þjóðkirkjunnar eftir þá Hallgrím Pétursson og Jón Vídalín.

Sigurbjörn biskup predikaði eitt sinn sem oftar út frá guðspjalli dagsins og sagði:

,,Móðir í Nain sem engin kann að nefna þú átt margar systur, þúsundir höfðu gengið sömu þungu spor á undan þér og þúsundir síðan, þú gast aldrei orðið fræg út á svo algeng, svo hversdagsleg örlög, það mældi enginn afrek þitt þegar þú breiddir síðast ofan á hnokkann þinn án þess að bresta, þegar þú gekkst á eftir kistunni hans og varst enn upprétt.” (Um ársins hring. Bls.125)

Guðspjöllin greina ekki frá því hvað gerðist í þeim persónum sem sótt voru til baka inn í það líf sem þau höfðu verið hrifin frá. Fólk sem hefur reynt það að vera kallað aftur til lífsins, hefur lýst reynslu sinni. Hversu vandaðar sem þær lýsingar eru leyfa þær engar rökstuddar ályktanir. Að hverfa aftur til baka inn í lífið án þess að eignast innri sigur á valdi dauðans, er eins og aðskotahlutur í starfi og verki Jesú Krists.Við höfum engan rétt til að búa til ályktanir um það sem okkur er hulið.

Í öllu falli gildir hér eins og um allar frásagnir af kraftaverkum, að kraftaverk sem hefur ekki táknrænt gildi er ekki viðfangsefni predikunar í kristinni kirkju. Hvernig gæti það huggað grátandi móður við dánarbeð eða við gröf elskað barns að vita að einu sinni endur fyrir löngu hefði óþekkt móðir í Nain fengið son sinn aftur, ef ekki væri um leið með því opinberaður máttur og dýrð, sem í dag eins og þá standa gegn dauðanum í sigrandi baráttu, sem opnar fyrir mönnunum nýja vídd lífsins þar sem dauðinn hefur tapað valdi sínu og ógn?

Leiðin sem okkur er vísað á með guðspjalli dagsins er sem sagt hvorki kraftaverkatrú, sem engin tengsl hefur við okkar eigin reynsluheim, né leið uppgjafar og ósigra þeirra sem í eigin krafti standa gegn dauðanum, heldur leið innri umbreytingar þar sem líf Krists yfirvinnur okkar dauða. Það er leiðin sem verður vegur vonarinnar þegar líf Krists sest að í okkur og gjörir okkar dauðlegu limi lifandi með honum.

Í predikun sinni segir Sigurbjörn biskup: ,,Guðspjallið er ekki kynjasaga, heldur boðskapur um miskunnsemi sem er almáttug, um almætti sem kennir í brjósi um um, miskunnjar, hjálpar, um kærleika sem er ekkert hulið, um vald sem er ekkert ofviða. Það er orð frá eilífum föður Jesú Krists. Það var heilög himnesk hönd sem snart líkbörurnar við Nain, sú hönd hefur nú og að eilífu allt vald á himni og á jörðuog hún mun einhverntíma snerta þig og víkja dauðanum til hliðar og þú sérð nýjan himinn og nýja jörð, þar sem hvorki harmur né vein né kvöl er framar til, því hið fyrra er farið. “ (Um ársins hring, bls 129-130)

Kæri söfnuður, þetta sagði Sigurbjörn.

Þessi barátta lífs og dauða og trúin á sigur lífsins eru óaðskiljanleg frá guðsþjónustu safnaðarins. Baráttan stendur á milli myrkurs og ljóss og milli vonarinnar um eilíft líf og algjörrar útþurrkunar. Hún endurspeglast í hinu heilaga rými kirkjunnar.

Við göngum inn frá vestri og horfum til austurs. Við göngum inn til fundar við Drottinn sem sjálfur kemur til móts við okkur í rísandi sól upprisunnar á páskamorgni. Þegar söfnuðurinn rís úr sætum undir þessari inngangu þá er það til þess að undirstrika að hann tekur þátt í þessu stefnumóti Drottins við kirkju sína. Aðalatriðið við inngönguna er Jesús kemur frá austri, með upprisusólinni, við hin dauðlegu komum frá vestri, við komum frá hinni hnígandi sól dauðans gangandi til móts við lífið.

Leið hvers dags er frá austri til vesturs. Það er leið fæðingarinnar til ævilokanna. Það er leið dauðans sem við göngum öll, hvort sem við erum að fylgja einhverjum til grafar eða ekki, og þessi leið dauðans mætir í guðsþjónustu kirkjunnar leið lífsins.

Frá austri er sérhver kristin guðsþjónusta böðuð og gegnsýrð ljósi sannfæringarinnar um hinn mikla sigur lífsins.

Kæri söfnuður.

Þetta varð dálítið löng predikun. Ef þú skyldir vera að hugsa: Hvað átti ég helst að muna úr þessu guðspjalli fyrir mig, þá er svarið einfalt:

Jesús Kristur kallar þig til lífsins og frelsar þig frá dauðanum.

Dýrð sé Guði, Föður og syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.